04.12.1959
Efri deild: 10. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (2431)

25. mál, vegagerð á Vestfjörðum og Austurlandi

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 31 er flutt af hv. 2. þm. Vestf. (HermJ), hv. 5. þm. Austf. (PÞ) og mér. Samkvæmt 1. gr. þessa frv. er lagt til, að á næstu 5 árum verði varið 6 millj. kr. árlega umfram það, sem venjulega er veitt á fjárlögum, til vegagerða á Vestfjörðum og Austurlandi. Samkvæmt 2. gr. frv. er lagt til, að fé til þessara vegagerða verði tekið að láni innanlands. Samkvæmt ákvæðum 3. gr. er ætlazt til, að með þessu fé verði bætt vegakerfi í þeim byggðarlögum þessara landshluta, sem nú hafa lakast vegakerfi að dómi vegamálastjóra. Með ákvæði 4. gr. er lagt til, að hv. Alþ. skipti þessu vegafé milli einstakra þjóðvega að fengnum till. vegamálastjóra og tillögum þm. hlutaðeigandi kjördæma.

Það má segja, að vegir um byggðir landsins hafi hliðstæðu hlutverki að gegna og æðarnar hafa fyrir líkamann. Í bókstaflegum skilningi fá byggðir þessa lands næringu sína eftir vegunum. Ófullnægjandi eða lítt viðunandi og sundurslitið vegakerfi veldur vanlíðan fólks og hrörnun atvinnulífs og framleiðslu, þar sem viðunandi vegakerfi eða fullnægjandi veitir hins vegar möguleika til blómlegs atvinnulífs og góðra lífskjara.

Vegamál bar mjög á góma hjá hv. samvn. samgm. á Alþ. á síðastliðnum vetri. Samkvæmt þáltill., sem samþ. var 26. marz 1958, var vegamálastjóra falið að gera heildarathugun á ástandi vegakerfisins í landinu. Vegamálastjóri lagði síðan fyrir samvn. samgm. í fyrra fyrri hl. þessarar skýrslu sinnar um vegakerfi landsins. Síðari hl. var þá ekki tilbúinn, en hann mun vera almenns eðlis. Samkvæmt þeim skýrslum, sem vegamálastjóri lagði þarna fram, kom í ljós, að hið mesta misræmi ríkir í vegamálum milli héraða. Er ástæðan að sjálfsögðu sú, að hlutfallslega hefur miklu minna fé verið varið til nýbyggingar vega í einum landshluta en öðrum, þegar litið er á þarfir þessara byggðarlaga. Afleiðingarnar leyna sér ekki heldur, ef litið er á atvinnu- og framleiðsluskilyrði þess fólks, sem þarna býr, eða ef litið er á brottflutning fólks úr þessum byggðarlögum, sem búa við bágborið ástand í vegamálum. Það er eins og sú venja hafi skapazt og það fyrir löngu að hafa skiptingu fjárveitinga til vegamála nokkuð svipaða frá ári til árs milli sýslufélaganna í landinu. Samkvæmt þessari venju verður misræmi í þessum málum milli héraða eða landshluta ekki leiðrétt, sem er þó aðkallandi nauðsyn að leiðrétta. Við flm. þessa frv. sjáum ekki aðra leið færa til að bæta úr þessu misræmi en þá að taka innlent lán í þessu skyni. Á þann hátt bætir hið opinbera að nokkru fyrir það, að misgert hefur verið við fólk eftir því, hvar það hefur búið í landinu. Það er þó víðs fjarri, að jafnvægi verði komið á milli landshluta í þessum efnum, þótt samþ. verði það frv., sem hér er flutt, en það er þó verulegur áfangi til þess að rétta hlut þeirra, er erfiðasta aðstöðu hafa í vegamálum.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í nákvæman samanburð milli héraða við þessa 1. umr., en ég vil þó nefna örfá dæmi, er sýna, að Vestfirðir og Austurland eru verr sett en aðrir landshlutar í þessum efnum, og byggi ég það á þeim skýrslum, sem ég nefndi og ná til ársloka 1958. Mér finnst þægilegast að bera saman núverandi kjördæmi í þessum efnum, til þess að gera þetta einfaldara, því að það yrði of flókið, ef ætti að fara út í samanburð á einstökum sýslufélögum, þótt skýrslur vegamálastjóra sýni þó ástandið í hverri sýslu fyrir sig.

Vegamálastjóri flokkar vegina eftir gæðum þeirra í 3 flokka. Í fyrsta lagi nefni ég óbílfæra vegi, sem vegamálastjóri kallar, en það munu vera vegir, sem eru ekki til nema í Stjórnartíðindunum, það eru ólagðir vegir. Í öðru lagi eru í þessum skýrslum ruddir vegir. Ég lít svo á, að þar sé um bráðabirgðavegi að ræða eða a.m.k. ófullnægjandi vegi. Í þriðja lagi eru lagðir vegir, og það munu eiga að teljast fullgerðir vegir. Síðan gerir vegamálastjóri grein fyrir — með þessari flokkaskiptingu — ástandi þjóðveganna sér, sýsluveganna sér og hreppaveganna sér.

