22.03.1960
Efri deild: 45. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3585 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Ásgeir Bjarnason:

Hæstv. ráðh. hefur rætt um Seðlabankann í þessu sambandi, eins og það væri Seðlabankinn, sem bæri fyrst og fremst skylda til að leysa þann vanda, sem þarna var um að ræða. En ég benti á það hér áðan, að hæstv. ríkisstj. er búin að sitja að völdum í 15 mánuði, og hún gerði ekkert árið 1959 til þess að leysa þann vanda, sem þegar lá fyrir í árslok 1958. Og á sama tíma og verið er að skattleggja þjóðina meira en nokkru sinni hefur þekkzt í hennar sögu, þá kvartar hæstv. landbrh. undan því, að það séu mjög miklir erfiðleikar að leysa málefni þeirra sjóða, sem eiga að rísa undir atvinnulífinu í landinu. Ég hygg, að það kunni vel að vera, að það sé vandi og ekki sízt fyrir þær aðgerðir, sem verið er að gera nú, því að ef sjóðirnir eiga að rísa hlutfallslega undir jafnháum lánum af þeim framkvæmdum, sem kostað verður til í framtíðinni, eins og verið hefur, þá þarf miklu meira fjármagn til þeirra en verið hefur undanfarandi, svo að að því leyti til er skiljanlegt, að það verði erfiðleikar, og þeir verða þá fyrst og fremst í sambandi við þær aðgerðir, sem verið er að gera í efnahagslífinu nú. En það var vel nægt að leysa þessi mál í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna á s.l. ári og sjá byggingarsjóði Búnaðarbankans fyrir því fjármagni, sem hann þurfti á að halda þá. En um þetta sveikst fyrrv. ríkisstj. og þeir flokkar, sem að henni stóðu, Sjálfstfl, og Alþfl., gersamlega, og því stendur Búnaðarbankinn frammi fyrir þeim vanda, sem hann er nú i, að hafa ekki getað veitt einum einasta byrjanda í íbúðarhúsbyggingu lán á árinu sem leið. Þetta er atriði, sem ekki verður hægt fram hjá að komast. Það hefur alltaf verið venja, að sú stjórn, sem hefur farið með völdin í landinu, hefur, jafnóðum og á hefur þurft að halda, leyst þennan vanda. En í fyrsta skiptið, eftir að framsóknarmenn fara úr ríkisstj., eru engir peningar til, og virðist vera mjög erfitt að leysa þessi vandamál. Og það var fyrir það, að sú stjórn, sem sat að völdum, vildi ekki leysa þessi vandamál, en ekki fyrir það, að það væri ekki hægt.