15.02.1960
Neðri deild: 31. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

48. mál, efnahagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Íslendingar eru fámennasti hópurinn í heiminum öllum, sem gerir tilraun til þess að halda uppi sjálfstæðu menningarríki. Og íslenzkt fullveldi er ekki nema rúmlega 40 ára gamalt. Þegar Íslendingar voru að berjast fyrir sjálfstæði sínu, töldu margir útlendingar slíka hugmynd fjarstæðu, jafnfátt fólk gæti aldrei haldið uppi sjálfstæðu menningarríki, hvað þá við þau skilyrði, sem eru hér á landi, svo norðarlega á hnettinum og svo fjarri öðrum ríkjum.

En reynslan hefur sýnt, að þessir menn höfðu rangt fyrir sér. Íslendingar hafa gætt þess sjálfstæðis, sem þeir áunnu sér, og eru aðilar að margs konar alþjóðasamstarfi. Þeir hafa með dugnaði, atorku og vinnusemi hagnýtt sér gæði sjávar og lands og nútímatækni með þeim hætti, að lífskjör eru hér og verða áfram jafngóð og gerist með nálægum þjóðum í Vestur-Evrópu.

Okkur hefur tekizt að koma hér á réttlátu þjóðfélagi, þar sem allir hafa verk að vinna. Atvinnuleysi er óþekkt, og hér er hvorki til auður né örbirgð í sama skilningi og lagður er í þau orð í öðrum og stærri ríkjum. Allt þetta hefur vakið athygli og aðdáun annarra þjóða. Á nokkrum áratugum hafa Íslendingar komið á fót mjög fjölbreyttri útflutningsframleiðslu. Afurðir hennar eru á boðstólum víða um heim og eru margar hverjar með því bezta, sem þekkist sinnar tegundar í veröldinni, svo sem hraðfrystu fiskflökin og Norðurlandssíldin.

Þá hefur hitt ekki síður vakið furðu margra úti í hinum stóra heimi, hvern skerf þessi fámenni hópur hér norður við heimsskaut hefur getað lagt til heimsmenningarinnar, ekki aðeins í fornöld, heldur einnig nú á dögum. Við eigum heimsfræg skáld. Við eigum tónlistarmenn, sem teljast til hinna fáu útvöldu á sínu sviði. Verk málara okkar sóma sér í sýningarsölum heimsborga. Við eigum leikara, sem standa stéttarbræðrum sínum með margfalt stærri þjóðum á sporði. Við eigum vísindamenn, sem getið hafa sér orð á alþjóðavettvangi. Og þannig mætti lengi telja. Allt er þetta ánægjulegt, og allt er þetta þjóðinni til sóma.

En nú spyr ég: Er það þeirri þjóð, sem þessu hefur afrekað, í raun og veru samboðið að búa við slíkt skipulag í peninga- og gjaldeyrismálum, að gjaldeyrir hennar, íslenzka krónan, fáist ekki skráður í einum einasta banka í víðri veröld? Er það Íslendingum samboðið að hafa hjá sér slíkt skipulag, að íslenzka krónan sé talin verðlaus pappírsbleðill í öllum viðskiptalöndum okkar? Er það þjóðarstolti okkar alveg óviðkomandi, að hvergi nokkurs staðar úti um víða veröld sé hægt fyrir Íslending að fara inn í banka og skipta á sínum eigin gjaldeyri og gjaldeyri þeirrar þjóðar, þar sem hann er staddur? Getum við horft upp á það kinnroðalaust, að útlendur ferðamaður, sem kemur hingað og fer í banka til þess að skipta gjaldeyri sínum, komi þaðan út aftur og segi við sjálfan sig eða kunningja sína, að í raun og veru hafi bankinn haft af sér fé, hann fái minna fyrir gjaldeyri sinn í bankanum en allir viti að sé verðmæti hans? Við erum nú eina þjóðin í Vestur-Evrópu, sem býr við slíkt ástand í gjaldeyrismálum, og við skulum ekki ganga þess dulin, að í augum umheimsins er það vottur þess, að við höfum ekki reynzt færir um að stjórna efnahagsmálum okkar á þann hátt, sem fullvalda menningarþjóðir gera nú á dögum.

