15.03.1960
Neðri deild: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

88. mál, söluskattur

Lúðvik Jóaefsson:

Herra forseti. Það hefur verið sagt hér í þessum umr., að frv. það, sem hér liggur nú fyrir til 1. umr. um söluskatt, sé í rauninni aðeins einn þáttur í efnahagsráðstöfunum ríkisstj., og vegna þess að þetta frv. er raunverulega aðeins einn þáttur af mörgum í hinum nýju efnahagsráðstöfunum ríkisstj., þá er eðlilegt, að það sé skoðað hér nokkuð í samhengi við hina aðra þætti þessa máls, og mun ég gera það nokkuð í þeim orðum, sem ég ræði hér um þetta mál nú við 1. umr.

Þegar hæstv. ríkisstj. tilkynnti í meginatriðum, hvað hún hygðist gera í efnahagsmálunum, var einmitt eitt af því, sem hún upplýsti að til stæði, að leggja átti á nýjan söluskatt, sem hún áætlaði að mundi gefa í nýjar tekjur um 280 millj. kr. Þegar ríkisstj. lagði svo fram í janúarlok hið nýja fjárlagafrv., var gerð nokkur frekari grein fyrir þessum nýja söluskatti og það upplýst, að hér væri fyrirhugaður söluskattur, sem ætti fyrst og fremst að vera á alla smásölu og allan dreifingarkostnað í landinu, en skýrt og greinilega var tekið fram í grg. frv., að ekki væri um að ræða neinn nýjan söluskatt á innflutning. Það hefur því auðvitað vakið nokkra undrun hjá mönnum að sjá það nú í þessu nýja frv., að a.m.k. helmingur eða líklega röskur helmingur hins nýja söluskatts, sem nú er hér til umr., er einmitt í formi þess að leggja söluskatt á innflutning, þveröfugt við það, sem tilkynnt var í grg. hæstv. fjmrh. fyrir fjárlagafrv. í janúarlok. Hæstv. fjmrh. hefur reynt hér á Alþ. að gefa skýringar á þessari missögn hans í grg. fjárlagafrv. Hann hefur í fyrsta lagi bent á, að það hafi ekki verið alveg ákveðið, að þessi söluskattur á alla innanlandssölu yrði aðeins 3%, vel hafi getað komið til mála, að söluskatturinn yrði 4–5%. En hann fær nú ekki hlaupizt undan þessu, því að um það var ekki að villast, að bæði hér í umr. á Alþ. og manna á meðal hér á Alþ. og reyndar um allan bæinn var ekki farið neitt dult með það, að hér var boðaður söluskattur, sem átti að vera 3% á alla innanlandssölu, og því var aldrei mótmælt hér á Alþ., þegar þessi tiltekna prósentutala var hér nefnd. Nei, það er enginn vafi á því, að hið rétta var það, að ríkisstj. hafði hugsað sér að leggja 3% söluskatt á alla smásölu í landinu, miklu viðtækari, eins og hún sagði, heldur en áður hafði verið gert um söluskatt í smásölu. En svo bara kom í ljós, þegar hæstv. ríkisstj. fór að athuga málið betur, að þessi skattur fékk ekki staðizt. Þarna höfðu átt sér stað stórkostlegar reikningsskekkjur, og í staðinn fyrir það, að nú þykir ekki varlegt að reikna með því, að hægt verði að leggja þennan nýja söluskatt á meiri fjárhæð en rúma 5 milljarða króna, þá var áður reiknað með miklum mun hærri upphæð í þessum efnum. Miklu væri sæmra fyrir hæstv. ríkisstj. og alveg sérstaklega hæstv, fjmrh. að viðurkenna það hreinlega, sem er rétt í þessum efnum, að í þessu tilfelli hrundu útreikningar ríkisstj. og ráðunauta hennar eftir rúman mánuð, þannig að helmingur skattsins hafði þegar týnzt á þessum tíma, og vegna þess verður ríkisstj. að grípa til þess ráðs að leggja á söluskatt, sem er helmingi hærri en sá söluskattur var, sem var á innfluttar vörur til landsins, eða 16.5% í staðinn fyrir 7.7% áður. Nú á að bæta hér ofan á 8.8%, þannig að heildarskatturinn á innflutning verður 16.5% þrátt fyrir það, þó að búið væri að lýsa því yfir alveg sérstaklega á þann hátt, sem verður ekki rengdur, í grg. fjárlagafrv., að slíkan skatt eigi ekki að leggja á. Við vítum, að ríkisstj. er nokkuð í mun að reyna að halda því að mönnum, að þessi reikningsskekkja hafi ekki verið svo stór og raun er nú á þarna. Og af hverju vill hún dylja þetta fyrir mönnum? Það er vegna þess, að hún þarf á því að halda að reyna að halda því fram enn þá gagnvart þjóðinni, að það sé eitthvað að marka þá útreikninga, sem efnahagsaðgerðir hennar eru byggðar á. En við sögðum það hér strax við 1. umr. gengislækkunarfrv. ríkisstj., að hún mundi reka sig á það, að þeir útreikningar, sem hún væri að byggja á, væru þess eðlis, að þeir fengju ekki staðizt, hún mundi reka sig á það eins og aðrir, sem hafa byggt á slíkum útreikningum, að þeir mundu falla um koll tiltölulega fljótlega. En það skal ég játa, að þó að ég treysti ekki á þessa útreikninga, þá datt mér ekki í hug, að t.d. atriði eins og þetta mundi vera fallið að hálfu leyti strax eftir rúman mánuð, þá skyldi það koma í ljós, að reikningarnir væru svona illa úr garði gerðir.

