27.05.1960
Neðri deild: 89. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3225 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst leyfa mér að endurtaka það, sem hv. frsm. þessa máls af hálfu sjútvn. sagði við 1. umr. og stendur í grg. á þskj. 399, að þetta frv. um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti, sem sjútvn. flytur, er byggt á samkomulagi og er tilraun til lausnar á vandasömu deilumáli. Að því er mína afstöðu varðar, þá get ég ekki sagt, að ég hafi verið neinn sérstakur hvatamaður þess að leggja þetta mál fram, þó að ég standi að því ásamt öðrum sjútvn. mönnum. En ég viðurkenni, að Alþ. hlýtur að taka afstöðu til þessa máls, áður en langt líður, þ.e.a.s. afstöðu til þess, hvort leyfa skuli dragnótaveiði á því svæði, sem íslenzk fiskveiðilögsaga og landhelgi tekur til umhverfis landið, og þá með hverjum hætti. Og ég hygg, að þá afstöðu megi þá alveg eins taka á þessu þingi. Ég er líka þeirrar skoðunar, að betra sé að reyna að finna samkomulag en að meiri hluti, sem kann að vera til hér á Alþ., ef til vill að einhverju leyti fyrir tilviljun, neyti þar aflsmunar.

Hv. frsm. sjútvn. rakti við 1. umr. þessa máls í greinagóðri ræðu baráttusögu þessa dragnótamáls hér á Alþingi. Það stríð hefur nú staðið í nálega 40 ár, a.m.k. öðru hverju, og því er ekki lokið. Það má segja, að þetta sé þáttur í hinu eilífa stríði, sem háð er eða hefur verið háð, ekki aðeins hér á landi, heldur víða um heim, þ.e.a.s. stríðinu á milli þeirra annars vegar, sem vilja láta stunda rányrkju í von um mikinn stundarhagnað, og hins vegar þeirra, sem vilja vernda og efla líf og gróður á sjó og landi vegna framtíðarinnar, þó að minna sé upp úr því að hafa í bili. Í slíkum átökum er hætt við, að upp komi öfgakenndar afstöður og dálítið öfgakenndur málflutningur til beggja handa, og það er ekki hægt að neita því, að á því hafi nokkuð borið stundum í þessu máli.

Það mun hafa verið árið 1937, sem dragnótaveiði var heimiluð með lögum í sex mánuði, að ég ætla. En árið 1950 var dragnótaveiði bönnuð fyrir Norðurlandi og 2 árum síðar einnig annars staðar við landið með reglugerð um stækkun landhelginnar, og þegar fiskveiðilandhelgin var færð út 1958, náði bannið við dragnótaveiði einnig til hins nýju svæðis, að því leyti sem þar eru bannaðar botnvörpuveiðar. Áður en þessi bönn gengu í gildi, var greinilega farið að ganga á flatfiskstofninn, og það er beinlínis viðurkennt af fiskideild atvinnudeildarinnar í umsögn hennar um þetta mál, sem prentuð var með frv. á þskj. 208 á síðasta þingi. Hitt liggur auðvitað ekki fyrir í neinum skýrslum, hvaða áhrif dragnótaveiðin kann að hafa haft að öðru leyti en því að minnka flatfiskstofninn. Nú er öll 4 mílna landhelgin búin að vera friðuð fyrir dragnót í 8 ár, og það fer auðvitað ekki á milli mála, að flatfiskstofninn hafi aukizt verulega á þessum tíma. Hér er því mikil aflavon og miklir möguleikar, a.m.k. um stund, fyrir báta, sem eru litið eða ekki í notkun tíma úr árinu, einkum á Suðurlandi, og ýmsir eigendur slíkra báta gera sér vonir um að geta bætt hag sinn með dragnótaveiði og aukið atvinnu við vinnslu flatfisksins. Þetta er auðvitað skiljanlegt sjónarmið. Það er skiljanlegt, að ýmsum blæði í augum að láta mikil verðmæti vera ónotuð í sjónum. Þeir styðja líka málstað sinn með áliti fiskifræðinga, og það verður að viðurkennast eins og það er, að fiskifræðingarnir hafa verið því hlynntir, að dragnótaveiði væri leyfð. En ég verð nú að segja það, að mig hefur furðað nokkuð á álitsgerðum og till. fiskifræðinganna. Þeir virðast sem sé ekki líta á grunnmiðin í kringum landið öðruvísi en sem eina órjúfandi heild í sambandi við þetta mál, sem annaðhvort verði að vera friðuð eða ófriðuð, a.m.k. í byrjun. Og þannig hafa þau frv. verið hugsuð, sem legið hafa fyrir Alþ., bæði í fyrra og nú, flutt af nokkrum hv. þm. Svo hefur verið ætlazt til, að fiskifræðingarnir væru á verði, þegar búið væri að opna alls staðar, og þeir sæju þá um, að lokað væri einstökum svæðum, eftir að dragnótaveiðin væri hafin. En ég held, að þeir séu margir, sem hafa ekki treyst slíku eftirliti og gagnsemi þess. Og frv. af þessu tagi gat ég ekki fylgt í fyrra, enda stóð ég þá að rökst. dagskrá, sem samþykkt var, og hefði ekki heldur getað fylgt því nú á þessu þingi.