Ég segi þetta, sem ég hef nú sagt, til þess að vekja athygli á, að það, sem ríkisstj. leggur til að gert sé í efnahagsmálum þjóðarinnar, er ekki aðeins gert til þess að koma atvinnu og viðskiptalífi hennar á heilbrigðan og traustan grundvöll. Þar er ekki aðeins um að ræða að stíga stórt spor fram á við í tryggingamálum og skattamálum. Þar er ekki aðeins um það að ræða að auka vöruúrval í verzlunum, bæta þjónustu og draga úr skriffinnsku. Þar er einnig, og það skiptir sannarlega ekki minnstu máli, um það að ræða að þvo af okkur blett, að koma því til leiðar, að við getum horft framan í aðrar þjóðir sem frjálsir og heiðarlegir menn, er höfum sams konar gjaldeyri og aðrar þjóðir, gjaldeyri, sem hefur gildi í alþjóðaviðskiptum, en er ekki talinn verðlaust pappírsgagn. Það er takmarkið að koma á skipulagi í gjaldeyrismálum, sem gerir heilbrigð viðskipti með gjaldeyri möguleg, en er ekki gróðrarstía fyrir brask og svartan markað.

Segja má, að aðalatriði þeirra ráðstafana, sem ríkisstjórnin leggur til að gerðar verði, séu fimm:

1) Rétt gengisskráning.

2) Heilbrigð stefna í bankamálum og fjármálum ríkisins ásamt nokkurri vaxtahækkun til bráðabirgða.

3) Afnám vísitölukerfisins.

4) Afnám hafta á mestum hluta innflutningsverzlunarinnar.

5) Stórfelld aukning almannatrygginga og afnám skatta á almennar launatekjur. Meginrökin fyrir nauðsyn þessara ráðstafana eru þessi: Rétt gengisskráning er nauðsynleg til þess að tryggja sem mestan vöxt þjóðarframleiðslunnar og sem bezt lífskjör, þegar til lengdar lætur. Heilbrigð stefna í bankamálum og fjármálum ríkisins er nauðsynleg til þess að halda fjárfestingu innan þeirra marka, sem svarar til sparnaðar þjóðarinnar og erlendra lána til arðbærra framkvæmda, og koma þannig í veg fyrir verðbólgu innanlands og greiðsluhalla gagnvart útlöndum. Hækkun bæði útláns- og innlánsvaxta í bráð er nauðsynleg til þess að takmarka eftirspurn eftir lánsfé og auka sparnað, í því skyni, að síðar verði auðveldara að fullnægja heilbrigðri eftirspurn eftir lánsfé. Afnám hafta í innflutningsverzluninni er nauðsynlegt til þess að auka vöruúrval og bæta þjónustu, þannig að Íslendingar eigi völ á svipuðum vörum og neytendur í nágrannalöndum. Það er nauðsynlegt að afnema vísitölukerfið, af því að það færir launþegum engar varanlegar kjarabætur, engar varanlegar hagsbætur, heldur stuðlar að hækkunum kaupgjalds og verðlags á víxl, færir launþegum fleiri krónur, en ekki bætt kjör. Stórfelld aukning almannatrygginga, m.a. fimmföldun á fjölskyldubótum og nær helmingsaukning á ellilífeyri, er nauðsynleg til þess að tryggja barnafjölskyldum, gömlu fólki og öryrkjum óbreytt kjör þrátt fyrir þá verðhækkun, sem óhjákvæmilega verður á erlendum vörum. Afnám skatta á almennar launatekjur er nauðsynlegt til þess að leiðrétta það misrétti, sem innheimta tekjuskattsins hefur skapað undanfarin ár.

Ég hef sagt, að allar þessar ráðstafanir séu nauðsynlegar. En þið kunnið að spyrja, góðir hlustendur, hvers vegna þær séu nauðsynlegar. Ég skal svara því í tveimur setningum. Þær eru annars vegar nauðsynlegar vegna þess, að þjóðin í heild hefur um mörg undanfarin ár notað meira en hún hefur framleitt og tekið að láni erlendis til arðbærra og heilbrigðra framkvæmda. Þær eru hins vegar nauðsynlegar vegna þess, að efnahagskerfi það, sem við höfum búið við, kerfi uppbóta, styrkja, gjalda og hafta, dró úr heilbrigðum vexti þjóðarframleiðslunnar og bauð ýmiss konar spillingu heim.

Nú er ekki óeðlilegt, að einhverjir ykkar segi sem svo: Þetta segja málsvarar ríkisstj., en talsmenn stjórnarandstöðunnar segja allt annað. Hverju eigum við að trúa? Hvorir hafa rétt fyrir sér? — Til þess að auðvelda mönnum að dæma um þetta er rétt að athuga, hvað núverandi stjórnarandstaða sagði og gerði, þegar hún var sjálf í stjórn. Það er reynsla hér — og raunar ekki aðeins hér, að það, sem stjórnmálamenn og flokkar segja og gera, þegar þeir eru í stjórn, er í miklu nánara samræmi við raunverulega stefnu þeirra en hitt, sem þeir kunna að segja, þegar þeir eru utan stjórnar og bera enga ábyrgð. Af þessum sökum er mjög fróðlegt að athuga orð og gerðir Framsfl. og Alþb., þegar þessir flokkar voru í stjórn nú siðast.

