05.02.1960
Neðri deild: 23. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

48. mál, efnahagsmál

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. „Það er alveg vonlaust verk að meta rétt tillögur í efnahagsmálum nema hafa það fast í huga, að skrásetning íslenzku krónunnar er algerlega röng.“

„Sannleikurinn er sá, að það er ekki hugsanlegt að koma nokkru viti í efnahags- eða framleiðslumálin — og það vita engir betur en framleiðendur bæði til lands og sjávar og vinnandi fólk yfirleitt, nema fjárfestingunni verði stillt meira í hóf en verið hefur um sinn.

Hugmyndir þær, sem ýmsir gera sér um, að hægt sé að framkvæma ótakmarkaða fjárfestingu fyrir erlent lánsfé, án þess að þjóðarbúið sporðreisist gersamlega, fá ekki staðizt. Það er hvorki mögulegt vegna þess takmarkaða vinnuafls, sem Íslendingar geta lagt fram, né heldur hugsanlegt að hafa nokkurs staðar ótakmarkaðan aðgang að erlendum lánum.“

„Enginn skyldi halda, að hægt sé að útvega lán erlendis takmarkalaust og til hvers sem er, þótt nauðsynlegar framkvæmdir séu. Um það hafa Íslendingar glögga reynslu.“

„Sú fjárhæð fer ört vaxandi á næstunni, sem greiða þarf í vexti og afborganir erlendra skulda, svo ört, að tvímælalaust þarf að gæta fyllstu varúðar í sambandi við lántökur erlendis á næstu árum, enda raunar fyrirsjáanlegt, að erlendar lántökur til venjulegra framkvæmda geta alls ekki orðið jafnmiklar í náinni framtíð og þær hafa verið nú um sinn. Við verðum einnig framleiðslunnar vegna að stilla fjárfestingunni eðlilega í hóf.

Einnig þarf að hafa það fast í huga, að það er ekki fær leið að taka stórlán erlendis til stutts tíma til framkvæmda. Ef slíkt er gert, þá hlýtur af því að leiða gjaldeyriskreppu og aðra ófyrirsjáanlega fjárhagslega erfiðleika.

Þetta vil ég leggja sérstaka áherzlu á vegna þess, hve mikið verður vart við, að menn hafi áhuga fyrir slíkum lántökum til góðra og glæsilegra framkvæmda — sem ekki er hægt þjóðarafkomunnar vegna að byggja á stuttum erlendum lánum, hversu mjög sem okkur langar til að hrinda þeim í framkvæmd.

Framkvæmdir okkar og möguleikar til stofnlánaveitinga í landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði og öðrum greinum hljóta á næstunni að velta enn meira en verið hefur á því, hvort það tekst að efla lánsfjármyndun (þ.e. sparnað) í landinu sjálfu eða ekki. Erum við þar komin að kjarna málanna og þar með þeim vanda, sem við er að fást í efnahagsmálum okkar.“

Það, sem ég hef nú sagt, hygg ég að sé óhagganlega rétt, og hér er komið að kjarna málsins.

En þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga, hlýtur mér einnig að koma í hug það, sem hæstv. þáv. fjmrh. sagði á Alþingi í júní 1958:

„Er hægt að æra fólk svo með neikvæðum áróðri, að enginn þori að gera neitt af ótta við róginn?“

Þetta hlýtur manni að koma í huga, þegar það er athugað, að allt það, sem ég las upp hér áðan og hef sagt fram að þessu í ræðu minni, er orðrétt haft eftir þessum sama hv. þm. En þá var hann ráðherra, en nú er hann í stjórnarandstöðu, — og beri menn svo saman það, sem hann sagði í þessum orðum, sem hér eru orðrétt lesin upp eftir honum, og þá ræðu, sem hann leyfði sér að halda hér í dag, þegar hann vildi halda því fram, að það væri síður en svo, að við hefðum tekið of mikil lán eða værum yfirleitt í nokkrum vanda með að fá lán. Hann sagði: Hver hefur sagt, að við getum ekki fengið lán? — Hér heyrum við, að Eysteinn Jónsson hefur sagt það hvað eftir annað. Við fáum ekki meiri lán. (EystJ: Hvenær hefur hann sagt það? Varstu að lesa það?) Ef hv. þm. vill ekki heyra sín eigin orð, þá er ekki von, að hann taki mikið mark á því, sem aðrir segja (Gripið fram í.), sérstaklega vegna þess, að hann vill helzt aldrei, eins og við heyrum nú af framíköllum hans, unna neinum að tala nema sjálfum sér eða að neinn ráði neinu í þessu landi, almenningur hafi nein völd yfir sinum málum, — hann vill sitja yfir allra manna hlut. (EystJ: Hvar var það í þessu, að við gætum ekki fengið meiri lán? Því ekki að lesa það?) Við skulum lesa það honum til ánægju: „Enginn skyldi halda, að hægt sé að útvega lán erlendis takmarkalaust og til hvers sem er, þótt nauðsynlegar framkvæmdir séu. Um það hafa Íslendingar glögga reynslu.“

