02.03.1960
Sameinað þing: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (2541)

56. mál, lögreglumenn

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Till. þessi, sem við hv. 2. þm. Norðurl. e. höfum leyft okkur að flytja á þskj. 94, fjallar um endurskoðun laga um lögreglumenn.

Löggjöfin um lögreglumenn er frá árinu 1940, og reynslan hefur sannað, að það er mjög tímabært að endurskoða þessi lög. Skal ég í því sambandi aðeins víkja að nokkrum atriðum, sem sérstaklega rökstyðja þessa skoðun okkar flm. Í fyrsta lagi er þess að gæta, að samkv. þessari löggjöf er gert ráð fyrir því, að hlutdeild ríkissjóðs í greiðslu lögreglukostnaðar sé á þann veg, að ríkið greiði 1/5 hluta kostnaðar við lögreglu og löggæzlu í kaupstað, en þó því aðeins, að tala lögreglumanna sé slík, að einn lögregluþjónn komi á hverja 700 íbúa. Með þessu móti munu það naumast vera aðrir staðir en Reykjavík, sem njóta þessara hlunninda, vegna þess að yfirleitt er það ekki í bæjarfélögum, að lögreglumenn séu svo margir. Það sýnist raunverulega vera óeðlilegt á allan hátt að binda greiðslu kostnaðar við það, að lögregluþjónar séu svo og svo margir. Ef það er metið þannig af viðkomandi bæjaryfirvöldum, að ekki sé þörf svo mikils fjölda lögregluþjóna, sýnist í fyllsta máta óeðlilegt, að gerð sé beinlínis krafa til þess af ríkisvaldinu, að lögregluþjónar verði þar fleiri en talin er brýn þörf á, ef sá staður á að geta notið þessarar hlutdeildar af hálfu ríkissjóðs. Það virðist því fyllsta ástæða til þess að athuga þetta atriði, því að reynslan mun hafa sýnt það ótvírætt, að útkoman úr þessu er mjög ósanngjörn í mörgum tilfellum.

Þá er þess einnig að gæta í sambandi við ákvæði l. um ríkislögreglu, að það er mjög óákveðið um það, hvar slíkir lögreglumenn skuli staðsettir, og því hefur reyndin orðið sú, að í því hefur þótt vera nokkurt misrétti, hvaða staðir fengju hlunnindi af því að hafa ríkislögreglumenn, sem launaðir væru af ríkissjóði, og einnig þetta atriði þarf að taka til athugunar.

Þá er loks eitt atriði, sem skiptir miklu máli og hefur orðið sérstaklega áberandi nú á síðustu árum, hversu slæmt er að hafa ekki skýrari reglur en til eru í l. um lögreglumenn, en það er varðandi héraðslögreglumenn, sem hafa verið settir í mörgum héruðum landsins. Á undanförnum árum hafa verið samþykktar sérstakar reglugerðir um löggæzlu á samkomum í sveitum í flestum eða öllum sýslum landsins. Þessar reglugerðir hafa síðan verið staðfestar af dómsmrn., en þess hefur orðið vart í því sambandi, að rn. telur ákvæði l. um lögreglumenn vera svo óljós varðandi þetta atriði, að það sé mjög hæpið, hvaða skylda hvíli á ríkissjóði til greiðslu kostnaðar í sambandi við þessa tegund löggæzlu. Þar sem hér er orðið um umfangsmikla löggæzlu að ræða, sýnist nauðsynlegt, að settar verði ákveðnar reglur í lögum um tilhögun þessarar löggæzlu, en ekki í einstökum reglugerðum, sem kannske að ýmsu leyti eru ekki samhljóða, og jafnframt, að ákveðnar reglur séu settar um, að hve miklu leyti ríkissjóður skuli bera kostnað af þessari löggæzlu.

Þá er loks eitt atriði, sem hefur á síðari árum og raunar um nokkurra ára bil verið vandamál. og það er löggæzla á tilteknum stöðum á landinu, þar sem hefur þótt vera sérstök þörf aukinnar löggæzlu af ýmsum ástæðum. Fyrir þessu er ekki gert ráð í 1. um lögreglumenn, og því hefur þessi vandi verið leystur á þann hátt, að í fjárlög hafa verið teknar fjárveitingar til löggæzlu á þessum tilteknu stöðum. Það eru 11 staðir í fjárlfrv. því, sem liggur fyrir Alþ. nú, sem gert er ráð fyrir að styrkja með sérstökum fjárveitingum til þess að halda uppi löggæzlu, og fjárveitingar þessar eru mjög mismunandi eða frá 10 til 100 þús. kr. Það liggur í augum uppi, að þess er lítill eða enginn kostur fyrir fjvn. Alþ. að gera sér grein fyrir því, hver sé þörfin fyrir löggæzlu þessa á hinum einstöku stöðum, þannig að ekki sé misræmi í þessum fjárveitingum. Einnig af þessari ástæðu er nauðsynlegt að reyna að finna eitthvert form til þess að veita umrædda aðstoð og koma þessu í fastara skipulag. Það er vafalaust, að á þessum stöðum er þörf sérstakrar löggæzlu í sambandi við vertíðir, en það er jafnóeðlileg, að ekki sé reynt að setja einhverjar ákveðnar reglur, þar sem hægt sé að finna leiðbeiningar um það og raunar sem skýrust fyrirmæli, að hve miklu leyti ríkissjóður skuli greiða slíkan kostnað, en það ekki látið vera tilviljun háð í sambandi við fjárveitingar hverju sinni, hvaða fé er veitt til þessara þarfa.

Þetta eru meginatriðin, sem liggja að baki þessari till., þau atriði, sem við teljum brýnast að taka til athugunar. En einnig kunna að sjálfsögðu að vera önnur atriði, sem koma í ljós, þegar hafizt verður handa um endurskoðun laganna. Þar sem hér er um mál að ræða, sem ekki aðeins varðar ríkið, heldur einnig sveitarfélögin mjög verulega, teljum vér eðlilegt, að um endurskoðun þessa sé haft samráð við Samband ísl. sveitarfélaga. Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að orðlengja um till. þessa. Um hana mun vera ákveðin ein umr., og vil ég því leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til fjvn.