12.02.1960
Neðri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

48. mál, efnahagsmál

Menntmrh. ( Gylfi Þ. Gíslason ):

Herra forseti. Ég hef haldið eina ræðu við þessa umr. og talaði þá í rúma þrjá stundarfjórðunga. Ég ætlaði að láta þá ræðu duga og þykir því í raun og veru fyrir því að þurfa að tefja starfstíma hv. d., þegar þetta er áliðið nætur. En hv. 1. þm. Austf. (EystJ) hefur nú talað í rúma sjö stundarfjórðunga og satt að segja látið sér um munn fara mjög margt þess konar, að ég fæ ekki orða bundizt. Ég mun hins vegar ekki freista þess að gera þessari sjö stundarfjórðunga ræðu þau skil, sem hún í raun og veru ætti skilið, heldur láta mér nægja að drepa á aðeins örfá atriði, sem telja má meginatriði í ræðu hans, og skal með ánægju verða við þeim tilmælum forseta að hafa það mál mitt sem allra stytzt.

Hv. þm. ræddi í fyrsta kafla ræðu sinnar um hallann á greiðsluviðskiptunum undanfarin ár og erlendu lántökurnar. Allra fyrst í þessum kafla sagðist hann aldrei hafa mælt með því, að öll fjárfesting í landinu væri afgreidd með erlendum lánum, slíkt væri að sjálfsögðu fjarstæða. Þarna talaði fyrrv. fjmrh. Auðvitað er þetta fullkomlega rétt, sem hann sagði og vildi leggja áherzlu á að væri skoðun sín, að auðvitað kæmi ekki til mála að greiða alla fjárfestingu landsmanna með erlendum lánum. En Adam var ekki lengi í Paradís. Allt í einu kastaði þm. af sér klæðnaði hins fyrrv. fjmrh. og varpaði yfir sig skikkju hins óprúttna áróðursmanns stjórnarandstöðunnar, því að hvernig hélt svo hv. þm. áfram? Hann sagði: Ríkisstjórnin telur halla áranna 1956–58 vera um 600 millj. kr. Og svo sagði hann: Hvaða lán voru tekin á þessum árum? Hann las upp lista

yfir þessar lántökur úr nál. hv. 1. minni hl. fjhn. — og sjá: Summan af lántökum þessara ára var samkvæmt listanum 562 millj. kr. Svo spurði hv. þm. með miklum þótta: Hver þorir að halda því fram, að þetta séu eyðslulán? Og þetta átti að vera afsönnun á því, að lántökur þessa tímabils gætu að nokkru leyti verið það, sem ég vil kalla hallalán, það væru allt saman framkvæmdalán, af því að hægt væri að benda á framkvæmdir, sem þessi lán hefðu beinlínis gengið til þess að greiða kostnaðinn við. M.ö.o.: þingmaðurinn sagði svo að segja orðrétt: Þessi lán eru framkvæmdalán, af því að andvirði þeirra hefur gengið beint til ákveðinna framkvæmda. — En nú spyr ég þennan hv. þm. og alla hv. þdm.: Ef tekin væru lán til þess að greiða allan kostnað við framkvæmdir í landinu, eru það þá ekki með alveg sama hætti framkvæmdalán? Ef fjárfesting í atvinnufyrirtækjum og öðrum skyldum framkvæmdum á einu ári er 1000 millj. kr. og erlendar lántökur hafa á sama ári numið 1000 millj. kr., teknar til þess að greiða þessar framkvæmdir, þá er þetta samkv. þessari seinni skilgreiningu hv. þm. framkvæmdalán. M.ö.o.: þegar hann hefur áróðurinn, afneitar hann því, sem hann byrjaði ræðu sína með, að segjast aldrei hafa mælt með því, að til mála geti komið, að öll fjárfesting sé greidd með erlendum lánum.

Hvað eru framkvæmdalán í sannleika sagt? (Gripið fram í.) Nú hef ég orðið og ætla að tala í kortér, ekki sjö kortér eins og hv. þm., og bið hann að lofa mér að tala á meðan. Ég segi: Hvað eru framkvæmdalán? Framkvæmdalán eru lán, sem skila arði í krónum og gjaldeyri. Þau þurfa líka að skapa gjaldeyri jafnhratt og nemur greiðslu vaxta og afborgana af lánunum. Í. þriðja lagi, og það er mergurinn málsins: Greiðslubyrðin vegna lánanna, að viðbættum innlendum kostnaði framkvæmdanna, má ekki verða meiri en nemur heilbrigðum sparnaði þjóðarinnar. Þetta er sú eina skynsamlega skilgreining, sem hægt er að gefa á því, hvort lán séu framkvæmdalán eða ekki.

