17.02.1960
Sameinað þing: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (2837)

12. mál, byggingarsjóðir

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. viðurkenndi það í svarræðu sinni áðan, að það hefði farið betur á því, að ríkisstj., áður en hún birti sitt loforð, sem var um fé úr atvinnuleysistryggingunum, hefði fengið svar og samþykkt stjórnar atvinnuleysistrygginganna. En hann lét í ljós aftur vonir um, að það mundi fást, því að nú hefði verið farið inn á þá leið, sem henni mundi geðfelldari en bein lánveiting til húsnæðismála. Ég veit ekkert um það, en ég er þeirrar skoðunar, eins og reyndar ráðh., að það hefði farið betur á því, að þessi svör atvinnuleysistryggingasjóðsstjórnarinnar hefðu legið fyrir, áður en þessi hátíðlegu loforð voru gefin og birt.

Þá skildi ég einnig á hæstv. ráðh., að það væri ekki heldur búið að ræða þessi mál við bankana og fá loforð þeirra fyrir þeirri aðstoð, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú lofað og byggist á því, að bráðabirgðalánum í bönkum verði breytt í föst lán. Það finnst mér líka vera með nokkuð fljótlegum hætti gert að birta þessar stjórnartilkynningar, áður en búið er að fá samþykki bankanna til þess, að málum verði hagað á þann veg, sem loforðin hljóða um. En hæstv. ráðh. sagðist einnig vona, að á bönkunum strandaði ekki, að því er þetta snerti, og að þeir hlypu þarna undir bagga með einar 15 millj. kr., að mér skilst, sem sé að breyta bráðabirgðalánum í föst lán. Hæstv. ráðh. staðfesti það, að minn skilningur væri réttur, að því er það snerti, að gefin loforð bankanna um að breyta bráðabirgðalánum í föst lán vörðuðu þá bráðabirgðavíxla, sem bankarnir hefðu hlaupið undir bagga með ýmsum aðilum að veita út á ákveðin loforð um föst lán hjá húsnæðismálastofnuninni síðar og ættu þá að borgast upp, þegar húsnæðismálastofnunin hefði veitt hin föstu lán. Ég bjóst við því, að þetta væri svona, en hafði hins vegar heyrt af nokkuð ábyrgum aðila, sem talaði í nafni ríkisstj., að þetta væri ekki, það væri átt við önnur lán.

Nú hvarflar að mér sú hugsun, að ef þessum bráðabirgðalánsfjárhæðum bankanna verður breytt í föst lán, þrengist aftur nokkuð um möguleika hjá bönkunum til þess að halda áfram svipuðum fyrirgreiðslum um bráðabirgðalán til fólks, sem stendur í byggingum og er í þeim nauðum statt, sem það hefur verið, þegar það var að fá þessi bráðabirgðalán í bönkunum að undanförnu, meðan þeir voru að bíða eftir föstum lánum. Einkanlega held ég, að þessir möguleikar þrengist hjá viðskiptabönkunum, þegar búið er að takmarka útlánastarfsemi þeirra, eins og nú virðist vera búið að gera í sambandi við gengisbreytinguna, og þætti mér það mjög miður og vera nokkur ljóður, á þessari fyrirgreiðslu, ef hún yrði til þess að loka þeim leiðum, að menn í nauðum staddir, sem eru að byggja, gætu fengið sams konar áframhaldandi fyrirgreiðslu í formi bráðabirgðalána hjá bönkunum. En það er vissulega sú fyrirgreiðsla, sem stundum hefur komið mönnum yfir örðugasta hjallann, þannig að þeir gætu þokað byggingum sínum áfram og komizt hjá því að missa þær og síðan fengið föst lán hjá húsnæðismálastofnuninni til þess að borga þessi bráðabirgðalán upp.

Ég þakka hæstv. ráðh. annars fyrir svörin, en læt í ljós ótta minn um það, að úr því að þessi kvöð verður lögð á bankana að breyta bráðabirgðavíxlunum í föst lán, sennilega 15–20 ára, gæti það orðið til þess, að þetta úrræði margra að fá bráðabirgðalán, þangað til föstu lánin veitast, gæti lokazt við þetta, einkanlega þegar búið er að þrengja möguleika bankanna til lánastarfsemi og sníða því þar þröngan stakk, eins og hefur verið gert kunnugt nú nýskeð.