Þetta er haft eftir hv. þm. í Tímanum hinn 7. febr. 1957, fyrir þremur árum. Þá þegar var orðið fullerfitt um að fá lán, og hafði hann þó þá eftir töluvert af sínum ferli í þessum efnum. Og Tíminn hefur eftir honum hinn 13. apríl 1958, svo að ég lesi það aftur: „ .. enda raunar fyrirsjáanlegt, að erlendar lántökur til venjulegra framkvæmda geta alls ekki orðið jafnmiklar í náinni framtíð og þær hafa verið nú um sinn.“

Og við skulum athuga, hversu mikil lán með venjulegum hætti voru tekin af þessum hv. þm. í hans ráðherratíð. Ég hygg, að meginhlutinn af þeim lánum, sem tekinn var, meðan sú ríkisstj. sat, sem hann var síðast fjmrh. í, hafi verið tekinn til mjög skamms tíma, þar frá hafi nær einu undantekningarnar verið lán, sem aflað var hjá Bandaríkjastjórn og stjórn Vestur-Þýzkalands, — og um það, hvernig þau lán voru fengin, hefur Tíminn eftir hv. þm. hinn 13. apríl 1958:

„Út af umræðum, sem hér hafa orðið undanfarið varðandi þessa lántöku og aðrar lántökur og starfsemi Atlantshafsbandalagsins, er þörf á því að taka það eitt fram, sem án efa er þó öllum ljóst orðið fyrir löngu, að vitaskuld njóta Íslendingar við þessar lántökur sínar og hafa notið undanfarið góðs af aukinni samvinnu þjóðanna í Atlantshafsbandalaginu í efnahagsmálum.“

Þarna er það staðfest, sem raunar var vitað af öllum, að þessi lán til langs tíma, þau einu, sem fengust fyrir milligöngu þessa hæstv. ráðh., voru tekin hjá stjórn Vestur-Þýzkalands og stjórn Bandaríkjanna, vegna þess að engir venjulegir lánveitendur fengust til þess að veita slík lán til langs tíma, og þó að sagt sé, að hér sé notið góðs af samvinnu Atlantshafsþjóðanna í efnahagsmálum, þá er sannast bezt um það að segja, að Ísland var ekki aðeins fyrsta, heldur eina landið, sem hefur fengið lán fyrir milligöngu Atlantshafsbandalagsins, — aleina landið. Og við vitum öll, sem í þessum þingsal erum, af hverju Atlantshafsbandalagíð beitti sér fyrir veitingu þessara lána. Það var vegna þess, að hv. þm. gekk á bak orða sinna um að reka burt Bandaríkjaher frá Íslandi. Þetta er sannleikur málsins.

Það má ýmislegt fleira segja um fjárhagsástandið á þessum árum. Það er vafalaust rétt, að „um gjaldeyrisforða er í raun og veru ekki lengur að ræða ... Í öðrum löndum er talað með ugg og ótta, ef gjaldeyrisforðinn fer niður fyrir meðalþarfir vissan hluta árs. … Hjá okkur eru öll slík mörk löngu farin. Hér er enginn gjaldeyrisforði til í þessari merkingu. Hér er aðeins um skuldir að ræða, um það að ræða, hvað forsvaranlegt er og hvað hægt er að skulda miklar bráðabirgðagjaldeyrisskuldir. ... Í þessum efnum dugir engin sjálfsblekkin,g, það verður að horfast í augu við veruleikann, eins og hann er, og reyna að gera úr honum allt hið bezta ...

