30.05.1960
Sameinað þing: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3308 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

Almennar stjórnmálaumræður

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Gott kvöld, góðir hlustendur. Það bar upp á hinn 20. nóv. s.l. haust, sama daginn og nýkjörið þing kom saman, að ríkisstj., sem við nú búum við, tilkynnti valdatöku sína. Þegar á þeim degi sté hinn nýbakaði stjórnarhúsbóndi, Ólafur Thors, hér í ræðustól, setti upp eins landsföðurlegan svip og hann gat, og á því sviði getur hann hreint ekki svo lítið, og tilkynnti þingheimi og alþjóð, að nú væru nýir stjórnarherrar teknir til sinna ráða, og mátti vel á honum skilja, að þar færu engir aukvisar, heldur þeir, sem hefðu allt í senn, vizku, vald og manndóm til þess að hefja þjóðina á ný á hærra og heilbrigðara stig en hún hefði áður komizt í snertingu við.

Eftir að þing og þjóð hafði þannig fengið að heyra mat ráðh. á stjórninni og þeim stórbrotnu og göfugu efnisþáttum Sjálfstfl. og Alþfl., sem hún væri samanslungin af, kom svo lýsingin á þjóðinni, sem undir stjórnina skyldi lúta, en þar kvað raunar nokkuð við annan tón. Þjóðin hafði, að ráðherrans áliti, lifað lengi um efni fram, látið halla á sig í skiptum við aðrar þjóðir, safnað að sér skuldasúpu erlendis, en látið dýrtíðina vaxa heima fyrir. Ráðh. og síðan aðrir talsmenn stj, töldu framferði þjóðarinnar allt öðruvísi en eðlilegt gæti talizt, lýstu henni raunar sem fárlega höldnum sjúklingi, sem ætti sér þá eina afturbatavon, að nú hefði hún þó hlotið stjórn, sem treysta mætti til þess að ráðast að kjarna vandamálanna, og í því og því einu taldi ráðh. svo fólgna möguleikana til þess, eins og hann orðrétt sagði, „að efnahagslíf þjóðarinnar kæmist á traustan grundvöll, þannig að skilyrði sköpuðust fyrir sem örastri framleiðsluaukningu og að lífskjör þjóðarinnar gætu í framtíðinni enn farið batnandi.“ En svo sem til frekari áherzlu tók húsbóndinn það sérstaklega fram, að það, sem hann þarna segði, væri raunar aðeins brot af því, sem koma mundi í ljós, þegar sú rannsókn á ástandi þjóðfélagsins, sem yfir stæði, væri öll, og þar með mátti lýðum ljóst vera, að raunverulega væri þjóðin miklu verri og stjórnin þá jafnframt miklu hugrakkari en hann í lítillæti sínu hafði á orði. Það varð svo sem ekki misskilið, að mikilleiki dagsins var sá, að hin aumlegasta þjóð hafði eignazt dáðum prýdda stjórn.

Og svo leið af það haustið allt til áramóta, og það heyrðist lítið annað til stjórnarinnar en þessi árgali og mismunandi skær endurómur af honum. Þingið var sent á burt, og stjórnin sagðist vera að rannsaka og hugsa og reikna og semja viðreisnartillögur. Þá var mikið annríki, svo mikið, að margir fyrirmenn urðu að hafa skemmri setur en vert hefði verið í hinu hátíðlega kveðjuhófi, er stjórnin hélt brezka sendiherranum, er vék sæti fyrir eftirmanni sínum einmitt um þessar mundir, og máske hafa afsakanir þeirra fyrir kulda Íslendinga í garð Breta innan íslenzkrar landhelgi líka orðið stuttaralegri en ella fyrir þessar annir.

