03.05.1960
Neðri deild: 75. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (2311)

101. mál, Reykjanesbraut

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Þær upplýsingar, sem hæstv. forsrh. gaf hér um Reykjanesbrautina, að því er mér skildist, að ákvörðun væri tekin í ríkisstj. um, að þessi framkvæmd skyldi unnin núna á næstu árum, að mér skilst á færri árum en fimm, eins og við flm. höfum lagt til í frv. okkar, þær gleðja mig vissulega mjög mikið. En ástæðan til þess, að við flm. töldum sjálfsagt að flytja þetta frv., er þessi:

Á þinginu 1958 mun núv. hæstv. forsrh. hafa flutt till. til þál. um steinsteyptan veg frá Reykjavík og suður til Sandgerðis. Sú þáltill. fékk þá afgreiðslu, að hún var sameinuð annarri þáltill., sem þá var til meðferðar hér á Alþ. og fjallaði um það, að almennt skyldi fara fram athugun á því, hvaða þjóðvegi ætti að steinsteypa á næstu árum, og í till. var vegamálastjóra falið að gera framkvæmdaáætlun og kostnaðaráætlun um þessa aðalþjóðvegi landsins. Ástandið var sem sagt þannig, þegar við fluttum þessa till., að þá lá ekkert beint fyrir um það, að Reykjanesbraut skyldi steypt.

Hins vegar er það ekki óeðlilegt, og ég hygg, að hæstv. forsrh. telji það ekki, ef hann athugar þetta af fullu réttlæti, að við flutningsmenn höfum talið ástæðu til þess að flytja þetta frv., því að það er nú einu sinni staðreynd, og ég er ekki að skýra frá henni til þess að lasta hæstv. forsrh., heldur vil ég skýra frá því sem staðreynd, að hann hefur nú setið sem þm. þessa kjördæmis í 40 ár á Alþ. og Reykjanesbrautin mun nú vera sá af þjóðvegum landsins, sem langverst er farinn af þeim öllum.

Ég tel því, að þó að þessari hugmynd hafi verið hreyft almennt orðaðri, hafi frv.-flutningur okkar verið í hæsta máta eðlilegur. Í fyrsta lagi er verið að þreifa á því, hvort fyrir því sé almennur vilji hjá þm. að samþykkja það, að vegna alveg sérstakra ástæðna skuli Reykjanesbrautin hafa forgang umfram aðra þjóðvegi í landinu, þegar farið verður að steypa þá. Og ég hygg, að hæstv. forsrh. sé mér sammála um, að það sé dálítið annað að hafa í höndunum, ef svo vel tækist til, lagasetningu frá Alþ. um, að Reykjanesbraut skuli steypa, en almennt orðaða þál. um, að gerð skuli framkvæmdaáætlun um að steypa aðalþjóðvegi landsins, en meira liggur ekki fyrir nú og lá ekki fyrir, þegar við fluttum þetta frv. okkar, hv. 7. landsk. og ég.

Ég vil svo að endingu þakka hæstv. forsrh. fyrir þau hlýju orð, sem hann lét hér falla í minn garð, og ég get alveg fullvissað hann um það, að fyrir okkur flm. vakir eingöngu það að fá þessu verki hrundið af stað, og við teljum, að alveg sérstakar ástæður séu fyrir hendi, sem geri það sjálfsagt og eðlilegt og þjóðhagslega nauðsynlegt, að Reykjanesbrautin verði steypt og steypt sem allra fyrst.