Vandinn, sem nú er við að etja í efnahagsmálunum, er í grundvallaratriðum hinn sami og við var að etja á dögum ríkisstjórnar Hermanns Jónassonar. Skömmu eftir að sú ríkisstjórn tók við völdum, fékk hún hingað til lands tvo sérfræðinga frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington, og gerðu þeir ýtarlega athugun á efnahagsmálunum. Í ársbyrjun 1958 fóru enn fram ýtarlegar athuganir, og starfaði að þeim nefnd íslenzkra hagfræðinga, sem allir þáv. stjórnarflokkar höfðu til þess starfs valið. Þessar athuganir leiddu til sömu niðurstöðu og athuganir sérfræðinga á vegum núv. ríkisstj. hafa leitt, en þær eru þessar: Róttækar aðgerðir í efnahagsmálunum eru nauðsynlegar, vegna þess að þjóðin notar meira en hún framleiðir og fær að láni til arðbærra framkvæmda og vegna hins, hve styrkja-, gjalda- og haftakerfið hefur skaðleg áhrif á vöxt þjóðarframleiðslunnar, þegar til lengdar lætur.

Þessar niðurstöður voru vel kunnar öllum ráðh. í stjórn Hermanns Jónassonar að heita má frá upphafi þeirrar stjórnar, og við þessi vandamál var stjórnin að glíma allan starfstíma sinn. Ástæða þess, að tilraunir þeirrar ríkisstj. til þess að sigrast á þessum vanda báru ekki árangur, þegar á allt er litið, var fyrst og fremst djúptækur skoðanamunur á milli Framsfl. annars vegar og Alþb. hins vegar. Annar flokkurinn vildi ráðast á eina hliðvandans, hinn á aðra hlið hans, en hvorugur flokkurinn var reiðubúinn til þess að standa að þeim samræmdu heildaraðgerðum í efnahagsmálum, sem nauðsynlegar voru til þess að ráða við vandamálið. Þetta kemur mjög skýrt fram í þeim efnahagsmálatill., sem ráðh. Framsfl. og Alþb. lögðu fram í ríkisstj. vorið 1958, áður en aðalráðstafanir ríkisstj. Hermanns Jónassonar í efnahagsmálum voru gerðar. Frá, þessum till. skýrði ég við 1. umr. þessa máls og skal nú rifja upp aðalatriði þeirra.

Till. Framsfl. báru þess vott, að flokkurinn gerði sér ljósa grein fyrir hinum alvarlegu afleiðingum styrkja- og gjaldakerfisins á þróun atvinnulífsins. Í samræmi við þetta var kjarni till. sá, að lagt skyldi 90% yfirfærslugjald á allan seldan gjaldeyri og greiddar sömu bætur á allan keyptan gjaldeyri. Þetta jafngilti beinni lækkun gengisins um 39%. Hins vegar var Framsfl. algerlega andvígur takmörkun á fjárfestingu opinberra aðila og útlánum banka. Hann vildi halda uppi þenslunni í atvinnulífinu án tillits til þess, að hún hlaut að leiða til verðbólgu innanlands og greiðsluhalla út á við. Verðbólgunni innanlands átti að halda í skefjum með afnámi vísítölukerfisins, og greiðsluhallann út á við átti að jafna með stórfelldum erlendum lántökum.

Till. Alþb. sýna hins vegar, að flokkurinn hafði ekki skilning á göllum bóta. og gjaldakerfisins. Það mátti umfram allt ekki koma á einu gengi, hvorki beint né óbeint. Vísitölukerfínu skyldi haldið. Hins vegar viðurkenndu ráðh. Alþb. hættuna af greiðsluhallanum gagnvart útlöndum og verðbólgunni innanlands og vildu draga úr þeirri hættu með minnkun framkvæmda og takmörkun á bankaútlánum.

Ekkert hefur komið fram um það, að þessir flokkar hafi skipt um skoðun síðan vorið 1958. Þeir hafa þvert á móti lagt áherzlu á, að svo sé ekki. Niðurstaðan er því sú, að Framsfl. er fylgjandi gengislækkun, en Alþb. á móti henni. Hins vegar er Framsfl. á móti takmörkun fjárfestingar og bankaútlána, en Alþb. fylgjandi henni. Framsfl. vill afnema vísitölukerfið, en Alþb. halda því.

