11.02.1960
Efri deild: 18. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3539 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Það hefur verið greinilega á það bent í þessum umr. hér utan dagskrár, að hér sé um mjög óvenjulegan hátt að ræða í sambandi við dreifingu á því riti, sem lagt hefur verið á borð þm. og auglýst hefur verið í blöðum, a.m.k. í Morgunblaðinu, og útvarpi, að ætti að senda inn á sérhvert heimili á landinu. Það hefur verið bent á það, að hér sé um rit að ræða, sem túlkar einungis sjónarmið eða skoðanir ríkisstj. og þeirra flokka, sem hana styðja, en í þessu riti felst ekki grg. um viðhorf þjóðarinnar í heild til þess máls, sem hér er fjallað um, og þess vegna er þetta rit ekki neitt sambærilegt við hvíta bók um landhelgismálið, sem þó hefur verið tekin hér til samanburðar og minnt á af hæstv. forsrh. Í landhelgismálinu stendur þjóðin einhuga, og hvít bók, sem gefin er út um það efni, er túlkun á málstað íslenzka ríkisins og íslenzku þjóðarinnar í heild gagnvart öðrum þjóðum. En í þessu riti felst einungis túlkun á skoðunum þingmeirihl., sem styðst við tæp 55% af íslenzkum kjósendum. En meginefni þessa rits er grg. með frv., sem mun verða eitt hið mesta átakamál milli þingmanna og þingflokka nú á þessu þingi. Og þeir, sem líta öðruvísi á málið en fram kemur í þessu riti, eru kjörnir hingað inn á löggjafarþingið af rúmlega 45% kjósenda í landinu.

En það er meira, sem er eftirtektarvert í þessu efni. Það þarf ekki annað en líta á, hvernig ritið er að formi til, að það er öðruvísi frá því gengið en venja er um hlutlausar skýrslur, sem ríkisstj. gefur út. Þetta rit er greinilega sett upp með áróðursblæ, eins og slyngur blaðamaður hefði um það fjallað.

Ef við lítum á 1. blaðsíðuna, sem skiptist í 2 kafla, þá er í fyrri kaflanum, sem er tæp hálf blaðsíða, fjórum sinnum lögð áherzla á, hvað ríkisstj. gerir. Það er 4 sinnum endurtekið í fyrsta kaflanum á 1. bls. þessa rits. Það er ekki íslenzka þjóðin eða þjóðarheildin, sem þar er talað um, heldur ríkisstj. Og ef við flettum þessu riti, þá er það greinilegt, að það er frá því gengið með áróðursblæ blaðamanna, en ekki fyrst og fremst sem hlutlausu riti eða opinberri skýrslu af hálfu stjórnarvaldanna.

Ég skal nefna örfá dæmi þessum orðum til stuðnings.

Ég fletti upp bls. 28. Þar stendur á miðri bls. stór kaflafyrirsögn, þar sem fjallað er um bætur, sem tryggingarnar eiga að greiða, — þar stendur stór kaflafyrirsögn: „Greiðast að fullu úr ríkissjóði.“ En þegar lesið er efni málsins, þá er þetta tekið aftur að verulegu leyti, eins og raunar í grg. með frv. Í efni málsins segir undir kaflafyrirsögninni: „Þá er rétt að geta þess, að fjölskyldubæturnar eiga nú að greiðast að fullu úr ríkissjóði, sem og verulegur hluti af þeirri almennu hækkun bótanna, sem hér var vikið að. Að öðru leyti skiptast byrðarnar á ríkissjóð, hina tryggðu, atvinnurekendur og sveitarsjóði í sömu hlutföllum og verið hafa.“ Efnið er sem sé ekki í samræmi við kaflafyrirsögnina, því að hér í efni málsins er talað um að skipta byrðum á ríkissjóð, hina tryggðu, atvinnurekendur og sveitarsjóði, en kaflafyrirsögnin er með áróðursblæ blaðamannsins um, að það greiðist að fullu úr ríkissjóði.

Ég skal nefna annað dæmi. Ég fletti upp á bls. 40. Þar er önnur kaflafyrirsögn: „Innflutningshöftin hverfa.“ En í efni málsins er þetta tekið aftur að verulegu leyti, því að þar segir m.a.: „Í reynd mundi þetta,“ — þ.e.a.s. skipun innflutningsmálanna, — „þýða, að innflutningur þessara vörutegunda yrði lítt takmarkaður frá jafnkeypislöndunum, eins og verið hefur undanfarið.“ Og svo er sagt hér aftur, að af þessum 40% yrði mikill hluti fluttur inn frá jafnkeypislöndunum, þannig að innflutningur samkv. leyfum frá frjálsgjaldeyrislöndum yrði varla meiri en 10–15% af heildarinnflutningi. En í kaflafyrirsögninni er þessu stillt upp með áróðursblæ: „Innflutningshöftin hverfa.“

Ég ætla að nefna þriðja dæmið. Ég fletti upp á bls. 29. Þar er yfirlit, tafla, sem ber fyrirsögnina: „Yfirlit um bótaupphæðir nú og samkv. nýjum lögum.“ Og svo kemur þar neðan undir: „Núgildandi lög um almannatryggingar.“ Og svo aftan við: „Ný lög.“ Og undir þeirri fyrirsögn eru tölur — nýjar tölur um bótaupphæðir almannatrygginga. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: Hver hefur sett þessi nýju lög, sem hér er vitnað til í þessari bók? Ég hafði ætlað, að löggjafarvaldið væri enn hjá Alþ. Íslendinga, og mér er ekki kunnugt um, að það sé einu sinni búið að leggja hér fyrir frv. um þetta efni. En í þessari bók, sem sagt er að sé hlutlaus skýrsla gefin út af ríkisstj., eru samt tilgreindar ákveðnar bótaupphæðir skv. nýjum l. um almannatryggingar, en ekki samkv. till., sem ríkisstj. hyggist leggja fyrir Alþ. Með þessu er Alþ., löggjafarsamkoman, lítilsvirt, ekki aðeins stjórnarandstaðan, heldur engu síður stuðningsmenn ríkisstj., því að hér er beinlínis þessu stillt þannig upp, að allt sé fyrir fram ákveðið í þessum nýju l., og það á að senda þessa skýrslu inn á hvert heimili landsins og segja þar fyrir fram: Svona verða bótaupphæðirnar, þarna má ekki hagga stafkrók. — Hvers virði eru þá störf þm. í n. og yfirleitt aðstaða þeirra við löggjafarstarfið, þegar svona er, þegar þetta er tilkynnt inn á hvert heimili landsins fyrir fram?

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. En þegar ég annars vegar fletti þessari bók og sé, hvernig efni málsins er þar stillt upp, og heyri hins vegar í útvarpi þær tilkynningar, sem komu í því í gær og svo er endurtekið í blöðum, þá finnst mér hér sannarlega vera efni á ferð, sem vert er að vekja athygli á.