30.05.1960
Sameinað þing: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3322 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

Almennar stjórnmálaumræður

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hermann Jónasson, fyrrv. forsrh., hefur gengið í fylkingarbrjósti árásarliðsins hér í kvöld. Hann lauk máli sínu með því að segja, að allir skyni bornir menn sæju fyrir fall stjórnarinnar. Ég skal ekki dæma um, hversu mikið af því, sem Hermann Jónasson sagði, var skoðun hans, en þetta meinti hann ekki. Það þori ég að fullyrða, því að ef hann tryði þessu, þá væri hann ekki jafnskapþungur þessa dagana og raun ber vitni um. Svo vel þekki ég Hermann Jónasson.

Hv. þm. Jón Skaftason hélt svipaða ræðu og Hermann Jónasson, að vísu að viðbættum verðlistanum, sem Hannibal Valdimarsson tók hér upp áðan og notaði mestan hluta ræðu sinnar til að hafa yfir. Hann lauk ræðu sinni með sömu spá um feigð stjórnarinnar og stjórnarstefnunnar, bauð síðan góða nótt og fór heim að sofa. Ég spái því, að þessi ungi maður sofi enn pólitískum svefni í nokkur ár. En þegar hann vaknar, hugsa ég, að hann vakni við þann draum, að stjórnarstefnan lifi góðu lífi, og spyr þá væntanlega, hvort okkur vanti ekki háseta.

En annars má með sanni segja, að sínum augum lítur hver á silfrið.

Væri lýsing hv. stjórnarandstæðinga á ríkisstj. rétt, þótt ekki væri nema að hálfu leyti, mundi núverandi stjórn misvitrari, kaldrifjaðri og svikulli en nokkur önnur stjórn, sem hér hefur farið með völd, a.m.k. ef undan eru skildar hungurstjórnin, sem sat á árunum 1934 –1937, og svo auðvitað vinstri stjórnin svonefnda. En ekki var það þetta mark, sem við, sem að stjórninni stöndum, settum okkur, né heldur erum við okkur þess meðvitandi að verðskulda þá dóma, sem stjórnarandstæðingar hér kveða upp, látast trúa, en gera ekki.

Mér er auðvitað ekki auðið að hrekja rangfærslur og rökvillur stjórnarandstæðinga á örfáum mínútum. Og þó — með því að segja frá staðreyndum hrek ég málflutning þeirra allra í senn, a.m.k. að mestu leyti.

Ekki er auðið að gera sér sæmilega grein fyrir því, sem nú er að ske á sviði íslenzkra stjórnmála, án þess að horft sé um öxl og skoðað, hvar þjóðin var á vegi stödd, þegar núverandi stjórnarflokkar mörkuðu stefnu sína og hófust handa um viðreisnina. Ég verð að láta nægja að minna á, að þegar vinstri stjórnin tók við völdum á miðju ári 1956, hét hún því að marka nýja stefnu, hverfa með öllu frá uppbótastefnunni, sem hún taldi helstefnu, stórlækka skattana, ráða niðurlögum dýrtíðarinnar og leysa allan efnahagsvandann með varanlegum úrræðum, án þess að skert yrðu kjör nokkurs manns í landinu. Rúmum tveimur árum síðar gafst þessi stjórn upp. Hún hafði hækkað árlega skatta — ekki lækkað — hækkað um 1200 millj. kr. Uppbætur höfðu aldrei verið neitt viðlíka háar, dýrtíðin var í algleymingi. Og þegar forsrh. Hermann Jónasson tilkynnti lausnarbeiðni sína, sagði hann nýja verðbólguöldu vera riðna yfir þjóðina, í stjórn hans væri ekki samstaða um nein úrræði, en stjórnarskútan á reki rétt við brimgarðinn. Allt er þetta öllum kunnugt og lifir aðeins sem söguleg staðreynd til viðvörunar um alla framtíð.

Það þarf sannarlega kokhraustan karl til að halda ræðuna, sem Hermann Jónasson hélt hér áðan með fortíð sína á bakinu. En hvað geta menn lengi búizt við að verða teknir hátíðlega með svona framferði?