En jafnvel hin ágætustu stjórnarvöld eiga stundum skilningstregðu að mæta hjá einhverjum, og svo fór líka hér. Sökum þess, að staðreyndir og skýrslur sýndu, að framleiðsla landsins fór hraðvaxandi og að útflutningur og aðrar gjaldeyristekjur ásamt birgðaaukningu í seldri vöru í landinu námu á tveimur síðustu árum jafnmikilli upphæð og gjaldeyriseyðsla þeirra ára, þá leyfðum við Alþýðubandalagsmenn okkur að halda því fram, að tímabili hallans á gjaldeyrisviðskiptunum við útlönd væri lokið. En þetta töldu stjórnarinnar menn, jafnt sérfræðingar sem aðrir, að engu hafandi. Það féll nú ekki alveg að efninu í það virðulega helgirit stjórnarinnar, sem um þessar mundir var í smíðum og síðar var gefið út á ríkisins reikning undir nafninu Viðreisn.

Til þess að komast fram hjá því að viðurkenna þessa staðreynd og þá um leið það, að með stuðningi vinstri stj. við útveginn og einkum þó með landhelgisstækkuninni hafði þegar tekizt að ná raunverulegu jafnvægi í viðskiptunum við útlönd, settu þeir góðu herrar í bók sina alrangar tölur um útflutningsverðmæti liðinna ára. En einhver höfundanna hefur verið að burðast með tiltölulega virka samvizku af slíkum að vera og hefur ekki alls kostar kunnað við að láta hinar röngu tölur standa með öllu naktar og lætur því með þeim fylgja aths. „áætlun“, rétt eins og hér væri fjallað um óorðna hluti.

Enginn mun hafa orðið til þess að neita því, að skuldir landsmanna hafi nokkuð aukizt erlendis á síðustu árum. En hinu hafa raunar margir haldið fram, að ekki væri slíkt nein dauðasynd, þegar í landinu mynduðust móti þeim skuldum mannvirki og framleiðslutæki, svo sem sementsverksmiðja, raforkuver og ný vönduð skip, sem gerðu okkur hæfari til að greiða ekki einasta skuldir, heldur og samtíða þarfir þjóðarinnar. Ekki bitu þær röksemdir á stjórnina. Hún ætlaði ekki að láta það henda sig að fara að viðurkenna, að eitthvað af því, sem gert var á vinstristjórnartímabilinu, væri nýtilegt, enda stóðu þá enn á fjölmörgum staurum og húsveggjum höfuðborgarinnar skærlitir leiðbeiningamiðar Sjálfstæðisflokksins til kjósenda frá haustkosningunum, merktir ránfuglsmerki flokksins og með áletruninni: Aldrei aftur vinstri stjórn.

Sjúkdómsgreining stjórnarinnar á þjóðfélaginu var í flestum atriðum vefengd og raunar sýnt fram á, að í ýmsum efnum var hún alröng. En hetjur og ofurmenni láta sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Ráðstafanir skyldu koma, sem byndu endi á skuldasöfnun erlendis, settu niður verðbólgu, örvuðu framleiðsluna og bættu kjör fólksins í landinu. Þessu höfðu þeir heitíð þjóðinni í kosningunum, og enn töluðu þeir um þetta, þegar stjórnin ýtti úr vör. Hér má til glöggvunar skjóta því inn í, að stjórnin hefur nú setið í eitt missiri, og hún verður tæplega sökuð um að hafa vanrækt nokkurt eitt þessara fyrirheita. Hún hefur þar á móti gengið þvert á þau öll, og verður nú vart greint, hvar mestur árangur hefur náðst: í söfnun erlendra eyðsluskulda, dýrtíðarspennu, kyrkingi framleiðslunnar eða almennri kjararýrnun.

En svo að aftur sé vikið að tilburðum stjórnarinnar, meðan hún var að ná þessum árangri, er þess næst að minnast, að um áramótin heyrðist svo aftur hljóð úr horni. Þar var enn forsrh. á ferð. Nú var hann miklu daufari í dálkinn, að því er varðaði kjarabætur fólksins í landinu, og lét raunar í það skina, að hyggilegast mundi í þeim efnum að fara hina leiðina, þ.e.a.s. aftur á bak, það væri tryggara upp á framtíðina. Ekki virtist hann þó telja lífskjörin stórt atriði. Hitt væri fyrir öllu, að hafa rétt skráð gengi, og það skyldu menn fá.

