11.02.1960
Efri deild: 18. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3552 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég get vel skilið það, að stjórnarliðinu liggi nú mikið á að skera niður þessar umræður, því að það leynir sér ekki, að þeir skammast sín undir niðri fyrir athæfið, sem þeir eru nú uppvísir að. Það hefur komið hér greinilega fram og rökstutt rækilega, að þessi hvíta bók, sem þeir kalla, en ætti að heita bláa bókin, alveg eins og Morgunblaðsbækurnar, sem gefnar eru út í kosningum, er blekkingarit, gefið út á ríkiskostnað. En í hvaða tilgangi eru þeir að gefa út þetta rit? Þeir vita, að aðgerðir þeirra í efnahagsmálunum fá þær undirtektir hjá þjóðinni, að þeir grípa til örþrifaráða til þess að reyna að bjarga sér. Þetta er tilefnið til útgáfu bókarinnar.

Uppsetningin á ritinu er alveg eins og það væri tekið upp úr Morgunblaðinu. Og af því að þessir tveir flokkar kunna ekki við að slá Alþýðublaðinu og Morgunblaðinu í eitt rit og gefa það út á sinn kostnað, þá taka þeir þetta ráð.

Þetta er örþrifaráð til að reyna að bjarga sér út úr erfiðleikunum og vandræðunum, þegar þeir heyra alls staðar að á landinu, hvernig tekið er efnahagstillögum þeirra, sem nú eru bornar fram. Svo er þetta kórónað með því, að þeir, sem eru blekktir, eru látnir borga blekkingarnar, það er alveg sérstætt.

Sá eini maður, sem hefur þó komið upp í stólinn til þess að reyna að verja gerðir stjórnarinnar, hv. 11. þm. Reykv. (ÓB), hafði ekkert að segja annað en að hann hafi þurft að reiða bækur, þegar hann var unglingur, — bækur, sem hann vissi ekkert, hvað var í, því að hann hafði ekki vit á því þá, svo að hann hefur ekki verið gamall.

Já, fólkið er látið borga blekkingarnar. Morgunblaðið gat ekki borgað þær né Alþýðublaðið, ríkissjóður verður að borga þær.

Annars er það kannske það táknrænasta við þetta rit, að ekki einn einasti sérfræðingur, ekki einn einasti hagfræðingur lætur nafn sitt þar nálægt. Enginn veit, hvað er tilbúningur ríkisstj. sjálfrar og hvað er frá hagfræðingum eða sérfræðingum. Ekki einu sinni hv. 11. þm. Reykv. lætur nafn sitt þarna. Og í skjóli þess, að allt sé frá sérfræðingum komið og hagfræðingum er þessu dreift út um landið. Nú hefur einn hagfræðingurinn tekið sig til og skrifað opinberlega, meira að segja í sjálft Morgunblaðið, mótmæli gegn þeim staðhæfingum, sem standa í þessu riti.

Hæstv. forsrh. ætlaði að fara að verja gerðir sínar með því, að það hefðu verið samþ. fjáraukalög. Ríkisstjórnir þyrftu oft að eyða peningum í hluti, sem væri ekki vitað um fyrir fram, og þess vegna þyrfti að fá samþ. á Alþ. fjáraukalög. M.ö.o.: ef þeim dytti nú í hug að gefa hreinlega út Morgunblaðið, þá er það allt í lagi, bara ef það eru lögð fram fjáraukalög á eftir. Það eru röksemdir þetta!

Ég skal ekki fara frekar út í þetta mál, enda munu þessar 3 mínútur, sem stjórnarliðið hefur ákveðið að skammta mönnum, sennilega liðnar. En ég vil enda með því, að ég tel þetta ótvírætt hneyksli og ég tel það alveg skýlaust, að hneykslið er til komið af því, að stjórnarliðið sér, hvernig þjóðin tekur undir þær aðgerðir, sem flokkarnir eru nú að bera fram á Alþ.