04.03.1960
Neðri deild: 42. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

61. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Frsm. meiri hl. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Fjhn. hv. d. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir og fjallar um breyt. á l. nr. 58 frá 8. sept. 1931, um einkasölu ríkisins á tóbaki. Efni málsins er það, að í lögum frá 8. sept. 1931 var álagning á tóbaksvörum ákveðin 10–75%. Með lögum nr.30 frá 6. maí 1949 var þessari grein laganna, 8. gr., breytt þannig, að álagningarheimildin var hækkuð upp í 350%. Í frv. því, sem liggur fyrir, er nú lagt, til, að hámarksákvæðið verði fellt niður og að ríkisstj. ákveði heildsöluálagningu á tóbak eftir því, sem henta þykir fyrir hverja tegund.

Nefndin hefur klofnað í þessu máli. Meiri hlutinn getur fallizt á þann rökstuðning, sem fram hefur verið færður fyrir breytingu þessari, en hann er í stuttu máli eftirfarandi:

1) Hliðstæð ákvæði þeim, sem hér er óskað eftir að fá heimild til þess að haga verðlagningu tóbaks samkvæmt, hafa lengi gilt um verðlagningu annarrar einkasöluvöru, áfengisins.

2) Ef hverju sinni þarf að bera undir Alþingi breytingar á hámarksálagningu tóbaks, má telja sennilegt, að það hafi í för með sér uppkaup á tóbaki og óeðlilega birgðasöfnun, þegar slíkar verðbreytingar eru á döfinni í Alþingi.

3) Forstjóri Tóbakseinkasölu ríkisins hefur tjáð n., að fyrirtækinu sé nauðsyn á nefndri heimild til verðjöfnunar. Hins vegar sé ekki fyrirhugað, að almenn hækkun á tóbaksvörum fari nú fram yfir þá hámarksheimild, sem lög gera ráð fyrir.

Ég vil með tilliti til þessara raka fyrir hönd meiri hl. fjhn. leyfa mér að leggja til, að þetta frv. verði samþykkt.