Ekki mun brúnin hafa hækkað á öllum hans flokksmönnum, er á ræðuna hlýddu, og grunur leikur á, að um þær mundir hafi sumir, er áður límdu upp leiðbeiningar Sjálfstfl. til kjósenda, notfært sér skammdegið til þess að fjarlægja þær aftur. A.m.k. tóku þær mjög að strjálast á almannafæri um þetta leyti, enda munu ýmsir af þeim, sem veittu stjórnarflokkunum að málum í kosningunum, þegar um áramótin hafa getað hugsað sér ýmislegt voðalegra en vinstri stjórn.

Og enn liðu fram stundir, og þegar mánuður var af þessu ári, mátti lesa af þingskjölum, í hverju ágæti stjórnarinnar lá. Stjórnarfrv., sem þá voru hvert af öðru lögð á borð þm., greindu að vísu á nokkurri tæpitungu frá því, sem nú er sem óðast að verða blákaldur veruleiki, þótt mörgum grandalausum stjórnarsinna þættu fyrstu frásagnir stjórnarandstæðinga um þetta ærið fjarstæðukenndar og ótrúlegar.

Ekki verður því hér við komið að rekja í smáatriðum hvað eina, sem stjórnin lét lögtaka á hinum næstu mánuðum eftir þetta. En af því að dýrtíðarvöxtur undanfarinna ára var eitt af því, sem lækna átti með nýjum aðgerðum, er máske vert að skoða áhrif aðalþátta viðreisnarinnar á verðbólguna í landinu. Mér telst vissulega til, að þar sé stj. nokkru mikilvirkari en hv. síðasti ræðumaður taldi. En ef lítið er á aðalþættina, kemur þetta í ljós: Fyrst ber að nefna lögbundna gengisfellingu á íslenzku krónunni, þannig að miðað við skráð gengi þarf núna 233 eða 234 kr. á móti hverjum 100 áður. Þess ber þó að geta, að jafnhliða þessari gengisfellingu voru afnumin 30% og 55% yfirfærslugjöldin, sem áður giltu, hið fyrra um gjaldeyriskaup til brýnustu nauðsynja, en hið síðara um flest annað.

Hvaða áhrif hefur nú gengisbreytingin í heild á verðlagið í landinu? má því spyrja. Setur hún niður dýrtíð? Það verður máske ráðið af þeim staðreyndum, að árlegur innflutningur var um 1300 millj. kr. Við verð það bættust svo um 700 millj. í yfirfærslugjöldum. Nú kostar sama vörumagn ekki 2 milljarða eins og áður, heldur 3 milljarða eða sem allra næst því. Ætla má, að nærfalt fjórðungur af verðmæti þessa vörumagns sé rekstrarvörur og skip, og snertir verðhækkunin, að því er þann hluta varðar, hið almenna verðlag ekki eins og neyzlu- og fjárfestingarvörurnar, heldur með öðrum og óbeinni hætti, svo að til þess að forðast að gera dæmið dekkra en einsýnt er að staðreyndir heimta, þá má ætla, að af 1000 millj. kr. hækkun vegna gengisfellingarinnar komi svo sem 750 millj. beint út í hið almenna verðlag.

Næst á eftir gengisfellingunni kemur svo ákvörðunin um vaxtahækkun, en hún nemur yfirleitt 4% á bankaviðskipti og litlu lægri hundraðstölu á sum önnur lán. Ekki leggst ofurþungi vaxtabyrðanna á öll lán samstundis, það skal játað. En fljótlega hlýtur hækkunin að flæða um allt lánakerfið. Nú nema útlán bankanna um 4 milljörðum kr. Um aðra lánastarfsemi er minna vitað, en varlega mun áætlað, að útlán einstaklinga, fjárfestingarsjóða, tryggingarfélaga og annarra nemi hálfri þeirri upphæð. 4% ofan á bankaviðskiptin nema 160 millj. kr. á ári, og ef öðrum aðilum er ætlað 3% meðaltalsvaxtahækkun, bætast þar við 60 millj., og nemur þá árleg vaxtahækkun, sem auðvitað er hluti af verðlaginu, alls 220 millj. kr.

