11.02.1960
Efri deild: 18. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3553 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Finnbogi R. Valdimarsson:

Það skulu ekki einu sinni verða 3 mínútur, herra forseti. — Hæstvirtir ráðherrar, sem ég beindi hér ákveðinni áskorun til um að geta um heimildarmenn að þeirri tölu, sem ég nefndi um gjaldeyristekjur Íslendinga 1959, gátu ekki eða virtust ekki. geta gefið upp þessa heimildarmenn, hvorki menn né stofnanir. Ég veit, að það er enginn hagfræðingur eða hagfræðistofnun til, sem vill standa við það, að gjaldeyristekjur Íslendinga 1959, eins og þær eru kunnar í dag, séu þetta. Hæstv. viðskmrh. sagði sér til varnar, að taflan væri að sjálfsögðu samin fyrir áramót. En hún er lögð fram 10. febr. fyrir Alþ. og þjóðina til þess að draga síðar ályktanir af um afkomu þjóðarinnar á árinu 1959, og er vitanlegt, að það eru til nú fáanlegar miklu nákvæmari tölur, svo nákvæmar, um gjaldeyrisafkomu þjóðarinnar á árinu 1959, að ég fullyrði, að það þyrfti ekki að skakka mörgum milljónum á endanlegu uppgjöri.

Mér er sagt, að þessar áætlanir um gjaldeyristekjur 1959, 1960 og alveg upp í 1963 hafi verið samdar í október eða nóvembermánuði s.l. af efnahagsmálaráðunaut ríkisstj. En það er allt annað að gera áætlun um gjaldeyristekjur ársins 1959 í október eða nóvember eða að segja í febrúar, hvað þær hafi orðið, og það er það, sem er verið að segja hér.

Hæstv. ráðh. hafa sem sagt ekki getað nefnt nokkurn heimildarmann sinn að þessu veigamikla atriði til upplýsingar fyrir Alþ., hvað gjaldeyristekjur íslenzku þjóðarinnar voru á árinu 1959. Þeir geta það ekki. Ég veit, að þeir þora ekki að nefna efnahagsmálaráðunaut ríkisstj., Jónas Haralz. Ég veit, að þeir þora ekki að nefna hagfræðideild Landsbankans, Seðlabankans. Ég veit, að þeir þora ekki að nefna Hagstofu Íslands. En þeir menn, sem hafa lagt þessar upplýsingar um gjaldeyristekjur Íslendinga á árinu 1959 fyrir Alþ. nú í gær og fyrir þjóðina, dreifa því út meðal hennar næstu daga, þeir eiga að biðjast afsökunar, og það á að gefa út aðra bók, viðbót við þessa bók, til leiðréttingar og afsökunar á þessum fölsuðu upplýsingum.

Á 26. fundi í Nd., 11. febr., utan dagskrár, mælti