04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (2545)

56. mál, lögreglumenn

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Svo sjálfsagt sem það er að samþ. þessa þáltill., þá er ekki ástæða til þess að fara mörgum orðum um hana í viðbót við það, sem áður er fram komið. Þó vil ég aðeins með nokkrum tölum benda á, hvernig þessum málum er komið, mun gera mál mitt sem allra stytzt, en láta tölurnar einar tala.

Eina almenna reglan, sem nú er farið eftir um þátttöku ríkisins og sveitarfélaganna í löggæzlu, er sú, að ef lögreglumannatala nær vissu marki, þá greiðir ríkissjóður 1/6 af kostnaðinum. En þar að auki hafa verið settir niður víðs vegar um landið lögreglumenn, sem eru algerlega kostaðir af ríkinu, t.d. í Hafnarfirði, Akureyri, Patreksfirði, Ísafirði og Siglufirði, sem sé alger ríkislögregla. Ríkissjóður borgar 100% af kostnaði við þessa löggæzlu, í Reykjavík fyrir 20–30 lögreglumenn, á Akureyri fyrir 2, Hafnarfirði fyrir 2, Keflavík 1, Siglufirði 1, Kópavogi 1, Seyðisfirði 1, — auk þess 1/6 hluta löggæzlu þeirra staða, sem fullnægja þeim reglum að hafa tvo lögreglumenn á hverja þúsund íbúa, en sú regla gildir fyrir Reykjavík og auk þess fyrir nokkra kaupstaði aðra, t.d. Vestmannaeyjar, Keflavík, Akranes og Ísafjörð. Auk þess hefur sumarlöggæzla verið kostuð af ríkinu samkvæmt fjárlfrv. og mjög af handahófi.

Samkvæmt þessum reglum liggur ljóst fyrir, að ríkissjóður verðlaunar sveitarfélögin fyrir að hafa sem flesta löggæzlumenn, og þau verðlaun koma þeim einum til góða, sem fjölga þeim og hafa þá sem allra flesta, en hinir, sem reyna að hafa þá færri, fá þeim mun minna úr ríkissjóði. Akureyringar hafa t.d. enga greiðslu fengið úr ríkissjóði fyrir sína lögreglumenn, nema fyrir þá tvo, sem áður hefur verið getið um að eru ríkislögreglumenn.

Sömu sögu er að segja um Árnessýslu, sem er þó önnur stærsta sýsla landsins. Hún hefur farið fram á að fá styrk til löggæzlu úr ríkissjóði, en ekki fengið. Sýslumaðurinn í Árnessýslu ritaði fjvn. á þessu þingi um þessi mál og benti á í bréfi sínu, að kostnaður við löggæzlustarfsemi í þessu eina héraði hafi á síðasta ári numið rúmlega 172 þús. kr. og muni á þessu ári nema um 220 þús. kr., ef einum föstum manni verður bætt við þann eina, sem áður hefur verið og er kostaður að öllu leyti úr sýslusjóði og af Selfosshreppi, eins og nauðsynlegt þykir vegna hinnar miklu þarfar, sem þar er á löggæzlu.

Þessi málaleitan var ekki tekin til greina af hv. fjvn., þó að dómsmrn. hafi talið samkvæmt bréfi sýslumanns til fjvn. fulla nauðsyn til þess að ráða hér bót á, og deildarstjóri dómsmrn. hefur látið svo um mælt, að hvergi á landinu væri jafnmikil þörf fyrir slíka löggæzlu og þar.

Með nokkrum tölum væri að lokum rétt að benda á, í hvert óefni og í hvert handahóf framkvæmd þessara löggæzlumála er komin. Húsavíkurbær greiddi á árinu 1957, — ég tek það ár, vegna þess að ríkisreikningur liggur hér fyrir, — 200 kr. til löggæzlumála, en ríkissjóður greiddi þar sama ár samkvæmt ríkisreikningi 15 þús. kr. Árið 1955 greiddi Húsavíkurbær ekkert til löggæzlumála. Hins vegar fékk hann fjárveitingu frá ríkissjóði, sem kostaði alla löggæzlu á þessum stað. Á sama tíma borgaði Akraneskaupstaður 302 þús. kr. til löggæzlumála, Akureyri 763 þús., Reykjavík 10 millj. kr., en Kópavogur 17 þús. rúmar, en þar er einn ríkislögreglumaður, sem settur var þar fyrir þó nokkrum árum. Neskaupstaður borgar 57 þús. kr. til löggæzlumála og Siglufjörður 370 þús. kr. Þessar tölur tala sínu máli, og þarf ekki að hafa fleiri orð þar um.

Með samþykkt þessarar till., sem hér liggur fyrir, hefur Alþingi viðurkennt, að endurskoðun þurfi nauðsynlega að fara fram á löggæzlumálum, og ég leyfi mér að varpa fram þeirri hugmynd, hvort ekki væri rétt, að dómsmrn. léti nú á þessu ári bæta úr þeim brýnustu ágöllum, sem eru á framkvæmd löggæzlumálanna í landinu, t.d. með því að leggja af sínu fé samkvæmt fjárl. til umbóta á þeim stöðum, þar sem þörfin er allra mest, eins og t.d. á Selfossi og í Árnessýslu.

Hér er um að ræða málefni, sem er einna mikilvægast í hverju þjóðfélagi, að skera úr um það, hvernig verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga skuli vera, hve aðild ríkissjóðs að löggæzlu eigi að vera mikil. Í Danmörku hafa þessi mál frá árinu 1938 verið algerlega í höndum ríkissjóðs og í Noregi frá árinu 1927 með fjárframlögum sveitarfélaganna. Það er vilji íslenzkra sveitarfélaga, að ríkissjóður taki á sínar herðar allan löggæzlukostnað í landinu, og þau hafa hvað eftir annað á sínum þingum gert um þetta ályktanir, sem ég ætla að leyfa mér að lokum að lesa sýnishorn af frá árinu 1956. Er það frá fulltrúaráðsfundi kaupstaðanna á Vestur-, Norður- og Austurlandi, sem haldinn var á Ísafirði í september 1956, þar sem segir svo: „að fulltrúaráðsfundur kaupstaðanna telji eðlilegt, að þar sem bæjarstjórnir hafi engin umráð yfir störfum lögregluþjóna, séu þeir að öllu leyti launaðir af ríkinu, og skorar á Alþingi og ríkisstj. að gera lagabreytingar í þá átt, annars fái bæjarfélögin óskoraðan rétt til að ákveða fjölda lögregluþjóna hvert á sínum stað og til að ákveða að leggja þeim fleiri störf á hendur í þágu bæjanna. eftir því sem þörf gerist hverju sinni.“