03.12.1959
Sameinað þing: 6. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3529 í B-deild Alþingistíðinda. (1707)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eysteinn Jónsson:

Ég benti á það áðan í fsp. minni, að hæstv. fjmrh. hefði lýst því yfir í Ed., að brbl. yrðu lögð fyrir Alþingi, áður en þingfrestunin ætti sér stað, og ég spurði hæstv. landbrh. að því, hvort þetta væri rétt, hvort þetta yrði gert. Þessu vill hæstv. ráðh. ekki svara nema eintómum vífilengjum. Hann svaraði þessu raunar alls ekki. Hann sagði að vísu, að brbl. mundu verða lögð fyrir Alþingi. Mikið var, að þau skyldu einhvern tíma verða lögð fyrir Alþingi, og stappar þó nærri að álíta, að það hafi verið fyrirætlunin að leggja þau í raun og veru alls ekki fyrir Alþingi, því að þau eru tímabundin, lögin. En spurningu minni vildi hæstv. landbrh. alls ekki svara og hefur ekkert hér fram að færa annað en sömu vífilengjurnar og áður. En ég vil benda hæstv. landbrh. á, að hann þarf ekki því um að kenna, að hann hafi ekki verið aðvaraður í sambandi við þetta mál. Ef hann og ríkisstj. ætlar sér að traðka á þingræðinu og í raun og veru á ákvæðum stjórnarskrárinnar, þá skeður það ekki fyrir það, að þeir hafi ekki verið aðvaraðir um þetta mál. Og ef það er ætlun hæstv. ríkisstj. að halda þannig á málinu að sniðganga ákvæði stjórnarskrárinnar og virða þingviljann um þetta mál að vettugi, þá er það sannarlega hættulegt fordæmi, sem þar er verið að skapa. Ég vil biðja hv. alþm. að gera sér það ljóst, að meiri hluti þeirra manna, sem nú sitja á Alþingi, hefur lýst því yfir, að þeir væru á móti þessum brbl. En það er ekki annað sjáanlegt í dag en hæstv. ríkisstj. ætli að halda þannig á málinu, að hún ætli að senda þessa þm. heim, til þess að þeir geti ekki komið fram vilja sínum í málinu, og ætli síðan að fara með þetta efni eins og henni sýnist.

Hvað mundu menn kalla svona aðfarir, ef þetta stendur til, sem bráðlega mun koma í ljós? Og ég aðvara hæstv. landbrh. alvarlega, áður en þeir leggja út í þessi vinnubrögð. Og ég trúi því ekki, fyrr en ég sé það, að þeir sömu þm., sem hafa lýst því yfir í kosningabaráttunni, að þeir væru á móti brbl., rétti upp hendurnar með því að fara heim, áður en þingið getur tekið afstöðu til þessa máls. Það er þá algerlega nýtt í þingsögunni, ef þannig menn hafa valizt á Alþingi, að þetta verði gert. Ég skora á þá, sem hér eiga hlut að máli, að láta ekki stjórnina leiða sig út í neinar ógöngur í þessu efni og athuga vel, hvað verið er að fara.