19.04.1960
Sameinað þing: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3635 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

Veiðafæratjón vélbáta af völdum togara

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör, sem hann gaf hér áðan. En í einu atriði get ég ekki verið sammála honum, og það er þegar hann segir, að í sambandi við bótaréttinn skipti það meginmáli, hvort togararnir séu í landhelgi eða ekki í landhelgi. Það eru í gildi reglur um verndun veiðarfæra, og hvort sem togarar valda tjóni á veiðarfærum innan landhelgi eða utan, ef þeir gera það af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, þá á að bæta það tjón, sem þeir, sem veiðarfærin eiga, verða fyrir.

Ég tel í þessu tilfelli, að um hliðstæðu sé að ræða að því leyti, að bæði gagnvart Ólafsvíkurbátunum og Grindavíkurbátunum hefur af hreinum ásetningi verið valdið tjóni á veiðarfærum netabáta, og ef ríkissjóður teldi sér skylt að bæta Ólafsvíkurbátum það tjón, sem þeir urðu fyrir af þessum ástæðum, þá tel ég, að hann hljóti alveg eins að verða að bæta Grindavíkurbátum það tjón, sem þeir urðu fyrir í þessu tilfelli.