04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (2544)

56. mál, lögreglumenn

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þessi till., sem hér liggur fyrir á þskj. 94, fer fram á það að skora á ríkisstj. að láta endurskoða gildandi lög um lögreglumenn og hafa um það samráð við Samband íslenzkra sveitarfélaga.

Eins og fram er tekið í grg. fyrir þessari till., er hún flutt vegna þess, að það þykir nauðsynlegt að breyta þeim lögum, sem fyrir hendi eru og í gildi um lögreglumenn, og setja gleggri ákvæði, sérstaklega um það atriði, hvernig fara skuli með greiðslur sveitarfélaga og ríkissjóðs, og í öðru lagi, að hve miklu leyti er aðstoðað við lögreglustarfsemi úti um landið, sem víða er sótt eftir.

Allshn. hefur rætt þessa till. og fallizt á að mæla með því, að hún verði samþ. óbreytt. N. sendi hana til umsagnar til stjórnar Sambands íslenzkra sveitarfélaga og fékk frá henni bréf, þar sem hún mælir með, að till. nái fram að ganga.

Er aðeins farið fram á undirbúning að breytingu, en ekki neitt inn á það farið í till., hvernig sú breyting skuli verða, en þess vænzt, að frv. um þetta efni verði lagt fyrir næsta reglulegt þing.

Ég sé ekki fyrir n. hönd ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en vænti þess, að hv. alþm. geti fallizt á að samþ. till. eins og hún liggur fyrir.