En í því frv., sem hér liggur fyrir frá sjútvn. á þskj. 399, er farin önnur leið. Þar er sem sé aðeins gert ráð fyrir heimildarlögum, og þar að auki er gert ráð fyrir, sem er nýtt, að strandmiðunum verði skipt í svæði, þannig að veiði verði heimil eða óheimil á einstökum svæðum, en ekki á miðunum öllum, og að ákveðið verði fyrir hvert svæði út af fyrir sig eftir ýtarlega athugun og yfirleitt í samræmi við óskir hlutaðeigandi strandhéraða, hvort hvert svæði fyrir sig verði opnað eða ekki og aðeins fyrir eitt ár í senn. Samkv. 1. gr. frv. er kveðið á um það, að sú ákvörðun, sem þar er gert ráð fyrir að geti orðið um opnun einstaks svæðis, gildi aðeins fyrir eitt ár í senn, þannig að eftir að árið er liðið þarf að taka málið upp á ný á sama hátt. Það á sem sé ekki að opna í einu alls staðar og að öllum fornspurðum og óvörum, heldur verða þeir að sækja á, sem vilja opna. Það er t.d. hægt að hugsa sér, að fyrst yrðu aðeins opnuð eitt eða tvö svæði, kannske aðeins eitt svæði og þá sennilega við Suðurland, þ.e.a.s. fyrir sunnan landið, sem mér sýnist ýmsar ástæður mæla með að væri eðlilegust byrjun, síðan ef til vill fleiri svæði og sums staðar ef til vill alls ekki, þannig að sums staðar við landið væru veiðarnar heimilar, en annars staðar ekki, og við þá ákvörðun væri tekið fullt tillit til vilja manna í hlutaðeigandi landshlutum. Á stærri svæðum, sem yfirleitt væru opin, væri svo hægt að halda minni svæðishluta lokuðum eða loka honum síðar. Hér er tekið fullt tillit til þess, að aðstaðan er ólík, mjög álík. Sums staðar eru til svæði, þar sem hættan af dragnót er tiltölulega mjög lítil, miðað við önnur svæði. Á öðrum svæðum eru eða kunna að vera dýrmætar uppeldisstöðvar, sem eiga að fá að vera alveg í friði fyrir svona veiðarfærum. Og sums staðar þarf að vernda grunnmið vegna smábáta með línu og færi eða kolanót í fjörðum. Sums staðar eru dragnótasvæðin svo lítil, að það er fásinna og horfir til eyðileggingar að hleypa þangað fjölda dragnótabáta hvaðanæva að, og eru dæmin ljós um það. Þá er það sýnu nær, að leyfi séu takmörkuð við heimabáta, enda er það hægt samkv. frv., því að ráðh. hefur heimild til þess að takmarka fjölda veiðileyfa, og þegar hann takmarkar fjölda veiðileyfa, þá er auðvitað hægt að gera það á þann hátt að veita leyfi eingöngu þeim bátum, sem næstir eru, eða úr þeim byggðarlögum, sem næst eru. Og yfirleitt verður að gæta hófs við veitingu þessara leyfa.