Þrátt fyrir verulega ívilnun á tekjuskatti, sem hátekjumenn nú hljóta samkvæmt nýjum skattalögum, hækka tekjur ríkissjóðs samkvæmt viðreisnarfjárlögum þessa árs. Munar þar mest um hinn nýja söluskatt. Tekjur fjárl. eru svo að segja allar teknar með einhvers konar álögum á vöruverð, og kemur því öll fjárlagaaukningin fram í hækkuðu verðlagi.

Á árinu 1959 námu tekjuáætlanir fjárl. rúmlega 1030 millj. kr. Í ár hefur þessi upphæð hlaupið upp í rúmlega 1500 millj. Þar kemur því fram dýrtíðaraukning upp á því sem næst 470 millj. En hins er vert að geta, að af þeirri aukningu renna um 150 millj. kr. til aukinna bóta úr almannatryggingum og um 40 millj. til aukinna niðurgreiðslna á vöruverði. Hrein og óbætt hækkun verðlags vegna hækkunar á fjárl. nemur því nálægt 280 millj. kr., en það er jafnhá upphæð og áætlað er að hinn nýi söluskattur færi ríkissjóði, áður en frá er talinn hlutur bæjanna.

Ef saman eru taldar verðhækkanir þessara þriggja liða og þó það eitt tilfært, sem að öllum bótum frátöldum hlýtur að þyngja á verðlaginu, verður þetta ljóst: Gengisfellingin hækkar almennt verðlag um 750 millj., vaxtahækkunin þyngir á útgjöldunum um 220 millj., og fjárlagaliðirnir auka dýrtíðina um 280 millj., en þetta nemur samtals 1250 millj. kr. Vera má, að eitthvað af þessu verði sparað sem bein útgjöld, með því að neyzlan dragist saman, en samanburður á því, sem var, og því, sem verður, fæst ekki nema halda þessum tölum í fjárupphæðum. Ef þessari aukningu, 1250 millj. kr., er skipt jafnt á rösklega 4000 fjölskyldur í landinu, fellur um 30 þús. kr. árlegur greiðsluauki á hvert heimili, miðað við óbreytta neyzlu. Þegar hækkunin er að fullu komin á vöruverðið og vextina, má því ætla, að hin almenna verðbreyting nemi að meðaltali 25–30% til hækkunar.

Ólafur Thors gat þess við myndun stjórnarinnar, að á það yrði lögð megináherzla, að þannig yrði haldið á efnahagsmálunum, að ekki leiddi til verðbólgu, eins og fyrr er á drepið. Og síðan voru lögfestar ráðstafanir, eins og hér er lýst. Einhvern veginn hélt maður þó, að hækkað vöruverð væri ekki alveg óskylt verðbólgunni, og nú er sem sagt í ljós komið, að á máli stjórnvitringanna á orðið verðbólga við um kaup og ekkert annað. A.m.k. hefur ekki þótt ástæða til í átökum stj. við verðbólguna að koma í veg fyrir hækkanir á neinu nema kaupi. En það er ekki heldur ómerkasti þátturinn í afrekaskrá stjórnarinnar, að ofan á lögþvingaða kauplækkun í fyrra rauf stjórnin nú með lagaboði alla kjarasamninga stéttarfélaga í landinu og bannaði allar verðlagsuppbætur á laun, hverju nafni sem nefnast, en það jafngildir auðvitað banni við öllum hækkunum á kaupi nema þeim einum, sem nást kunna með nýjum kaupsamningum. En þar með tekur stjórnin líka á sig ábyrgðina á þeim truflunum, sem það kann að valda í atvinnulífinu að koma á nýjum kaupsamningum, samhæfðum hinum nýju viðhorfum, sem skapazt hafa við þær verðbreytingar, sem orðnar eru.