Í lok ágúst 1958,“ — þegar hv. samþm. fyrrverandi hæstv. fjmrh. var að dásama ástandið sem mest nú áðan, — „var heildargjaldeyrisskuldin að meðtöldum öllum skuldbindingum 238 millj. kr., og hafði hún vaxið ... um 119 millj. frá ársbyrjun 1956. Hér þarf svo að hafa í huga, að auk þessa hafa verið tekin stórlán, bæði 1956, 1957 og 1958. Er því um að ræða ógnarlegan gjaldeyrishalla á þessum tíma.“

Um ástandið 1958 má enn fremur segja þetta, og þá er litið á árið í heild: „Greiðsluhallinn var jafnaður fyrst og fremst með erlendum lántökum; er námu alls 174 millj. kr. samkvæmt bráðabirgðauppgjöri, en jafnframt rýrnaði gjaldeyrisstaða bankanna um 28 millj. kr., þegar ekki eru meðtaldar ábyrgðir og greiðsluskuldbindingar. Stöðug skuldasöfnun hefur óhjákvæmilega í för með sér sívaxandi byrði vaxta og afborgana af erlendum lánum. Á árinu 1958 námu slíkar greiðslur 89 millj. kr., en útlit er fyrir, að á þessu ári“ — þ.e. 1959 — „nemi vextir og afborganir 129 millj. kr., og eru þar þó ekki meðtaldar afborganir af EPU-skuld, sem enn er ekki samið um. Þær greiðslur geta numið 10–15 millj. kr. á árinu. Heildarskuldir landsins eru um síðustu áramót 861 millj. kr. Augljóst virðist vera, að ekki er æskilegt að auka þær fram úr þessu nema til mjög gjaldeyrissparandi framkvæmda.

Samkvæmt áætlunum, sem gerðar hafa verið um greiðslujöfnuðinn á þessu árí, virðist enn útlit fyrir mjög mikinn greiðsluhalla, sem jafna verður með erlendum lánum, ef fást. Búast má við, að þessi halli verði raunverulega meiri en á síðasta ári.

Engin von er því til þess, að hægt verði að fullnægja eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri neitt nærri því til fulls að óbreyttum aðstæðum innanlands.“

Þetta var sagt snemma á árinu 1959, og það var enginn andstæðingur vinstra samstarfsins sæla, sem þetta sagði, þessar tvær síðustu tilvitnanir, sem ég hef lesið upp. Nei, það var sjálfur aðalbankastjóri Seðlabankans, Vilhjálmur Þór, sem var gerður að æðsta yfirmanni bankamála þjóðarinnar af vinstri stjórninni og hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, mælti með til þeirrar stöðu í bankaráði Landsbankans og Framsfl. beitti sér fyrir að fá bankalöggjöfinni breytt til þess að koma í þessa trúnaðarstöðu, — sá maður, sem fulltrúi Alþb. í stjórn Seðlabankans skrifaði um grein í Þjóðviljann snemma í janúar og sagði: Ef við þrír, framsóknarmennirnir tveir, Vilhjálmur Þór, Ólafur Jóhannesson, og ég stöndum saman, þá höfum við meiri hlutann og getum farið okkar fram, hvað sem stjórninni sýnist. Það var þetta sameiningartákn samvinnu Framsfl. og kommúnista, sem gaf þessa lýsingu á gjaldeyrisástandinu 1958, sem óneitanlega er töluvert öðruvísi en stuðningsmaður hans, hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, var að lýsa nú áðan.

Það var svo eftirtektarvert, af hverju hv. 1. þm. Austf. var allt í einu farinn að biðla svo mjög til verkalýðsfélaganna, sem hann taldi ein vera merkari en samvinnufélögin í landinu. Skyldi það vera svo, að samvinnufélögin í landinu væru undir stjórn núverandi herra þeirra komin í þá aðstöðu, að þau þyrftu að leita ásjár til „Moskvukommúnista“ sér til bjargar og viðréttingar í þessu þjóðfélagi? Harðari dómur yfir eigin frammistöðu heldur en þessi Canossaganga hv. 1. þm. Austf. hefur sjaldan heyrzt í sölum Alþingis.

Ætlar hv. þm. nú ekki að gjamma eitthvað fram í? — Nei, hann þegir enn.

En það lýsti nokkuð fjármálastjórninni og fyrirhyggjunni og af hverju Ísland er nú komið eins og það er komið, af hverju við stöndum á barmi greiðsluþrots út á við og gjaldþrots inn á við, — það kom glögglega fram, þegar hv. 1. þm. Austf. (EystJ) sagði, að það hefðu oft verið veittar ábyrgðir til hins og þessa, sem engum hefði dottið í hug að ætti að greiða. Ef veita á fé til uppbyggingar, hvar sem er á landinu, hvort sem er í Reykjavík eða úti í sveitum landsins, þá hygg ég, að fyrsta boðorð, ekki aðeins hygginnar fjárstjórnar, heldur hvers góðs húsföður og bónda, mundi verða það, að hann reyndi að gera sér fyrir fram grein fyrir, hvaða skuldbindingar hann væri að taka á sig, á hverju hann hefði efni hverju sinni, og miðaði fjárútlátin við það, en gengi ekki um og skrifaði upp á víxla fyrir hvern og einn og vissi svo ekkert um, hvernig sínum fjárreiðum væri varið, hefði ekki hugmynd um, hvað það væri í raun og veru, sem hann ætti að standa undir.

