25.02.1960
Efri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

61. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður hér, því að það er nú þegar fram komið allt í þessu máli, sem efnislega getur haft nokkra þýðingu í sambandi við það. Ég vildi aðeins bera það af mér, að ég hefði farið hér með rangt mál varðandi það, hvað hv. 3. þm. Norðurl. v. hefði sagt í fyrri ræðu sinni hér. Það væri vitanlega mjög vítavert, ef ég hefði rangt farið með ummæli hans. En ég held, að hann hljóti að hafa misskilið orð mín a.m.k. ekki síður en ég hef misskilið hans, því að hann taldi rangfærslu mína byggjast á því, að ég hefði sagt, að hann hefði gefið í skyn, að það hefði verið framið eitthvert stjórnarskrárbrot í sambandi við ákvæðin um einkasölu á tóbaki, framkvæmd þeirra, og hv. 1. þm. Austf. hefði brotið eitthvað af sér í því efni.

Ég hélt mig hafa tekið það fram í ræðu minni greinilega, að þetta ætti við lögin um áfengiseinkasölu, vegna þess að þar eru engar slíkar hömlur, og mér skildist á hv. þm., að hann væri einmitt í sinni fyrri ræðu að tala um, að það væri a.m.k. mjög vafasamt, hvort þau lög brytu ekki í bága við stjórnarskrána, þar sem Alþingi hefði afsalað sér þar skattlagningarrétti, sem tvímælalaust væri samkv. stjórnarskránni að það mætti ekki afsala sér. Ég held, að það verði naumast talið rangfærsla á hans orðum, þó að ég leyfði mér að segja, að samkv. þeirri lögskýringu liti helzt út fyrir, að hv. 1. þm. Austf. hefði gerzt þátttakandi í slíku stjórnarskrárbroti með því æ ofan í æ að hækka álagningu á þessar vörur án þess að leita sérstaklega samþykkis Alþingis fyrir því.

Þetta var það, sem ég sagði í ræðu minni, og ég held ekki, að það feli í sér neina rangtúlkun á orðum hv. þm. a.m.k. ef svo hefur verið að einhverju leyti, þá er sjálfsagt að biðja afsökunar á því.

Varðandi það atriðið, er þessi hv. þm. og raunar einnig samherji hans í þessu máli hér, hv. 5. þm. Norðurl. e., telja, að það sé nánast stjórnarskrárbrot að hafa ekki í lögum ákveðnar takmarkanir á álagningarheimild ríkisstj. á þessar einkasöluvörur, sem seldar eru til að afla ríkissjóði tekna, þá sýnist mér, að það ætti að liggja mjög nærri fyrir þessa hv. þm. að reyna þá að forða Alþingi frá þessum ósköpum með því að beita sér fyrir því að setja slíkar hömlur í 1. um einkasölu ríkisins á áfengi og þannig bæta úr þeim afbrotum, sem flokksbræður þeirra á sinni tíð frömdu með því að nema þessar hömlur úr lögum.

Annars hafa ekki allir flokksbræður hv. 3. þm. Norðurl. v. verið á sama máli um, að þetta væri voðalegt stjórnarskrárbrot, sem menn væru með hér, — ja, við skulum segja andlegt brot á stjórnarskránni, mér skilst, að hv. þm. kunni betur við það, — að afnema þessar hömlur. (Gripið fram í.) Ég veit ekki, það er ekki gott að segja. Þegar þetta mál var síðast til meðferðar hér á hinu háa Alþingi, var einn ágætur þm. í þessari hv. d., sem fann mjög að því, að það væri sífellt verið með þessar breytingar á lögum um tóbakseinkasölu. Hann komst hér þá svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er auðskilið mál, að ríkissjóður þarf að fá leiðir til tekjuöflunar, til þess að hægt sé að láta enda fjárlaga ná saman. Það er líka vel skiljanlegt, að gripið sé til þess að hækka tóbak, og út af fyrir sig hef ég ekkert við það að athuga. En ég vil vekja athygli á því, hvort ekki er rétt að hafa þessa heimild víðtækari, svo að ekki þurfi að leita samþykkis Alþingis í hvert skipti, sem breyting er gerð á þessu verði. Þetta mun vera í þriðja skiptið nú á skömmum tíma, sem heimildar til hækkunar hefur verið leitað, og mér virðist, að svo gæti farið eftir öllu útliti nú, að enn þyrfti að leita tekna með þessari leið, þó að þessi hækkun fengi samþykki.“

Það hefur því ekki verið talið svo ákaflega hneykslanlegt af öllum samflokksmönnum þessa hv. þm. að hafa svipaðan hátt á og hér er gert ráð fyrir, því að þarna er beinlínis lýst yfir leiða yfir því að vera sífellt að leita samþykktar Alþingis á þessum breytingum á álagningu.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta mál. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan, er hér ekki efnislega um hina minnstu breyt. að ræða. Það hefur alltaf verið samþ. hér á Alþingi að heimila ríkisstj. að gera hverja þá hækkun á söluverði tóbaksvara, sem hún hefur talið ástæðu til. Hingað til hefur sá háttur verið á hafður að hækka þessa heimild, sem hér er um að ræða, sem oft hefur þó þurft að leita hækkunar á, og efnislega verður að sjálfsögðu framkvæmd málsins nákvæmlega sú sama hér eftir sem hingað til, að það hefur verið reynt að halda verði þessara vara innan þeirra takmarka, að ekki komi til samdráttar í sölu þeirra og þar af leiðandi minnkandi tekna ríkissjóðs, og það held ég að sé eina sjónarmiðið, sem hefur hingað til ráðið verðlagningu bæði á tóbaki og áfengi.