En það má öllum ljóst vera, að þau batnandi lífskjör í framtíðinni, sem ráðh. talaði um í haust, verða ekki til fyrir stjórnaraðgerðir þessarar stjórnar, heldur verður verkalýðshreyfingin að hafa þar hönd í bagga um framkvæmdir. En nú búum við þó við rétt gengi. Það er allur munur. Hugtakið „rétt gengi“ er að vísu dálítið umdeilanlegt. En stjórnin hefur skilgreint það, hvað hún á við með því orðalagi. Það er gengi bátsins — og af enn meiri nákvæmni sagt, það er sú skráning krónunnar, sem tryggir venjulegum vélbát hallalausa afkomu án allra uppbóta í meðalárferði. Það voru næsta fáir aðrir en ráðherrar og máske fáeinir hagfræðingar, sem héldu því fram, að almenn lífskjarabót mundi haldast í hendur við þetta rétta gengi. En hinir voru margir, sem sögðu, að þó að hið gagnstæða kynni að verða reyndin, væri það ekki nema réttmæt fórn til að tryggja afkomu atvinnuveganna. Víkjum því að þeirri reynslu af hinu rétta gengi.

Út frá forsendunni um gengi bátsins var svo allt hitt reiknað. Forustumenn útgerðarinnar, þeir sem trú hafa á Sjálfstfl., töldu nú allt á góðri leið og voru sumir hverjir dálítið stoltir af því að vera þannig orðnir sá punktur efnahagslífsins, sem allt átti að snúast um og miðast við. Stjórn L.Í.Ú. hefur vafalaust hugsað þannig, því að nú brá hún öllum sínum fyrri venjum um ráðstafanir til að sjá hag sinna manna borgið. Á undanförnum árum hefur hún sem sagt harðlega bannað félögum innan sinna vébanda að hefja nokkrar vertíðarveiðar, fyrr en séð væri, hvert yrði hið gildandi fiskverð vetrarins og hvers stuðnings útgerðin mætti að öðru leyti vænta af hálfu hins opinbera. Og til þess að enginn skyldi þá gleyma kyrrsetuskyldunni, heldur hafa ótta af og bera lotningu fyrir L.Í.Ú.-stjórninni, hafa einstakir útvegsmenn orðið að árita og afhenda L. Í. Ú.-stjórninni víxla í tugþúsunda upphæðum fyrir hvern bát til tryggingar því, að ekki yrði haldið til veiða, fyrr en stjórnarvöld landsins hefðu tekið að sér að tryggja nógsamlega rekstrargrundvöll bátaflotans. En nú var að völdum setzt svo göfug ríkisstj. að dómi L.Í.Ú.-stjórnarinnar, að slíkt var ekki nefnt á nafn. Forsrh. íhaldsins hafði lofað réttu gengi, og nú kom útvegsmálaráðherra kratanna, sem áður hafði sýnt hæfni sína í því embætti með því að svíkja af sjómönnum 10 aura á hvert fiskkg í skiptaverðinu þvert á nýgerðan samning, sem hann sem slíkur var aðili að, steig í ræðustólinn á L.Í.Ú.-fundi og lofaði útgerðinni ekki lakari aðstöðu í ár en hún hafði haft í fyrra. Þetta skraf ráðh. var svo haft fyrir rekstrargrundvöll útgerðarinnar þetta árið. Nú í vertíðarlokin hélt L.Í.Ú. svo almennan fulltrúafund til að ræða einmitt þessi mál. Enginn reyndist svo mikill stjórnarsinni í því samkvæmi, að hann viðurkenndi ekki, að ráðherraloforðin hefðu reynzt ekki einasta ótraustur, heldur og með öllu óhæfur rekstrargrundvöllur fyrir flotann og ekki kæmi til mála að hefja vertíð út á þau né gengi bátsins framar. Það er líka deginum ljósara, að grundvöllur fyrir hallalausan rekstur fiskiflotans er nú ekki fyrir hendi lengur. Hinn gífurlegi stofnkostnaður skipanna, hækkunin á verði veiðarfæra, vátryggingu og vöxtum samfara kyrrstöðu og lækkun á almennu fiskverði og síldarverði ræður algerum úrslitum í þessu efni. Með svipuðu aflamagni og verið hefur hlýtur því bátaflotinn að lenda í síharðnandi skuldaflækjum, hætta veiðum á skemmri og lengri tímabilum vegna fjárhagsörðugleika og stórlega draga úr eðlilegum afköstum hans af þeim sökum.

