04.02.1960
Efri deild: 14. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (2446)

45. mál, sjúkrahúsalög

Flm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Við, sem flytjum þetta frv. um breyt. á sjúkrahúsal., fluttum á síðasta reglulega Alþ. frv. samhljóða þessu, en það dagaði uppi. Það er von okkar, að svo verði ekki að þessu sinni.

Breyt., sem ráðgerð er á sjúkrahúsal. með frv., er í því einu fólgin, að ríkið skuli greiða hluta af stofnkostnaði elliheimila í sama mæli og það greiðir nú hluta af stofnkostnaði sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana. Engin lög eru nú um það, að ríkið leggi fram stofnfé til elliheimila. Hins vegar hefur sú venja skapazt nú hin síðari ár, að elliheimili hafa verið stofnuð í sambandi við sjúkrahús, og hefur byggingarkostnaður þeirra þá verið að nokkru leyti greiddur úr ríkissjóði, á sama hátt og í sama mæli og um hefði verið að ræða sjúkrahús. Þannig hefur þetta verið t.d. í Hafnarfirði, á Sauðárkróki og Blönduósi og e.t.v. víðar. Á öllum þessum stöðum hefur verið komið fyrir elliheimilum í sjúkrahúsbyggingum og hluti byggingarkostnaðarins verið greiddur úr ríkissjóði, svo sem um sjúkrahús hefði verið að ræða. Þegar svo er komið, sýnist sjálfsagt, að sama regla verði upp tekin um elliheimili almennt, því að naumast eru nokkur rök til þess, að mismunandi reglur gildi að þessu leyti eftir því, hvort elliheimilið er í sambandi við sjúkrahús eða ekki. Hið sanna er, að elliheimili er í eðli sínu að verulegu leyti sjúkrahús. Gamalt fólk, sem þar dvelur, mundi í mörgum tilfellum þurfa að dveljast í sjúkrahúsi, ef það fengi ekki vist á elliheimili. Elliheimili létta þannig mjög miklu af sjúkrahúsinu, svo sem raunar sjálfsagt er.

Samkv. sjúkrahúsal. hefur ráðherra það á sínu valdi að takmarka fjölda þeirra sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, sem lögin fjalla um. Sama mundi vitanlega gilda um elliheimilin, þannig að samþykki ráðh. mundi þurfa til þess að hefja byggingu elliheimila, ef þetta frv. yrði að lögum. Og til þess er ætlazt með þessu ákvæði, að þar sé eðlilegur hemill á þessum málum, svo að offjölgun þessara stofnana eigi sér ekki stað.

Það er von okkar flm. frv., að hv. Alþ. fallist á þau sjónarmið, sem þar koma fram.

Ég tel ekki að svo komnu efni til að fara um þetta mál fleiri orðum, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til heilbr.- og félmn.