12.02.1960
Neðri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

48. mál, efnahagsmál

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Það liggja stórar till. fyrir Alþingi um þessar mundir, og hæstv. ríkisstj., sem að þeim stendur, hefur leyft sér að gefa þeim nafnið „viðreisn“. Það er nú raunar svo, að þegar við veltum því fyrir okkur í alvöru, hvað eigi að reisa við, þá er ekki alveg víst, að menn komi auga á, hvað það er. Það er full atvinna í landinu og hefur verið um skeið. Ekki á viðreisnin að vera fólgin í því að koma hér á meiri atvinnu. Það er hér mjög ört vaxandi framleiðsla, hefur verið tvö undanfarin ár a.m.k. Ekki virðist till. við það miðaðar að auka framleiðsluna. Ekki er viðreisnin . fólgin í því. Það mætti lengur leita án þess, að maður fyndi það, að viðreisnin, sem stjórnin boðar í þessum ráðstöfunum sínum, komi yfirleitt mjög við íslenzku þjóðlífi, og meira að segja það sem verra er, að það liggur í augum uppí, að þær koma í rauninni þvert á þær framfarir og það bezta, sem nú er í okkar þjóðlífi. Atvinnulífið mun dragast saman að þeim samþykktum, framleiðslan mun minnka. Það mun ekki stafa af þeim nein viðreisn. Það er hægt að kalla svona tillögur viðreisn í bók, gefa hana út á ríkisins kostnað, senda hana hverju mannsbarni í landinu, en það verða ekki viðreisnartillögur að heldur.

Hvað er nú það, sem þeir ráðherrar, sem hér hafa mælt fyrir ríkisstj., vilja segja því til réttlætingar, að svona frv. er lagt fyrir Alþ.? Jú, það er vert að rifja upp aðalatriði þess.

Í framsöguræðu sinni sagði Ólafur Thors, hæstv. forsrh., að greiðsluhallinn við útlönd væri slíkur, að þörf væri þeirra aðgerða, sem hér er lagt til að lögfestar verði, og í öðru lagi, að greiðslubyrði okkar af erlendum skuldum væri svo þung, að þetta væri nauðsynlegt. Hæstv. viðskmrh. (GÞG) bætti því við þessar röksemdir, að þessi stefna, sem í frv. væri fólgin, væri sú eina hugsanlega leið fyrir þjóð, sem vildi vera sjálfstæð og vildi lifa á eigin aflafé, eins og hann gjarnan orðar það. Hann bætti við þetta nokkrum orðum um það, að bátagjaldeyriskerfið svonefnda væri upphaf hins margfalda gengis, væri upphaf uppbótakerfisins, og það kerfi hefði verið óheillaspor, þess vegna væri það nú mikil dáð, sem drýgð væri með því að koma því burt úr okkar efnahagslífi.

Áður en ég vík sérstaklega að þessum höfuðröksemdum, sem ráðh. þeir, sem einkum hafa hér mælt fyrir frv. þessu, hafa gert að sínum meginstoðum í rökfærslu, vil ég leyfa mér að benda á, að bátagjaldeyriskerfið eða uppbótakerfið eða millifærsluleiðin, eins og þetta hefur ýmist verið kallað á hinum ýmsu stigum, er að sjálfsögðu ekki þess háttar kerfi, að ég vilji mæla þau orð, að það sé nákvæmlega það, sem okkur hentar, og sízt á því stigi eins og það hefur staðið nú að undanförnu. Á hinn bóginn leyfi ég mér að fullyrða, að þrátt fyrir galla þess kerfis var þjóðin betur komin með það heldur en það, sem hæstv. ríkisstj. leggur nú til að framkvæmt verði, og mun ég leitast við að sýna fram á það.

Það hafa verið hrakin hér allrækilega þau höfuðrök, sem hæstv. forsrh. færði hér fyrir nauðsyn frv., að greiðsluhallinn við útlönd væri slíkur, að við ættum ekki annars kost en flytja þetta frv. En ég leyfi mér að endurtaka það hér: Þetta er ekki frambærileg ástæða, greiðsluhalli við útlönd er raunverulega enginn á árunum 1958 eða 1959. Það er að vísu rétt, að miðað við bókhald eitt saman varð 90 millj. kr. greiðsluhalli á tekjuöflun og útgjöldum íslenzka ríkisins í erlendum gjaldeyrí. En það er einnig viðurkennt, að birgðaaukning landsmanna af vel seljanlegum útflutningsvörum jókst um sömu upphæð á því ári. Hver sá maður, sem taka vill tillit til raunverulegs ástands, hlýtur að verða að meta þessa birgðaaukningu til gjaldeyristekna, og þegar það hefur verið gert, kemur í ljós, að á því ári var ekki greiðsluhalli. Ég hef hér að sjálfsögðu ekki tölur um, hvernig árið 1959 kemur út að þessu leyti, ekki tæmandi tölur, en ég veit það þó, að á því ári varð veruleg framleiðsluaukning, svo að ætla má, að ekki hafi heldur orðið neinn raunverulegur greiðsluhalli við útlönd á því ári, þegar tekið er tillit til birgðaaukningar. Hitt er rétt, að þegar setið hefur í landinu ríkisstj. um margra mánaða skeið á s.l. ári, sem hefur gefið það í skyn og jafnvel beinlínis sagt það, að rétt á næstu grösum væru ráðstafanir, sem breyta ættu gengi íslenzku krónunnar þannig, að gengið yrði lækkað, þá hefur tilhneiging útflytjenda að sjálfsögðu verið sú að fara sér mjög hægt um allan útflutning og geyma birgðir sinar, eftir því sem mögulegt var, þangað til sú gengisbreyting hefði átt sér stað. Ég ætla, að þetta sé veruleg ástæða og verulegasta ástæðan fyrir því, að bókhaldslega mun vera nokkur greiðsluhalli á árinu 1959, en birgðaaukningin er líka meiri en á árinu þar á undan.

Ég get ekki skilizt svo við þetta mál, að ég fletti ekki upp í helgiriti ríkisstj., „Viðreisn“, þar sem gefin er upp í tölum sú nauðsyn, sem til þess rak, að þetta frv. var flutt og að lögfesta á nú þær ráðstafanir, sem í frv. eru boðaðar og gerðar tili. um. Þar segir á bls. 43 um gjaldeyristekjur Íslendinga í áætlun, sem þar er gerð: „Gjaldeyristekjur á árinu 1959 1466 millj.“ Jú, það er vitað mál, að við höfum meiri gjaldeyrisþörf en þetta, það skal ég viðurkenna. En þessi tala er þarna birt þvert ofan í það, að uppgjör ársins 1958 sýnir 1536 millj. kr. gjaldeyristekjur Íslendinga, — 1536 millj. kr. Það var árið 1958. Á árinu 1959 varð í sjávarútvegi, sem er okkar aðalatvinnuvegur um útflutning, 10–11% framleiðsluaukning. Og svo kemur ríkisstj. og birtir nú á árinu 1960 áætlunartölu um gjaldeyrisöflun Íslendinga á s.l. ári og áætlar gjaldeyristekjurnar þá 1466 millj., og á þessu er svo byggt allt það volæði, sem ráðherrar boða hér sem rök fyrir sínu frv. Hér er því um að ræða hreina fölsun, og bjartsýnin í væntanlegri framleiðsluaukningu næstu ára er slík, að hún hæfir eingöngu afturhaldsríkisstjórn. Þar er gert aðeins ráð fyrir því að vísu, að þokist upp gjaldeyristekjur Íslendinga, en miklum, miklum mun minna en raun hefur orðið á tvö s.l. ár. Það kann að vera rétt áætlun, ef ríkisstj. tekst að koma áformum sínum fram, því að ég viðurkenni, að að því frv. samþykktu, sem hér liggur fyrir, getum við reiknað með ofur hægri framleiðsluaukningu, ef þá ekki skrefum aftur á bak í þeim efnum. En að öllu eðlilegu getur framleiðsluaukning Íslendinga orðið miklum mun meiri en gert er ráð fyrir í þeirri áætlun, sem ríkisstj. byggir hér öll sín plön á.

Nú skal ég ekki neita því, að þrátt fyrir það að okkar gjaldeyristekjur eru meiri en ríkisstj. gefur upp, þá væri það ofur hagkvæmt fyrir okkur að auka okkar gjaldeyristekjur enn, og það mundi hver sæmilega framsækin ríkisstj. reyna að gera, öfugt við það, sem þessi myndar sig til, og skal ég koma að því nánar síðar.

En segjum nú, að allt það væri satt og rétt, sem ríkisstj. hefur sagt um gjaldeyrisöflunina, að hún væri of lítil, er þá þetta frv. einhver leið til þess að bæta þar um? Ég segi nei og aftur nei. Þegar Íslendingar selja vörur sínar úr landi, selja þeir ekki vörur sínar fyrir íslenzkar krónur, og verð á þeim er ekki miðað við íslenzkar krónur. Þar er allt verðlag miðað við erlenda mynt. Og þó að við breytum genginu hjá okkur, þá aukum við ekki gjaldeyristekjur okkar um einn einasta eyri fyrir það. Á sama hátt ráðum við engu með okkar gengisskráningu um verð á innfluttum vörum. Hér breytum við því alls engu með gengisskráningu, og sú höfuðröksemd ríkisstj., að nauðsyn sé að samþ. þetta frv. vegna þess, að við höfum greiðsluhalla við útlönd er þess vegna bábilja ein. Í aðeins einu tilviki hefur þetta atriði áhrif, þ.e.a.s. í sambandi við þá vinnu, sem við seljum Bandaríkjaher og hans verktökum. Þar höfum við að undanförnu látið þá verktaka borga þannig fyrir íslenzka vinnu, að einn dollar hefur verið metinn til 16 kr. rúmlega. Nú á að meta einn dollar til 38 kr. Það þýðir, að miðað við óbreyttar framkvæmdir hjá herlíðinu, miðað við óbreytt kaup þess á íslenzku vinnuaflí, þá hefur herliðið á undanförnum árum orðið að borga um það bil 12 millj. dollara á ári fyrir vinnuna, sem því hefur verið seld héðan úr landi. Fyrir sömu vinnu getur herliðið eftir gengisbreytinguna komizt af með að borga 5 millj. dollara. Það á því að gefa Bandaríkjaher 7 millj. dollara á ári, en það jafngildir um það bil 266 millj. íslenzkra króna, og segi menn svo, að við höfum ekki herkostnað hér í landinu. Það liggur því í augum uppi, að okkar gjaldeyrisstaða batnar ekki við samþykkt þessa frv., heldur versnar hún sem nemur þessari upphæð.

