24.02.1960
Sameinað þing: 17. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (2835)

12. mál, byggingarsjóðir

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) taldi, að ég hefði sagt, að þær tölur, sem hann hefði nefnt hér áðan, hefðu verið rangar. Þetta er ekki rétt, það sagði ég aldrei, en hitt sagði ég, að þær tölur, sem hv. þm. hefði nefnt, þyrftu nánari skýringar við, og það voru þessar skýringar, sem ég taldi, að hann hefði átt að láta fylgja tölunum, sem ég var að reyna að bæta við. Tölurnar voru í sjálfu sér réttar, eða ég hef enga ástæðu til að ætla, að þær séu ekki réttar, en þær þurftu nánari skýringar, til þess að þær gæfu rétta mynd af hlutunum, eins og þeir eru. Ég nefndi t.d., að af þessum 1550 umsóknum, sem hann sagði að legið hefðu fyrir 1. des. s.l. um lán úr húsnæðismálasjóði, hefði verulegur hluti þegar verið búinn að fá nokkuð út á sín hús, þannig að með þessum 15 millj., sem fengnar voru um áramótin, var hægt að leysa um 500 umsóknir rúmar að fullu og þó sennilega allmiklu meira. Þetta sýnir, að umsóknafjöldinn raunverulega var ekki eins mikill og ætla hefði mátt, eftir að aðeins 15 millj. kr. var veitt inn í sjóðinn, enda kemur þetta fram með því að margfalda saman tölurnar, þá liggur þetta nú alveg ljóst fyrir.

Samkvæmt hans útreikningum, hv. þm., voru umsóknirnar, miðað við 80 þús. kr. á íbúð, 1. des. 92 millj. Þar af hafa 15 verið losaðar, þannig að eftir eru 77 millj. Ef þessar 15 millj. eru teknar af tekjum ársins 1960, sem reiknað var með í upphafi, þegar bráðabirgðalánið var tekið, eru eftir væntanlega kringum 25 millj. af tekjum ársins 1960, venjulegum og reglulegum tekjum í sjóðinn. Ef 40 millj. fást í viðbót við það, eru það 65 millj. kr., þannig að með þessum upphæðum eru fengnar 65 millj. af þeim 77, sem hv. þm. taldi að eftir hefðu verið, miðað við 1. des. s.l., eða m.ö.o., það skortir aðeins 12 millj. kr. á, að hægt sé með þessu móti að fullnægja eftirspurnunum, eins og þær lágu fyrir s.l. 1. des. Nú aftur á móti hefur ýmislegt komið til síðan. Það er alveg rétt. Byggingarkostnaður hefur vaxið og ný hús hafa komið til og annað þess háttar. En þegar maður ber þetta saman við þann hala, sem á undanförnum árum hefur verið í afgreiðslu þessara mála, er mikill munur á. Ég ætla, að það séu nú ekki fáar lánaumsóknir hjá húsnæðismálastjórn, sem eru meira en tveggja ára gamlar, sumar meira að segja þriggja ára gamlar, þannig að það hefur ekki verið hægt að afgreiða nálægt því allar umsóknir. sem borizt hafa. En ef maður sker þarna yfir við 1. des. s.l. og það fjármagn, sem þegar hefur verið útvegað, skortir ekki nema um 12 millj. kr. á, að endarnir náist þarna saman eftir þeim útreikningi, sem hv. þm. hefur sjálfur sett upp. Að vísu viðurkenni ég, að það þarf meira til að mæta nýjum húsum, sem bætast við, en það hefur þá einhver beðið lengur áður fyrr en þó að þeir, sem til hafa komið síðar en 1. des. 1959, séu ekki búnir að fá afgreiðslu, svo margir hafa beðið frá undanförnum árum.

Um þær 15 millj., sem fengnar voru til bráðabirgða út á tekjur ársins 1960 og hv. 4. landsk. þm. (HV) spurðist hér fyrir um áðan, þá get ég ekki sagt annað en það, að lánið var fengið á þann hátt, að það var lofað endurgreiðslu af tekjum ársins 1960, þegar lánið var tekið. En hitt tel ég á engan hátt útilokað, að það verði hægt að bæta einhverju við á árinu til þess að mæta þeirri endurgreiðslu, svo að tekjur sjóðsins, þær raunverulegu og föstu, þurfi ekki að skerðast eins og þær hefðu orðið að gera vegna endurgreiðslunnar að öðrum kosti. Ég tel, að þessi 40 millj. kr. lántaka þurfi ekki að vera sú endanlega og sú síðasta aðgerð, sem gerð verður í málinu á þessu yfirstandandi ári, og ég vil vona, að hún þurfi ekki að vera það.

