02.06.1960
Neðri deild: 93. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3608 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég gerði fsp. hér í upphafi fundarins til hæstv. ríkisstj., sem var ekki svarað. Ég geri ráð fyrir því, að það hafi verið vegna þess, að sá ráðh., sem sérstaklega fjallar um lántökur, var ekki viðstaddur. Ég vildi því endurtaka þessa fsp., af því að ég sé, að hæstv. fjmrh. er nú viðstaddur.

Það er í fjárl. fyrir 1959 heimilað að taka erlent lán að upphæð allt að 6 millj. dollara. Síðan segir í fjárlagagr., með leyfi hæstv. forseta: „Af þeirri fjárhæð skulu eftirtaldar upphæðir endurlánaðar svo sem hér segir“ — og eru þar taldar upp fjárhæðirnar, og samtals nema þær fjárhæðir 98 millj. kr.

Nú hefur verið upplýst samkvæmt því, sem spurt hefur verið um, að óráðstafað muni vera af þessu láni um 115 millj. kr. Ég hef alltaf verið að búast við því hvern dag, að það kæmu fram till. frá hæstv. ríkisstj. um, hvernig þessum 115 millj. skuli varið, því að það gefur auga leið, að það er ætlazt til þess, að það verði hv. Alþingi, sem skiptir þeirri fjárhæð eins og hinu, sem áður hefur verið ákvarðað um í fjárl. En það hefur ekki orðið. Þar sem nú er mjög liðið að þingslitum, vildi ég spyrja hæstv. fjmrh., hvort ekki væri von á því, að hæstv. ríkisstj. legði fram till. sínar um, hvernig þessu fé skuli ráðstafað.

Ég vil benda á, að ef þetta verður ekki gert núna, þá sýnist mér, að það muni ekki vera hægt að ráðstafa þessu fyrr en á næsta þingi, en hér er um verulega fjárhæð að ræða og mörg aðkallandi verkefni, sem þyrfti að fá af þessu fé til nú á þessu sumri.