Hv. þm. gerði enga tilraun til þess að sýna fram á, að öll þessi 562 millj. kr. lán stæðust þessa skilgreiningu. Það er þó mergurinn málsins. Mergurinn málsins er sá, hvort þm. telur eðlilegt að greiða jafnhátt hlutfall af kostnaði við þessar framkvæmdir og hér er um að ræða. Því sleppti hann. Spurningin er auðvitað, hvort afborganir og vextir af erlendu lánunum, að viðbættum innlenda kostnaðinum við framkvæmdirnar, við fjárfestinguna, séu meiri en vænta megi að heilbrigður sparnaður þjóðarinnar geti staðið undir. Ef þetta hlutfall er hærra, verður afleiðingin annars vegar verðbólga innanlands og hins vegar halli af lántökum erlendis. Þetta eru algerlega ómótmælanlegar staðreyndir, kannske svolítið torskildar, þegar þær eru settar fram í jafnstuttu máli og hér er um að ræða, en óhagganlegar og viðurkenndar af öllum, sem til þekkja, og algerlega viðurkenndar af hv. þm., meðan hann var fjmrh. í síðustu ríkisstjórn a.m.k.

Nú er spurningin, hvort hægt sé að leiða einhver rök að því, að lántökur þessara ára standist ekki þessa skilgreiningu að öllu leyti. Vextir og afborganir af erlendum lánum námu á árinu 1957 rúmum 5% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, 1958 tæpum 6% af gjaldeyristekjunum, en 1959 má telja, að vextir og afborganir hafi verið komin upp í um 9% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, einmitt vegna hinnar auknu greiðslubyrði af þessum lántökum, 1960 sé það hlutfall komið yfir 10% og 1961 mun það fara yfir 11% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Það er augljóst hverjum manni, sem vill skilja það og vill setja sig inn í það, að þegar svona hátt hlutfall af gjaldeyristekjum þjóðarinnar bætist við innlenda kostnaðinn af fjárfestingunni, verður mjög erfitt, svo að ég kveði ekki sterkara að orði, að standa undir þessu með heilbrigðum sparnaði innanlands. Það er hægt að standa undir greiðslubyrði af erlendum lánum, sem nemur 4, 5, 6 kannske 7% af gjaldeyristekjunum til viðbótar innlenda kostnaðinum. En þegar þetta hlutfall er komið upp í 9, 10 eða 11%, er augljóst, að það er ekki hægt nema með stórkostlegum erfiðleikum. Það er þetta, það eru þessar tölur um hina sívaxandi greiðslubyrði á árunum 1959, 1960 og 1961, sem hafa verið merkið um, að hér sé komið of langt. Það eru þessar tölur, sem eru beinlínis sönnun fyrir því, að nokkur hluti, — ég segi ekki og hef aldrei sagt allar lántökurnar, — að nokkur hluti, að verulegur hluti þessara erlendu lántaka á árunum 1956—58 séu ekki heilbrigð framkvæmdalán, heldur hallalán afleiðing af jafnvægisleysi inn á við, sem valdið hafi greiðsluhalla og skuldasöfnun út á við.

Hv. þm. gerði enga tilraun til þess að rökstyðja staðhæfingu sina um það, að lánin séu öll framkvæmdalán, með þessum hætti, sem þó er eini mælikvarðinn, sem hægt er að beita. Hann beitti aðeins hinum mælíkvarðanum, að telja upp framkvæmdir, sem hefðu kostað jafnmikið og erlendu lánunum nam. En eins og ég sagði í dag og sagði aftur áðan, mætti með nákvæmlega sama hætti telja 1000 millj. kr. erlenda lántöku, þegar fjárfesting er framkvæmd fyrir 1000 millj., allt saman framkvæmdalán, þó að þm. hafi byrjað ræðu sina á því að segja, að slíkt næði auðvitað engri átt.