Hv. 3. þm. Vesturl. (HS) og enda hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) líka þóttu það ómakleg orð hjá mér, þegar ég sagði, að hv. 7. þm. Reykv. — ég tók nú ekki fleiri til — hefði sýnt áhuga á þessu máli í orði. Ég hagaði þessum orðum mínum svona vegna þess, að mér hefur virzt áhugi þessara manna fyrir málinu vera fullt eins mikill á þann veginn að níða niður þær aðgerðir, sem fyrrv. og núverandi ríkisstj. hafa verið að reyna að gera til þess að koma málinu á rekspöl, eins og að þoka málinu á rétta braut. Þeir hafa brigzlað okkur um viljaleysi, um áhugaleysi og að engin skýring væri önnur til á því, að úthlutun lána 1959 hafi orðið minni en 1958, og takandi þá ekki með í reikninginn þær ráðstafanir, sem gerðar höfðu verið fyrir áramótin 1958–59. Mér hefur sem sagt fundizt, að viðleitni þeirra í málinu væri frekar að reyna að sanna sök á okkur en að koma máli hér heilu í höfn, fyrir utan nú það, að ýmsar þær till., sem þessi hv. þm., 7. þm. Reykv., og aðrir hafa verið hér með áður, hafa verið á þann veg, að þær hafa vissulega ekki verið raunverulegar og ekki framkvæmanlegar, og hef ég í umr. hér áður leitt rök að því, að svo er. Þess vegna hagaði ég orðum mínum eins og ég gerði, og ég ætla, að það hafi ekkert verið ofmælt.

Hv. 4. landsk. þm. sagði, að það hefði verið viðkunnanlegra, áður en skýrt var frá lánsloforði seðlabankans, að það hefði verið tryggt, að fallizt mundi verða á af hálfu stjórnar atvinnuleysistryggingasjóðs þau skilyrði, sem seðlabankinn setti fyrir sinni lánveitingu. Það er rétt, það hefði verið eðlilegt, að þetta hefði verið gert. En þegar það lá fyrir, að ég hef fyrir alllöngu, einum til tveimur mánuðum, ég man ekki nákvæmlega daginn, en það er áreiðanlega meir en mánuður og jafnvel kannske tveir, — skrifað stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs og farið fram á vissa hluti við hana, sem ég hef ekki fengið svar við, þótti ekki ástæða til þess að bíða eftir því, að endanlega væri frá þessu gengið, — þegar loforð seðlabankastjórnarinnar lá fyrir um lánið gegn þessum skilyrðum, þá breyttist að vísu sú ósk, sem ég hafði borið fram við stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs um beint lán, í annað, sem mér hafði skilizt að stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs væri geðþekkara en að veita beint lán í þessu skyni, en það verður að skera úr um það og koma fram síðar, hvort þetta tekst eða ekki. Í staðinn fyrir, að farið var fram á við stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs, að hún lánaði úr sjóðnum beint og þó þannig, að seðlabankinn tryggði sölu eða kaup getum við alveg eins sagt — á þessum skuldabréfum húsnæðismálastjórnar, ef á þyrfti að halda, eru nú komin skilyrði seðlabankans. Hér er efnislega enginn munur á, en að formi til er hér nokkur munur, og ég hef ástæðu til þess að ætla eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um afstöðu atvinnuleysistryggingasjóðsstjórnarinnar, að henni muni vera þetta geðþekkara form en hið fyrra, svo að ég treysti því nú, að samkomulag náist um þetta atriði, þó að það liggi ekki fyrir á þessari stundu. Og ef það kemur ekki til með að liggja fyrir, verður að taka til einhverra annarra ráða, til þess að við þetta verði staðið.

Um hinar 15 millj. kr., sem ákveðið er að leita til bankanna um, þá get ég svarað hv. 4. landsk. því, að þetta er, eins og hann hélt, bráðabirgðalán, sem veitt hafa verið af viðskiptabönkunum til þess að brúa eitthvert bil, sem viðkomandi húsbyggjandi hefur þurft að brúa til þess að geta haldið áfram með sína byggingu, þangað til hann fengi lán einhvers staðar, sem hann hafði vilyrði eða loforð fyrir að fá, en hafði ekki enn fengið. Það eru fyrst og fremst þessi lán, sem ætlað er að „konvertera“ úr stuttum víxlum í lengri lán, annaðhvort húsnæðismálalán beint eða á annan hátt, og ég vænti þess, að um þetta megi takast samkomulag við viðskiptabankana, því að raunverulega er þetta ekki útlagt fé af þeirra hálfu, heldur eingöngu stuttu láni breytt í lengra lán.

Fleira held ég að ég þurfi ekki að taka fram um þetta mál, nema eitthvað nýtt komi fram, en ég vil undirstrika það, að þetta áhugaleysi og þetta viljaleysi, sem hv. framsóknarmenn hafa hér lagt mjög mikla áherzlu á að væri fyrir hendi bæði hjá fyrrverandi stjórn og núverandi, er alls ekki til staðar. Báðar stjórnirnar hafa reynt að gera það, sem þær gátu, þó að fyrrverandi ríkisstj. tækist ekki að útvega bráðabirgðalán, fyrr en leið að árslokum, og núverandi ríkisstj. hefur sýnt það í verki með því að ákveða að taka þessar 40 millj. nú þegar, að henni er áhugamál að leysa þetta. Ef tækist að fá þá viðbót, sem þarf til þess að ljúka við dæmið, eins og hv. 7. þm. Reykv. setti það upp 1. des. s.l., teldi ég mikið unnið, og raunverulega vantar ekki svo mikið á, að það sé hægt, miðað við það, sem búið er að gera.