Þessi þunga röksemd hæstv. forsrh. er þess vegna engin röksemd, og ekki bara það: Hún er öfugmæli.

Þá skulum við koma að hinu höfuðvígorði ríkisstj.: Greiðslubyrðin er of þung, við þurfum að borga meira í vexti og afborganir af erlendum lánum en þjóðin getur risið undir. — Rétt er það, að við höfum allþunga greiðslubyrði af lánum, og væri virðingarvert að gera ráðstafanir til þess, að hún gæti minnkað á komandi árum. En er nú þetta frv. ráðstöfun í þá átt? Ekki kem ég auga á það. Eitt atriðið er það að auka heimildir ríkisstj. til þess að taka erlend lán, og jafnframt er tilkynnt, að við höfum þegar fengið loforð fyrir stóru slíku láni, og segja mætti mér, að byrjað væri þegar að draga á það lán, þótt ekki sé mér það kunnugt. Ekki minna en 780 millj. kr. á nú að bætast við okkar lán erlendis, og trúi því svo hver sem vill, að sú ráðstöfun muni minnka okkar greiðslubyrði.

Hæstv. viðskmrh. hélt hér langa tölu varðandi þetta atriði í dag og vildi þar reyna að halda því fram, að þetta lán væri alveg sérstaks eðlis og þar af leiðandi mætti ekki tala um það um leið og önnur lán. En ekki varð ég þess var, að hann afsannaði það, að af þessu láni þyrfti að borga vexti né heldur að þetta lán þyrfti að borga upp á sinni tíð. Hann sagði að vísu, að við þyrftum að eignast gjaldeyrissjóð og þetta lán ætti í rauninni að vera gjaldeyrissjóður. Ég viðurkenni, að það væri mjög til bóta, ef íslenzka þjóðin eignaðist gjaldeyrisbirgðir, sem hún gæti grípið til, þegar á þyrfti að halda. Það er henni raunar nauðsynlegt, ég viðurkenni það. En að fá gjaldeyrissjóðalán á vöxtum, það sé ég ekki að leysi vanda þjóðarinnar. Það þarf gáfaðri menn en mig til þess að skilja það.

Ég held þess vegna, að hin höfuðröksemdin, sem sagt sú, að greiðslubyrðin væri svo þung, að við þyrftum að samþykkja þetta frv., sé einnig öfugmæli. Mér hefur ekki tekizt að koma auga á nokkurt atriði í þessu frv., sem bendi í þá áttina, að við séum hér að létta á greiðslubyrði, en þvert á móti liggur það í augum uppi, að við erum að þyngja greiðslubyrðina.

Ég kem þá að því stóra atriði hæstv. viðskmrh., að hann heldur því fram, að þetta frv. sé eina leiðin til þess, að við getum verið sjálfstæð þjóð og lifað á eigin aflafé. Ja, það er nú það.

Ég þykist hafa sýnt hér fram á, að frv. gerir síður en svo að færa okkur nær því að lifa á eigin aflafé. Það er einmitt gengið í það af nokkurri elju og dugnaði að hækka okkar erlendu lán og gera ráðstafanir til þess, að við getum lifað á auknum lánum erlendis frá um skeið. En í helgiriti ríkisstj. og raunar í grg. frv. líka segir eitthvað á þessa leið í sambandi við afsökun á því, að við ætlum að gefa Bandaríkjastjórn 266 millj. kr. á ári:

„Á hinn bóginn telur ríkisstj. sanngjarnt, að Bandaríkjastjórn fyrir sitt leyti stuðli að því að draga nokkuð úr þeim erfiðleikum, sem þessi breyting hefur á greiðsluviðskipti þjóðarinnar. Um þetta atriði hafa undanfarið átt sér stað viðræður á milli fulltrúa frá ríkisstjórnum beggja landa, og telur ríkisstj., að viðunandi lausn þess máls megi fást, þannig að komið verði í veg fyrir byrjunarörðugleika, sem lækkun gjaldeyristekna frá varnarliðinu mundi ella hafa í för með sér.“

Það er til þessa alveg óútskýrt af ríkisstj., hvað hér er við átt. En ég leyfi mér að óska eftir skýringu á því, — það er kannske enginn ráðherra viðstaddur til þess að hlýða á mál mitt og til þess að taka á móti þeirri fyrirspurn, sem ég vil bara formlega spyrja ríkisstjórnina hér um: Í hverju eru þessir samningar fólgnir. Er þetta ráðstöfun af hálfu ríkisstj. til þess að uppfylla það skilyrði, sem viðskmrh. hefur talað hér um, að við eigum að lifa á eigin aflafé? Er þetta einhver sérstök ráðstöfun til þess að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar? Fyrir mér lítur þetta út hreint ekki laust við grunsemdir um það, að hér sé einmitt verið að gera ráðstafanir til þess að höggva enn í okkar sjálfstæði. Hvaða skilyrði setur Bandaríkjastjórn fyrir þeirri aðstoð, sem hún hefur hér með einhvers konar pukursamlegum hætti lofað ríkisstj.? Hverjir eru þessir erfiðleikar, sem hér á að koma í veg fyrir að dynji á þjóðinni? Það skyldi þó aldrei vera, að hér væri um það að ræða, að ríkisstj. telji sig þekkja landa sína þannig, að þeir muni ekki una þessum aðgerðum, og að ríkisstj. búist við því, sem og hlýtur að vera eðlilegt framhald af þeim ráðstöfunum, sem hér eru boðaðar, að til ófriðar dragi í atvinnulífi þjóðarinnar, því að þetta frv. ríkisstj. og þessar boðuðu ráðstafanir hennar eru fyrst og fremst stríðsyfirlýsing í íslenzku atvinnulífi, — og er það þá, þegar íslenzkir atvinnuvegir hafa stöðvazt, sem Bandaríkjastjórn ætlar að hjálpa íslenzku ríkisstj. til þess að endurgreiða henni með einhverjum hætti herkostnaðinn við íslenzka verkalýðshreyfingu, og er það það, sem á að koma í staðinn fyrir íslenzka framleiðslu, sem kemur til með að tapast í þeim ófriði, sem hér er boðaður? Ég vænti þess, að ríkisstj. upplýsi, hvað í þessum ummælum felst. Þau eru ekki svo skýr, að hægt sé að skilja þau. Og ég tel, að ríkisstjórninni beri skylda til þess að útskýra þau nánar.

Þá kem ég að þeim ummælum, sem raunar báðir þeir hæstv. ráðherrar, sem ég hef hér gert nokkuð að umtalsefni, hafa vikið að, en það er, að bátagjaldeyriskerfið eða mismunakerfið eða uppbótakerfið eða niðurgreiðsluleiðin, eða hvað menn vilja kalla það, sé sú ógæfa, sem allt illt í landinu stafi af. Ólafur Thors orðaði það eitthvað á þessa leið: Kerfið nærist á greiðsluhalla, og bæturnar, sem útflutningssjóður á að greiða, eru meiri en tekjurnar, sem hann getur fengið af innflutningi. Og Gylfi Þ. Gíslason sagði, að bátagjaldeyriskerfið væri upphaf hins margfalda gengis uppbótakerfisins og það kerfi væri óheillaspor.

Ég vil taka það enn fram, að með þeim orðum, sem ég hér segi um þetta kerfi, er ég ekki að halda því fram, að það kerfi sé fullkomið. Öðru nær. En ég vil aðeins minna á það, hvernig þetta kerfi er til komið og með hverjum hætti það er að ljúka ferli sínum, ef ríkisstj. kemur fram áformum sínum.

Árið 1950 lét þáv. ríkisstj. samþykkja hér á Alþingi nýja skráningu á gengi íslenzku krónunnar. Það var stór gengislækkun, þó að ekki væri hún eins stór og sú, sem nú er fyrirhuguð. Þá voru hafðar uppi miklar orðræður um það, að þetta væri eina leiðin, sem íslenzka þjóðin ætti. Margir fræðimenn lögðu þar nafn sitt við, að eftir að þessar ráðstafanir væru gerðar, yrði allt snurðulaust í íslenzku atvinnulífi, þá mundi hér rísa upp blómaskeið mikið. Að vísu voru einnig lagðir fyrir útreikningar fræðimanna þá, sem sögðu, að dýrtíðin í landinu mundi að vísu hækka, kannske um 10 eða 11%. Síðan voru þessar ráðstafanir samþykktar.