Um hina aðra þætti í efnahagsmálatill. ríkisstj. er það að segja, að Framsfl. hefur marglýst því yfir á undanförnum áratugum, að hann sé fylgjandi sem mestu afnámi hafta í innflutningsverzluninni, en Alþb, jafnoft, að það sé fylgjandi sem mestum höftum í innflutningsverzluninni. Framsfl. hefur aldrei haft neinn sérstakan áhuga á aukningu almannatrygginga, en Alþb. hefur hins vegar verið fylgjandi henni. Hið eina í till. ríkisstj., sem þessir tveir flokkar stjórnarandstöðunnar virðast hafa verið sammála um undanfarin ár að vera á móti, er afnám tekjuskattsins á almennar launatekjur. En það er spá mín, að þeir muni samt báðir greiða atkv. með því.

Ég hef minnt á till. ráðh. Framsfl. og Alþb. vorið 1958 til þess að sýna fram á, að hvorugur flokkurinn var þá á móti öllum atriðum þeirrar stefnu, sem ríkisstj. nú fylgir. Það er ekki fjarri lagi að segja, að Framsfl. hafi þá verið fylgjandi öðrum helmingi hennar, en Alþb. hinum. Höfuðástæða þess, að vinstri stjórnin klofnaði, var einmitt þessi djúptæki skoðanamunur á milli Framsfl. og Alþb. Skoðun Alþfl. var þá eins og nú, að það, sem nauðsynlegt væri að gera, væri að breyta genginu og draga úr fjárfestingunni, en gera jafnframt ráðstafanir til tekjujöfnunar með aukningu almannatrygginga og afnámi tekjuskatts. Sjálfstfl. var í grundvallaratriðum sömu skoðunar. Þess vegna var eðlilegt, að þessir tveir flokkar tækju höndum saman um stjórn landsins, en hinir tveir flokkarnir, Framsfl. og Alþb., yrðu utan stjórnar, enda voru þeir ósammála okkur um sinn hvorn helminginn í þeirri stefnuskrá, sem við vildum fylgja, og sín á milli ósammála um bókstaflega allt, sem máli skipti.

Mér er til efs, að nokkurn tíma hafi verið í stjórnarandstöðu á Alþingi tveir flokkar, er hafi verið jafnósammála um öll grundvallaratriði og flokkar stjórnarandstöðunnar eru nú, og það ekki einungis um innanlandsmál, heldur einnig utanríkismál. Það skiptir miklu, að þjóðin geri sér ljóst, að þeir eru svo ósammála um grundvallaratriði, að þeir geta ekki stjórnað landinu saman. Ef þessar ráðstafanir verða brotnar á bak aftur utan Alþingis, eins og fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa hótað, yrði hér algert öngþveiti. Stjórnarandstöðuflokkarnir vilja fara hvor í sína áttina. Ríkisstjórn þeirra gæti enga heildarstefnu haft. Það yrði hentistefna, þar sem allt mundi reka á reiðanum og öllu yrði stefnt í óefni. Slíkt væri e.t.v. ekki alveg fjarri skapi þeim öflum, sem mestu ráða í Alþb. En hvað segja greindir og ábyrgir kjósendur Framsfl.? Gætu þeir hugsað sér að bera ábyrgð á slíku stjórnarfari?

Framsfl. hefur í þessari hv. d. lagt til, að efnahagsmálafrv. sé afgr. með rökst. dagskrá, sem jafngildir vantrausti á ríkisstj., og er þar gert ráð fyrir víðtækara samstarfi um lausn málanna. Þetta minnir óneitanlega dálítið á það, þegar minnihlutastjórn Sjálfstfl. bar fram frv. um gengislækkun árið 1950 og Framsfl. bar fram vantraust á þá stjórn og felldi hana, en myndaði ríkisstjórn með Sjálfstfl. strax á eftir og samþykkti gengislækkunarfrv. óbreytt. Endurminningin um þetta undirstrikar aðeins það, sem ég sagði áðan, að það getur reynzt sitt hvað, sem sumir gera í stjórn og stjórnarandstöðu, og það er nauðsynlegt fyrir þjóðina að dæma sjálf með eigin dómgreind um málin, en láta ekki áróður hafa of sterk áhrif á sig.

Ég skal nú víkja að nokkrum meginatriðum í málflutningi stjórnarandstöðunnar.

Því hefur verið haldið fram, að í þessum ráðstöfunum felist voveiflega mikil gengislækkun krónunnar. Eins og kunnugt er, hefur ekki verið eitt gengi á krónunni, heldur mörg. Ef miðað er við meðalgengi krónunnar í útflutningi, nemur gengislækkunin 20%, en sé miðað við meðalgengi hennar í innflutningi, nemur gengislækkunin 34%.