Með stuðningi Sjálfstfl. tókst Alþfl. á hendur þann vanda að gera bráðabirgðaráðstafanir til að stöðva verðbólguna og jafnframt að breyta kjördæmaskipan landsins í réttlátara horf, í því skyni m.a. að uppræta spillinguna á stjórnmálasviðinu, en hvort tveggja þetta hafði Sjálfstfl. sett að skilyrði fyrir stuðningi sínum, og féllu þar saman hugðarefni og skoðanir Sjálfstfl. og Alþfl. Þessum flokkum tókst að forða frá voðanum í bili og jafnframt að bera fram til sigurs hið mikla réttlætismál að endurreisa lýðræðið á Íslandi með breyttri kjördæmaskipan.

Í haustkosningunum í fyrra kom í ljós, að í mörgum höfuðefnum höfðu Alþfl. og Sjálfstfl. markað svipaða stefnu. Það var því eðlileg rás viðburðanna, að eftir kosningasigurinn reyndu þessir flokkar með sér samning um samstjórn. Sem kunnugt er, gengu þeir samningar greiðlega, og var núverandi stjórn mynduð 20. nóv. s.l. Stjórn Alþfl. hafði aldrei sett sér annað mark en það að stöðva framrás ógæfunnar, þar til sterkari stjórn tæki við völdum. Núverandi stjórn varð hins vegar að ráðast gegn vandanum. Hún ásetti sér að láta einskis ófreistað til þess að leiða þjóðina inn á nýjar brautir, vel vitandi, að verkefnið var stórt og vandasamt, en þá líka svo veglegt, að sérhver stjórnmálamaður hlaut að girnast að þreyta þau fangbrögð.

Hér eru þess ekki tök að rekja til hlítar aðkomu ríkisstj. né allar aðgerðir hennar, en rétt er að minna á það allra stærsta.

Ég játa hispurslaust, að þegar haustkosningarnar fóru fram í fyrrahaust, renndi ég ekki grun í, hversu hörmulega var komið efnahagsmálum þjóðarinnar, enda þótt mér væri vel ljóst, að við hefðum lengi verið á hálum ís. Allt lá þetta skýrar fyrir, þegar stjórnin var mynduð 20. nóv. s.l., en skýrðist þó æ betur næstu vikurnar þar á eftir, jafnóðum og nýjar og nýjar skýrslur bárust af niðurstöðu rannsóknar efnahagsmálaráðunauta stjórnarinnar. Skiptir ekki höfuðmáli að rekja þá sögu hér, en þegar stjórnin tók endanlegar ákvarðanir og markaði opinberlega stefnu sína í lok janúarmánaðar s.l., hafði hún m.a. horfzt í augu við þessar staðreyndir:

Í fyrsta lagi: Í ljós var komið, að síðustu 5 árin hafði þjóðin eytt 1050 millj. kr. meira en hún hafði aflað og tekið í því skyni erlend óhagstæð eyðslulán. Það er þetta, sem Hermann Jónasson áðan kallaði yfirskinsástæðu stefnubreytingar. Afleiðing þessa glæfralega framferðis var, að greiðslubyrðin, þ.e.a.s. sá hluti gjaldeyristekna þjóðarinnar, sem þurfti til þess að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum hennar, var orðin geigvænlega há. Að svo sé, sést bezt á þessu:

Á árunum 1951–1955 var greiðslubyrðin 30 millj. kr., eða um 3% af gjaldeyristekjunum, 1958 var hún orðin 87 millj., eða 8%, í fyrra var hún 138 millj., í ár verður hún 163 millj. og nær hámarki að ári, 183 millj., eða hvorki meira né minna en 11–12% af öllum gjaldeyristekjum þjóðarinnar, og það með því, að engin ný lán verði tekin. Við þetta bæti ég því einu, að talið er ískyggilegt, ef greiðslubyrðin fer fram úr 5% í stað 12% hjá okkur, og að með þessu eru Íslendingar orðnir þjóða verstir í þessum efnum, að einni undanskilinni.

