29.04.1960
Efri deild: 67. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3145 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

57. mál, orlof húsmæðra

Frsm. (Auður Auðuns):

Ég vil aðeins svara einu atriði úr ræðu hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB), þar sem hann talar um, að það hefði kannske verið eðlilegt að skylda kvenfélögin og samböndin til þess að leggja fram fé í orlofssjóð. Ég verð að segja, að þessu mundi ég verða alveg algerlega andvíg. Þetta eru samtök, sem öll hafa menningar- eða líknarstarfsemi á sinni stefnuskrá, leggja víða fram stórar fjárhæðir til framdráttar slíkum málum og eru venjulega í peningaþröng meira eða minna. Ég vil líka vekja athygli á því, að í 2. tölulið 3. gr. frv. er talað um, hvernig afla skuli fjár til orlofanna, að það skuli gert með gjöfum, áheitum og öðrum þeim hætti, sem orlofsnefnd og kvenfélögum þykir henta. Það væri þá alveg nýtt, ef kvenfélögin í landinu hættu eða leggðu niður það mikla starf, sem þau hafa haldið uppi á ýmsum sviðum, til þess að afla fjár til eins og annars gagnlegs málefnis. Og það er enginn vafi á því, að þetta mál verður ekki sett til hliðar hjá kvenfélögunum. Ég vil benda á, að það eru aðilar, sem þegar hafa haldið uppi áratugum saman orlofsdvöl fyrir mæður og börn og aflað alls fjár eða svo að segja langmests hluta af því fé, sem til þess hefur verið notað, aflað þess með fjársöfnun og merkjasölu og slíku, eins og tíðkast. En að það verði farið að leggja sérstakt gjald á þessi félög, kvenfélögin, því væri ég algerlega mótfallin. Það mætti, að ég tel, þá miklu frekar hugsa sér að hækka nefskattinn og þá um leið framlag ríkissjóðs, sem á móti kemur.