Ríkisstj. Hermanns Jónassonar hækkaði bæði útflutningsbætur og yfirfærslu- og innflutningsgjöld mjög verulega, og getur enginn ágreiningur verið um, að það jafngilti gengislækkun. Sú gengislækkun, sem ríkisstjórn Hermanns Jónassonar framkvæmdi og allir flokkar hennar, Framsfl., Alþb. og Alþfl., samþykktu, nam 30% og var hin sama í útflutningi og innflutningi. Gengislækkun krónunnar á starfstíma ríkisstj. Hermanns Jónassonar var því meiri en sú gengislækkun, sem nú er lagt til að framkvæmd verði. Þegar þetta er haft í huga, er ekki undarlegt, þótt ýmsum finnist tómahljóð í hinum háværu andmælum fulltrúa Framsfl. og Alþb. gegn gengisbreytingunni nú.

Það hefur verið sagt, að með gengisbreyt. nú séu lagðar um 1000 millj. kr. álögur á þjóðina. Þetta er rangt. Á dögum vinstri stjórnarinnar reiknaði þáv. stjórnarandstaða út, að álögur hennar á þjóðina næmu 1200 millj. kr. eða — ef alveg eins væri reiknað og stjórnarandstaðan gerir nú — 800 millj. kr. En dettur nokkrum í hug, að þessar tvær ríkisstj., sem allir fjórir flokkar þingsins hafa staðið að, leggi samtals um 1800 millj. kr. álögur eða byrðar á þjóðina, þ.e.a.s. rýri kjör hennar um næstum helming? Þarf að segja meira til að leiða í ljós, hvílík fjarstæða hér er á ferðinni? Hitt er annað mál, og á það hefur ríkisstj. enga dul dregið, heldur þvert á móti sagt það af fullri hreinskilni og vill, að þjóðin viti það og skilji, að samfara þessum ráðstöfunum verður þjóðin að taka á sig nokkra byrði. En hún er ekki 1000 millj., heldur 150–200 millj., eða 3–4% af þjóðartekjunum, eins og þær eru nú taldar, miðað við gamla gengið. Þessi byrði eða þessar álögur eru ekki afleiðing gengisbreytingarinnar í sjálfu sér, heldur afleiðing þess, að greiðsluhallinn gagnvart útlöndum hverfur, að það er ætlunin, að þjóðin hætti að nota meira en hún framleiðir, að viðbættum heilbrigðum erlendum framkvæmdalánum. Þess vegna verður innflutningurinn að minnka. Það rýrir auðvitað lífskjör okkar, ef við notum minni útlendar vörur en við höfum gert, en þetta er óhjákvæmilegt. Það er engin leið til, sem gerir okkur kleift að halda nú áfram að nota meiri útlendar vörur en við öflum okkur gjaldeyris til að kaupa. Við gætum hvergi fengið meiri útlend lán til að halda slíku áfram. Þótt við gætum það, ættum við ekki að gera það. Það samrýmist ekki hagsmunum okkar. Það samrýmist ekki heldur sóma okkar.

Stjórnarandstaðan talar eins og þessi kjaraskerðing sé alveg óþörf og eitthvað alveg nýtilkomið. A.m.k. Framsfl. gerði sér nauðsyn hennar ljósa vorið 1958. Þá varð ríkisstj. sammála um ráðstafanir, sem vitað var að mundu hafa í för með sér um 10% hækkun verðlags, en því áttí að mæta með aðeins 5% hækkun á launum. Það var eindregin skoðun Framsfl. þá, að launþegasamtökin ættu að gefa eftir af kaupi sínu sem svaraði meginhluta þess eða helzt því öllu, sem á vantaði, að verðhækkunin yrði bætt að fullu, en það voru þá 10 vísitölustig. Þetta þýddi álíka kjaraskerðingu og nú er farið fram á að þjóðin taki á sig. Þessi kjaraskerðing átti að eiga sér stað án þess, að gerðar væru samhliða jafnstórfelldar ráðstafanir til tekjujöfnunar og felast í aukningu almannatrygginganna og niðurfellingu tekjuskattsins.

Ég geri ráðherrum Alþb. áreiðanlega ekki rangt til, þótt ég segi það sem skoðun mína, að þeir hafi þá ekki heldur talið nokkra eftirgjöf á kaupi fjarstæðu og viðurkennt þar með í raun og veru nauðsyn nokkurrar kjaraskerðingar, þótt þeir hafi hins vegar orðið undir í flokki sínum, sem beitti sér síðan gegn þessum ráðstöfunum og eyðilagði þær, með þeim árangrí, að enn er vandinn óleystur.