Afleiðing þessa varð m.a. sú, að engin þeirra stofnana, sem lán veita þjóðum eins og Íslendingum, taldi sér lengur fært að lána okkur og ekki heldur þær, sem við eigum aðild að, svo sem Alþjóðabankinn og Efnahagssamvinnustofnun Evrópu. Til skýringar get ég svo þess, að lán vinstri stjórnarinnar voru fengin frá öðrum og af annarlegum ástæðum veitt. Umbúðalaust sagt voru þau, svo sem alkunnugt er, borgun fyrir, að vinstri stjórnin brást kosningafyrirheiti sínu um að senda varnarliðið úr landi.

Í öðru lagi: Næsta viðfangsefnið var athugun á getu Íslendinga til að standa undir þessari geigvænlegu greiðslubyrði. Í ljós kom, að í árslok 1954 áttu íslenzkir bankar hreina gjaldeyrisinneign í frjálsum gjaldeyri, sem nam 220 millj. kr. — 5 árum síðar, eða í árslok 1959, var hver eyrir uppétinn og í staðinn komin skuld að upphæð 65 millj. kr. Samtímis hafði gjaldeyrisaðstaðan gagnvart jafnkeypislöndunum versnað um 15 millj., eða alls 300 millj. kr. halli á 5 árum.

Með þessu voru Íslendingar einnig í þessum efnum sokknir dýpra en nokkur önnur siðmenntuð þjóð, ef til vill að einni undanskilinni.

Til skýringar get ég þess, að hverri þjóð er talið hollt að eiga gjaldeyrisforða, er nemi a.m.k. 30–40% af andvirði ársinnflutningsins. Á það skorti Íslendinga a.m.k. 1000 millj. kr. Ég get þess enn fremur, að í janúar versnaði þessi mynd enn óhugnanlega, þannig að við vorum hvern einasta dag haldnir ótta við algert greiðsluþrot, til óbætanlegs skaða og háðungar þjóð, sem slíkt ástand kallar yfir sig þrátt fyrir gott árferði, jafnt varðandi tíðarfar sem verzlun og viðskipti. Miðað við þann voða voru hitt kannske smámunir, en þó eitt ærið áhyggjuefni, að slíkt gjaldeyrisöngþveiti hlaut auðvitað að leiða til þess, að menn gætu ekki keypt rekstrarvörur, byggingarefni né ný atvinnutæki sæmilega eftir þörfum, en auðsætt var, að það mundi valda bæði óhagstæðu verðlagi og hættulegu atvinnuleysi.

Í þriðja lagi: Þriðja viðfangsefnið var svo að skoða, hver áhrif uppbótastefnan og uppbótakerfið hafði á þessi dauðamein. Í ljós kom þetta: Hver sá, sem flutti út vörur fyrir 100 kr., eignaðist með því að meðaltali nær 87 kr. kröfu á útflutningssjóðinn. Þegar svo inn var flutt vara fyrir þessar 100 kr., voru meðaltekjur útflutningssjóðs af þeim innflutningi ekki 87 kr., heldur aðeins 68½ kr., en aðrar tekjur útflutningssjóðs voru sáralitlar. Af þessu leiddi stórkostlegan halla fyrir útflutningssjóð.

Þennan halla var hægt að vinna upp með tvennu móti: 1) Að auka innflutning lúxusvaranna. 2) Með erlendum lántökum og eyðslu gjaldeyrissjóða og notkun yfirdráttarheimilda.

Bæði vinstri stjórnin og stjórn Emils Jónssonar gáfust upp á lúxusinnflutningnum vegna gjaldeyrisskortsins. Síðari leiðin lokaðist, þegar allir sjóðir voru uppétnir og enginn vildi lengur lána Íslandi.

