11.02.1960
Efri deild: 18. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3551 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það þarf ekki nema fáeinar setningar til að svara þeirri fsp., sem þm. beindi sérstaklega til okkar ráðherranna, sem staddir eru hér í deildinni. Hann spurði, hvaðan talan 1466 millj. um gjaldeyristekjur þjóðarinnar 1959 væri komin, hvernig á henni stæði.

Þeir, sem bókina hafa fyrir framan sig eða hlutaðeigandi opnu, sjá, að yfirskriftin yfir þeirri töflu, sem þessi tala er úr, heitir „áætlanir“. (Gripið fram í.) Þar stendur: yfir árin 1959, 1960, 1961, 1962 og 1963. Þessi tafla er að sjálfsögðu samin fyrir áramót, þegar ógerningur var að afla með nokkurri vissu upplýsinga um gjaldeyristekjur ársins 1959. Það er ekki heldur hægt nú. Það er því alger ógerningur að segja nokkuð til um það nú í dag, öðruvísi en sem áætlun, hverjar gjaldeyristekjur ársins 1959 verða.