Hæstv. forsrh. lýsti því fagurlega hér í sinni framsöguræðu, að þetta hefði allt saman gengið þegjandi og hljóðalaust, það hefði ekkert skeð, þetta kerfi hefði ekki orðið fyrir neinum truflunum, ekki neinum verkföllum eða neins konar áföllum. Á hinn bóginn sýndi það sig, að 1. des. það sama ár, sem þessar ráðstafanir höfðu verið samþykktar í marzmánuði, var dýrtíðin stigin um 27%, og í upphafi hins næsta árs, þ.e.a.s. í janúarmánuði 1951, eftir allan friðinn og eftir að þetta kerfi hafði átt kost á því að blómgast í fram undir eitt ár, þá er svo komið, að allur bátaflotinn stöðvaðist. Útvegsmenn lögðu bátum sinum og tilkynntu ríkisstj., að þeir mundu ekki sækja sjó, fyrr en einhver nothæfur rekstrargrundvöllur væri kominn fyrir bátaútveginn í landinu, því að hann væri þá ekki til. Þetta var afleiðingin af gengisfellingunni þá. Hér hafa aðrir menn rakið nokkrar aðrar afleiðingar, sem gengisfelling þessi hafði, t.d. eins og það, að þá tók alveg fyrir endurnýjun fiskiskipaflotans, þá minnkuðu húsbyggingar og komust í það lágmark, sem þær um langt skeið hafa verið í landinu, svo að ég hirði ekki að rekja þá hlið málsins frekar. En atvinnulífið sjálft, sem þetta átti allt saman að vera gert fyrir, lagðist þá í dróma. Hvað skeði þá? Jú, ríkisstj, tók til sinna ráða, og hún setti á nýtt kerfi. Það kerfi var bátagjaldeyriskerfið. Menn gætu ætlað eftir ræðum þeirra hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, að bátagjaldeyriskerfið eða hið mismunandi gengi væri uppfinning einhverra vondra manna, enda hefði það reynzt illa. En mig minnir, að þá hafi sjútvmrh. heitíð Ólafur Thors, og í hans tíð og undir hans forustu var þessu kerfi á komið. Síðan liðu fram tímar, og þetta kerfi þróaðist með ýmsum hætti. Á árinu 1958, sem var síðasta ár vinstri stjórnarinnar við völd, stóð þetta kerfi sig með þeim hætti, að útflutningssjóður, þ.e.a.s. sjóður þess, sá ekki einasta fyrir sínum þörfum, heldur var þeim sjóði einnig gert að greiða nokkra fjárfúlgu í ríkissjóð, og hann gerði það.

Síðan tóku við aðrir aðilar að stjórna landinu, það voru Sjálfstfl. og Alþfl., með þeim hætti, að Alþfl. sat í ráðherrastólum, en Sjálfstfl. stjórnaði. Og þá var gengið í það sjálfsagt að leiðrétta það, sem skakkt hafði verið í þessu kerfi áður. Þá voru útflutningsbætur hækkaðar verulega, um leið og kaup launafólks í landinu var lækkað um 13.4% frá gildandi kjarasamningum þess. Og þá átti svo sem að vera fengin lækning. Kaupbindingin eða kaupránið, — eins og það raunverulega var, því að þá var svikinn samningur á allri verkalýðshreyfingunni, á öllu verkafólki í landinu, — það átti svo sem að verða til þess að binda endi á kapphlaupið á milli verðlags og launa, eins og þeim góðu herrum verður svo mjög tíðrætt um á stundum. En hvað skeður? Þegar þeir afgreiða fjárlög sín á því ári, 1959, því að það voru auðvitað þeir flokkar, sem stóðu að Alþfl.-stjórninni, sem báru ábyrgð á afgreiðslu þeirra fjárlaga og þeirra fjárreiðna hjá útflutningssjóði, sem þá var ákveðið að hafa, þá skeður það, að þeir hleypa bótunum upp fyrir tekjumöguleika útflutningssjóðs. Þá snarast á merinni, — það er ekki fyrr. Það er í tíð Ólafs Thors aftur, — þ.e.a.s. ég ætti kannske ekki að segja Ólafs Thors, því að hann hafði þá aðra menn fyrir sig í ráðherrastólum, en ég leyfi mér að halda því fram, að hann muni hafa ráðið, — það er ekki fyrr en sú afturhaldsstjórn eða sú afturhaldssamfylking, sem nú situr að stjórn, var aftur komin á valdastóla, að þetta kerfi er gert þannig, að það stendur ekki undir sér lengur. Nú skal ég að vísu játa, að það er óvarkárni af mér að halda því fram að þetta kerfi standi ekki undir sér enn þá. Ég hef þar fyrir mér eingöngu sögusagnir núverandi ríkisstjórnar. En með tilliti til þess, að þær hafa í flestum atriðum reynzt rangar, þá efast ég um, að í þessu atriði séu þær frekar réttar en í öðrum.

Það liggur þess vegna hreinlega fyrir, að sé bátagjaldeyriskerfið nú orðið óhæft, vegna þess að tekjur þess geti ekki verið slíkar sem útgjöldin hljóti að vera, þá er það sú valdasamsteypa, sem stendur að núverandi ríkisstjórn, sem hefur riðið þar baggamun í óvarlegum aðgerðum sínum í sambandi við útflutningssjóð á s.l. árí.

Hér eru þá upp taldar allar þær höfuðröksemdir, sem ráðh. hafa talið, að að þessu máli hnigju, og ég hef sýnt hér fram á það, að allar eru þær öfugmæli að einni undanskilinni, sem kann að vera nokkur ástæða og á þá rót sína að rekja til þess, bæði upphaf hennar og endir, að þar hefur verið óvarlega fjallað um einmitt af núverandi hæstv. ríkisstj. og hennar mönnum.

Hvaða hugsun liggur svo, þegar sleppt er þessum grundvallaratriðum, á bak við það frv., sem hér liggur fyrir? Jú, þar liggur til grundvallar ein reginvanþekking á íslenzku atvinnulífi. Ég skal viðurkenna, að það er stórt orð að segja það um hæstv. ríkisstj., að hún hafi til að bera reginvanþekkingu á íslenzku atvinnulífi, og vissulega er mér það engin ánægja að bera það á nokkurn mann og sízt þá, sem tekizt hafa á hendur eftir þar til fengnu umboði frá þjóðinni að stjórna hér málum. En ég vænti þess, að þótt ekki væri nema ein tilvitnun úr framsöguræðu hæstv. forsrh. fyrir frv. þessu, sýni hún, að ég fer hér ekki með neitt fleipur. Hann sagði, að ein helzta ástæðan fyrir því, að gjaldeyrisbúskapur okkar væri ekki með þeim blóma, sem hann þyrfti að vera, væri sú, að afli togaranna hefði rýrnað verulega vegna útfærslu landhelginnar. Það er tekið orðrétt úr hans ræðu: „vegna útfærslu landhelginnar“.

Þetta er í fyrsta lagi mikil yfirlýsing um það, að hæstv. forsrh., sem lengi hefur verið sjútvmrh. einnig, hefur ekki hugmynd um, hvar íslenzki togaraflotinn fiskar.

Og í öðru lagi er þessi fullyrðing hans röng. Afli togaranna sýnir sig að hafa ekki minnkað við útfærslu landhelginnar. Síðasta heila almanaksárið, áður en útfærslan var gerð, árið 1957, sýnir, að það ár hefur íslenzki togaraflotinn fiskað 155 þús. tonn. Og fyrsta heila almanaksárið, eftir að útfærslan er gerð, þ.e.a.s. árið 1959, sýnir, að þá er afli togaraflotans nokkuð yfir 160 þús. tonn. En hæstv. forsrh. virðist hafa verið svo mikið í mun að segja hér einhverjar svívirðingar um stækkun landhelginnar, að hann skirrist ekki við að segja hér ósatt í þessu efni. Það hefði þó máske verið ástæða til þess, að togaraaflinn hefði nokkuð minnkað á árinu 1959, því að það er eins og það sé eðli togaraflotans að verða ærið staður og hyskinn við fiskveiðar, þegar setzt er að í landinu íhaldsríkisstjórn.

Ég minnist þess, þegar ég kom hér til þings fyrst haustið 1953, í forsætisráðherratíð Ólafs Thors, þá lá hér við eina bryggjuna allt það kjörtímabil, bundinn sem fastast, ljómandi þokkalegur togari, hann hét „Keflvíkingur“ og var þá eini togarinn, sem gerður var út úr þáverandi kjördæmi hæstv. forsrh., — sem gerður var út úr kjördæmi hans, það er kannske ekki alveg rétt til orða tekið, því að þetta var náttúrlega útgerð með dálítið sérstökum hætti. Þegar þessi hæstv. ráðh. vék úr stjórnarforustu árið 1956, var þessi togari tekinn, seldur nýjum aðilum, málað yfir nafn og númer, og nú var hann skírður „Vöttur“. Hvorki sá togari né nokkur annar stöðvaðist einn einasta dag, á meðan vinstri stjórnarinnar naut við, því að hennar stefna var sú að auka framleiðsluna í landinu. En ekki hafði Ólafur Thors fyrr sett upp sína ríkisstjórn í haust heldur en nýtt skip stingur stafni sínum hér inn í höfnina, togarinn „Vöttur“, minnugur síns gamla húsbónda, kemur hér inn að bryggju, er bundinn þar sem rammlegast, og þar liggur hann og ryðgar.

Það hefði þess vegna verið ástæða til þess, að afli togaraflotans færi heldur minnkandi, þegar Ólafur Thors var kominn að valdataumunum aftur. En það er ekki vegna útfærslu landhelginnar, það er af öðrum ástæðum.