Í þessu sambandi má geta þess, að tölur þær, sem hv. 2. landsk. þm., Eðvarð Sigurðsson, nefndi áðan í ræðu sinni um útgjaldaaukningu vísitölufjölskyldunnar, eru alveg úr lausu lofti gripnar. Hann spáði því, að vísitalan mundi hækka um 20%. Nákvæmar athuganir hafa sýnt, að hún muni hækka um 13% vegna gengisbreytingarinnar, en lækka hins vegar um 10% vegna bótaaukningar almannatrygginganna og niðurgreiðslu vöruverðs.

Þá hefur því verið haldið fram, að tímakaup íslenzks verkamanns sé aðeins helmingur lágmarkskaups bandarísks verkamanns, ef miðað er við nýja gengið, og sé þetta tákn þess, hvernig íslenzki verkamaðurinn sé nú leikinn, þar eð lágmarkskaup bandarísks verkamanns sé 38 kr. á klst., en íslenzka verkamannsins kr. 20.67. En þá er þagað um, við hvaða verðlag bandaríski verkamaðurinn býr. Fyrir vörur eins og kjöt og kaffi verður hann að greiða helmingi meira, fyrir mjólk þrisvar sinnum meira og fyrir fisk fimm sinnum meira en hinn íslenzki verkamaður. Auk þess nýtur hann ekki almannatrygginga í sama mæli og íslenzkur verkamaður: Með þessu er ég þó ekki að segja, að kjör íslenzks verkamanns séu jafngóð og bandarískra verkamanna yfirleitt, því miður. Tekjur bandarískra verkamanna eru hærri en verkamanna í Vestur-Evrópu yfirleitt og miklu hærri en kaup verkamanna í löndum AusturEvrópu. Þau lönd, sem eðlilegast er að við berum okkur saman við í þessum efnum, eru hin Norðurlöndin. Samanburður sýnir, að vikutekjur íslenzks verkamanns eru nokkru lægri en vikutekjur dansks verkamanns, en hins vegar nokkru hærri en norsks verkamanns. Er þá að vísu miðað víð þrem stundum lengri vinnutíma og 6 tíma eftirvinnu hér, en hins vegar við lágmarkskaup íslenzks verkamanns, en meðalkaup í Danmörku og Noregi, þar sem kaup, sem er talsvert hærra en lágmarkskaupið, hefur áhrif á meðaltalið. Þessi samanburður sýnir, að enginn teljandi munur er á kjörum íslenzkra verkamanna og stéttarbræðra þeirra í Noregi og Danmörku, og er það raunar eins og allir, sem þekkja til í þessum löndum, vita. Á það má og benda, að fjölskyldubætur verða hér samkv. hinum nýju till, miklu. hærri en þær eru í Noregi og Danmörku.

Þá er sagt, að afleiðingin af ráðstöfunum þessum muni verða atvinnuleysi. Af öllu því, sem sagt hefur verið um till. ríkisstj., er þessi staðhæfing fjarstæðukenndust. Allir vita, að mörg undanfarin ár hefur verið hér skortur á vinnuafli. Hér hafa starfað nokkuð á annað þúsund útlendinga, bæði karlar og konur. Ég fullyrði, að í engu landi í Vestur-Evrópu er nú jafnmikið bil milli ríkjandi ástands á vinnumarkaðnum og atvinnuleysis. Ef eitthvað gerist á næstu mánuðum, sem bendi til þess, að óeðlilegur samdráttur verði á einhverju sviði atvinnulífsins, er áreiðanlega nógu mikið svigrúm og nógu mikill tími til þess að grípa til gagnráðstafana, þannig að ekki komi til atvinnuleysis, og það yrði að sjálfsögðu gert. Það er frumatriði í stefnu ríkisstj. að tryggja, að sérhver vinnufús hönd hafi verk að vinna. Atvinnuleysi má aldrei verða framar á Íslandi. Það er einmitt m.a. til þess að tryggja, að hér þurfi ekki að koma til atvinnuleysis vegna gjaldeyrisskorts og framleiðslustöðvunar, að ríkisstj. beitir sér nú fyrir þeim ráðstöfunum, sem hún gerir.

