02.12.1959
Sameinað þing: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3511 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi leyfa mér að beina þeirri ósk til forseta, að þær kosningar, sem á dagskránni eru í dag, fari ekki fram í dag, heldur verði frestað. Hins vegar vil ég leyfa mér að bera fram fsp. til hæstv. ríkisstj. út af atburði, sem gerðist í gær.

Í gær, á fullveldisdaginn, flutti einn ráðuneytisstjóri ríkisstj. ræðu, Jónas Haralz, ráðuneytisstjóri fyrir hinu nýmyndaða efnahagsmálaráðuneyti. Ég vil í fyrsta lagi leyfa mér að spyrja: Flytur ráðuneytisstjórinn þá ræðu, sem hann gerir, á eigin ábyrgð? Ef svo er, þá álít ég, að hér sé framið alveg dæmalaust taktleysi. Það mundi enginn af þeim ráðuneytisstjórum, sem hjá okkur starfa í stjórnarráðinu, leyfa sér að fara að fiytja um mál, sem undir hann heyra, ræðu eins og þessi ráðuneytisstjóri gerði í gær. Mér er sem ég sjái t.d. ráðuneytisstjóra fjmrn. fara að halda ræðu í útvarpið um það, hvaða tolla skuli leggja á, hve háir þeir skuli vera, af hvaða vörum þeir skuli vera, og annað slíkt. Og ég er hræddur um, að ef einn ráðuneytisstjóri leyfði sér að halda slíka ræðu um það, sem undir hans ráðuneyti heyrir, upp á eigin spýtur, þá mundi hann ekki vera lengi ráðuneytisstjóri eftir það.

Ég vil lýsa því yfir, að svo framarlega sem Jónas Haralz ráðuneytisstjóri hefur flutt þessa ræðu án samráðs við ríkisstj., þá er verið að fremja embættisafglöp, sem ekki er hægt að þola. Ef einn ráðuneytisstjóri tekur upp á því að fara að tala um mál, sem heyra undir hans ráðuneyti, og segja, hvað gera skuli í þeim, þá er hann annaðhvort að tala um hluti, sem á að fara að gera, og kjafta frá því, sem á að liggja í leynd, þangað til ríkisstj. kemur fram með það, eða þá að hann er að tala út í bláinn um einhverjar persónulegar skoðanir og óskir sínar. Ég býst við, að það séu engir menn í þessu landi í þeirri oft mjög erfiðu aðstöðu, sem okkar ráðuneytisstjórar yfirleitt hafa staðið sig mjög vel í, engir af okkar embættismönnum í eins erfiðri aðstöðu og þeir, að ráðuneytisstjórarnir, sem náttúrlega hafa sínar skoðanir eins og aðrir embættismenn, en verða raunverulega alltaf að vera þjónar ráðherranna, geta auðvitað ráðlagt þeim einlæglega, ef þeir vilja, en verða í öllu sínu framferði raunverulega alltaf að vera alveg sérstakir þjónar viðkomandi ráðh„ sem þeir eiga að geta treyst á til að kunna bæði að þegja og tala á réttum tíma.

Ég álít þess vegna, að það séu framin embættisafglöp af þessum ráðuneytisstjóra, ekki sízt þar sem hann talar um málefni, sem heyrir undir það ráðuneyti, sem hefur verið myndað undir hans forsæti. Ef hann hefði verið að tala um málfræði eða háskólann eða eitthvað slíkt, hefði gegnt öðru máli. Ég álít, að hafi hann talað án samráðs við ríkisstj. sem ráðuneytisstjóri þarna, þá séu þetta bein embættisafglöp, sem ekki sé hægt að þola, og það mundi enginn annar ráðuneytisstjóri, sem ég þekki í stjórnarráðinu, hafa gert þetta og hefur ekki gert, svo að mér sé kunnugt.

Þá er hitt til, að ráðuneytisstjórinn hafi talað í samráði við ríkisstj., því að ég ætla einum ráðuneytisstjóra vart þá dul, það taktleysi veit ég að vart muni vera til, að einn ráðuneytisstjóri hafi ætlað sér með ræðu, sem hann flytur 1. des., á fullveldisdaginn, að fara að segja sínum ráðherra eða sínum ráðherrum fyrir verkum. Þá færi virkilega skörin að færast upp í bekkinn, ef einum ráðuneytisstjóra finnst, að hann eigi að segja ráðh., hvað þeir eigi að gera, þeim mönnum, sem kosnir eru af þjóðinni og þinginu til þess að stjórna landinu.

