05.12.1959
Neðri deild: 13. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga. Það er shlj. 5 frv., sem um mörg undanfarin ár hafa verið framlengd frá ári til árs. Þessum 5 frv. hefur nú verið steypt saman í eitt frv.

Í nál. minni hl. hv. fjhn. á þskj. 62 segir svo, með leyfi forseta, að það hafi gerzt í meðferð þessara mála á þingi, að „eftir að öll þessi 5 frv. höfðu hlotið afgreiðslu í fjhn. þingdeildanna, gerðist það, að hætt er meðferð þeirra í þingi, en efni þeirra allra sett í eitt frv., sem ríkisstj. ber fram á Alþingi. Við teljum þetta óeðlilegt og mjög óviðeigandi aðferð við afgreiðslu þingmála“.

Ef nm. minni hl. og hv. frsm., 1. þm. Norðurl. v. (SkG), eiga við með þessum að vísu óljósu orðum, að það sé óviðeigandi og óeðlilegt að hafa þannig 5 mál, sem áður hafa verið, í einu frv., þá sé ég ekki, að það sjónarmið hafi við rök að styðjast. Fyrir allmörgum árum flutti þáverandi hæstv. fjmrh., núverandi 1. þm. Austf. (EystJ), frv. um bráðabirgðabreyting nokkurra laga, og var hvorki meira né mínna en breyting á 17 lögum í því eina frv. Þó þótti fjmrh. og þeim meiri hl., sem hann studdist við, m.a. hv. 1. þm. Norðurl. v., ekki nóg að gert, því að í meðförum þingsins var þessum 17 lögum fjölgað upp í 20. Þetta gerðist 3 þing í röð undir forustu Framsfl., og voru þar m.a. framarla í flokki þá sem fyrr og síðar hv. núverandi 1. þm. Austf. og hv. 1. þm. Norðurl. v. Þá þótti það góð latína að hafa í einu frv. bráðabirgðabreyting á 20 lögum. Nú þykir það óeðlilegt og óviðeigandi að hafa í einu frv. 5 málefni.

Þá liggur hér fyrir brtt. á þskj. 59 frá sömu hv, þm., minni hl. fjhn., um það, að þessi framlenging skuli gilda til febrúarloka 1960, en ekki til ársloka, eins og segir í frv. Þetta er rökstutt í nál. þeirra með því, að frv., sem nú er orðið að lögum, um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði, eigi ekki að gilda lengur en til febrúarloka, og þess vegna sé eðlilegt, að þessar framlengingar gildi til jafnlangs tíma. Eins og ég tók fram, hafa þessi gjalda- og skattalög, sem hér ræðir um, verið framlengd um mörg undanfarin ár, alltaf til eins árs í einu, til almanaksársins. Á sama tíma hefur það hvað eftir annað komið fyrir, að sami ráðherra, sama ríkisstjórn, sem hefur lagt til að framlengja þessi lög til almanaksársins, hefur um leið fengið samþykkt frv. um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði til janúarloka, febrúarloka, marz- eða aprílloka. Hv. frsm. minni hl. hefur aldrei í öll þessi ár hreyft því, að það væri nokkur ástæða til þess að tímabinda framlenging þessara skattalaga við sama mark og bráðabirgðafjárgreiðslurnar. Honum hefur aldrei dottið það í hug fyrr en nú. Og rök fyrir þessu sé ég ekki að séu fyrir hendi. Hitt er svo allt annað mál, að ef það verður niðurstaðan varðandi væntanlegar efnahagsaðgerðir að breyta svo til um tekjustofna fyrir ríkissjóð, að ekki sé þörf þessara framlengingarlaga út allt árið, þá verður því vitaskuld breytt á þingínu, er það kemur saman aftur, í samræmi við efnahagsaðgerðirnar, en ástæðulaust, að mér virðist, að fara að tímabinda þetta nú fremur en gert hefur verið áður.

Hv. 4. þm. Reykn. (JSk) mælti hér fyrir brtt. á þskj. 60 um nokkrar breytingar á söluskattinum, og hlustaði ég með athygli á það, sem hann hafði fram að færa um það mál. Ég er alveg á sama máli um það, að söluskatturinn er að mörgu leyti mjög gallaður tekjustofn, eins og hann er nú. Á honum eru margvíslegir gallar. Ég hef oft heyrt mikla gagnrýni á honum, m.a. og ekki sízt frá iðnaðarmannasamtökunum hér á landi. Ég get nefnt eitt dæmi, sem ég tel mikinn galla á þessum lögum, sem ég þekki frá starfi mínu undanfarin ár. Þegar hið opinbera hefur með höndum byggingarframkvæmdir og verklegar framkvæmdir, þá er það auðvitað æskilegast að bjóða slík verk sem oftast út, og helzt ætti það að vera meginregla hjá hinu opinbera, ríki og bæjarfélögum. En þá er sá annmarki á, að ef verk eru boðin út og samið við þann, sem gerir hagstæðast tilboð, þá leggst 9% söluskattur ofan á það, en ef bæjarfélagið eða ríkíð lætur framkvæma þetta eftir reikningi án útboðs, þá sleppur það við 9%. M.ö.o.: löggjafinn dregur heldur úr í stað þess að örva, sem rétt væri, að verk séu boðin út. Vitanlega verður þessu að breyta og mörgu öðru. Ég tel ekki fært á þessu stigi, við þessa bráðabirgðaframlenging, að fara að gera einstakar breytingar, þó að ég dragi ekki í efa, að þessar brtt. hv. þm. eigi við rök að styðjast, — ég tel ekki fært að fara að gera einstakar breytingar á söluskattinum nú. Það væri þá sjálfsagt rétt að gera þær margar fleiri. Hins vegar verður söluskatturinn frá grunni endurskoðaður, og ég vænti, að sú endurskoðun liggi fyrir, þegar þing kemur saman aftur. Í þeirri endurskoðun verður að sjálfsögðu tekið til athugunar það, sem hv. 4. þm. Reykn. færði hér fram í sinni ræðu áðan.