Kjarni málsins er, að uppbótakerfi, sem nærist á eyðslulánum, er sjálfdautt, þegar engin lán eru lengur fáanleg að óbreyttu kerfi. En þannig var einmitt komið fyrir okkur Íslendingum um síðustu áramót. Með því var þeirri ógæfuleið lokað, hvort sem Íslendingum líkaði betur eða verr. Um það þurfti þess vegna ekki frekar að ræða né hugsa. Við það má svo enn bæta, að enda þótt einhver hefði viljað gustuka sig yfir okkur og auðvelda okkur að lifa áfram um efni fram á annarra kostnað, hefði vitaskuld af því leitt aukna byrði vaxta og afborgana. Einhvern tíma hlaut svo að koma að skuldadögunum. Spurningin var aðeins sú, hvort við hefðum manndóm til þess að hætta að eyða annarra fé og byrja í þess stað í tæka tíð að greiða skuldir, enda þótt af leiddi nokkra kjaraskerðingu í bili, eða að láta reka áfram á reiðanum, þar til allt var glatað og eini gjaldeyrir okkar var pólitískt sjálfstæði þjóðarinnar.

Okkur í stjórnarliðinu fannst valið ekki örðugt. Bjartsýni mín er svo mikil, að ég leyfi mér að staðhæfa, að í okkar sporum hefðu andstæðingar okkar hugsað eins og við og hegðað sér líka eins og við, enda þótt þeir nú geri sér það til hugarléttis að sverta allar aðgerðir okkar og raunar sjálfa sig mest í leiðinni, áhrifa- og úrræðalitlir eins og þeir eru. Minni ég því til stuðnings á, að þegar við sjálfstæðismenn í ársbyrjun 1950 lögðum fram rökstuddar till. um lausn efnahagsvandans, sem þá var við að etja, flutti Framsfl. tafarlaust vantraust á okkur. Það var samþykkt, enda vorum við þá í minnihlutastjórn. Tíu dögum síðar myndar svo Framsfl. stjórn með okkur til þess að framkvæma sömu tillögurnar sem hann felldi okkur út af. Sama mundi ske nú, ef Framsókn væri samstarfshæf og fengi að koma í stjórn. En sleppum því.

Þegar hér var komið sögu, þegar vantraust umheimsins setti slagbrand fyrir feigðarbrautir Íslendinga, var augljóst, hver úrræði voru helzt til bjargar. Allir ráðamenn voru á einu máli um, að viðurkenna yrði gengi krónunnar, eins og vinstri stjórnin skildi við hana. Að sjálfsögðu var nokkurt matsatriði, hvað minnst yrði komizt af með. Ofan á varð, að 38 kr. teldust jafngilda Bandaríkjadollar, og var þá miðað við þarfir útvegsins, áður en vitað var um langvarandi verðfall fisks og síldarmjöls. Jafngildir sú gengisfelling 20–34% í innflutningi og útflutningi, miðað við óbeina skráningu 1958, en þá var krónufelling vinstri stjórnarinnar orðin um 30%. Til samanburðar er svo gengisfellingin 1950, sem nam 42.6%.

Ég minni hér á, að framsóknarmenn hafa oft talað um, að óþarft hefði verið að skrá krónuna svona lágt, nægt hefði 30 kr. dollarinn. Hver alvara fylgdi þessu sem öðrum þeirra málum sést á því, að þegar Björn Pálsson alþingismaður bar fram slíka kröfu, greiddi ekki einn einasti framsóknarmaður henni atkvæði.

Augljóst var, að af gengisskráningunni leiddi hækkað vöruverð. En það var ekkert nýtt, aðeins það, sem skeði 1939, 1950, 1951, 1955, 1956, 1958 og oftar, fyrir beina og óbeina gengisfellingu. Nú var hins vegar bannað að greiða kaup með vísitölu. Kapphlaupið á milli kaupgjalds og afurðaverðs varð að stöðva. Það hefur reynslan kennt Íslendingum, eins og bezt sést á því, sem hv. alþm. Einar Olgeirsson oftast hefur bent á, að eftir öll verkföllin og kauphækkanirnar er kaupmáttur tímakaupsins einmitt vegna þessa kapphlaups minni í dag en 1947. Hefur þó tímakaup Dagsbrúnarmanna á þeim árum hækkað úr kr. 8.88 í kr. 22.19.