Sá maður, sem lýsir sinni eigin fjárstjórn þannig, hann segir: Ja, það þarf kannske að draga úr fjárfestingunni, en það á að draga úr fjárfestingunni „eftir vali“. Það er ekki eftir vali fólksins í landinu, heldur eftir vall hans sjálfs. Það á að vera eftir vali fjármálaspekingsins, sem hefur haldið á málefnum þjóðarinnar út frá þessu sjónarmiði, eins og ábyrgðarlaus glanni, að skrifa upp á, bara skrifa upp á, og segir: Eitthvað verð ég að borga af því, kannske allt, — en ég þarf ekki að gera það í dag, kannske verður einhver annar að borga það fyrir mig. — Enda er nú svo komið, að þjóðin verður að gera upp þetta þrotabú, sem þessi hv. þm. og hans flokksmenn bera ábyrgð á öllum öðrum fremur.

Hv. 1. þm. Austf. kvartaði undan því, að það hefðu verið höfð harkaleg viðbrögð við sig, hann hefði ekki fengið skýrslur sérfræðinga ríkisstj. fyrr en í fyrradag, þó að hann hefði talað um það við hæstv. fyrrv. forsrh. einhvern tíma í haust, að hann vildi gjarnan fylgjast með, hvað væri verið að semja, og eins hefði hann endurnýjað það við núv. ríkisstj., — ég veit ekki, hvort hann hefur komið til núv. hæstv. forsrh. (Gripið fram í.) En hitt hef ég heyrt, — ég veit ekki, við hverja hann hefur talað í núverandi hæstv. ríkisstj., en hitt veit ég og vita allir, að hv. þm. hefur verið snapandi um skrifstofur stjórnarráðsins til þess að reyna að fá þar hjá undirmönnum þessi plögg, áður en hann bað ríkisstj. um að fá þau. Hann var þá ekki frekar en þegar hann settist í stólinn búinn að átta sig á því, að hans valdatími var úti um sinn.

En við skulum athuga muninn á vinnubrögðum hjá þessari ríkisstj. og vínstri stjórninni sálugu. Það er raunar óþarfi að fara um það mörgum orðum eftir þá skýrslu, sem hæstv. menntmrh. gaf hér í kvöld. En þó er það lærdómsríkt, að ríkisstj., sem settist að völdum í júlí 1956, hafði tillögur sínar í efnahagsmálum, sem hæstv. menntmrh. og viðskmrh. sagði réttilega að voru allsendis ófullnægjandi, — hún hafði þær ekki til fyrr en um 20. des. 1956, og þá voru þær keyrðar í gegnum þingið á einum eða tveimur sólarhringum. Vinnubrögðin voru þá slík, — það kom fram í umr., — að þm. stjórnarflokkanna höfðu ekki fengið að fylgjast með undirbúningnum. Og það er lærdómsríkt að hafa það í huga, þegar menn hlusta á bægslagang hv. 1. þm. Austf. yfir því hér í dag, að þm. hafi nú farið heim um nær tveggja mánaða skeið, í rúman 11/2 mánuð, að þá var þeim haldið hér á þingi, án þess að þeir fengju nokkuð að vita um, hvað væri að gerast. Nú fengu þm. að vera heima hjá sér, en vitanlega var haft stöðugt samráð við þá alla, og í meginatriðum víssu þeir gjörla, hvað var að gerast.

Þó var þetta, sem gerðist haustið 1956, hátíð miðað við það, sem gerðist 1957. Þá var tilkynnt í fjárlagafrv., sem lagt var fram, strax og þing kom saman, að í raun og veru væri ekki hægt að ganga frá hinum nauðsynlegu undirstöðum fjárlagafrv., fyrr en þm. kæmu saman og haft væri samráð við þá. Þeir komu saman snemma í október. Siðan var setíð látlaust fram í maí, og þá fyrst voru samþykkt bjargráðin botnlausu, þær till., sem að vissu leyti, eins og fram hefur komið, hefðu getað gert gagn, ef botninn hefði bara ekki gleymzt suður í Borgarfirði, ef allt hefði ekki verið gagnslaust, vegna þess að hinar góðu hugsanir, sem þarna kunnu að vera innan um, flæddu jafnóðum út um botnleysið.