Ríkisstj. sparar ekki að telja það fram; að hún hafi góðan vilja í sambandi við bæði eitt og annað, sem nú á að lögfesta. Hún skýrir hér frá því með nokkrum klökkva, sem áheyrendur og þingheimur á sjálfsagt að skilja svo, að ríkisstj. sé úttroðin af áhuga fyrir velferð þjóðarinnar, að ríkisstj. vilji umfram allt koma í veg fyrir kapphlaup verðlags og launa. Já, það var nú atriði út af fyrir sig. Hún vill sjáanlega ekki koma í veg fyrir það, að verðlagið geti hreyft sig til, eða ekki get ég séð það á þessu frv. hennar, að það miði að því að halda verðlaginu kyrru, enda vænti ég þess, að síðan um kosningar hafi enginn af háttvirtum stjórnarþingmönnum né ráðherrum haldið því fram, að þeir ætluðu að stöðva verðlag. Það var bara fram að kosningum, sem því var haldið fram. Eftir kosningarnar á bara að stöðva kapphlaupið á milli verðlags og launa, þ.e.a.s. það á ekkert að stöðva kapphlaupið, það á bara að fara fram eftir nýjum reglum, sem ríkisstj. finnst sjálfsagt sanngjarnari en þær, sem gilda almennt um kapphlaup, það á að binda niður annan keppandann, það á að binda launin, þau eiga að haldast óbreytt, en verðlaginu á að gefa alveg sérstaka vítamínsprautu, enda efast ég ekki um, að það tekur myndarlegt stökk upp í loftið.

Forsrh. hæstv. hefur haldið því fram, að þær kaupbreytingar einar geti komið að gagni, sem byggist á öðru tveggja, framleiðsluaukningu eða breyttri skiptingu þjóðarteknanna. Um þetta er ég honum algerlega sammála. Ég er honum algerlega sammála um þetta. En hvað þá um framleiðsluaukninguna og kaupið? Jú, ég hef hér rakið það, og ég vænti þess, að um það standi ekki deilur, þar sem allar opinberar skýrslur sýna eitt og hið sama í því, að á s.l. tveim árum hefur framleiðslan tekið risaskref fram á við og aukizt mjög. En kaupið? Með lögum var það lækkað um 13.4% í febrúarmánuði í fyrravetur, og nú er hér gerð tilraun með þessu frv. til þess að koma fram raunverulegri kauplækkun, þ.e.a.s. óbreyttu kaupi með stórhækkaðri dýrtíð. Og svo kemur forsrh. hér, setur upp meiri alvörusvip en honum er yfirleitt lagið og segir: Það er ekki hægt að koma fram neinum kaupbreytingum nema í sambandi við framleiðsluaukningu eða breytta tekjuskiptingu þjóðarinnar. Ég sé ekki annað en það sé einmitt ástæða til þess að framkvæma nokkra kaupbreytingu í tilefni af því, að framleiðsla þjóðarinnar hefur stóraukizt. En á sama tíma er sá góði forsrh. og hans ríkisstj. að gera ráðstafanir í alveg gagnstæða átt.

Það að breyta skiptingu þjóðarteknanna, þannig að kaup hækki, tel ég einnig færa leið. Það sýnir sig, að vissir aðilar í framleiðslu þjóðarinnar og verzlun hafa haft svo rúma afkomu á undanförnum árum, að það er vel hægt að hugsa sér það að draga þar eitthvað á millí, draga eitthvað úr þeirra gróða og nota það til þess að hækka kaupið hjá hinum almenna manni. Ég hef sýnt fram á það, á öðrum stað að vísu, að t.d. fiskiðjuver ríkisins hafði svo verulegan ágóða á árinu 1958, að ætla má, að hraðfrystihús landsins hafi samtals ekki haft undir 200 millj. kr. gróða það ár. Ég held, að það hefði mátt breyta nokkuð tekjuskiptingunni í landinu. En það var nú ekki aldeilis það ráð, sem horfið var að. Það ráðið, sem horfið var að, var hins vegar að selja þetta fiskiðjuver til þess að koma reikningum þess undan, frá því að liggja frammi almenningi til sýnis, þannig að fólkið í landinu gæti áttað sig á því, hvað sá aðilinn, sem hefur með að gera frystingu og útflutning á stærsta hlutanum af okkar útflutningi, hefði fyrir sinn snúð. Það er þess vegna alveg sama, þótt forsrh. tali fjálglega um það, að framleiðsluaukning eða breytt tekjuskipting þjóðarinnar mætti máske verða til þess að hækka launin, þá er það ekki hans meining að láta aukna framleiðslu verða til þess né heldur að framkvæma neina breytingu, þótt sjáanlegt sé, að hún gæti farið fram án þess að valda verulegri röskun á þjóðarframleiðslunni.

Þá segir ríkisstj., að hún treysti því, að launþegar skilji nauðsynina á þessum ráðstöfunum og geri ekki kaupkröfur. Það er nú ekkert lítið atriði heldur. Það má kannske líka segja við mann, sem dæmdur hefur verið til dauða, að þess sé vænzt, að hann skilji dóminn og mögli þess vegna ekki um þetta. En ef sá dauðadæmdi telur sig vera saklausan, þá mun sá skilningur hrökkva skammt til þess, að hann viðurkenni réttmæti dómsins. Á sama hátt má minna ríkisstj. á það, að hér er ekki eingöngu um skilning að ræða eða misskilning. Þegar eitt alþýðuheimilí er svo komið, að það hefur ekki fyrir sínu eðlilega lífsframfæri, en sér í kringum sig, að ýmsir aðilar aðrir í þjóðfélaginu hafa fengið enn bætta aðstöðu, þá skulum við ekki vera að tala um neinn skilning lengur. Alþýða manna í landinu mun líka hafa ætlazt til þess í síðustu kosningum, þegar hún gaf Sjálfstfl. og Alþfl. umboð til þess að fara með stjórn landsins, — þá mun íslenzk alþýða hafa ætlazt til þess, að þeir, sem auglýstu sig sem leiðina til bættra lífskjara, sýndu þann skilning á högum íslenzkrar alþýðu, að rýra ekki lífskjör hennar. En þennan skilning hefur hæstv. ríkisstj. ekki sýnt, og það situr þess vegna illa á henni að krefjast þess, að skilningur komi í staðinn fyrir hæfilega kaupgetu á íslenzkum alþýðuheimilum, á meðan hún sýnir engan skilning á því, að henni beri að standa við sín kosningaloforð.

Hverjar verða nú afleiðingarnar af samþykkt þessa frv., ef hún á eftir að fara fram hér í Alþingi? Við skulum aðeins skoða það, þótt ekki væri nema eins og í einu atriði, hvað skeður og hvers má vænta í því sambandi.

Það hefur verið nokkuð talað um það hér, að þeir, sem ynnu við útveg, mundu allir fá bættan hag, því að fyrir hann væri allt þetta gert, fyrir útveginn. Það verður þó varla dregið í efa, að sjómenn á fiskibátum vinni í þjónustu sjávarútvegsins. Þeir hafa samninga við sína atvinnurekendur um það, hvernig þeir taka kaup sitt, og þeir taka kaup sitt í ákveðnum aflahlut. Þeir eru sem sagt eigendur að ákveðnum hluta þess afla, sem sá bátur, sem þeir vinna við, fískar. Nú mun það svo, að þeir hafa á undanförnum árum selt útgerðarmanni síns báts sinn aflahlut á ákveðnu verði, sem þeir hafa samið um hverju sinni. Þetta verð er nefnt skiptaverð og nemur kr. 1.66 fyrir hvert kg af slægðum þorski með haus. Nú mun það hins vegar sýnt, að fyrir hráefni, þ.e.a.s. fyrir ferskan fisk, aðgerðan með þessum hætti, muni eðlilegt að borga eftir þessa gengisbreytingu um 3 kr. eða rúmar 3 kr. Í frv. er hins vegar sagt í þar til heyrandi grein, að bátasjómenn skuli hafa óbreytt verð frá síðustu samningum, óhreytt skiptaverð fyrir sinn fisk, þ.e.a.s., ef bátasjómenn knýja ekki fram nýja samninga, þá munu þeir á þessari vertíð verða neyddir til þess með lagasetningu að selja sinn fisk á svo sem um það bil hálfvirði. Ríkisstj. getur að sjálfsögðu beðíð þá um að sýna skilning, en ég er hræddur um, að þeim finnist ríkisstj. hafa sýnt heldur lítinn skilning á sinum högum. Auðvitað efnir hér ríkisstj. beinlínis til þess, að sjómenn uni þessu ekki og að það verði átök um skiptaverð sjómanna, og þá getum við rétt gert okkur í hugarlund, hver áhrif það muni hafa á íslenzkan þjóðarbúskap, ef bátaflotinn stöðvaðist nú á vertíð. Ef hann gerir það ekki, þá er það vissulega ekki ríkisstj. að þakka, því að hún hefur hér gersamlega efnt til þess, að svo hljóti að verða.