En ekki nægði það eitt til að stöðva þessa vítisvél. Gera varð róttækar ráðstafanir til að létta byrðar þeirra af hækkandi vöruverði, sem bágust eiga lífskjörin. Það var gert. Með breytingu á tryggingalöggjöfinni og niðurgreiðslum á tilteknum nauðsynjavörum er séð fyrir því, að hjón með þrjú börn á framfæri, aldrað fólk og öryrkjar fái fullar bætur fyrir hækkað vöruverð. Er ætlað, að framfærsluvísitalan hækki tæplega um meira en 3–5 stig, sé lækkun útsvara og tekjuskatts meðtalin. Er það miklu minni kjaraskerðing en ella hefði orðið, jafnvel þótt ekki hefði verið kostur á eyðslulánum til aukins innflutnings á lúxusvörum, sem ekki var.

Afnuminn hefur verið tekjuskattur á þurftartekjur, þannig að hjón með þrjú börn greiða ekki tekjuskatt. Hermann Jónasson taldi þetta skatt á heiðarleika og lét sér fátt um finnast afnám hans. Aðrir hugsa öðruvísi.

Um aðrar tilfærslur á sköttum og tollum mun hæstv. fjmrh. án efa ræða, svo og um jöfnunarsjóð sveitarfélaga og önnur merk nýmæli, sem undir hans verkahring falla.

Þá er enn þess að geta, að aflétt er nú að miklu leyti ánauð hafta og banna á sviði verzlunar og margvíslegra athafna, sem um aldarfjórðungsskeið hefur hvílt á þjóðinni eins og mara og þjakað hana og þjáð. Er það okkur, sem frelsinu unnum og frelsið munum, ósegjanlegt gleðiefni, að nú skuli þjóðinni að nýju gefast kostur á að neyta krafta sinna, hæfni og atorku til þess að sækja til fanga þangað, sem auðurinn bíður, í skaut jarðar og í greipar Ægis og aðrar auðlindir ættjarðarinnar, í stað þess að híma hokin með hneigingum við dyr valdamanna í leit að leyfum. Hvílík óhemjueyðsla á orku þjóðarinnar hefur ekki allur sá tími verið, sem farið hefur í leyfisbeiðnir og að koma sér í mjúkinn við valdhafana og svo aftur að játa eða neita beiðnunum? Skyldi ekki heiðarleg, harðsótt viðureign við náttúruöflin vera allt eins göfgandi iðja, og skyldi ekki stundum fremur hafa verið spurt um annað en réttlætið, þegar leyfin voru veitt? En hvað um það, nú verður aftur hægt að ná andanum í íslenzku athafnalífi, og nú getur almenningur vænzt góðs af auknum vörugæðum, sem ævinlega leiðir af frjálsri samkeppni. Samkeppnin mun einnig draga úr verðhækkunum. Mætti vel svo fara, að einmitt eftir þessum leiðum takist að draga verulega úr þeirri kjaraskerðingu, sem þjóðin verður að þola nú, þegar hún getur ekki lengur lifað á erlendum eyðsluskuldum, en þarf þess í stað að hefja greiðslur á þeim. Það er þetta, sem ég hef leyft mér að nefna endurkomu góðra, gamalla daga.

Engum fær dulizt, að stjórnarliðið hefur verið djarft og mikilvirkt og þingið athafnameira en áður eru dæmi til. Stefnan hefur verið skýr og ótvíræð. Forðazt hefur verið að leyna þjóðina staðreyndum, en þess í stað leitazt við af fremsta megni að láta myndina blasa sem bezt við augum almennings, forða þjóðinni frá að fara villigötur um staðreyndirnar. Stóru drættirnir eru þessir: 1) Uppbótakerfið hafði sjálft kveðið upp sinn dauðadóm. 2) Eina úrræðið var að viðurkenna opinberlega með skráningu krónunnar sannvirði hennar, eins og vinstri stjórnin skildi við hana. 3) Af þessu hlaut að leiða hækkun vöruverðs. 4) Þeirri byrði hefur verið bægt frá dyrum þeirra, sem sízt gátu axlað hana. 5) Jafnframt hafa verið gerðar margvíslegar aðrar ráðstafanir, m.a. til að stemma stigu við nýrri verðbólgu, og í engu hikað við nauðsynlegar ráðstafanir í því skyni, þótt óvinsælar kynnu að reynast í bili svo sem vaxtahækkun og bann við greiðslu kaupgjalds eftir vísitölu.