Og ekki er allt upp talið með þessu, vegna þess að þó að til væru kallaðir strax haustíð 1956 erlendir sérfræðingar og því væri lofað hátíðlega, að fram skyldi fara úttekt á þjóðarbúinu fyrir opnum tjöldum, þá var okkur í stjórnarandstöðunni neitað ekki aðeins um úttekt útlendinganna, heldur um allar skýrslur sérfræðinganna, allar skýrslur, sem gerðar voru, frá árinu 1956, þangað til í desember 1958, þegar við fyrst fyrir milligöngu forseta Íslands fengum þessi plögg í hendur, eftir að þáv. hæstv. forsrh. hafði hlaupið af skútunni fyrstur, þegar hann sá holskefluna risa. Þannig var þá virðingin fyrir stjórnarandstöðunni, þannig var þá viljinn til þess að láta allan þingheim fylgjast með skýrslum sérfræðinganna.

Nú kemur ríkisstj. til valda 20. nóv. Hún hefur látlaust unnið síðan, og nú liggja fyrir strax um mánaðamótin janúar–febrúar heillegar tillögur um lausn þess mikla vandamáls, sem þjóðin hefur verið að glíma við undanfarin ár. Menn getur greint á um það, hvort þessar tillögur séu að öllu leyti fullkomnar, — og sjálfsagt eru þær það ekki frekar en önnur mannanna verk, — en því verður ekki neitað, að það er heilleg, samfelld áætlun, sem eins og hér hefur komið fram hjá stjórnarandstöðunni stefnir að gerbreytingu í efnahagsmálum þjóðarinnar, þeirri gerbreytingu að hverfa frá því ólánskerfi, sem þjakað hefur þjóðina undanfarið og við öll meira og minna berum ábyrgð á að vissu leyti, þó að ábyrgðin sé mjög misþung. Hér eru heillegar, markvíssar till. um að hefja sig úr þessu ófremdarástandi, — ófremdarástandi, sem e.t.v. er verst og hættulegast vegna þess, að það er óvefengjanlegt, að núverandi fjárhagskerfi er haldið uppi og verður einungis haldið uppi með því að flytja inn sem allra mest af þeirri vöru, sem þjóðin þarf sízt á að halda, og taka sem allra mest erlend lán til þess að afla fjár til þessarar óþarfa- og umframeyðslu. Þess vegna hlýtur þetta að enda með efnahagslegu ósjálfstæði þjóðarinnar, með því, að skuldafjötur reyrist um hana fastar og fastar.

Það er rétt, að þetta verður ekki lagað erfiðleikalaust. Hv. 1. þm. Austf. sagði, að þetta lenti harðast á æsku landsins. Það má vel vera, að það sé rétt, að það lendi að sumu leyti hart á æsku landsins, en hún á líka til mests að vinna. Hvort er betra að gefa æskumönnum nú færi á að létta af sér skuldafjötrunum, að gera Ísland aftur efnahagslega frjálst, þannig að þeir geti lifað í frjálsu landi, óháðu, sem þurfi ekki í dag að koma með betlilúkuna í vestur, á morgun með betlilúkuna í austur, — og það upplýstist í umr. hér í kvöld, að sumir vildu fyrir einu og hálfu ári strax rétta lúkuna lengra til austurs heldur en hinir vildu þá sættast á, — hvort er betra að láta æskuna hljóta þau örlög að taka við þessu Íslandi af okkur eða að æskan, meðan hún hefur burðarþolið, manndóminn, þrekið og bjartsýnina, leggi af sinni hálfu fram það, sem þarf og vissulega er þungur baggi, en þó ekki óviðráðanlegur, til þess ekki aðeins að endurreisa fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar? Og nú er ekki fjárhagslegu sjálfstæði einu ógnað, heldur og stjórnarfarslegu frjálsræði, ef svo verður fram haldið, jafnframt því sem misboðið er sjálfsvirðingu hvers góðs Íslendings með því að halda áfram þá feigðarbraut, sem haldin hefur verið. Hvort vilja æskumenn, að þeim verði eftirlátíð land, sem komist úr þessum fjárhagslegu viðjum, og einnig það fyrirkomulag, að æskan megi treysta sínum eigin mætti, að það sé komið undir hennar getu og manndómi, hverju hún fær áorkað í þessu landi fyrir sjálfa sig og fyrir þjóðarheildina, eða þeir sitji yfir hennar hlut og skammti, — ég vil segja skít úr hnefa, — menn eins og þessir tveir þm. Austf., Eysteinn Jónsson eða Lúðvík Jósefsson, sem hér í kvöld hafa verið að tala um það sem sjálfsagðan hlut, að ríkisskipaðar nefndir og allsherjar forsjá ættu að ráða yfir málum allra manna í þessu landi?