28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3435 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Till. um samþykki til frestunar á fundum Alþingis liggur ekki fyrir hér. Hún er flutt í Sþ. og verður rædd þar eftir helgina.

Varðandi þau fimm mál, sem hér eru á dagskrá, má segja, að þau séu ekki í órjúfanlegu sambandi við þingfrestunina. Þau eru öll saman nauðsynleg, hvort sem þingi verður frestað eða ekki. Fjögur þeirra eru um þá árlegu framlengingu á vissum tekjustofnum og það fimmta um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði. Hvort sem þingi verður frestað eða ekki, er öllum ljóst, að ráðstafanir, sem nauðsyn krefur að gera í efnahagsmálum, og fjárlög verða alls ekki afgreidd fyrir áramót. Þess vegna eru þau frv., sem hér liggja fyrir, nauðsynleg, — nauðsynlegt, að þau komi fram, hvað sem þingfrestuninni líður.

Um það, hvað þeim hefur farið á milli í dag, hæstv. forsrh. og formanni þingflokks framsóknarmanna, er mér ekki kunnugt, og ég sé ekki ástæðu til þess hér í þessari hv. d. í sambandi við þá dagskrá, sem hér liggur fyrir, að taka það mál til umræðu.