En þótt ráðstafanir stjórnarinnar hafi reynzt launþegum og útgerðarmönnum svo sem lýst hefur verið og stefni vissulega hvorki að kjarabótum né framleiðsluaukningu, heldur beint að hinu gagnstæða, er þó hreint ekki svo að skilja, að allir landsmenn aðrir hafi sloppið undan plágunni heilir á húfi. Engir hafa goldið meira afhroð í dýrtíðarflóði stjórnarinnar en bændur. Samkv. verðlagsgrundvelli fylgir vinna þeirra sömu reglum og vinna launþega. Þeir verða því sem slíkir að búa við alla hina sömu kjararýrnun og verkamenn: óbreytt kaup í vaxandi dýrtíð. Um stofnkostnað búsins gegnir alveg sama máli og um útveginn. En allur tilkostnaður búsins kemur seint og sumpart aldrei þeim í hendur aftur gegnum afurðaverðið. Það líður ærinn tími, frá því að dýra benzíninu er hellt á dráttarvélina til þess að slá túnið, svo að það dæmi sé tekið, þar til verð þess skilar sér aftur í kjöt- eða mjólkurverði, og vextir af því fjármagni, ef það væri nú fengið að láni, koma beint sem ný kjaraskerðing á bóndann, enda er nú svo komið, að ef ráðherrana skyldi fýsa að hagnast á búskap, þegar þjóðin segir þeim upp núverandi starfi, þá verður ábyggilega nægilegt jarðnæði laust til ábúðar fyrir þá, ekki sízt ef vistaskiptin kynnu eitthvað að dragast á langinn.

Það er ekki vitað, hvert útlit ráðherrarnir telja á því, að góðar horfur séu fram undan í íslenzkum þjóðarbúskap. En hvað sem ráðh. kunna að segja, — reynslan sannar líka, að ekki er algengt, að ræður þeirra eigi samleið með veruleikanum, — þá breytist það ekki, að sá skaði skellur á þjóðinni, sem efnt er til með núv. stjórnarstefnu: samdráttur í atvinnulífi og framleiðslutap. En þótt aflasæld og önnur árgæzka hlypi hér undir bagga og rétti að einhverju það, sem hallast á óstjórn í landinu, þá innsiglar stjórnin það jafnframt með öðrum hætti: samdráttur og tekjurýrnun í þjóðarbúinu með almennri fátækt og versnandi lífskjörum skal verða okkar hlutskipti. Það er sem sagt alveg sama, hvað mikið kann að aflast, ef ekki er jafnframt séð fyrir því, að markaður sé tiltækur fyrir framleiðslu okkar.

