19.05.1960
Neðri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3181 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

118. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta frv. var nokkuð rætt um 38. gr. þeirra laga, sem hér er lagt til að breyta. Í þeirri lagagrein er ákvæði um það, að ef hætta er á, að jarðir fari í eyði vegna óviðunandi búrekstrarskilyrða, sé nýbýlastjórn ríkisins heimilt að veita nokkurt óafturkræft framlag til þess að auka ræktun á þessum jörðum, til þess að hún verði þar minnst 10 ha, og þannig sköpuð skilyrði til þess, að þær haldist áfram í byggð. Síðan segir, að til þessara framlaga skuli nota fé, sem ákveðið er í 41. gr. laganna að ríkissjóður skuli greiða í því skyni. Þar var ákveðið, þegar lögin voru sett, að ríkissjóður skyldi greiða 4 millj. kr. á árinu 1957 og síðan 5 millj. kr. á ári næstu 4 árin.

Nú liggur það fyrir samkvæmt umsögn landnámsstjóra, eins og áður hefur verið að vikið, að það sé nokkurt fé handbært hjá nýbýlastjórn um þessar mundir, sem á að nota til þessara framkvæmda samkv. 38. gr. laganna, og í frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að styrkur, sem ætlazt er til samkv. frv. að verði veittur til íbúðarhúsabygginga í sveitum, öðrum en þeim, sem stofna nýbýli, skuli greiddur af þessu fé. Hins vegar vantar það ákvæði í frv., að þær upphæðir, sem þannig verða teknar af þessu fé, skuli endurgreiddar, svo að hægt sé að verja þeim til þeirra nota, sem þær eiga að fara til, þ.e.a.s. til framkvæmda á minnstu jörðunum samkv. 38. gr. laganna. Þetta tel ég að þurfi nauðsynlega að setja inn í þetta frv., ákvæði um endurgreiðslu á fénu, sem aðeins yrði fengið að láni á þessu ári í byggingarstyrkina. Það er full þörf á því, að þetta fé, sem ákveðið er í 41. gr. laganna að gangi til þess að koma í veg fyrir, að jarðir fari í eyði, verði notað til þeirra hluta, og má búast við því, að það þurfi að auka þar við, eftir að þetta ár er liðið, sem er síðasta árið, sem ríkissjóður á að leggja fram 5 millj. til þessara framkvæmda eftir lögunum frá 1957.

Við 2. umr. bar ég fram brtt. við frvgr., sem fól það í sér, að þetta fé yrði endurgreitt. Hún var felld með aðeins eins atkv. mun, og því hef ég ásamt hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG) enn borið fram brtt. um þetta atriði á þskj. 471. Hún er nokkuð öðruvísi að sjálfsögðu en till., sem ég bar fram við 2. umr. Till. er um það, að síðari efnismálsliður frvgr. falli burt, en í staðinn komi bráðabirgðaákvæði, sem verði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Árið 1960 er heimilt að greiða styrk samkvæmt lögum þessum af því fé, sem fram er lagt samkv. 41. gr. laganna, enda skal hann þá endurgreiddur frá ríkissjóði árið 1961 eða síðar, þegar þess verður þörf til framkvæmda samkv. 38. gr.

Með því að samþykkja þetta er tryggt, að ekki komi til neinna fjárútláta í þessu sambandi eða vegna styrkveitinganna á þessu ári, 1960, þar sem búið er að afgreiða fjárlög fyrir þetta ár. Hins vegar yrði því þá slegið föstu, að fjárveiting til endurgreiðslu á þessu láni yrði tekin á fjárlög 1961 eða síðar, eftir því sem þörfin kallar að, þegar þörf er fyrir féð til þeirra nauðsynlegu framkvæmda, sem um ræðir í 38. gr. laganna.

Ég vildi nú vænta þess, að hv. flm. frv. gæti á þessa lausn fallizt og frv. yrði afgr. út úr d. með þessari breytingu.

Hv. flm. talaði um það við 2. umr., að það væri varhugavert að gera breyt. á frv., það gæti spillt fyrir framgangi þess. Ég sé enga ástæðu til að óttast slíkt. Það yrði einmitt meiri eining um frv. vissulega, ef það er þannig tryggt, að það fé, sem hér verður tekið að láni til þessara styrkveitinga, verði endurgreitt til þeirra framkvæmda, sem því er ætlað að kosta.