30.11.1959
Sameinað þing: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3503 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Þórarinn Þórarinsson:

Hæstv. forseti. Það er vegna þeirra fyrirætlana ríkisstj. að fresta fundum Alþ. á næstunni, sem ég vil bera þá fsp. fram til hæstv. forseta, hvernig hann hefur hugsað sér fundarhöld í Sþ. fyrir þingfrestunina. Ég ber þessa fsp. fram vegna þess, að ég hef lagt fram ásamt nokkrum þm. öðrum till. um fjáröflun til byggingarsjóða, till., sem er þannig vaxin, að a.m.k. nokkur hluti hennar er miðaður við það, að till. fái afgreiðslu fyrir áramót. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. forseta að því, hvort hann telji ekki möguleika á því, þrátt fyrir þá þingfrestun, sem ráðgerð er, að hægt sé að taka þessa till. fyrir hér í Sþ. og stuðla að því, að hún fái þinglega afgreiðslu, áður en þinginu verður frestað. Ég held, að það sé óhætt að segja, að þessi tillaga sé þannig vaxin, að hún ætti ekki, þó að hún væri tekin fyrir hér í þinginu, að verða til þess að valda töfum á störfum þingsins. Efni hennar er þannig, að allir þm. eiga að geta verið sammála um hana. Hún fer í stuttu máli fram á það, að gerðar séu sérstakar ráðstafanir til þess að afla fjár handa umræddum sjóðum, byggingarsjóði ríkisins og byggingarsjóði Búnaðarbankans, til þess að bæta úr brýnustu þörfum þeirra, sem eiga lánbeiðnir hjá þessum sjóðum. Ég held, að þm. sé yfirleitt svo kunnugt um þær þarfir, sem hér er um að ræða, að óþarft sé að rökstyðja þær sérstaklega, og þeir hljóti að hafa fullan áhuga á því að bæta úr þeim eins fljótt og auðið er. Þess vegna ætti það ekki að verða til þess að valda neinum töfum á störfum þingsins, þó að þessi till. væri tekin til þinglegrar afgreiðslu fyrir þingfrestun. Af þeim ástæðum vil ég bera fram þá spurningu til hæstv. forseta og endurnýja hana, hvort hann telji ekki mögulegt, að hægt verði hér í Sþ. að afgreiða umrædda till. um fjáröflun til byggingarsjóða, áður en þinginu verður frestað.