En hvað þá um útvegsmennina sjálfa? Jú, þeir búa nú við fiskverð, sem ætla má, þegar talin eru til fiskverðs þau fríðindi, sem útflutningssjóður veitir þeim, að þá sé fiskverð til útgerðarmanna svo sem eins og kr. 2.20—2.30, þ.e.a.s. þeir hafa samning við frystihúsin um, að frystihúsin borgi út fyrir fisk við móttöku kr. 1.5? fyrir hvert kg, en auk þess eiga útvegsmenn ákveðinn hundraðshluta af verðbótum þeim, sem útflutningssjóður greiðir, og hefur það verið metíð á 62 eða 63 aura á kg, svo að þar með er fiskverðið raunverulega til útvegsmanna kr. 2.20 eða því sem næst. Auk þess greiðir útflutningssjóður fyrir útvegsmenn vátryggingargjöld á skipum, sem menn meta nú með ýmsum hætti, en algengt mun, að það sé talið jafngilda 10–20 aura fiskverði á kg. Raunverulegt fiskverð, sem útgerðarmenn fá nú, er þess vegna kr. 2.20–2.30, kannske kr. 2.35. Nú þegar hin áformuðu lög taka gildi, ef það á fyrir þeim að liggja, þá breytist þetta nokkuð hjá útvegsmönnum. Þeir hafa í rauninni engan samning eftir við sinn fiskkaupanda annan en samninginn um útborgunarverðið kr. 1.57. Samningurinn um bætur úr útflutningssjóði fellur að sjálfsögðu um sjálfan sig, og einnig verður hætt að greiða tryggingu af bátum þeirra. Það er þess vegna augsýnilegt, að þeir þurfa að gera nýja samninga við frystihúsin eða sína fiskkaupendur. En þeir, sem þekkja til þeirra aðila, geta svo sem gert sér í hugarlund, að frystihúsin muni ekki flýta sér mjög að gera nýja samninga og muni reyna að ná til sín bróðurpartinum af þeirri hækkun, sem á útflutningsverðinu verður af gengisbreytingunni. Það er þess vegna ósýnt með öllu, að útgerðarmenn fái nokkra hækkun á sínum afla á þessum vetri, og er þá auðvitað um beint tap fyrir þá að ræða, þar sem rekstrarvörur útvegsins hækka verulega í verði við þessar aðgerðir, eða svo reyndist það a.m.k. árið 1950, þegar gengisbreytingin var gerð. Þá voru lagðir fyrir margháttaðir útreikningar á því, að fiskverð til útvegsmanna gæti hækkað um svo og svo marga aura, en í reyndinni hækkaði það aldrei um einn eyri, fyrr en útvegsmenn höfðu lagt flota sínum og látið hann liggja allan janúarmánuð 1951.

Við því, að sama sagan endurtaki sig ekki, eru engar skorður reistar, bókstaflega engar skorður, og því er ekkert líklegra en hér muni endurtaka sig sama sagan, máske ekki algerlega á sömu lund. En hitt er þó vist, að fastheldnir munu frystihúsaeigendur á það, sem þeim er hér lagt í hendur kvaðalaust, um að koma því til skila til fiskframleiðendanna sjálfra. Ég óttast því, að hér verði enn um að ræða verulega rýrnun á hlut útvegsmanna og sjómanna, sem eiga að taka á sig vaxandi dýrtíð og þá kvöð að selja sinn fisk á sama verði í ár og í fyrra, þótt öllum öðrum aðilum sé ætlað að fá hækkað fiskverð.

Í öllum orðræðum ríkisstj. hefur að undanförnu því verið mjög haldið fram, að allt, sem gerði það nauðsynlegt að framkvæma þessar ráðstafanir, séu afglöp, sem framin hafi verið í tíð vinstri stjórnarinnar. Ekki er þeim láandi, sem illa stjórna, þótt þeir reyni að koma sök sinni á einhverja aðra, og er það raunar ekki nýr siður. Ég hef hér sýnt fram á það, að fyrir aðgerðir vinstri stjórnarinnar varð mikil framleiðsluaukning í þjóðarbúskap Íslendinga. En núverandi ríkisstj. og flokkar hennar hafa að sínu leyti gert ámóta ráðstafanir til þess, að framleiðslan hljóti að dragast saman. Það situr þess vegna illa á núv. ríkisstjórn og þeim flokkum, sem hana styðja, eftir að vera búin að lifa í heilt ár og fara í gegnum tvennar kosningar án þess að hreyfa verðlagið í landinu til muna, eingöngu vegna þess, að þeir voru að eyða upp sjóðum, sem vinstri stjórnin skildi eftir, að halda því nú fram, að allt, sem aflaga hefur farið, sé að kenna óstjórn vinstri stjórnarinnar. Ég held því ekki fram, að ekkert af ráðstöfunum ríkisstj., vinstri stjórnarinnar svonefndu, hafi orkað tvímælis. En sú ríkisstjórn, sem nú situr, og sú ríkisstj., sem var hennar undanfari, Alþfl.-stjórnin, þola vissulega engan samanburð við hana.

Ég vil nota tækifærið, vegna þess að hæstv. viðskmrh. er hér genginn í salinn og ég hef haft nokkur orð um hans ræður hér, meðan hann var ekki viðstaddur, þá vil ég aðeins lítillega rifja upp, en þó aðallega bæta við það, sem ég áður hef sagt um hans málflutning hér, sem kemur mér sannast að segja nokkuð á óvart. Ég hef hér rifjað það upp, að hæstv. ráðh. hefur talið, að bátagjaldeyriskerfið hafi verið upphaf hins margfalda gengis uppbótakerfisins og það kerfi hafi verið óheillaspor. Í tilefni af því vil ég sérstaklega gera aðeins að umtalsefni hans afstöðu til gengislækkunarinnar, sem framkvæmd var árið 1950. Þá var hæstv. viðskmrh. ekki ráðherra, hann var prófessor við Háskóla Íslands, og ég sé það mjög af hans greinargerðum og ræðum um málið þá, að hann hefur lagt sína fræðimennsku mjög í það að reyna að finna út, hvaða áhrif þær ráðstafanir mundu þá hafa. Og honum til verðugs hróss get ég sagt, að flest af því, sem hann þá sagði um málið, hefur alveg staðizt dóm reynslunnar. Hann var þá á móti gengislækkun og sýndi fram á afleiðingar hennar með ýmsum hætti. Hann taldi þá ekki, að mismunakerfið væri eins fráleitt og hann vill nú vera láta, og niðurstaða hans í afstöðunni til málsins þá kemur þannig fram í hans framsöguræðu fyrir sínu nál., en þar segir m.a.:

„Til þess að gengislækkun nú gæti talizt samrýmanleg stefnu Alþfl., verður að vera tryggt, að allt hafi áður verið gert til þess að tryggja þegnum þjóðfélagsins fulla atvinnu og að tekið sé fyrir alla óeðlilega gróðamyndun. En án slíkra ráðstafana verður gengið heldur ekki tryggt, þó að það sé lækkað. Annars heldur gengislækkunarhjólið áfram að snúast einn hring á hverjum áratug.“

Síðan þessi orð voru mælt, er liðinn nákvæmlega einn áratugur, og hjólið virðist vera komið einn hring, eins og hæstv. núv. viðskmrh. sá fyrir og sagði fyrir. Þess vegna verður það þeim mun undarlegra, að einn fræðimaður, sem lagt hefur vinnu og þekkingu sína í það að leita eftir því, hver áhrif svona ráðstafanir mundu hafa, segir það fyrir, fær álit sitt staðfest af reynslunni, skuli svo vera á allt öðru máll, þegar þessi áratugur er liðinn og til þess er fullkomlega komið, að kenning hans er sönnuð. Allar þær aðstæður, sem hann taldi hér vera nauðsynlegar, tryggingu þess; að full atvinna héldist, og tryggingu þess, að ekki yrði um gróðamyndun að ræða hjá einstaklingum eða hjá einhverjum aðilum í þjóðfélaginu, — allar þessar aðstæður standa gersamlega óbreyttar. Og ég vil leyfa mér að halda því fram, að alveg á sama hátt og þessi skoðun og þessi kenning hæstv. núv. viðskmrh. þá reyndist rétt, eins muni hún eiga við enn þá.

Ég sé ekki, að neitt hafi breytzt, sem afsannar þetta.

Þá var hann líka þeirrar skoðunar, að það væri ekkert aðalatriði að hafa gengið eitt. Snemma í ræðu sinni segir hann, með leyfi forseta, og vitna, ég þar til framsöguræðu hans fyrir sínu nál. 1950, þar sem hann sagðist leggja gegn því, að sú gengislækkun, sem þá var á dagskrá, yrði samþykkt. Þar segir hann:

„Þegar tekin er ákvörðun um gengisbreytingu, verður að hafa það hugfast, að eitt gengi hæfir ekki öllum markmiðum, sem til greina kemur að keppa að. Ef koma á jafnvægi á utanríkisverzlunina, hæfir eitt gengi. En sé markmiðið að koma því til leiðar, að atvinnuvegirnir geti starfað án halla, getur annarrar gengisbreytingar verið þörf. Ákveðið gengi getur nægt einni útflutningsgrein, en annarri ekki o.s.frv. Því verður að athuga, þegar gengi er breytt, hvaða markmiði skuli náð.“

