28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (2213)

7. mál, gjaldaviðauki 1960

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er farið fram á, að framlengd verði sú heimild ríkisstj. til handa, sem nú er í lögum til þess að innheimta með viðauka þau gjöld, sem í frv. greinir. Hafa sams konar heimildir verið framlengdar frá ári til árs undanfarin ár, eins og flestum hv. þdm. mun kunnugt. Afgreiðsla málsins í n. hefur orðið sú, að við þrír nm., sem undir það nál. skrifum, sem útbýtt hefur verið, mælum með því, að frv. verði samþ. óbreytt, en 2 nm., hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. Norðurl. e., töldu sig ekki reiðubúna til þess að taka afstöðu til málsins, þegar það var afgreitt.