25.04.1960
Sameinað þing: 42. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3614 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

Landhelgismál

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég get í öllum aðalefnum tekið undir það, sem hv. 1. þm. Austf. (EystJ) sagði. Við höfum nauðalitla aðstöðu til að dæma það, sem er að gerast þarna, og þó að ég telji mig hafa haft miklu betri aðstöðu en hv. þm. almennt, þar sem ég hef talað við þessa menn daglega, þá veit ég vel, að þeir, sem lifðu, hrærðust og önduðu á staðnum, höfðu næmari tilfinningu fyrir málinu en ég, þótt ég væri svona nærri þeim og fengi svona miklar upplýsingar.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) spurði, hvort stjórnin mundi mæla með því eða beita sér fyrir því, að Ísland greiddi atkv. á móti Kanada- og Bandaríkjatill., ef búið væri að samþykkja inn í hana okkar till. Ég tek fram, að þeir ráðh., sem eru þarna ytra, eiga eðli málsins samkv. að ráða þessu, en ég tek hitt líka fram, að ég tel ekkert vit í því að greiða þá atkv. á móti. Við teljum, að ef við erum búnir að tryggja okkar 12 mílna landhelgi, þá eigum við ekki á eftir að greiða atkv. á móti því að fá þá tryggingu. Ég hef ekkert umboð frá neinum í þessu þjóðfélagi — engum — til þess að afsala Íslandi 12 mílna fiskveiðilandhelgi, bara af því að einhver önnur þjóð fær ekki 12 mílna landhelgi. Annað er fátæka mannsins einasta lamb, það er okkar fiskur, hitt er hápólitískt og hernaðarlegt mál, sem okkur kemur hreint ekkert við. Hann má ekki halda, þessi þm., þó að hann hafi einhverja samúð með einhverjum ákveðnum stórveldum, að hann sé þeirra foringi. Hann telur sig orðinn heimsforingja og mig líka. Ég segi nú bara um garminn hann Ketil, þ.e.a.s. mig: Ég finn ekki þessa heimsforingjatign mína. Nei, við erum sendir til að þjóna Íslandi og höfum gert það. Hitt er svo alveg rétt, sem hv. 1. þm. Austf. sagði, það getur verið álitamál, hvernig á að fara að því. Við skulum bara láta þá rífast um það og skýra það fyrir okkur, sem þar hafa verið, og ég ætla ekki að vera að kveða upp neina sterka dóma hér. Við höfum talið þetta skynsamlegt, og þess vegna höfum við gert það, sem gert hefur verið. Ég hef rök hérna uppi í erminni, sem sannfæra mig um, að það er ekkert vit í öðru en að hafa borið fram þessa till. og reyna að fá hana samþykkta. Ég álít ekki málinu til góðs að vera að tíunda þau hér, en ég veit, að hæstv. félmrh., sem fer með utanríkismálin, mun skýra það fyrir hv. utanrmn. í dag, og mér finnst þau rök ákaflega sterk. En sem sagt, sá, sem ætlar að forðast deilur, og það ætla ég, hann stendur ekki hérna og segir: Ég veit einn allt, og ég hef einn vit á, hvað á að gera, og hinir eru tómir asnar. — Hv. 3. þm. Reykv. segir: Ég trúi alveg Ólafi Thors. — Og hann má gera það. Hann má vel trúa mér og ég honum. En hann segir: Ég efast ekkert um, að hinir ráðh. hafi verið að tala við bæði Breta og aðra. — Ég skal segja honum alveg fyrir víst, að allir okkar samninganefndarmenn hafa meira og minna verið að reyna að ná í alla menn þarna suður frá til þess að vinna okkar máli gagn. Þau eru ekki þýðingarminnst, þessi daglegu viðtöl á bak við tjöldin. Við reynum að fá t.d. stórveldið Rússland til að standa sem fastast með okkur. Við reynum að fá Bandaríkin til þess að skilja það, að þau verði að standa með okkur líka. Og við höfum hins vegar sagt þessum mönnum alveg einarðlega, hvers vegna við gerum þessa hluti og að við verðum að gera það, af því að við erum þjónar þessarar litlu þjóðar, sem getur ekki lifað án þess að fá þennan rétt viðurkenndan.

Mér þykir það náttúrlega sómi, að grísk blöð skrifa um okkur og baráttuna eins og Davíð og Golíat. En hvernig var það nú? Var það ekki Davíð, sem vann á Golíat á sínum tíma? Mér þætti ekkert leiðinlegt, að íslenzki Davíðinn hefði slöngvað einum smásteini á Golíatinn brezka.

Hv. 3. þm. Reykv. var of stórorður, þegar hann sagði, að það væri blettur á Íslendingum að hafa flutt þessa tillögu. Ég segi honum af alveg sama heilhug og ég býst við að hann tali af, þegar hann segir þetta, að ég teldi, að það hefðu verið svik við íslenzku þjóðina, ef við hefðum ekki flutt þessa tillögu, og ég get fært rök, sem ég tel þó ekki málinu til góðs að gera nú, fyrir þessu, sem ég er að segja. Og ég á ekki gott með að trúa því, að svo greindir menn sem hér eiga hlut að máli sjái a.m.k. ekki, að það þarf að láta reyna á, hverjir standa með Íslandi í þessu. Það þarf að láta reyna á það með atkvgr.

Ég skal svo ekki, nema alveg sérstakt tilefni gefist til, fara um þetta fleiri orðum, því að ég er sammála því, að okkur ber að fresta deilum þar til síðar, ef deilur þurfa að vera.

Hinu get ég svo huggað vin minn, hv. 3. þm. Reykv., með, að ekkert bréf fékk ég frá Eisenhower.