Ég sé ekki annað en hæstv. ráðh. hafi hérna algerlega sýnt fram á það, að í kjölfar gengisbreytingarinnar hlyti að koma mismunandi gengi, þ.e.a.s. bátagjaldeyriskerfið, sem hann vildi losna við. Ég hef ekki komið auga á, að neinar aðstæður hafi í þessu breytzt, og ég mundi þess vegna ætla út frá þeim rökum, sem hæstv. viðskmrh. hefur hér fært um mái sitt, að í kjölfar þessarar gengisfellingar, sem nú á að framkvæma, mundi enn koma samdráttur í atvinnulífið, því að þessi gengisbreyting er eingöngu miðuð við jafnvægi í utanríkisviðskiptunum, alveg eins og þá skeði. Og það skyldi þá aldrei vera, eftir þau orð, að uppbótakerfið hafi verið óheillaspor, að þessi hæstv. ráðherra ætti eftir, ef hann yrði ráðherra svo sem eftir eitt ár eða tvö, að leggja hér til, að komið yrði á nýju bátagjaldeyriskerfi, til þess að þróunarsagan geti nú algerlega endurtekið sig og þær kenningar, sem hann þá boðaði og þá reyndust réttar? Ég veit ekki til þess, að neitt hafi skeð, sem gerir það líklegt, að þær séu rangar nú, jafnréttar og þær sýndust þá. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann, hvort hann muni ljúka máli sinu á fimm mínútum eða svo, því að að öðrum kosti munum við þurfa að fresta fundi.) Ég á nú að vísu ekki mjög mikið eftir af henni, en nóg til þess, að það tekur 10 mínútur eða kortér. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar hlé var gert á fundi til kvöldverðar, var ég þar kominn í ræðu minni, sem ég lítillega hafði hafið að lýsa í einstökum atriðum sumum af þeim ráðstöfunum, sem fyrirhugaðar eru í þeirri stríðsyfirlýsingu ríkisstj. gegn þjóðinni, sem þetta frv. er. Ég hafði drepið á það, að gagnvart bátasjómönnum felst í því lögþvingun þeirra stétt til handa til þess að selja sinn fisk á verði, sem er um það bil hálfvirði af því, sem eðlilegt má telja að verð á ferskum fiski komi til með að eiga að vera, eftir að gengisbreytingin er komin í framkvæmd. Ég sýndi fram á það, að með lögunum er þeim gert að selja sinn aflahlut á kr. 1.66 kg, þegar eðlilegt væri, að fiskverð væri eða gæti verið nokkuð yfir 3 kr. hvert kg af slægðum þorski með haus. Þess er því vart að vænta, að ákvæði frv. um þetta atriði séu til þess fallin að tryggja vinnufrið við þá framleiðslu.

Ég benti einnig á það, að gagnvart útvegsmönnum eru ákvæði laganna með þeim hætti, að eftir að þessi áform ríkisstj. tækju lagagildi, hefði útvegsmaðurinn ekki annan samning í gildi við sinn fiskkaupanda, sem í flestum tilfellum eru frystihúsin, heldur en samninginn um útborgunarverð kr. 1.57 á hvert kg fisks.

Báðar þessar stéttir, bæði útvegsmenn og bátasjómenn, munu því sæta mjög lökum kjörum, nema þeir þegar er ráðstafanir þessar ganga í garð, ef þær þá gera það, nái nýjum samningum. En samkv. öllum yfirlýsingum ríkisstj. mun hún beita sér og sínu áhrifavaldi til þess a.m.k., að bátasjómenn fáí enga leiðréttingu. Það fer ekki á milli mála í frv. og grg. þess, svo og þegar athugaðar eru þær ræður, sem hæstv. ráðh. hafa hér haldið um þetta mál.

Hinn almenni verkamaður og launþegar yfirleitt fá svo að taka við dýrtíðaraukningunni allri saman án þess að hljóta nokkrar minnstu bætur þar á í kaupi.

Þær bætur eða þær sárabætur eða þeir plástrar, sem ríkisstj. hyggst líma eftir sitt stóra högg, eru á hinn bóginn óverulegir, þegar þeir eru bornir saman við þá áverka, sem högg hennar hljóta að skilja eftir, og alveg er það sérstaklega athyglisvert, að ljósasti punkturinn í þessari fyrirhuguðu lagasetningu er að sjálfsögðu aukningin á fjölskyldubótunum. Við það ákvæði er það alveg sérstaklega athyglisvert, að það er það ákvæði frv., sem gengur nákvæmlega beint á móti þeirri stefnu, sem í frv. er boðuð.

Frv. er talíð nauðsynlegt m.a. af því, að hér eigi að útrýma niðurgreiðslu- eða millifærslukerfi. En auðvitað eru fjölskyldubæturnar ekkert annað í eðli sínu heldur en niðurgreiðsla á uppeidiskostnaði barna, og er þess vegna ákvæðið í algeru ósamræmi við stefnu frv., enda er það eina ákvæði frv., sem má segja að ekki sé þar inn sett með fullan fjandskap við alþýðu þessa lands fyrir augum.

Ef litíð er á, hvernig ráðstafanir þessar verka gagnvart bændum, liggur það í augum uppi, að á s.l. vetri var kaup bóndans í verðlagningu landbúnaðarafurða rýrt jafnmikið og kaup verkamanna, en kauprýrnunin hjá verkamönnum var, eins og ég hef áður bent á, 13.4% frá umsömdu kaupi. Við það bætist svo, að með sérstökum stjórnarráðstöfunum á s.l. hausti var bændum meinað að fá þá uppbót á verðlag á sínum búvörum, sem skapar þeirra kaup, sem þeir vissulega áttu tilkall til samkvæmt þeim samningum, sem þá voru í gildi um búvöruverð. Enn sem komið er hafa þeir enga leiðréttingu á því fengið. Enda þótt vonir standi nú til, að til þess muni draga, um það er lýkur, að það verði að einhverju bætt, þá sitja þeir samt enn uppi með þann skaða, sem þarna var á þeim unninn.

Í verðlagningu landbúnaðarvara nú mun það vera stefnan; að þær eigi að hækka fyrir hækkuðum tilkostnaði, en kaup bóndans eigi enn að sitja óbreytt og á þeim lið fái hann enga uppbót til þess að bera uppi sinn aukna heimiliskostnað. Hér situr bóndinn því algjörlega við sama borð og launþegarnir og verður fyrir kjaraskerðingu til jafns við þá. En við þetta bætist svo, að öll tilhneiging ríkisstj. er til þess að vanreikna tilkostnað í atvinnurekstri, bæði sjávarútvegs og landbúnaðar, og má búast við, að af þeim sökum verði bóndinn einnig fyrir nokkurri kjaraskerðingu.

Þá stendur sérstaklega á um ýmiss konar framkvæmdir hjá bændastéttinni. T.d. er öll bændastéttin hér á Suðurlandi undir þá sök seld, að hún er nýbúin að reisa sér mjög stórt og mikið mjólkurbú til vinnslu á sínum afurðum. Á þessu búi hvíla nú mjög miklar skuldir. Verulegur hluti þeirra eru óumsamdar skuldir, sem vaxtahækkunin, sem fyrirhuguð er, mun fljótlega leggjast með verulegum þunga á. Að nokkru eru þessar skuldir í erlendri mynt og munu þess vegna hækka af þeim sökum. Nú sem stendur greiða allir bændur á Suðurlandi 10 aura á hvern lítra af sínu mjólkurverði til þess að byggja upp þetta bú. Fyrirsjáanlegt er, að þetta gjald hlýtur að hækka enn frá þessu og rýra þar með kjör bóndans sérstaklega umfram það, sem hin almenna kjaraskerðing rýrir hans kjör, þó að ekki sé nú á það minnzt, að við þessu á hann að taka nú ofan í hallæri, sem gengið hefur hér yfir Suðurland með þeim óþurrkum, sem allir vita að hér voru í sumar og bezt sést á þeirri minnkuðu framleiðslu, sem nú er á mjólkurafurðum. Hafa væntanlega allir hv. þm. veitt því athygli, að nú stendur fyrir dyrum að flytja inn landbúnaðarvörur til landsins, og munu þegar hafa verið gerð kaup á 100 tonnum af dönsku smjöri.

En þó mun enn ótalinn sá liðurinn, sem líklegur er til að valda bændastéttinni þyngstum búsifjum, en það er hin minnkandi kaupgeta, sem fyrirsjáanlega verður í kaupstöðum landsins, þar sem bændur eiga markaðsvon fyrir sínar vörur. Það er þess vegna augsýnilegt, að hér er alveg með sérstökum hætti vegið að bændastéttinni og það ekki í einu höggi, heldur er látíð ríða að henni hvert höggið á fætur öðru.

Ekki sakar að minnast þess, til þess að stjórnarvöldin þó viti það og geri sér grein fyrir því, að með þessum ráðstöfunum, gengisfellingunni, er greinilegt, að sá sjóðurinn, sem þýðingarmestur er fyrir íslenzkan landbúnað, ræktunarsjóður, verður hreinlega gerður gjaldþrota. Hann á að standa undir miklu af erlendum lánum, sem hann hefur þegar sett í útlán hér innanlands, án þess að viðkomandi skuldunautar hans séu bundnir af gengisbreytingum, og mun ræktunarsjóður því, ef ekki verður með sérstökum hætti hlaupið undir bagga með honum, hljóta að verða að draga saman eða leggja niður sína starfsemi, og ætla ég ekki að lýsa því hér, hver áhrif það mundi hafa á framleiðslu íslenzkra matvæla eða íslenzkra landbúnaðarvara.

Þá gildir það jafnt um þá, sem í sveit og við sjó búa, að allir þeir aðilar, sem hafa framkvæmdir á prjónunum, t.d. þeir bændur í sveitum, sem nú eru að byggja sér nýbýli, eða þeir kaupstaðabúar, sem nú eru að byggja hús yfir höfuð sér, munu vissulega fá kúluna kembda, þegar ráðstafanir þær, sem ríkisstj. ætlar að koma í framkvæmd, leggjast á með sínum punga, því að það er alkunna, að vöruverðshækkun verður mjög mikil. Í frv. ríkisstj. er það haft eftir fræðimönnum, að sú hækkun muni nema 13–14% á almennu verðlagi, að því er bezt verður skilið.

Ég hygg, að hér sé ekki tekinn til greina nema lítill hluti af þeim verkunum, sem þessi lagasetning og þær, sem með henni eru boðaðar, koma til með að hafa.

Á árinu 1950 var lagður fyrir nokkuð svipaður útreikningur og þá var dýrtíðaraukningin metin 11%. Á þremur fjórðungum hins fyrsta árs, sem sú gengisfelling var í gildi, nam þó raunveruleg verðhækkun 27%, að því er vísitalan mældi, og var það þó margra grunur, að sú vísitala væri ekki til þess fallín að mæla alla þá verðhækkun, sem raunverulega varð. Í því tilfelli reyndist því nokkuð nálægt vegi að margfalda áætlun þeirra sérfræðinga, sem þáv. ríkisstj. vitnaði í, með 21/2 til þess að fá út hina raunverulegu verðhækkun.