Hér hefur verið minnzt á söluskatt til sveitarfélaga, og gerði m.a. hv. 5. þm. Norðurl. v. það nokkuð að umræðuefni og afskipti mín af því máli. Ég er enn sama sinnis og áður, að ég tel brýna nauðsyn bera til þess, að sveitarfélögin fái nýja tekjustofna. Á þingi 1951 flutti ég tili. í þá átt, að sveitarfélögin fengju fjórðung söluskattsins, meðan hann er innheimtur. Sú till. var samþ. í þessari hv. d. En þá gerðust þau tíðindi, að bæði forsrh. og fjmrh. þáverandi risu upp og lýstu því yfir, að þeir mundu rjúfa stjórnarsamvinnuna, ef slík firn ættu fram að ganga. Niðurstaðan varð sú, að samstarfsflokkur þeirra, sem þá var, Sjálfstfl., taldi ekkí fært að slíta stjórnarsamvinnunni, það væru ekki möguleikar á því að mynda aðra stjórn, og varð þess vegna niðurstaðan sú, að það mál féll niður. Alla stund siðan hefur verið einn og samur andi í þeim efnum frá flokki hv. þm. En ég vil taka það fram, að ég efa ekki og hef aldrei efað hans einlæga áhuga á þessum málum, enda hefur hann sjálfur svo mikla reynslu í sveitarstjórnarmálum, að hann þekkir manna bezt þá erfiðleika, sem bæjarog sveitarfélögin eiga við að stríða.

Á þingi 1957 flutti ég þetta mál einnig og raunar oftar. Þá varð samkomulag um það í fjhn. Ed. að flytja þáltill., sem var samþ. einróma í Ed., um að skora á ríkisstj. að undirbúa og leggja fyrir næsta Alþingi frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga. Þessi till. var samþ. En af einhverjum ástæðum, líklega fyrir annríkis sakir fremur en af áhugaleysi, láðist vinstri stjórninni sælu og sáluðu að koma nokkru í verk í þessum efnum og hirti ekki um að undirbúa eða semja þessa löggjöf, sem Alþingi hafði falið henni, og að leggja fyrir haustþingið 1958.

Nú er að sjálfsögðu bæði nauðsyn sveitarfélaganna að fá tekjustofn til viðbótar útsvörunum, óbeinan skatt, og að endurskoða útsvarslögin og tekjustofna bæjar- og sveitarfélaganna yfirleitt. Það varð eitt af mínum fyrstu verkum, eftir að ég tók sæti í ríkisstj., að hefjast handa um slíka endurskoðun, og endurskoðun á löggjöf um tekjustofna sveitarfélaganna er þegar hafin. Ég hef lagt á það ríka áherzlu, að till. í því efni, — ég get ekkert fullyrt um heildartill., — en að till. um verulegar umbætur í því efni verði lagðar fyrir Alþ., þegar það kemur saman að nýju eftir þingfrestunina.

Hv. 4. þm. Austf. (LJós) spurðist fyrir um það, hvort ég teldi ekki fært að gefa Alþingi yfirlit um fjárhag ríkissjóðs og útflutningssjóðs nú. Ég hef skýrt frá því hér áður, að ég tel, að heppilegra sé og gagnlegra fyrir Alþ. að fá slíkar upplýsingar, slíkt yfirlit við 1. umr. fjárlaga í lok janúarmánaðar, eða þegar þingíð kemur saman aftur, af þeirri ástæðu, að þær upplýsingar verða miklu fyllri og nákvæmari en nú. Það hafa oft á undanförnum árum verið gefnar upplýsingar í lok ársins, í okt., nóv., des., um afkomu hins líðandi árs, en oft og tíðum hafa þær upplýsingar, því miður, reynzt ófullnægjandi, þannig að afkoma ríkissjóðs endanlega hefur reynzt í verulegum atriðum önnur en fjmrh. þá gaf upplýsingar um, einkum varðandi greiðsluafganginn. Ég tel, að þetta séu heppilegri vinnubrögð. Þetta yfirlit, sem hv. þm. er að óska eftir, á fyrst og fremst að verða grundvöllur undir þeirri vinnu, sem alþm. leggja fram varðandi afgreiðslu fjárlaga og efnahagsráðstafana, og áður en þessi 2 stórmál koma fyrir, verður þetta yfirlit af sjálfu sér gefið, og eins og ég tók fram, þá tel ég, að það yfirlit verði fyllra og nákvæmara, ef það er gefið, þegar þingið kemur saman, heldur en nú.