19.04.1960
Sameinað þing: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (2636)

80. mál, tónlistarfræðsla

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er til meðferðar, er þess efnis, að Alþingi skori á ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um tónlistarfræðslu, þar sem m.a. séu sett skýr ákvæði um aðild ríkisins að þessari fræðslu, hlutdeild ríkissjóðs í greiðslu kostnaðar við tónlistarskóla og hvaða skilyrði skólar þessir þurfi að uppfylla til að njóta ríkisstyrks.

Ástæðan til þess, að þessi till. er flutt, er sú, að tónlistarfræðsla fer nú mjög vaxandi, góðu heilli að segja má, og hafa verið stofnaðir víða um land tónlistarskólar til þess að hafa þessa fræðslu með höndum.

Þessir skólar allir starfa utan skólakerfisins, og þeir hafa ekki aðra aðstoð frá ríkisvaldinu en er fólgin í styrkveitingum til þeirra í fjárlögum hverju sinni. Styrkveitingar til þessara skóla eru mjög misjafnar. Nú eru það 13 skólar, sem njóta styrks í fjárlögum, og á síðari árum hefur mjög verið sótt á um það að fá þessa styrki hækkaða með hliðsjón af því aukna starfi, sem þessir skólar inna af höndum. Það er vitanlega lítt gerlegt fyrir fjvn. Alþingis að meta það, hvernig eigi að veita styrki sem þessa, og gera sér grein fyrir því, hvert sé starf þessara skóla og að hve miklu leyti þeir séu styrks maklegir.

Það liggur nokkurn veginn í augum uppi, að skólarnir séu allmismunandi, bæði að gæðum og einnig nemendafjölda, og því eðlilegt, að þar sé nokkur mismunun á gerð. En til þess að auðið sé að finna undir slíku grundvöll, er óumflýjanlegt að setja um þetta atriði fastar reglur. Ég vil taka það skýrt fram, að fyrir flm. þessarar till. vakir ekki það, að þessi fræðsla verði tekin í hendur ríkisins og þessir skólar gerðir að ríkisskólum, síður en svo. Það er engum efa bundið, að það hefur mjög mikla þýðingu í þessu sambandi, að áhugamannasamtök standi að þessum skólum og stjórni þeim og haldi þeim að verulegu leyti uppi, svo sem gert hefur verið til þessa. En hins vegar er það jafnvíst, að ekki verður auðið að reka skóla þessa án þess, að til komi einhver aðstoð frá ríkisins hálfu, og ég held, að það sé engum efa bundið, að hér sé um slíkt nám að ræða og fræðslu, að það sé full ástæða til þess, að henni sé af opinberri hálfu gaumur gefinn og að því stuðlað, svo sem fært þykir, að fræðsla þessi geti sem víðast á landinu átt sér stað.

Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að hv. þm. geti á þetta sjónarmið fallizt, annars vegar það, að eðlilegt sé, að tónlistarfræðsla sé efld, og hins vegar, að það sé jafnframt nauðsynlegt að setja um aðstoð ríkisins fastar reglur, þar sem ákveðið sé, hvaða skilyrði skólar þessir þurfi að uppfylla til þess að njóta ríkisaðstoðar og þá að hve miklu leyti sú aðstoð skuli veitt.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið. Efnislega er grein fyrir því gerð í þeirri grg., sem till. fylgir, en vil leyfa mér að leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til fjvn.