Þessar ráðstafanir, sem nú standa fyrir dyrum, eru viðtækustu ráðstafanir í efnahagsmálum, sem nokkurn tíma hafa verið gerðar á Íslandi. Þær eru ekki víðtækar vegna þess, að gengisbreytingin sé meiri en áður hefur tíðkazt. Þvert á móti, hún er minni. Þær eru ekki heldur víðtækar vegna þess, að kjaraskerðingin, sem nauðsynleg er í bráð, verði talin sérstaklega mikil. Hún nemur 3–4% af þjóðartekjunum. Nei, þessar ráðstafanir eru víðtækari en áður annars vegar vegna þess, að með þeim er afnumið kerfi, sem hlaðið hafði utan á sig skriffinnsku og var orðið undirrót sérréttinda og margs konar spillingar. Í staðinn á að koma sams konar kerfi og allar nágrannaþjóðir okkar í Vestur-Evrópu búa. við, hvort sem þeim er stjórnað af vinstri sinnuðum eða hægri sinnuðum flokkum. Hins vegar eru ráðstafanirnar viðtækar vegna þess, að þær snerta ekki eingöngu hag og afkomu útflutningsframleiðslunnar, heldur felast einnig í þeim róttækar ráðstafanir til tekjujöfnunar með stórfelldari aukningu almannatrygginga en áður hefur verið gerð í einu spori og meiri lækkun tekjuskatts en nokkurn tíma hefur verið framkvæmd.

Það er nauðsynlegt, að þjóðin geri sér alveg ljóst, um hvað nú er að velja í efnahagsmálunum. Valið er ekki milli þess ástands, sem verið hefur hér undanfarinn áratug, annars vegar og þessara ráðstafana hins vegar. Því tímabili, að við getum eytt meira en við öflum á sama tíma með því að eyða erlendum inneignum, fá erlenda fjárhagsaðstoð eða safna erlendum skuldum, er beinlínís lokið. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að öll þau lán, sem þjóðin hefur tekið undanfarin ár, hefðu betur verið ótekin. Þau hafa sumpart verið heilbrigð framkvæmdalán, en að miklu leyti hafa þau verið óheilbrigð hallalán. Það eru slíkar lántökur, sem verða að hætta. Annars fáum við engin framkvæmdalán framar.

Tölur þær, sem hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, nefndi í ræðu sinni áðan til þess að sýna fram á, að um alls engan halla hafi verið að ræða undanfarin ár, hafa áður verið hraktar lið fyrir lið hér á hinu háa Alþingi, og eyði ég ekki tíma mínum í það atriði nú.

Það er ómótmælanlegt, að við verðum að draga nokkuð saman seglin. Spurningin er aðeins um, hvernig við eigum að gera það. Ríkisstjórnin hefur lagt fram till. sínar um, hvernig það skuli gert. Hvorugur stjórnarandstöðuflokkanna hefur lagt fram nokkrar heildartill. um, hvernig þeir vilji láta gera það.

Ég held því ekki fram, að leið ríkisstj. sé hin eina, sem hugsanleg sé. Það er til önnur leið. Hún er sú að halda uppbóta- og innflutningsgjaldakerfinu og vísitölukerfinu, en herða stórkostlega á gjaldeyris- og innflutningshöftum og taka upp skömmtun ýmissa nauðsynja. Það væri hægt að reyna að eyða hallanum gagnvart útlöndum með harðvítugu haftakerfi. En það yrði þá að vera víðtækara og strangara en við höfum nokkurn tíma áður þekkt. Viljum við þetta heldur? Þetta virtist vera leið Alþb. vorið 1958. En er það leið okkar hinna? Viljum við verða eina þjóðin í Vestur-Evrópu, sem býr við ströng höft í gjaldeyris-, innflutnings- og fjárfestingarmálum og skömmtun nauðsynja? Ég held, að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar hafni þessari leið. Ég held jafnvel, að verulegur hluti fylgjenda Alþb. hafni henni einnig. Hún mundi ekki hafa í för með sér minni kjaraskerðingu en leið ríkisstjórnarinnar. Það væri kannske hægt að láta hana hafa í för með sér eitthvað aðra tekjuskiptingu í bráð, a.m.k. á pappírnum. En skriffinnskan, sem er henni fylgjandi, og braskið og spillingin, sem hún freistar til, kemst aldrei á skýrslur, og á því hagnast aldrei hinn smái og aldrei hinn heiðarlegi, heldur bitnar það þvert á móti á þeim. Það er víst, að þessi leið mundi hafa lamandi áhrif á vöxt þjóðarframleiðslunnar og þar með rýra lífskjörin. Og það, sem kannske skiptir mestu máli, er, að hún mundi ekki verða til frambúðar, svo að fyrr eða síðar yrði að breyta hinu óraunhæfa gengi hvort eð er.