Viðvíkjandi bátastærðinni hefði ég vel getað hugsað mér, að hámarksbátastærðin hefði verið 25 tonn, en í frv. er það meginregla að miða við 35 tonn. Og auðvitað ber að leggja á það fulla áherzlu í þessu sambandi, að það er auðvitað engin búmennska í því að moka upp flatfiskinum, nema því aðeins að tryggt sé að gera úr honum góða vöru og selja þá vöru. Ég veit, að sums staðar, þar sem hægt væri að veiða flatfisk í dragnót, eru ekki skilyrði til þess, eins og sakir standa, í frystihúsunum að taka á móti flatfiski til flökunar. Það er ekki vinnukraftur til þess á þeim tíma, sem veitt yrði. Annað mál kynni að vera, ef hægt væri að fá sérstakar flökunarvélar til þess að flaka kola. Mér er tjáð, að erlendis sé nú unnið að smíði slíkra véla, en ég hygg, að það sé varla svo langt komið, að hægt sé að fá flökunarvélar fyrir kola, sem telja megi sæmilega nothæfar. Það kemur auðvitað til mála að flytja kolann út ísaðan, en þá er eftir að reikna það dæmi, hvort hægt er að láta þá starfsemi bera sig, þannig að fiskimennirnir fái sæmilegt verð með því móti. Nú er sagt, að töluverður markaður muni vera fyrir kolaflök bæði í Englandi eða Evrópu og sérstaklega í Ameríku, en þá er náttúrlega þess að geta, sem ég nefndi áðan, að á sumum stöðum eru beinlínis vandkvæði á því að leysa af hendi þá miklu vinnu, sem í því er fólgin að flaka kolann.

Ég ætla svo ekki að rekja nánar þær varúðarráðstafanir af ýmsu tagi, sem gert er ráð fyrir í frv. Það má vel vera, að þær varúðarráðstafanir þyrftu að vera fleiri og að sums staðar þyrfti orðalag að vera ákveðnara. Ég geri ráð fyrir, að n, eigi e.t.v. eftir að fjalla um atriði af því tagi, a.m.k. ef brtt. koma fram frá einstökum þm.

Eins og ég sagði og áður hef tekið fram, er þetta samkomulagsmál, og varðandi afstöðu einstakra þm., sem að því standa, verður að hafa það í huga, að unnið hefur verið að þessu máli sem slíku og það er flutt sem samkomulagsmál. Ég vil segja það fyrir mitt leyti, að ég tel, að í n. hafi allir haft góðan vilja á því að leysa þetta mál með sanngirni, þó að skoðanir væru kannske dálítið skiptar, og að þar hafi ekki verið flanað að neinu. Það er líka áreiðanlega betra að láta einhverja veiðimöguleika ónotaða á þessu sviði en vinna tjón á fiskimiðunum, sem gæti orðið afdrifaríkt fyrir framtíðina í einstökum landshlutum og í heild.

Á það má minna í þessu sambandi, að hv. form. sjútvn. hefur ásamt fleiri þm. flutt í Sþ. till. um athugun á möguleikum til að takmarka netaveiði á vetrarvertíð. Þetta sýnir, að sem betur fer eru ýmsir á verði gegn þeirri hættu, sem stafað gæti af forsjárlítilli rányrkju, og það væri líka hart, ef þjóð, sem á í baráttu til að vernda strandmið sín fyrir ofveiði annarra, hefði ekki opin augu fyrir því, að hún verður sjálf að kunna sér hóf og stilla sig um að granda hverju kvikindi, sem í sjónum syndir.

Það hefur sem sagt verið reynt að finna samkomulagslausn á þessu máli, og þeirri samkomulagslausn hef ég talið mig geta fylgt, og hef ég fyrr í þessari ræðu gert grein fyrir ástæðum til þess. Ég vil vona, að sjútvn. hafi með þessu frv. tekizt að finna viðunandi leið eða a.m.k. leggja grundvöll, sem geti reynzt nothæfur sem slíkur. Frv. er komið fram að vel athuguðu máli, ég held af góðum vilja til að reyna að leysa vandasamt mál. Og ég held, að við ættum ekki að hafa það fyrir neitt sport hér á Alþ. að vera að deila um þetta mál að nauðsynjalausu og draga inn í þær deilur óskyld atriði. Þetta er vandamál, sem sýnilega þarf að leysa, Í svona máli verða menn að sætta sig við það að geta hliðrað til og reyna að láta reynsluna tala, án þess að tjón hljótist af til muna, og það held ég að sé reynt í þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Með því, sem ég hef nú sagt, hef ég þá gert grein fyrir því, hvers vegna ég er ásamt öðrum sjútvn.-mönnum meðflm. að þessu frv. og vil leggja því lið, þó að ég að sjálfsögðu, eins og við sjálfsagt allir í n., séum reiðubúnir til þess að hlusta á ráð hv. þm, um breyt. á frv. og taka þær til athugunar.