02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3282 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. minni hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja umr. mjög. Það hefur fátt nýtt komið fram í þeim löngu ræðum, sem hv. þm., sem mæla á móti því, að þessi takmarkaða dragnótaveiði verði leyfð, hafa haldið. En það er eitt, sem er áberandi hjá þeim öllum. Hv. þm. tala um það, þegar aflabresturinn varð hér fyrir ofveiði, sem við vitum öll að var þá, — þeir tala um það eins og það hafi ekki verið veitt hér með neinu öðru veiðarfæri en dragnót, þó að við vitum öll, að það var líka veitt með botnvörpu, ekki eins og nú aðeins inn að 12 mílum, heldur inn að 3 mílum. Og það var meira en það, þar að auki var veitt inni á víkum og flóum, því að þá gilti ekki sú regla, þegar landhelgin var aðeins 3 mílur, að draga mætti landhelgislínuna eða fiskveiðilandhelgina þvert fyrir utan firði og flóa. En þeir berja höfðinu við steininn og segja alltaf: Það var dragnótinni að kenna, hvernig fór með aflamagnið. — Og það var ekki einu sinni svo, að það væri einungis á grunnmiðum, sem aflinn þvarr, hann þvarr líka á djúpmiðum hér við landið. Og við reyndum það í báðum heimsstyrjöldunum, sem hér urðu, að þegar ánauð útlendinga á þau mið minnkaði, var afli fljótur að vaxa á okkar eigin skipum.

Þá talaði hv. þm. mikið um það, að veiðin hér í Faxaflóa hafi verið orðin mjög lítil, á meðan dragnótin var leyfð. En hvernig var veiðin í Faxaflóa í vetur? Ég hef ekki heyrt betur en fiskimenn hér við Faxaflóa, á Akranesi og víðar, hafi kvartað um, að það hafi sjaldan eða aldrei verið eins langróið og í vetur. Ekki hefur þó dragnótin verið þar til að spilla í vetur. Ég hef að vísu heyrt þá röksemd, — ég veit ekki um neinar sönnur á því og skal ekki selja það dýrara en ég keypti, en ég skal taka það fram, að það er ekki frá þeim vísindamönnum, sem um þetta hafa mest fjallað, sem hún er komin, — en ég hef heyrt suma sjómenn segja: Það er orðið svo mikið um flatfisk, að hann afétur hinn fiskinn. — Það eru ekkert lakari rök a.m.k. en þeir hv. þm., sem hér hafa verið að tala á undan, hafa verið með, þó að þess sé getið, en ég skal taka það fram, að ég vil ekki dæma um það sjálfur.

Við höfum margsinnis heyrt röksemdir svipaðar og þær, sem hv. 10. þm. Reykv. (EggÞ) var með, bæði um dragnóta- og rækjuveiðar. Því var haldið fram, að ungviðið væri drepið og ördeyða yrði í Djúpinu. En það hefur margsannazt, að þetta stenzt ekki. Það er búið að halda áfram rækjuveiði í Ísafjarðardjúpi um áratugi, og henni er enn haldið áfram, og meira að segja hefur aldrei verið meiri rækjuveiði eða fleiri bátar að rækjuveiðum þar en núna í vetur. En jafnframt því, — ég er ekki að segja af því, — hefur aldrei verið meiri þorskveiði í Djúpinu en núna á þessum vetri, sem er nýliðinn.

Hv. þm. sagði líka, að það tæki 10–20 ár fyrir fiskistofnana að ná sér aftur, ef nærri þeim væri gengið. Það voru allt önnur rök, sem Árni Friðriksson, einn okkar þekktasti fiskifræðingur, hélt fram við Breta, þegar þeir héldu áfram ofbeldisaðgerðum sínum hér, þegar Faxaflóa var lokað. Hann hélt því fram og sýndi það með tölum, sem komu frá hans rannsóknum, að það er mjög fljótur að vaxa fiskistofninn í Flóanum. Og hann aflaði sér einnig upplýsinga um það, ef ég man rétt, að það var síður en svo, að Bretar þyrftu að kvarta, því að fiskistofninn var svo fljótur að vaxa, að meira að segja þeirra afli fyrir utan línu var meiri en áður hafði verið.

Það var, held ég, hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ), sem hafði miklar áhyggjur af þeim áhrifum, sem þetta skaðræðisveiðarfæri, dragnótin, hefði á botngróðurinn. Nú er ég ekki vel kunnugur því, á hverju sumir þessir nytjafiskar okkar lifa. En þó að kunni að vaxa einhver gróður á botninum, þá held ég ekki, að þeir bíti hann. En annað er mér kunnugt um. Bandarískir vísindamenn hafa nýlega birt um það tölur, byggðar á rannsóknum, að gróðurinn í sjónum nálægt botninum, þ.e. hinar smáu lífverur, sem þar eru, svif og aðrar lífverur, stóraukast, ef hróflað er við botninum. Og þetta vex svo mikið, að þeir eru í alvöru farnir að velta því fyrir sér, hvernig þeir eigi að fara að því að beina Golfstraumnum þannig, að hann þyrli botninum meira upp en hann gerir nú, til þess að auka gróðurmagn Golfstraumsins. Þeir halda því fram, að þetta sé eða verði á svipaðan hátt og gróðurmagn akursins vex, þegar jarðveginum er bylt við.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. Ég held það hafi ekki verið önnur atriði, sem hafi komið fram í ræðum hv. þm., sem töluðu hér á undan mér, sem ástæða er til að svara, og skal ekki hafa þetta lengra.