Nú er það þrautreynd stefna íhaldsins að leggja allt kapp á að kaupa vörur í sem allra ríkustum mæli frá hinum frjálsa heimi, en svo eru allir Ameríkusinnar vanir að nefna þau lönd, þar sem auðvelt er að geyma bankainnstæður, án þess að gera þurfi mjög grein fyrir uppruna þeirra, og þar sem faktúrur eru allt eins skrifaðar eftir óskum kaupenda og verðlagi þeirrar vöru, sem keypt er. Í þeim löndum stendur hins vegar svo á, að kaupendur finnast engir að nema svo sem helmingnum af afurðum okkar. Meðan þeirri stefnu var fast framfylgt að hafa lítil eða engin skipti við lönd sósíalismans, fór þess vegna svo, að markaðstregða háði okkur. Við sátum t.d. uppi með full frystihús af torseljanlegri, en ágætri vöru, og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna gaf þá út fyrirskipanir til hinna einstöku frystihúsa: Svo marga kassa máttu framleiða og meira ekki, því að það er ekki markaður til fyrir það.

En svo hófust austurviðskiptin og leystu með öllu markaðsvanda okkar. Á síðustu árum allt til þessa hefur engin markaðstregða hindrað okkur. Við höfum í rauninni getað framleitt í fullu öryggi þess, að allar okkar sjávarafurðir seldust á góðu verði. Hitt er rétt, að austurviðskiptin hafa farið fram eftir jafnkaupasamningum, þannig að jafnmikil verðmæti í þeirra útflutningsvörum höfum við fengið sem greiðslu frá þeim eins og við létum til þeirra ganga. Þessi viðskipti ásamt þeirri afurðasölu og vörukaupum frá dollara- og sterlingssvæðunum, sem við með eðlilegum og hagkvæmum hætti gátum fengið, hafa verið undirstaða þeirrar hagsældar, sem hér var náð, þegar bezt gekk. En því er svo farið um valdamenn þessa lands, jafnt íhaldsmenn sem krata, og raunar eiga þar margir framsóknarmenn óskilinn hlut við stjórnarsinna, að þeir telja það boðorð æðst allra að þóknast stórveldunum í Atlantshafsbandalaginu eða NATO, eins og þeir skammstafa nafn bandalagsins. Og því er ekki að leyna, að á fundum og ráðstefnum með slíkum hefur þar nætt um okkar ráðh. og sérfræðinga eins og kaldur gustur að heyra sagt: Þið verzlið við Rússa. — Þótt þessi viðskipti séu okkur í alla staði hin hagkvæmustu, má það sín, þegar til lengdar lætur, minna en blygðan núverandi ráðh. á þeim slóðum, þar sem þeir vænta samúðar og viðurkenningar á öllu því, sem þeir hafa í sölurnar lagt til þess að þóknast einmitt þessum ímynduðu vinum sinum. En í stað þess, sem vænzt var, kemur ásökun, sambærileg við gamla skammaryrðið: Þú hefur étið folald, — þið verzlið við Austur-Evrópu. — Og þegar hinir sakfelldu manna sig svo upp í það að spyrja: Getið þið þá keypt allan varninginn af okkur, — þá bætist allt til þessa ný ásökun við: Þið eruð með ranga gengisskráningu. Þegar þið eruð búnir að leiðrétta hana, getum við séð til.

Og hvað eiga svo menn að gera, sem eins ástatt er fyrir og okkar ráðamönnum, í hópi slíkra vina, sem þeir hafa kosið sér að tigna og vegsama? Allir vita, að heimurinn skiptist fyrst og fremst í tvær voldugar samstæður, alþýðuveldin og auðvaldslöndin. En þar utan við standa svo hlutlausu ríkin, og í þeirra hópi vorum við lengst af. Við höfum veruleg kynni af báðum stóru aðilunum. Alþýðuveldin hafa í hvívetna reynzt okkur vel. Samskiptin við þau hafa verið okkur mjög hagkvæm, og þau viðurkenna öll rétt okkar til landhelginnar, jafnvel einnig þau, sem við viðurkennum ekki að til séu. Í sumu höfum við einnig góðra hluta að minnast úr samskiptunum við ríki vesturblakkarinnar, en þar eru þó á alvarlegar snurður. Öll hafa NATO-ríkin reynt að þrengja kosti okkar í landhelgisátökunum. Afstaða þeirra á alþjóðaráðstefnum hefur mótazt af fjandskap við okkur, og Bretar hafa sem kunnugt er beitt okkur vopnuðu ofríki.

