13.05.1960
Neðri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3168 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

118. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér virtist koma fram nokkur misskilningur hjá hæstv. ráðh., þegar hann ræddi um styrkveitingar til íbúðarhúsabygginga. Hann sagði, að það væri eðlilegt, að það væri í höndum nýbýlastjórnar að ákveða styrkupphæðina, og gott væri, skildist mér, að hans áliti, að hún gæti hækkað styrkinn frá því, sem verið hefur, í 40 eða jafnvel 50 þús. kr. á býli. En í lagagr., sem um þetta fjallar, er heimilt að veita framlag allt að 25 þús. kr. á hvert býli, það er bundið í lögunum. Nýbýlastjórn getur ekki án lagabreytingar veitt meira en 25 þús. kr. á hvert býli. Þess vegna er nauðsynlegt að breyta þessari lagagrein, ef menn vilja hækka styrkinn, sem nú er mikil þörf fyrir. Ef hæstv. ráðh. vill ganga nokkru lengra í þessu og setja hámarksupphæðina t.d. 50 þús., skal ég gjarna vera með í því. Ég taldi hins vegar öruggara, að þetta yrði samþykkt, ef skrefið yrði ekki tekið stærra en þetta, og legg því til 40 þús. í minni tillögu.