Ég ætla, að hér á hafi engin breyting orðið, og að nær lagi væri að ætla, að sú verðhækkun, sem hér er talin líkleg, ætti að margfaldast enn með 21/2 til þess að komast í eitthvert samhengi við raunveruleikann, og liggur þá fyrir, að hin almenna verðhækkun mundi að meðaltall nema fram undir 40%.

Ég sé, að hæstv. viðskmrh. setur upp þess háttar svip, sem gefur til kynna, að honum finnist talan, sem ríkisstj. hefur skrifað í sitt frv., líklegri en sú, sem ég hér nefni. Ég tel þess vegna ekki úr vegi að bregða upp fyrir bæði honum og öðrum hv. þm. mynd af því, hvernig ein ákveðin ríkisstofnun hefur metið, að verðlag mundi breytast á þeim vörum, sem hún þarf að nota til byggingarframkvæmda. Mér er kunnugt um, að sú stofnun telur við fyrstu yfirsýn, að eftirtaldar byggingarvörur muni hækka eins og hér segir: Timbur, mótatimbur, muni hækka úr 50 kr. hvert kúbíkfet í 75 kr., en þar er um að ræða 50% verðhækkun. Þá metur sú sama stofnun, að sement frá sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi muni hækka um nálægt 43%, þ.e.a.s. úr 755 kr. tonnið í 1080 kr. Sama stofnun telur, að járn, steypustyrktarjárn, muni breytast í verði úr kr. 4.20 kg í 7 kr. , en það er yfir 60% hækkun. Í því mun samt vera einhver erlend verðhækkun auk þeirra hækkana, sem af þessum fyrirhuguðu ráðstöfunum ríkisstj. stafa.

Ég hef að sjálfsögðu ekki haft nein tækifæri til þess að sannprófa, hvernig þessar áætlanir standast. En hitt er mér kunnugt um, að þær eru gerðar af stofnun, sem leitaðist við það eitt að áætla sinn kostnað, eins og hann raunverulega mundi verða. (Gripið fram í: Hvaða stofnun er þetta?) Það getur hæstv. ráðh. fengið að vita, en ég veit ekki, hvort ég hef umboð til þess á þessu stigi að skýra frá því. En ég get bent hæstv. ráðherra á það, að þessar upplýsingar eru gefnar í fjvn. Alþingis, og ef hann vildi heimsækja nefndina, þá efast ég ekkert um það, að honum verður skýrt frá því, hvaða stofnun það er. En sökum þess, að sú stofnun sagðist ekki geta tekið ábyrgð á þessum tölum, þá bað hún sérstaklega um, að hún yrði ekki borin fyrir því, að svona yrði þetta, en þetta var engu að síður hennar áætlun.

Þeir húsbyggjendur, sem eru í miðju kafi með sínar byggingar, og þeir, sem byggja nýbýli í sveitum, fá sannarlega að kenna á þessu. Og það er ekki nema von, að ríkisstjórnin telji ástæðu til þess, þegar fyrirsjáanlega margír húsbyggjendur munu tapa eignum sínum, munu tapa húsum sínum, verða að selja þau, og margir nýbýlabyggjendur munu flosna upp, — þá er ekki nema von, að ríkisstj. finnist ástæða til þess að biðja menn nú um að sýna skilning á þessu og hafast ekkert að gegn þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. fyrirhugar. Það mun sannarlega ekki af veita, að henni verði sýndur skilningur, ef hún á að koma þessum áformum sínum fram.

En er þá hreint engin ástæða til þess að gera neitt í íslenzkum efnahagsmálum? mætti spyrja. Ég hef þegar sýnt fram á það, að þær ástæður, sem ríkisstj. telur brýnastar og svo þýðingarmiklar, að hjá þessu verði ekki komizt, eru haldlaus rök. Hitt vil ég viðurkenna, að það væri gott, ef hægt væri að liðka nokkuð um okkar gjaldeyrisverzlun. Það er auðvitað hægt að gera með tvennu móti: Annars vegar með því að þrengja svo að lífskjörum fólksins, að það hafi ekki kaupgetu til þess að kaupa þær vörur, sem nútímaheimili telur sér nauðsynlegar. Það er leið ríkisstjórnarinnar. En hins vegar er einnig sú leið að fara ekki þannig að, heldur líta á hinn enda málsins, þ.e. reyna að auka svolítið við þann gjaldeyri, sem við höfum yfir að ráða.

Framleiðsluaukning kemur að engu haldi, segir í frv. ríkisstj., vegna þess að kerfið, sem við búum við, er svo vitlaust. Þá erum við búin að fá þá kenningu hingað inn í Alþingi, sem dagblað annars stjórnarflokksins, Alþfl., boðaði okkur fyrir nokkrum árum, en það var sem sagt, að ef síld fiskaðist sæmilega vel, mundi landið fara á hausinn.

Kannske eru þessar ráðstafanir gerðar af því, að það fiskaðist sæmilega vel síld í sumar. En ég hef hins vegar sýnt hér fram á, að ef kerfið, sem við búum við gagnvart útflutningsverzluninni, þ.e.a.s. útflutningssjóður og lögin um hann, ef það kerfi er orðið ónýtt, vegna þess að bætur þess séu meiri en það hefur möguleika til að hafa tekjur fyrir, þá er um það að sakast við þá ríkisstj., sem sat hér á s.l. ári, og þann þingmeirihluta, — hún hafði reyndar ekki þingmeirihluta, en hún hafði nákvæmlega helming þm., sem hún studdist við, — og svo þá aðila, sem veittu henni brautargengi með hjásetu, en það gerði Framsfl. Ég vil gjarnan endurtaka það í áheyrn ráðh., því að ég held, að það hafi enginn ráðh. verið hér staddur í þingsal, þegar ég sagði það í hið fyrra sinn, að á því ári, 1958, sem vinstri stjórnin, ríkisstj. Hermanns Jónassonar, bar ábyrgð á setningu laga um útflutningssjóð og á setningu fjárlaga, hafði útflutningssjóður svo ríflegar tekjur, að hægt var að láta hann greiða nokkuð af sínum fjármunum í ríkissjóð, og það var gert og sjóðurinn stóð við það. En þegar Alþýðuflokksstjórnin, með stuðningi Sjálfstfl. og hjásetu Framsfl. gerði sínar ráðstafanir um útflutningssjóð á s.l. vetri, hækkaði sú stjórn bætur sjóðsins svo mikið, að nú segir stjórnin sjálf, að tekjur hrökkvi þar ekki fyrir gjöldum og þess vegna sé kerfið ónýtt. Það er þess vegna ekki við aðra að sakast en núv. stjórnarflokka um það, að kerfið dugir ekki lengur. Það væri að sjálfsögðu nauðsynlegt að bæta úr þessum ágalla, ef hann er raunverulegur. Ég held þess vegna, að það hefði verið vitið meira að reyna að draga svo úr bótum, að til þessa þyrfti ekki að koma, heldur en að láta ríkissjóð hirða meginið af tekjum þessa sjóðs, hætta niðurgreiðslunum, lækka gengið og láta þar af leiðandi þjóðina bera þá skatta, sem útflutningssjóður áður bar og ekki var jafnað niður á þjóðina með rýrnuðum lífskjörum.

Það er mikið einkenni á öllum þeim ráðstöfunum, sem hér hafa verið boðaðar, að stjórnarvöldin virðast telja, að ef einhvers staðar kemur upp galli í okkar efnahagskerfi, þá eigi að leiðrétta hann með því að spretta upp talnadálkum í einhverjum bókum á kontórum. Það er mjög einkennandi fyrir hugsanagang stjórnarinnar. Ef það er of lítið af gjaldeyri, þá á að rífa upp bókhaldið og færa skýrslur og skrár með öðrum hætti. Það er álíka ráð eins og þegar Bakkabræður ætluðu að bera sólskin í trogum inn í húsið sitt. Bæði ég og fjöldamargir ræðumenn fleiri hafa sýnt fram á það, að þessar ráðstafanir auka ekki okkar tekjur, þær auka ekki okkar gjaldeyristekjur. Þær eru alls ómegnugar til þess, þær fara í gagnstæða átt. Hvers konar uppspretta á höfuðbókum stjórnarráðsins eða á gjaldeyrisreikningum þjóðarinnar jafnar ekki neitt af því, sem hér er talið vanta.

Alþingi og ríkisstjórn hafa á síðari árum raunar gert ærið fáar ráðstafanir til þess raunverulega að bæta íslenzkan þjóðarbúskap. Stjórn og Alþingi hafa gert fáar ráðstafanir, sem í eðli sínu eru efnahagsráðstafanir fyrir íslenzka þjóðarbúið. Ein hefur þó verið gerð, og hún er stór, og hennar njótum við nú í sívaxandi mæli, en það er útfærsla landhelginnar. Það var efnahagsmál fyrir Ísland. Henni eigum við m.a. að þakka stórbættan afla á síðustu árum. Skilningur hæstv. ríkisstj. á því er sá, sem ég hef hér áður lýst, að hæstv. forsrh. reyndi — og notaði til þess rangar tölur, eins og þessari hæstv. ríkisstj. raunar virðist vera svo einkar tamt — að sanna það, að landhelgisstækkunin væri liður í okkar vandræðum, liður í okkar fjárhagsvandræðum. Það er bókstaflega eina stóra efnahagsráðstöfunin, sem við höfum gert á síðari árum. Hún færir okkur auknar tekjur, vaxandi afla með hverju ári. Þá bjartsýni hefur ríkisstj. auðvitað ekki tileinkað sér að líta á þetta mál sem framtíðargrundvöll að batnandi hag, eins og hún þegar hefur þó sýnt sig vera, — en fyrirgefum henni það. Hún telur betri efnahagsráðstöfun að skrá íslenzka peninga með öðrum hætti en verið hefur og telur það einhverja lækningu.