Nú er á það að líta, að íslenzkir valdhafar, einmitt þeir, sem nú sitja, og raunar voru þeir af fleirum studdir þá, hafa af dæmafárri skammsýni kastað hinu forna hlutleysi okkar fyrir borð, tekið afstöðu með og látið vopnlausa þjóð okkar ganga inn í hernaðarbandalag þeirrar valdasamstæðunnar, sem verr hefur reynzt okkur, og léð henni land okkar undir herstöðvar Bandaríkja Norður-Ameríku til undirbúnings árása á hinn aðilann, sem betur reyndist. Ekkert af þessu hefur íslenzka þjóðin nokkru sinni samþ., og raunverulega er hún á móti þessu, þótt henni hafi til þessa láðst að gefa þeim mönnum frí frá stjórnarstörfum, sem þessum ráðum réðu á sinni tíð.

En mennirnir, sem lánuðu landið, njóta ekki virðingar herra sinna, af því að þeir verzla við Rússa og voru með rangt skráð gengi. Og því skyldu þeir láta slíka hluti standa í veginum fyrir vináttu við hinn frjálsa heim? Og svo var gengið fellt, og nú er eyðsluinnflutningur til landsins að verulegum hluta fluttur inn þaðan, sem ekki er markaða von, og greiddur með lánsdollurum að vestan, en innkaupin frá jafnkaupalöndunum rýrð að sama skapi, en það þýðir minnkaða möguleika til afurðasölu sem þessu nemur. Enda má um þetta segja, að ekki komi það alveg á óvart, því að í því riti, Viðreisn, stendur skýrum stöfum á bls. 13, ef ég má til þess vitna, með leyfi forseta: „Á hinn bóginn telur ríkisstj. sanngjarnt, að Bandaríkjastjórn fyrir sitt leyti stuðli að því að draga nokkuð úr þeim erfiðleikum, sem þessi breyting veldur á greiðsluviðskiptum þjóðarinnar. Um þetta atriði hafa undanfarið átt sér stað viðræður á milli fulltrúa frá ríkisstj. beggja landa, og telur ríkisstj., að viðunandi lausn þess máls muni fást.“ Og þótt ýmislegt sé ósatt í Viðreisn, er vart að efa sannleiksgildi þessarar klausu, enda hefur nú verið tekið um 800 millj. kr. lán vestra, og mun það að miklum hluta horfið í eyðsluhítina, en óseljanlegar vörur þar á móti hlaðast upp hér heima, svo sem kunnugt er.

Íslendingum hefur mörgum þótt það litlu máli skipta nú að undanförnu, hvort við værum þátttakendur í stríðsbandalagi vestrænna þjóða eða ekki. Ýmsir hafa yppt yfir því öxlum og helzt flokkað slíkt undir fremur ósmekklega, en meinlausa sérvizku þeirra pólitísku forustumanna, sem svona vildu haga málum. En þótt litið væri fram hjá öllu öðru, liggur það nú hreinlega fyrir, að einmitt frá efnahagsdeild NATO koma stj. ráðleggingar í efnahagsmálunum. Faðerni þess óburðar, sem ríkisstj. hefur nú af sér fætt og gefið nafnið „Viðreisn“, er hjá NATO. Þær búsifjar, sem efnahagsráðstafanir stj. leggja á íslenzkt þjóðlíf að þarflausu, og sú öfugþróun, sem þær valda í lífskjörum og framleiðslu, markaðsmálum og dýrtíð, verða að taka enda. Það er hlutverk þjóðarinnar að koma valdhöfunum í skilning um það, að hún sættir sig hvorki lengur við stjórnarhætti Sjálfstfl. og útibús hans, Alþfl., né við aðild Íslands að þeim óvinahópi þjóðarinnar, sem kallar sig Atlantshafsbandalag. Af áhrifum stj. og NATO höfum við þegar fengið meira en nóg. — Góða nótt.