Þm. fór nokkrum orðum um þær upplýsingar, sem standa í texta frv. um hallann 1959, og vildi vefengja mjög þá áætlun, sem þar stendur. Tekið er skýrt fram, að það sé áætlun um, að hallinn muni væntanlega hafa orðið á því ári ekki minni en 350 millj. kr. og þar af hafi verið jafnað með erlendum lántökum um 260 millj. kr. Hann spurði, hvort til væri listi um lántökurnar. Það er hægt að sjá nú þegar, eins og ég hef tjáð honum síðdegis í dag, notkun hinna stærstu opinberu lána, svo sem ICA-lánanna, það liggur fyrir. Það, sem gerir endanlegt uppgjör á þessu árí sérstaklega torvelt, er, að á því hefur verið um sérstaklega miklar lántökur einkaaðila að ræða. En það er aðeins furðuleg tilætlunarsemi af manni, sem þekkir jafnvel til og hv. þm., að ætlast til þess, að 12. febr. 1960 geti legið fyrir fullkomnar upplýsingar um greiðslujöfnuðinn 1959. Það er furðuleg tilætlunarsemi. En það, sem hann gerði þessa tölu sérstaklega tortryggilega með, voru staðhæfingar, sem mig alveg rak í rogastanz yfir. Hann vitnaði í skýrslu, sem Landsbankinn hafði gefið út snemma á s.l. ári til þess að leiðrétta rangar tölur um gjaldeyrisstöðuna í dagblaðinu Tímanum, og sagði, að niðurstaða Landsbankans hefði verið sú, að gjaldeyrisstaðan frá september 1958 til september 1959 hefði aðeins versnað um 16 millj. kr. Svo sagði hv. þm.: Að hugsa sér, þetta var sagt fyrir kosningar: Gjaldeyrisstaðan versnaði um aðeins 16 millj. kr., en nú er sagt: Greiðsluhallinn var 350 millj. kr. — Hér er verið að gefa í skyn, að einhver skyldleiki sé með tölum um breytingar á gjaldeyrisstöðu og greiðsluhalla. Ef hv. þm. hefur ekki hreinlega mismælt sig þarna, er hér um svo dæmalausa tilraun til blekkingar að ræða, að ég segi það aftur: mig rak í rogastanz. Greiðsluhalli myndast að sjálfsögðu af tveimur meginstærðum: annars vegar af lántökum erlendis og hins vegar breytingu á gjaldeyrisstöðu. Greiðsluhallinn myndast af þessum tveimur aðalstærðum: annars vegar af lántökum erlendis og hins vegar breytingum á gjaldeyrisstöðu. Mjög er misjafnt, hversu mikill hluti hvor þátturinn um sig er í greiðsluhallanum á hverjum tíma. T.d. á árinu 1955, þegar greiðsluhallinn var talinn 148 millj. kr., var breyting á gjaldeyrisstöðunni 131 millj., en lántökurnar aðeins 16 millj. kr. Það er mjög eðlilegt, þegar svo mikill halli, svo mikil neikvæð breyting hefur orðið á gjaldeyrisstöðunni á einu ári, að það geti ekki haldið áfram á næstu árum, enda var það svo á árinu 1956, að þá var neikvæða breytingin á gjaldeyrisstöðunni ekki nema 75 millj., en erlendu lánin voru þá komin upp í um 90 millj. kr. 1957 breytist þetta enn. Þá var neikvæða breytingin á gjaldeyrisstöðunni enn þá minni, lánstraust bankanna erlendis er að þrjóta. Þá var neikvæða breytingin á gjaldeyrisstöðunni ekki nema 32 millj., en erlendu lántökurnar voru komnar yfir 200 millj. kr. Og 1958, það ár, sem hv. þm. var að vitna í að hluta, áðan, var ástandið þannig, að þá batnaði gjaldeyrisstaðan samkv. þeim fylgiskjölum, sem fylgja þessu frv., um 31.2 millj. kr., — hún batnaði samkv. upplýsingum, sem hann hefur fyrir framan sig, um 31.2 millj. kr., en erlendar lántökur náðu hins vegar á því ári 239 millj. kr., svo að greiðsluhallinn í þeirri merkingu, sem lögð hefur verið í það orð, nam 208 millj. kr. Með hliðsjón af því endanlega uppgjöri um árið 1958, sem hér liggur fyrir og prentað er sem fylgiskjal, þar sem gjaldeyrisstaðan batnar um 32 millj., þó að gert sé upp með greiðsluhalla upp á 208 millj. kr., á þm. ekki að koma sérstaklega á óvart, þó að gerð sé áætlun um árið 1959, þar sem gjaldeyrisstaðan hefur líka batnað, en samt um verulegan greiðsluhalla að ræða, af því að um bæði miklar opinberar lántökur hefur verið að ræða og þó alveg sérstaklega um óvenjulega miklar einkalántökur að ræða í sambandi við skipakaup, en skipainnflutningur jókst á þessu ári um ca. 60 millj. kr. Þess vegna er engum blöðum um það að fletta, að hér gerði þm. — ég vona óviljandi — tilraun til þess að kasta ryki í augu þeirra, sem á hlustuðu.

