09.05.1960
Efri deild: 73. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3150 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

151. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á l. nr. 40 frá 16. maí 1955, um Fiskveiðasjóð Íslands. Efni frv. er, að eftir 1. málsl. 1. mgr. nefndra laga komi nýr málsl., svo hljóðandi: „Þó getur sjóðsstjórnin veitt skipasmíðastöðvum lán til byggingar nýrra fiskiskipa innanlands gegn ríkisábyrgð.“

Svo sem segir í grg. fyrir frv., var í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár samþ. heimild til handa ríkisstj. að ábyrgjast allt að 10 millj. kr. lán fyrir skipasmíðastöðvar til bátasmíði innanlands, gegn þeim tryggingum, er hún metur gildar, enda greiðist lánið að fullu af stofnláni, sem Fiskveiðasjóður Íslands veitir. Ríkisstj. setur að öðru leyti nánari skilyrði fyrir ábyrgð þessari.

Með þessari samþykkt hefur Alþ. sýnt vilja sinn í að styðja að eðlilegri þróun skipasmíðastöðvanna með það fyrir augum að auka skipasmíðar innanlands. Þá má benda á í þessu sambandi, að samþykkt þessi ætti jafnframt að fela í sér þá tryggingu, að atvinna þeirra manna, sem skipasmíðar stunda, verði bæði jafnari og öruggari en nú á sér stað, en á því er hin mesta nauðsyn. Eins og nú er háttað, er það víða svo, að eina verkefni skipasmíðastöðvanna er hið árlega viðhald bátaflotans, sem verður að framkvæma á sem skemmstum tíma á milli vertíða. Slíkar framkvæmdir eru mjög fólksfrekar, og getur því verið örðugleikum bundið, að fyrir hendi séu að jafnaði nægilega margir æfðir skipasmiðir til að sinna þessu mjög svo þýðingarmikla hlutverki. Það er því höfuðnauðsyn, að hver skipasmíðastöð hafi jafnan með höndum einhverja nýsmíði og tryggi með þeim hætti eðlilegt viðhald og aukningu skipaflotans í landinu og enn fremur samfellda vinnu þeirra manna, sem þessa atvinnugrein stunda.

Til þess að sú samþykkt, sem Alþ. hefur þegar gert til stuðnings þessu þarfa máli, megi veita þá fyrirgreiðslu, sem til var ætlazt, er nauðsynlegt, að gerð verði breyt. á l. um Fiskveiðasjóð Íslands, svo sem lagt er til með frv. þessu.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál að sinni, en geri það að till. minni, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.