Þá er hitt til, að þessi ráðuneytisstjóri hafi talað í samráði við ríkisstj., og að því vil ég spyrja, hvort það sé svo, að sú ræða, sem var flutt í gær af næstæðsta embættismanni stjórnarráðsins á þessu sviði, hafi verið flutt í samráði við ríkisstj., án þess þó að þess hafi sérstaklega verið getið. Og þá verð ég að segja, að það þykir mér talsvert furðulegur háttur um tilkynningar til þjóðarinnar, ef ráðuneytisstjórar eru látnir bera fram þá stefnu, sem eigi að fylgja, svo að segja fyrir hönd ríkisstj., án þess að geta um, að það sé fyrir hönd ríkisstj. Ég get vart trúað, að slíkt sé meiningin. En sé svo, held ég, að það þurfi að koma fram nú þegar. Svo fremi sem Jónas Haralz ráðuneytisstjóri efnahagsmrn., sem heyrir undir alla ríkis stj., hefur í gær verið að boða stefnu f.h. allrar ríkisstj. og þessi óvenjulegi háttur hefur verið hafður á að láta hann boða slíka stefnu á þessum stað og þessari stundu á þennan hátt, þá held ég, að tími sé til kominn, að hæstv. ríkisstj. segi við Alþingi, að Alþingi virði hún vissulega ekki svars, en hún láti einn ráðuneytisstjóra, nýskipaðan yfir nýtt ráðuneyti, flytja þjóðinni boðskap án þess að tilkynna, að það sé boðskapur ríkisstj. um leið.

Ég vildi mega álíta, að það væri ekki nema tvennt til, þegar ráðuneytisstjóri úr stjórnarráðinu flytur svona ræðu, að annaðhvort talar hann á eigin ábyrgð, og þá á hann ekki að tala sem ráðuneytisstjóri í því embætti, sem hann er, eða þá hann talar f.h. ríkisstj., og þá á hann að tilkynna það. Eitt af þessu tvennu gæti maður búizt við að hlyti að vera hátturinn, sem þarna væri hafður á, og ég vonast til þess, að ríkisstj. leysi úr því.

Það kunna máske margir að álíta, að það kunni að vera það þriðja til, að Jónas Haralz ráðuneytisstjóri sé látinn tala 1. des., á fullveldisdaginn, halda þá fyrstu ræðu, sem hann heldur, eftir að búið er að búa til þetta ráðuneyti, sem heyrir undir alla ríkisstj., sem eins konar prógramræðu um, hvað gera skuli í efnahagsmálum Íslands á næstunni, sem einhver vísindamaður. Hafi slíkt verið tilgangurinn, er það mjög illa af stað farið, í fyrsta lagi að velja til slíks ráðuneytisstjóra. Það er sú tegund embættismanna íslenzka ríkisins, sem sízt hefur verið flíkað í pólitískum deilumálum og á ekki að gera leik að, hvorki af þeirra hálfu né annarra, að draga þá inn í þau. Þeir hafa svo að segja verið þeir ópólitískustu þjónar í stjórnarráðinu, þó að þeir eigi að geta haft sínar skoðanir eins og aðrir menn.

Væri svo, að það hafi hins vegar verið tilgangurinn, þá vil ég aðeins lýsa því yfir, ef það kynnu að vera einhverjir, sem glæpast á því, þegar slæm ráð eru brugguð þjóðinni undir yfirskini vísinda og jafnvel embættismennsku, að vísindalegan grundvöll var ekki að finna í þessari ræðu. Og það er furðuleg ósvífni af einum embættismanni úr stjórnarráðinu að leyfa sér að koma fram á fullveldisdaginn til þess að gera ráðstafanir til þess að reyna að rífa allt niður, sem sjálfstæði Íslands byggist á. Ég vil aðeins geta þess, af því að ég ætla ekki í umr. um þetta mál hér nú, en óska aðeins eftir svari frá ríkisstj., að svo framarlega sem slík efnahagspólitík hefði verið viðhöfð síðustu 20 árin, sem þessi ráðuneytisstjóri efnahagsmrn. lagði til í sinni ræðu í gær, þá hefði Ísland búið í dag við sömu fátæktina og fyrir stríð. Hæstv. viðskmrh. van nýlega að hæla sér af því við einn erlendan ráðamann, Mikojan, sem kom hér á Keflavíkurflugvöll, að hér á Íslandi byggju menn við einhver beztu kjör í heimi. Hæstv. viðskmrh. hefði ekki þurft að hæla sér af því, svo framarlega sem vísindamenn af því tagi, sem þessi ráðuneytisstjóri er, eftir tali hans í gær að dæma, hefðu fengið að ráða því, hvað gert hefði verið hér á Íslandi síðustu 20 árin. Þá hefði sama fátæktin, sama eymdin verið hérna eins og var fyrir stríð, ef farið væri að þeim kenningum, sem þar voru boðaðar.

