17.02.1960
Sameinað þing: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (2839)

12. mál, byggingarsjóðir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég held, að hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) hafi ekki bætt neitt fyrir þeim málstað, sem hann hefur verið að túlka hér í d., ekki í dag, heldur oft áður, með þeirri ræðu, sem hann flutti hér áðan. Og ef það ber að skilja svo, að þessi hv. þm. líti svo á, að skuld byggingarsjóðs Búnaðarbankans við seðlabankann sé ekki óreiðuskuld, er náttúrlega ekki við því að búast, að hann hafi lagt því lið að bæta þar úr.

Hv. þm. talar um, að ég sé að reyna að læða því inn, að Búnaðarbankinn sé einhver óreiðustofnun. Það er ekki það, sem ég sagði. Búnaðarbankinn er ekki óreiðustofnun, og það er ástæða til að taka það fram, að Búnaðarbankanum sem banka hefur verið vel stjórnað af þeim bankastjóra, sem þar á sæti. En það er byggingarsjóður Búnaðarbankans, sem hefur fengið fé utan að komandi frá þeim ríkisstjórnum, sem setið hafa á hverjum tíma, sem er að mestu utan við valdsvið bankastjórans að þessu leyti. Og ég ætla að endurtaka það hér, að í seðlabankanum er óreiðuskuld, sem er arfur frá valdatíma hv. 1. þm. Norðurl. v. og hans flokksmanna, það er það mikil óreiðuskuld, að bankastjóri seðlabankans hefur tvívegis skrifað fjmrn. og talið, að fjmrn. bæri að greiða þetta, því að þetta væri í óreiðu, fyrir löngu í gjalddaga fallið og ríkissjóður væri í ábyrgð fyrir þessu. Hvað er óreiðuskuld, ef það er ekki þetta? Og eins og ég sagði hér áðan, þegar ég fór til seðlabankans fyrir áramótin til þess að frelsa þess að fá fé fyrir byggingarsjóðinn að láni til bráðabirgða út á fé, sem var öruggt að mundi fást, 12½ millj. kr., sem er búið að lofa Búnaðarbankanum, en hann hefur ekki enn fengið, og fé, sem vitað er, að er til, þá var svarið þetta: 1957 var slegið hér bráðabirgðalán, sem átti að greiðast á því ári, sem það var tekið. 1958 var aftur slegið bráðabirgðalán með loforði um, að það lán yrði fljótt greitt ásamt því eldra, — en hv. framsóknarmenn fóru frá völdum án þess að greiða þetta og lokuðu möguleikanum fyrir því, að núv. ríkisstj. gæti fengið bráðabirgðalán, enda þótt hún gæti látið tryggingu fyrir því, að það yrði greitt á fyrri hluta þessa árs, vegna þess að það var búið að nota upp „kreditina“, sem seðlabankinn gat látið, og hafði svo slæma reynslu af þessu, að það var ekki á það bætandi.

Ég held, að það sé ástæða til að taka þetta fram. Hv. 1. þm. Norðurl. v. kann ekki skil á því, hvað er skilsemi og hvað er óreiða, ef dæma á eftir því, sem hann sagði hér áðan. Hann kann ekki að gera greinarmun á þessu tvennu. Og ekki get ég að því gert.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að fara fleiri orðum um þetta. Hv. þm. endurtekur hér núna það, sem hann sagði um daginn, að til ársloka 1958 hefðu bændur fengið lán út á íbúðir sínar. 75 þús. kr. Þetta er rétt. Þeir hafa ekki enn fengið þessi lán fyrir árið 1959 nema að nokkru leyti. Þeir hafa fengið framhaldslán, en þeir hafa ekki fengið ný lán. Ég hef marglýst því hér yfir, að út á þá pappíra, sem nú liggja í Búnaðarbankanum vegna framkvæmda á s.l. ári, verður veitt núna innan lítils tíma. Verða þessi lán veitt með sömu kjörum og gilt hafa áður, og það ætla ég, að hv. þm., sem talaði hér áðan, ætti að nægja. Og ég hygg, að hann, eins og hv. 7. þm. Reykv., viti það, að Búnaðarbankinn hefur fengið loforð fyrir fjármagni til þess að leysa Það, sem liggur óafgreitt þar, og það er eingöngu vegna óreiðulánanna, sem lágu fyrir í seðlabankanum núna fyrir áramótin, að ekki var unnt að fá þar bráðabirgðalán, til þess að hægt væri að ljúka þessum afgreiðslum í desember, enda þótt loforð væri fyrir um greiðslu fyrri hluta þessa árs.