Ég vil benda á, að fyrir þessu þingi og fyrir því síðasta hefur líka legið frv., sem er raunverulegt efnahagsmálafrv. Það er frv., sem ég og fleiri alþm. flytjum um það að leyfa með eðlilegum hætti og skynsamlegum takmörkunum veiðar á flatfiski á Íslandsmiðum, en þetta er raunverulega bannað nú, okkur til hins mesta tjóns, bæði efnalega og alla vega. Ég leyfi mér að fullyrða, að samþykkt þess frv. mundi færa okkur verulega auknar gjaldeyristekjur.

Þá vil ég benda á það, að íslenzki fiskiflotinn er sífellt að verða búinn betri og betri tækjum, þannig að aflabrögð hans verða stöðugt öruggari. Og þá vil ég ekki sízt benda á það, að einmitt nú stöndum við alveg á þröskuldi þess að geta komizt upp á lag með nýja tegund af veiðum, sem vafalaust getur gefið okkur a.m.k. hundrað, ef ekki hundruð milljóna í auknum gjaldeyri, og á ég þar við það, sem komið hefur í ljós, að nú er íslenzki fiskiflotinn að komast upp á lag með að veiða vetrarsíld í vörpu.

Við stöndum þess vegna ekki frammi fyrir neinni þeirri eymd, sem ríkisstj. vill vera láta. Þvert á móti, ef við hefðum stjórn á okkar þjóðfélagi, sem vildi líta raunhæft á okkar möguleika og ekki væri mörkuð þeirri þröngsýni, svartsýni og afturhaldssemi, sem núv. ríkisstjórn vissulega er, þá þyrfti hér vissulega ekki að stíga þau öfugspor, sem hér er stefnt að.

Ég skal viðurkenna, að það eru ýmsir gallar á uppbótaleiðinni, þó að hún sé vissulega miklum mun betri en sú gengisfelling, sem hér er farið fram á. Helzti gallinn á uppbótakerfinu er sá, að það er ákaflega illhægt að ákveða rekstrargrundvöll fyrir fiskiðjuna í landinu með þeim hætti, að þar verði á jafnvægi milli hinna smáu og hinna stóru. Ef ákveðinn rekstrargrundvöllur er markaður, er hætt við því, að annaðhvort muni ske, að hin smærri frystihús og verkunarstöðvar geti ekki haldið starfrækslu sinni svo sem bezt yrði á kosið, eða að hinir stærstu aðilar þar í tækju óhóflegan gróða á sinni starfsemi. Ég tei þess vegna, að út úr uppbótakerfinu þurfi að taka fiskverkunina og að það þurfi að þjóðnýta hana, reka hana á svipaðan hátt og síldarverksmiðjur ríkisins nú eru reknar. Auðvitað er halli á þeim, þegar aflabrestur er. Það mundi líka verða á frystihúsunum. En með því að slíkur rekstur væri þjóðnýttur, rekinn af þjóðarbúinu sjálfu, væri hægt að jafna þar svo á milli vinnslunnar, að hvergi þyrfti að koma til vinnslustöðvunar, og mætti nota hagnaðinn, sem verður þar, sem bezt gengur, til þess að tryggja það, að rekstur verði þó með eðlilegum hætti, þar sem minna er um og þar sem reksturinn er fjárhagslega erfiðari.

Ég held, að slíkar ráðstafanir ásamt þjóðnýtingu á vissum þáttum innflutningsins, eins og t.d. olíuverzluninni, væru ólíkt heilbrigðara bjargráð fyrir þjóðina en það, sem ríkisstj. leggur hér fyrir og kallar viðreisn. Ég held, að það væri þarft verk að forða þessari þjóð frá viðreisn þeirrar íhaldsstjórnar, sem nú situr að völdum.

Það kann vel að vera, að gengið sé skakkt skráð. Ég vil ekki halda því fram, að skráning íslenzkrar krónu, eins og hún er í dag, sé endilega rétt eða nein óumbreytanleg tala. En ég sé ekki, að hér reki þann nauður til að breyta þeirri skráningu, sem ríkisstj. vill vera láta, og auk þess held ég, þótt mörgum kunni að hafa fundizt rök hv. 5. þm. Norðurl. v. vera kannske umdeilanleg um það, að hér sé gengið of langt á gengisfellingarbrautinni, að þau rök séu ekki haldminni en þau rök, sem ríkisstjórnin nú færir. Það er í rauninni býsna táknrænt dæmi, sem sá virðulegi þm. tók, að hér er í rauninni sá munur á till. hans og ríkisstjórnarinnar, að önnur er líkust því, að sá maður, sem stöðvar farartæki sitt í bratta og veit, að það muni renna aftur á bak, láti stein við hjólið á því og leggi hann 20 m frá farartækinu, elns og Björn Pálsson, hv. 5. þm. Norðurl. v., vildi vera láta, en hann lagði til aðra gengislækkun nokkru minni og taldi sig þá leggja steininn svo sem eins og metra frá farartækinu. Í báðum tilfellum mundi vagninn renna aftur á bak og steinar þeirra 5. þm. Norðurl. v. og ríkisstj. reynast kannske álíka haldlitlir, þó að hitt beri að játa, að steinn 5. þm. Norðurl. v. sé kannske öllu líklegri til þess að forða hruninu, sem hér er að stefnt og hér vofir yfir.

En ef það á bara að vera smekksatriði, að rangt skráð gengi megi ekki vera, þá held ég, að hæstv. ríkisstjórn ætti að athuga sitt eigið gengi hjá þjóðinni. Ég er hræddur um, að það sé líka rangt skráð í dag. Ég held, að hún ætti þá bara að rjúfa þing og efna til kosninga ag fá sitt gengi skráð upp á nýtt og sjá, hvort hún situr á rétt skráðu gengi í dag.

Nei, hér er að því stefnt að bæta enn við það ranglæti, sem framið var í fyrravetur gagnvart þeirri þjóð, sem eykur stöðugt framleiðsluna og er þrátt fyrir óstjórnina í landinu nálægt því að rífa okkur yfir alla erfiðleika hérna. Hún fékk í sinn hlut 13.4% kauplækkun í fyrravetur, sem henni var lögþvingað. Nú er líka svo komið, að af því að þjóðinni láðist þá að stemma á að ósí, þá er hér enn haldið áfram á sömu brautinni. Og þegar sú þjóð, sem hélt sig um skeið — og kannske ekki með mjög röngu — vera með fram undir beztu lífskjör, er þekktust í heiminum, tekur að bera sig saman við aðrar þjóðir, þá kemur allt annað upp á teningnum, enda hefur á sama tíma, sem íslenzk lífskjör hafa verið látin ganga aftur á bak, flestar þjóðir í nálægð við okkur tekið nokkur framfaraspor.

Þegar hæstv. viðskmrh. gerir hér samanburð á launakjörum danskra verkamanna og norskra verkamanna og svo aftur þeirra, sem hér vinna, þá þarf hann, til þess að fá þar nokkurn samjöfnuð, að láta íslenzka verkamanninn vinna 9 klst. lengur á viku en þann danska og nær þó ekki jöfnuði. Og það var eins og mér fyndist á honum, að þetta teldi hann eðlilegt og sanngjarnt. En þó að hann kannske telji það eðlilegt og sanngjarnt, þá verður þjóðinni aldrei láð það, þó að hún telji, að hér sé engin sanngirni á ferðum.

Við höfum líka gott og glöggt dæmi af því, hvernig lífskjör íslenzku þjóðarinnar hafa verið þrúguð að undanförnu og þó mest væntanlega með þeim ráðstöfunum, sem hér eru á ferðinni, ef þær taka lagagildi. Færeyingar hafa ekki verið taldir til þeirra þjóða, sem lifðu í miklu óhófi eða hefðu óskaplega góð lífskjör. Þvert á móti hafa þeir verið taldir standa í lífskjörum mjög að baki Íslendinga. Nú er svo komið, að Færeyingar segja: Við viljum ekki vinna á íslenzkum skipum, nema við fáum tryggðar 1500 danskar krónur á mánuði, því að það fáum við á skipum hjá Bretum, á skipum hjá Vestur-Þjóðverjum, á skipum hjá Norðmönnum, og við getum fengið það hvar sem er. — En þá svara íslenzkir útgerðarmenn og segja: Við getum ekki borgað ykkur þetta, því að þetta er meira en það, sem íslenzkir sjómenn hafa. — Þá vitum við, hvað íslenzkir sjómenn hafa, eða a.m.k. hvað íslenzkum sjómönnum er ætlað að hafa eftir þær ráðstafanir, sem hér eru á ferðinni.

Sú viðreisn, sem hér er á döfinni, er ekki viðreisn á íslenzku atvinnulífi, það stendur með blóma í dag. Það er ekki heldur viðreisn á lífskjörum íslenzkrar alþýðu, þótt þar þyrfti vissulega nokkurrar viðreisnar við. Það er viðreisn fátæktar og eymdar í landinu, það verður ekki misskilið. Og samkvæmt því mun íslenzk alþýða sjálfsagt haga sér gagnvart þeim áformum, sem hér eru fyrirhuguð og kölluð eru viðreisn.