Það þykir máske eðlilegt af öllum almenningi í landinu að ganga í skrokk á þeim mönnum, sem kallaðir eru stjórnmálamenn, svívirða þá við öll möguleg tækifæri og níða niður þeirra verk. En Ísland væri ekki það, sem það er í dag, þannig að hæstv. ráðh. finna meira að segja ástæðu til að hæla sér af því gagnvart útlendum mönnum, svo framarlega sem það hefðu ekki verið stjórnmálamenn Íslands í samráði við alþýðuna á Íslandi, sem hefðu gert Ísland sérstaklega á síðustu 20 árum að því, sem það er, án þess að hlusta á og með því að traðka undir fótum vitlausar ráðleggingar þeirra manna, sem ekkert hafa gert annað og aldrei hafa séð önnur úrræði en reyna að steypa Íslandi fram af einhverju ímynduðu hengiflugi, sem þeir hafa séð. Það eru stjórnmálamenn Íslands í virku samstarfi við þjóð þessa lands, sem hafa umskapað Ísland á þessum 20 árum án þess að fara eftir vitlausum hagfræðikenningum, sem ungir skólapiltar læra í skóla og vilja fá tækifæri til að hafa íslenzku þjóðina tilraunadýrið fyrir.

Ég mundi álíta það illa farið og vil segja það við ríkisstj., af því að mér finnst á henni, að hún vilji flýta sér að losna við öll áhrif stjórnmálamanna og Alþingis, kannske fara að ráðum einhverra svona hagfræðinga, — ég vil segja það við hana, að það að hleypa þessum mönnum að íslenzkum þjóðarbúskap, þeim sem við, þessir stjórnmálamenn, í krafti þeim, sem þjóðin hefur gefið okkur, höfum skapað á þessum árum, hleypa þeim að þeim lífskjörum, sem við höfum mótað á Íslandi í þessi 20 ár, það er eins og að láta skottulækni ganga að lifandi manni með ryðgaða breddu í hendinni til þess að skera hann upp og hlaupa frá uppskurðinum í miðju kafi. Við höfum séð þess háttar tilraunir gerðar hér áður, fyrir 10 árum, og mig langar ekki til að lifa þær aftur fyrir mitt leyti. Þess vegna óska ég eftir, að ríkisstj. gefi yfirlýsingu um það, hvort þessi ræða var flutt af ráðuneytisstjóranum að hans eigin frumkvæði eða hvort hún var flutt að einhverju leyti í samráði við hæstv. ríkisstj. og eigi að boða stefnu hennar. Og vara vil ég svo ríkisstj. við, ef einhver úr henni kynni að glæpast á því að vilja taka það sem einhver óskeikul vísindi, sem lærðir menn bera fram, að fara út í það ævintýri að fara að prófa þau á okkar þjóð. Menn geta treyst læknum fyrir að skera sig upp við slæmum kvilla. En ef menn ætla að treysta hagfræðingum fyrir því að stjórna því, hvernig þjóðfélagið eigi að vera, í stað þess að hafa manndóm, eins og við íslenzkir stjórnmálamenn höfum reynt að hafa undanfarið, til þess að stjórna landinu sjálfir með því umboði, sem okkur er gefið, þá vil ég a.m.k. vara ríkisstj. við því að ætla að skjóta sér undan þeirri ábyrgð, sem á okkur hvílir, með því að ætla að vitna í, að farið hafi verið að ráðum einhverra vísindamanna.