Góðir hlustendur. Við skulum öll gera okkur ljóst, að fyrir dyrum stendur að taka örlagaríkar ákvarðanir. Þegar öllu er á botninn hvolft, er það, sem mestu máli skiptir í þeim, ekki gengisbreytingin, ekki hin breytta stefna í peningamálum eða viðskiptamálum, ekki einu sinni aukning almannatrygginganna og afnám tekjuskattsins. Það, sem mestu máli skiptir, er átakið, sem þjóðin þarf nú að gera til þess að takmarka neyzlu sína og framkvæmdir við það, sem hún framleiðir sjálf og getur fengið erlendis að láni til fjárhagslega heilbrigðra framkvæmda.

Við höfum nú um alllangt skeið undanfarið notað meira en þetta og tekið það, sem umfram hefur verið, að láni erlendis, safnað skuldum hjá erlendum þjóðum. Því verðum við að hætta. Það er kjarni málsins. Þetta kostar nokkra fórn í br áð. Við þurfum að draga saman seglin sem svarar um það bil 3–4% þjóðarframleiðslunnar. En á þetta eigum við ekki og megum ekki líta eingöngu frá fjárhagslegu sjónarmiði. Við eigum ekki og megum ekki mæla þetta eingöngu með áhrifunum á pyngju okkar. Hér er um miklu meira að tefla.

Ég minntí á það í upphafi, að fullveldi okkar er ekki nema rúmlega 40 ára gamalt. Lýðveldið er ekki nema rúmlega 15 ára. Íslendingar börðust í heila öld fyrir sjálfstæði sinu. Þeirri baráttu lauk með fullum sigri. En höfum við í sannleika sagt gert okkur nógu ljóst, að stjórnarfarslegt fullveldi er ekki nema önnur hlið þess algera sjálfstæðis, sem sérhver menningarþjóð þarf að njóta. Hin hliðin er fjárhagslegt sjálfstæði. Er fjárhagslegt sjálfstæði þeirrar þjóðar traust, sem árum saman notar meira en hún framleiðir og fær mismuninn að láni hjá öðrum þjóðum? Það er skylda hvers einasta Íslendings að gera sér ljóst, að við höfum nú um mörg undanfarin ár fengið tiltölulega miklu meira fé hjá lýðræðisríkjum hins vestræna heims og þá fyrst og fremst Bandaríkjunum, bæði sem fjárhagsaðstoð og lán, en nokkur önnur þjóð í Vestur-Evrópu. Ég fullyrði, að við eigum nú ekki lengur kost á slíkum lántökum hjá þessum aðilum. .

Einhverjir eru það eflaust hér á landi, sem segja, að þá sé bezt að snúa sér í austurveg og leita eftir lánum og fjárhagsaðstoð þar. Hún muni fáanleg. Ég er þeirrar skoðunar, að við eigum að kosta kapps um að varðveita sem bezt viðskiptasambönd okkar við ríkin í AusturEvrópu, og það er ráð fyrir því gert í till. ríkisstjórnarinnar. En það væri algerlega rangt að fara nú að leita eftir lánum eða fjárhagsaðstoð frá þessum ríkjum, af nákvæmlega sömu ástæðu og það er rangt að halda áfram að taka hallalán í Bandaríkjunum eða VesturEvrópu. Við eigum og verðum að hætta að reka þjóðarbúið með eyðsluhalla gagnvart öðrum ríkjum. Við þurfum að verða óháð því að taka slík hallalán hjá öðrum þjóðum, hvort sem er í vestri eða austri. Ef við hættum því ekki, er fjárhagslegt sjálfstæði okkar í hættu. Hversu lengi varðveitum við stjórnarfarslegt fullveldi okkar, ef við kunnum ekki að gæta fjárhagslegs sjálfstæðis okkar.

Við, sem erum um það bil jafngömul fullveldinu íslenzka, stöndum í mikilli þakkarskuld við þær eldri kynslóðir, sem börðust til sigurs fyrir fullveldinu. Getum við sýnt þakklæti okkar í verki á nokkurn betri hátt en þann að standa dyggilega á verði um það og berjast jafnframt til fulls sigurs fyrir fjárhagslegu fullveldi, þannig að þjóðin sé í sannleika sjálfstæð, bæði í orði og á borði.

Það kostaði átök að tryggja þjóðinni stjórnarfarslegt fullveldi. Það kostar líka átök að tryggja henni fjárhagslegt sjálfstæði. Þær ráðstafanir, sem nú standa fyrir dyrum, eru þáttur í þeirri baráttu. Íslendingar uxu af átökunum í baráttunni fyrir fullveldinu. Það er ósk mín og von, að þeir eigi líka eftir að vaxa af þeim átökum, sem þeir nú ráðast í til þess að treysta efnahagslegt sjálfstæði sitt. — Verið þið sæl.