28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3441 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég vil beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh., hvort það er ætlun hæstv. ríkisstj. að leggja brbl. um landbúnaðarverðið fyrir þingið eða hvort hún ætlar ekki að gera það. Mér sýnist ýmislegt benda til þess, að hún ætli sér alls ekki að gera það, því að ef það verður af þingfrestun, eins og ríkisstj. gerir ráð fyrir, n. k. mánudag, og ég skil hæstv. ráðh. svo, að það verði ekki hvikað frá því, þá er mér ekki ljóst, hvernig hæstv. ríkisstj. fer að því að fullnægja ákvæði stjórnarskrárinnar um það, að brbl. skuli lögð fyrir næsta Alþ. Ég veit ekki betur en þessi lög falli úr gildi 15. des., og ef Alþ. verður frestað n.k. mánudag og kemur ekki saman fyrr en 28. jan., þá eru þessi lög sæmilega dáin. Hvernig fer þá hæstv. ríkisstj. að leggja þau fyrir næsta Alþ.? Það er þó ótvírætt í stjórnarskránni, að svo á að gera. Þetta atriði eitt út af fyrir sig sýnist mér vera nægilegt tilefni til þess að mótmæla þessari ráðstöfun hæstv. ríkisstj. að reka þm. heim og fresta þingi. Og mér sýnist meira að segja, að það geti komið upp alveg ný vinnubrögð út frá þessu, ef þetta verður gert. Núverandi stjórnarflokkar gáfu út þessi brbl., mig minnir í sept., þ.e.a.s. þáverandi ríkisstj., sem studd var af núverandi stjórnarflokkum. Þau gilda til 15. des. Ef hæstv. ríkisstj. frestar nú þinginu 30. nóv., falla lögin úr gildi jafnt fyrir það 15. des., og lögin hafa ekki verið lögð fyrir þingið. Er þá ekki möguleiki fyrir slíka ríkisstj. að gefa út ný brbl. 16. des., samhljóða þessum, sem féllu úr gildi 15. des., og láta þau gilda til 30. apríl, svo að ég taki dæmi, leggja þau lög ekki heldur fyrir þing frekar en þessi, slíta svo Alþ. 29. apríl og gefa svo út ný brbl. 1. maí? Er þessi fræðilegi möguleiki ekki til, ef þessi vinnubrögð eiga að haldast? Þetta er mjög þýðingarmikið atriði, og ég tel mikils virði, að hæstv. ríkisstj. svari þm. eitthvað um það. Ég skal taka fram, að ég er ekki að bera það á hæstv. ríkisstj., að hún ætli að gera þetta. En ég spyr: Er ekki þetta möguleiki, ef þessi vinnubrögð eiga að haldast, að brbl. verði ekki lögð fyrir Alþ. í þingbyrjun. Ég heyri sagt, að hæstv. landbrh. hafi svarað því í hv. Nd., að það stæði ekki í stjórnarskránni, að það eigi að leggja slík lög fyrir þing í byrjun þings. En ef hann kynni að líta svo á, að það mætti alveg eins gera það í endi þings, er þá ekki hægt að fara svona að, að stjórna að þessu leyti með brbl., þó að þing sitji?

Ég vil taka undir þau mótmæli, sem hér hafa verið borin fram um þau vinnubrögð að reka þingið heim eftir nokkra daga, áður en það er farið að gera neitt verulegt, og koma þannig í veg fyrir, að þm. geti m.a. flutt mál, sem þurfa jafnvel að komast áleiðis fyrir áramót. Hitt er ég ekki að vefengja neitt, að hæstv. ríkisstj. þurfi hlé eða frið til þess að móta sínar væntanlegu efnahagsmálatillögur. Ég get vel skilið, eða a.m.k. trúi ég því fyllilega, að hæstv. ríkisstj. viti enn þá ekkert, hvað hún á að gera í efnahagsmálunum. Það er að vísu hart að vera búin að stjórna í heilt ár hér um bil og vita þetta ekki. Það hafa komið fram opinberlega upplýsingar um það, að þegar ríkisstj. var mynduð í des. 1958, hafi Sjálfstfl. lagt fyrir Alþfl. till. sínar í efnahagsmálunum og séu það þær till., sem stjórnað hafi verið eftir yfirstandandi ár. Hafi Sjálfstfl. getað gert þetta, sem ég vefengi ekki að hann hafi gert þá, er mjög ólíklegt, að hann geti ekki haft eitthvað tilbúið í þessum málum nú. Látum það vera svo. En það réttlætir ekki hitt, að reka þingið heim eftir örfáa daga.

En að lokum vil ég undirstrika þessa fsp. til hæstv. ráðh., sem nú eru hér tveir viðstaddir: Á að leggja brbl. fyrir þetta þing eða á ekki að gera það? Og hvernig ætlar hæstv. ríkisstj. að fullnægja ákvæði stjórnarskrárinnar um að leggja brbl. fyrir þing, ef þau verða fallin úr gildi, þegar þing kemur saman eftir þetta hlé, sem ríkisstj. gerir ráð fyrir að hafa?