Eitt af því fyrsta, sem ég rek augun í í þessum skýrslum, er það, hve mikill hluti af þjóðvegunum er óbílfærir vegir, þ.e.a.s. vegleysur. Ég vil nefna dæmi um það, hvernig ástatt er um Vestfjarðakjördæmi og Austurlandskjördæmi annars vegar, borið saman við öll hin kjördæmin 5 utan Reykjavíkur hins vegar. Útkoman er sú, að óbílfærir þjóðvegir í Vestfjarðakjördæmi eru 22,2% af þjóðvegunum þar, eða meira en fimmti hlutinn, og í Austurlandskjördæmi eru það 10% af þjóðvegunum, sem eru ógerðir. En í öllum hinum 5 kjördæmum landsins eru þessir ógerðu þjóðvegir frá 1,9% upp í 5,9%. Sýnir þetta glöggt, hversu ástandið er miklu verra í þessum 2 landshlutum en í hinum 5 landshlutunum og þó, hvað þetta snertir, sýnu verra á Vestfjörðum en á Austurlandi.

En þetta er aðeins um þjóðvegina. Vilji maður fá heildarsvip af þessu, þarf að taka hina vegina líka, því að það getur verið, að eitt hérað hafi tiltölulega meira af sínum vegum í þjóðvegatölu en annað. Heildarsvip yfir þetta fær maður ekki nema taka alla vegi, sem til eru, en það kemur líka fram í þessum skýrslum. Hvað þetta dæmi snertir um óbílfæra vegi samtals, og eru þá taldir með sýsluvegir, hreppavegir og fjallvegir, þá er útkoman sú, að í Vestfjarðakjördæmi eru 29,9% af þeim óbílfærir eða ógerðir, en í Austurlandskjördæmi 12,7%. Í hinum 5 kjördæmunum er þetta aftur á móti frá 5% upp í 11%.

Ég vil í þriðja lagi nefna lagða þjóðvegi. Ég hleyp þá yfir ruddu vegina, þ.e. bráðabirgðavegina, og skal nefna dæmi um, hvernig þetta er um lagða þjóðvegi, fullgerða vegi. Í Austurlandskjördæmi eru fullgerðir þjóðvegir aðeins 37,2% af þjóðvegunum þar, í Vesturlandskjördæmi eru 46,6% af þjóðvegunum þar lagðir vegir, en í hinum 5 eru það minnst 67,4% upp í 82,9%. Sýnir þetta enn, hvernig þessir 2 landshlutar eru verr settir í þessum efnum. Taki maður alla vegi, eins og ég gerði í hinu dæminu, og beri saman, hversu mikið er fullgert af vegum samtals í þessum héruðum, þá er útkoman sú, að lagðir vegir, þ.e. fullgerðir vegir, í Austurlandskjördæmi eru 33,1% af vegunum samtals, lagðir vegir í Vesturlandskjördæmi 38,1%, en í hinum kjördæmunum 5 er það minnst 54,8% og upp í 81,1%. Enn kemur það sama fram, hvernig þessir 2 landshlutar eru verr settir en aðrir.

Af óbilfærum þjóðvegum í landinu í heild eru tæplega 2/3 hlutar þeirra í þessum 2 landshlutum, sem ég nefndi, en rúmlega 1/3 hlutinn í öllum hinum 5 kjördæmunum.

Taki maður vegina alla, þjóðvegi, sýsluvegi, hreppavegi og fjallvegi, þá eru óbílfærir vegir samtals í öllu landinu 1544 km, en 56% af þeim eru í þessum 2 kjördæmum.

Annað atriði vil ég enn nefna í samgöngumálum landsbyggðarinnar. Það eru brýrnar. Vegamálastjóri flokkar brýr í tvennt. Það eru smábrýr 4–9 m langar og það eru stærri brýr, sem eru 10 m langar eða lengri. Óbyggðar smábrýr á þjóðvegum í landinu eru alls 234, en af þessum 234 óbyggðu brúm á þjóðvegum eru 143 í þessum 2 kjördæmum, eða ríflega 3/5 hlutar þeirra. Um stærri óbyggðu brýrnar, 10 m langar eða lengri, er það að segja, að þær eru samtals á þjóðvegum í landinu 97, en 62 af þessum 97 óbyggðu brúm eru í þessum 2 landshlutum eða tæplega 2/3 hlutarnir, svipað og var um hinar brýrnar.

Enn er í þessum skýrslum vegamálastjóra greint frá því, hversu margir sveitabæir hafa ekkert vegasamband eða með öllu ófullnægjandi vegasamband. Þessir sveitabæir eru alls í landinu 112, en af þessum 112 sveitabæjum er 61 í þessum 2 kjördæmum eða 55% af þeim.

Ég vil ekki þreyta hv. þd. á því að telja fleiri dæmi til sönnunar því að þetta frv. er ekki að ástæðulausu flutt. Ég held, að þetta sýni, að full þörf er á nokkrum ráðstöfunum til úrbóta í þessum efnum, og vænti því, að þessu máli verði vel tekið hér. Ég legg svo til, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og hv. samgmn.