Leiðarljósið hefur frá öndverðu verið að forða þjóðinni frá efnahagslegu hruni, geigvænlegu atvinnuleysi og ef til vill glötun pólitísks sjálfstæðis. Og allar ákvarðanir stjórnarinnar hafa miðazt við að krefjast ekki stærri fórna en nauðsyn bauð og minnsts af þeim, sem sízt eru aflögufærir.

Það er enn of snemmt að spá um, hversu fram úr vinnst, en sum sólarmerki eru fremur góð. Sparifé vex, gjaldeyrisaðstaðan batnar, og það sem mestu varðar: þjóðin hefur sýnt skilning, þroska og góðvild. En tekst viðreisnin samt? spyrja menn. Svar mitt er þetta: Viðreisnin tekst, ef þjóðin vill. Í dag gerir þjóðin sér ljóst eða að minnsta kosti mikill meiri hluti hennar, að fórnirnar, sem hún færir, eru að vísu tilfinnanlegar, en þó smámunir einir hjá því, sem verið er að bjarga, og miklu minni en nokkur önnur úrræði hefðu krafizt, þótt fyrir hendi hefðu verið.

Í dag vill þjóðin. En því miður verður því ekki leynt, að vegna misskilnings eða valdastreitu eru sterk öfl að verki, sem reyna að villa henni sýn. Takist þeim óheillaöflum að skapa tortryggni, tregðu og úlfúð, getur allt farið forgörðum. Þá fá menn hrun, atvinnuleysi og mikla skerðingu eignarréttar og athafnafrelsis, a.m.k. um nokkurt skeið, og ef til vill líka glötun sjálfstæðisins, í stað þeirrar nýju aldar viðreisnar og stöðugt vaxandi velgengni, sem nú bíður þjóðarinnar, kunni hún fótum sínum forráð, forðist blekkingarnar og standi vörð um heill sína og heiður.

Á þeim, sem nú vinna óheillaverkin, hvílir þung ábyrgð. Stöðvi þeir ekki ólánsatferli sitt, verður þeim aldrei fyrirgefið, því að þá er heift þeirra blind og ógæfa þeirra mikil og afbrot þeirra fáheyrt og fordæmanlegt. Enginn mun þá biðja þeim miskunnar né fyrirgefningar, enda vita þeir, hvað þeir gera. Nú sem fyrr trúi ég því betra, þar til ég reyni hið verra, en tel þó skynsamlegt að vera við öllu búinn.

Að lokum þetta: Við, sem að stjórninni stöndum, erum margir, og enda þótt Alþfl. og Sjálfstfl. séu í mörgu ólíkrar skoðunar, standa þeir þó sem einn aðili í ágætu samstarfi um það að efna heit sín. En þjóðin öll verður að taka undir. Það er öllum fyrir beztu. Og þá má treysta því, að þær fórnir, sem í bili með engu móti verða umflúnar, verða skjótlega léttbærari.

Við flokkssystkin mín um allt land segi ég þetta: Við erum því vanir, sjálfstæðismenn, að standa saman á hættunnar stund og því betur sem meira er í húfi. Við skulum enn berjast fyrir velferð þjóðar okkar, hvar sem er, við hvern sem er og hvenær sem er, og höfum þá réttmæta ástæðu til að vona, að okkur takist að afstýra þeim voða, sem óstjórn undanfarinna ára hefur fært að dyrum okkar allra. Við höfum alltaf talið okkur skylt að standa vörð um fjárhagslegt og pólitískt sjálfstæði Íslands. Sjálfstæðismenn, við skulum enn sem fyrr vera trúir þeirri helgu skyldu.