22.02.1960
Neðri deild: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3561 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það þarf nú engum að koma á óvart, þó að þessi vaxtabreyting hafi verið gerð, því að hún var boðuð þegar í sambandi við afgreiðslu efnahagsmálafrv., sem samþ. var hér fyrir helgina.

Um spurningu hv. 1. þm. Austf. (EystJ) vil ég segja það, að lánstíma hefur verið breytt, bæði hjá ræktunarsjóði og fiskveiðasjóði, úr 20 árum í 15 ár og á lánum til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum úr 50 árum í 42 ár, en að öðru leyti er lánstíminn hugsaður sá sami og verið hefur, þ.e.a.s. 25 ár fyrir A-lán húsnæðismálasjóðs og 15 ár fyrir B-lánin, 42 ár fyrir byggingarsjóð sveitabæja og verkamannabústaðasjóðinn, en sem sagt ræktunarsjóður og fiskveiðasjóður færðir niður í 15 ár.

Að öðru leyti þarf ég ekki að svara þessum hv. þm. öðru. Hann var að spyrja um, hvort samráð hefði verið haft við stjórnir fjárfestingarsjóðanna, áður en þetta var gert. Það var haft samráð við þá á þann hátt, að þeir, sem til náðist, voru kallaðir til fundar á laugardagsmorguninn fyrir hádegi. Þar mættu að vísu ekki allar stjórnirnar fullskipaðar, en ég ætla flestar þeirra. Að vísu var það rétt, að hv. þm. var þar ekki með. Það var rætt um það fram og til baka, hvernig þessi vaxtabreyting færi fram, ýmis framkvæmdaratriði rædd og fengnar till. sjóðsstjórnanna um þau framkvæmdaratriði og þær aths., sem stjórnirnar fluttu, að ég ætla, flestar þar teknar til greina.

Að öðru leyti held ég ekki, að það hafi verið fleira í ræðu hv. þm., sem ég þarf að svara. Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) spurðist hér fyrir um það, hvort stjórn Seðlabankans hefði verið kvödd til á þennan fund, en það var hún ekki. En ég ætla þó, að hún hafi fengið málið til meðferðar. A.m.k. var aðalbankastjóranum kunnugt um málið, og hann ætlaði að halda fund og hélt fund bæði á laugardagseftirmiðdag og sunnudag í sinni stjórn, áður en málið var þar afgreitt.

Að öðru leyti um sjálfa vaxtahækkunina og hvers vegna, hún er gerð þarf ég ekki að ræða. Það mál var svo ýtarlega rætt undir meðferð efnahagsmálsins hér fyrir helgina, og þetta er sem sagt einn þátturinn í þeim efnahagsaðgerðum, sem þá voru boðaðar, svo að þessi breyt. þarf ekki að koma á óvart.