13.05.1960
Neðri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3169 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

118. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég stend ásamt hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj) að nál. minni hl. landbn. á þskj. 408, og hv. 6. þm. Sunnl. hefur gert grein fyrir því sem frsm., og hef ég ekki miklu við það að bæta, enda liggur málið, að því er mér virðist, fullljóst fyrir.

Ástæðan til þess, að ég kveð mér hljóðs, er sú, að þegar landbn. hafði þetta mál til athugunar og gekk frá áliti sínu, lágu ekki fyrir brtt. hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) á þskj. 439, og komu þær því ekki til athugunar í n. Ég tel þess vegna ástæðu til þess, að við, sem höfum tekið afstöðu til málsins eins og það lá fyrir landbn., gerum grein fyrir áliti okkar á þessum brtt., sem síðan hafa komið fram.

Brtt. á þskj. 439 er í tveimur liðum, og fjallar fyrri liðurinn um hækkun á hámarksstyrkveitingu. Hér er í raun og veru um að ræða eðlilega leiðréttingu til samræmis við þær verðlagsbreytingar, sem orðið hafa. Og mér þótti ástæða til að ætla, að hv. þm. gætu orðið sammála um þessa breyt., þar til hæstv. landbrh. lét í ljós skoðun sína hér áðan, þar sem hann taldi, að þessar brtt. bæri að fella, og færði fyrir því þau nýstárlegu rök, að hann teldi, að það ætti ekkert hámark að vera í lögum um þetta efni og þess vegna vildi hann ekki fallast á að hækka það hámark, sem núna væri. Þetta er auðvitað algerlega órökrétt, og ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. geti fallizt á þessa breytingu.

Um síðari liðinn á þskj. 439 er það að segja, að hér er komið fyllilega til móts við þá höfuðathugasemd, sem við hv. 6. þm. Sunnl. höfðum að gera við frv., eins og það lá fyrir frá hv. flm., 2. þm. Norðurl. v. (JPálm), að það er veitt fá til þess, sem þarna er heimilað að gera, og það teljum við vera höfuðatriði málsins.

Þar sem ég geri ráð fyrir því, að brtt. á þskj. 439 komi til atkvæða á undan till., sem við mælum með á þskj. 350, vil ég taka það fram, að ég mun greiða atkv. með brtt. á þskj. 439 og mæli með þeim, en að þeim felldum mun ég, eins og greint er í nál., styðja brtt. á þskj. 350.

Að báðum þessum breytingum felldum tel ég örlög þessa frv. heldur litlu máli skipta, og ég get ekki fallizt á þá skoðun hv. 2. þm. Norðurl. v., að eitthvað sé sett í hættu, þó að þess sé freistað að útvega fé til þessa máls.