Þá gerði hv. þm. hina svonefndu EPU-skuld að umræðuefni og spurði: Hvers vegna festist EPU-lánið? Það ætti þm. bezt að víta sjálfur, því að hann átti verulegan þátt í þeim ráðstöfunum, sem gerðu það að verkum, að það lán festist, en auðvitað gerði hann það eingöngu af því, að það var hægt að festa það. Um þetta atriði ræddi ég við 1. umr. og sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það nánar. Þm. veit vel frá sinni fjmrh.-tíð, að samningarnir um EPU-lánið voru frá upphafi þannig, að það gat festst, og fyrst það gat festst, þá átti þm. sinn mikla þátt í því, að það var fest. Samningarnir um yfirdrættina hjá Evrópusjóðnum nú eru hins vegar þannig, að ekki er gert ráð fyrir, að slík lán geti festst. Það meginmunurinn á þessum lánum og EPU-láninu.

Þá lét hv. þm. í ljós mikla undrun yfir því, að ég skyldi hafa sagt, að ekki væri gert ráð fyrir því, að hækkun vaxtanna gengi inn í verðlagið. Hann bætti þó við alveg réttilega, að því aðeins gæti slik staðhæfing staðizt, að vaxtahækkunin ætti að vera til bráðabirgða aðeins, en það er einmitt sannleikurinn um þessa vaxtahækkun, sem hér er verið um að tala. Það er sannleikurinn um hana. Henni er ætlað að standa til bráðabirgða aðeins. Auk þess hefur enn engin ákvörðun verið um það tekin, hversu miklu vaxtahækkunin muni nema. Allir útreikningar um ákveðna byrði á þjóðina eða almenning af því eru því alveg út í bláinn, út í hött, og er bezt að spara sér þá, þangað til ákvörðunin um vaxtahæðina hefur verið tekin.

Þá endurtók hv. þm. fyrri ummæli sín um 1000 millj. kr. álögurnar, á þjóðina, eins og hann sagði áður, en almenning, eins og hann vildi segja núna. Ég ræddi þetta mál í dag og skal ekki eyða tíma hv. d. svona seint á nóttu til þess að ræða þetta rækilega. Ég skal aðeins svara þessum ummælum hans nú með því að minna hann á, að þegar við sátum saman í ríkisstj. Hermanns Jónassonar, gerði þáverandi stjórnarandstaða nákvæmlega sams konar útreikninga og hann leikur sér nú að. Og hver var niðurstaða þeirra? Niðurstaða þeirra, reiknað upp á nákvæmlega sama hátt, var sú, að stjórn okkar hv. þm. hefði lagt á þjóðina eða almenning 1200 millj. kr. álögur. Ég gerði einu sinni tilraun til þess í útvarpsumræðum að sýna fram á, að þessi útreikningur væri byggður á algerum hugtakaruglingi, og ég man ekki betur en hv. þm. hafi þá verið sæmilega ánægður með málflutning minn. Ég mun aldrei gleyma hneykslun hans, sem við vorum algerlega sammála um, á þessum útreikningum, þeir voru rangir í grundvallaratriðum. Og samt sem áður lætur hv, þm. sér sæma að endurtaka núna alveg nákvæmlega sams konar útreikninga. (EystJ: Hvað er rangt við þetta?) Það útskýrði ég í útvarpsumræðu einu sinni 1958, það útskýrði ég í dag og vil ekki þurfa að taka kortér núna til viðbótar á næturfundi til þess að ræða það frekar. En til þess að undirstrika, að þetta hlýtur að vera rangt, að hver skynsamur maður á að geta séð, að þetta er rangt, nægir að minna á, að ef þetta væri rétt, útreikningar stjórnarandstöðunnar 1958 og útreikningar stjórnarandstöðunnar nú, þá hafa verið lagðar á þjóðina á s.l. fjórum árum byrðar, sem nema 2200 millj. kr. Getur það verið rétt? Er hægt að leggja á eina þjóð, er hægt að leggja á almenning á fjórum árum 2200 millj. kr.? Það jafngildir því að lækka tekjur þjóðarinnar um helming, því að að meðaltali munu tekjurnar á þessu tímabili hafa verið einhvers staðar á milli 4000 og 4500 millj. kr. Að lækka tekjur þjóðarinnar um helming á fjórum árum, er það hægt, er það framkvæmanlegt? (EystJ: Kaupið hefur hækkað á móti. ) Það skiptir ekki málí, ekki f þessu sambandi, og ég skal minna hv. þm. á það, að sú kauphækkun, sem hann gerði ráð fyrir og við gerðum ráð fyrir í stjórn Hermanns Jónassonar vorið 1958, var 5%. Það var kauphækkunin, sem þá var gert ráð fyrir. Vöruverðshækkunin var þá áætluð 11%. Þetta man þm. jafnvel og ég man það. M.ö.o.: á móti 11% áætlaðri verðhækkun átti að koma 5% kauphækkun, helmingurinn af verðhækkuninni átti að bætast. Hinn helmingurinn átti að vera álögur. Það voru raunverulegar álögur eða hefðu orðið, ef allt hefði farið að áætlun okkar tveggja þá. Áætlað var, að vísitalan mundi hækka um 19 stig, 9 stig voru bætt með 5% kauphækkuninni, en 10 stig átti að fara fram á við alþýðusamtökin að þau gæfu eftir bótalaust. Þessi 10 stig reyndust meira, því að verðhækkunin var meiri en gert var ráð fyrir. Það kom í ljós, þegar leið fram á sumarið, að dómi Framsfl., að nauðsynleg eftirgjöf væri 15 stig, þ.e.a.s. um 7% af vísitölunni, eins og hún var þá, og það er skjalfest í till. Framsfl. frá stjórnarkreppunni í desember 1958, að flokkurinn taldi eftirgjöf 15 stiga nauðsynlega, — 15 stiga, sem svarar sem sagt til um það bil 7% af vísitölunni, eins og hún var þá. Af þessu má marka það, hvað kauphækkunin, sem hv. þm. talaði um áðan í sínu framíkalli, skiptir miklu máli í þessu sambandi.

Þetta staðfestir aðeins það, sem ég hef haldið fram áður, að sú kjararýrnun, sem þessar ráðstafanir munu hafa í för með sér, sem mér dettur ekki í hug að andmæla að muni eiga sér stað, vegna þess að gera á tilraun til þess að jafna greiðsluhallann við útlönd, er sízt meiri en sú kjararýrnun, sem víð hv. þm. vorum sammála um vorið 1958 að væri nauðsynleg. Hún er mjög svipuð, af ósköp eðlilegum ástæðum, því að ástandið er í heild mjög svipað nú og það var þá.

Þá gerðum við hv. þm. sameiginlega tilraun, sem ég taldi þá og tei enn að hafi verið allrar virðingar verð, til þess að leiðrétta greiðsluhallann gagnvart útlöndum með því móti að láta verðlagið hækka um 11%, en bæta það ekki nema um 5% í kaupinu. Sú tilraun var skynsamleg, hún var allrar virðingar verð, en hún var brotin á bak aftur, m.a. af samstarfsflokki okkar í ríkisstj., Alþb. Það var ekki okkar sök, að sú tilraun var brotin á bak aftur. En í eðli sínu var hún nákvæmlega sama eðlis og ráðstafanirnar núna: Það er sá munurinn á, að þá var hv. þm. ábyrgur ráðh., sem skildi vandamálið fullkomlega, nú er hann í stjórnarandstöðu. Ég er víss um, að hann skilur vandamálið nú nákvæmlega jafnvel og hann gerði þá. Það er ég alveg sannfærður um. Ég þekki hann nóg til þess, að ég veit það, og honum hefur ekkert farið aftur síðan vorið 1958. Það hefur engin breyting orðið á honum, það hefur aðeins orðið breyting á aðstöðu hans. Frá því að vera ábyrgur ráðherra er hann nú orðinn áróðursmaður í stjórnarandstöðu.. Það er eini munurinn. Í því ljósi verður að skoða allt, sem hann segir um þetta mál.