Auðvitað er það engin skýring, að þessi fyrirhugaði söluskattur, sem átti aðeins að vera á innanlandssölu, hefði þurft að vera 4 eða 5% eða jafnvel 6%, en ekki 3%, eins og sagt hafði verið manna á meðal. Ef þessi söluskattur átti að leggjast einvörðungu á innanlandssöluna og átti að gefa 280 millj. kr., þá skipti engu máli, hvort það átti að vera 3% skattur eða 6% skattur. Það, sem skipti máli, var: Átti að leggja á þjóðina í formi söluskatts á innlenda sölu 280 millj. kr., eða átti ekki að gera það? Hvort prósentan var 3% eða 5%, skipti ekki málí. En ríkisstj. hafði boðað hitt. Hún ætlaði að leggja 280 millj. á þjóðina á þennan hátt með söluskatti, hafði látíð reikna það út, reikningarnir reyndust rangir, og hún heyktist á því, þegar hún fór að kynna sér málið betur, hvarf frá þessari stefnu sinni, gafst þarna upp. Og svo fór hún inn á gamlar, troðnar slóðir í þessum efnum, einmitt þær slóðir, sem hún hafði verið að tilkynna Alþ. og þjóðinni áður að hún mundi alls ekki fara inn á. Sennilega hefur það verið vegna þess, að ýmsir af hæstv. ráðh. höfðu gerzt allstórorðir hér á Alþ. og í áheyrn allrar þjóðarinnar um svona söluskatt. Hæstv. viðskmrh. sagði hér á Alþ. og einnig í áheyrn allrar þjóðarinnar um söluskatt, að slíkur söluskattur væri óvinsælasti skatturinn af öllum sköttum, sem landsmenn þyrftu að borga. Hann væri í eðli sinu óréttlátasti skatturinn, og það bæri að reyna að létta honum af. Og það hefur ekki heldur leynt sér hér í umr. á Alþ.,hæstv. fjmrh. var sannarlega ekki hrifinn af slíkum söluskatti, en samt varð nú að grípa til þessa ráðs tiltölulega fljótlega.

Þetta atriði viðvíkjandi söluskattinum er býsna líkt ýmsu öðru í hinu nýja efnahagskerfi, sem nú er að gerast. Ég vil minna á það, að eitt af því, sem klifað var einna mest á af hæstv. ríkisstj. um það leyti, sem var verið að samþykkja hér gengislækkunarfrv., var það, að nú ætti að leggja algerlega niður allar útflutningsuppbætur, við ættum að losna við þær, þó að nú í þessu skrefi væri ekki hægt að leggja niður niðurgreiðslurnar á vöruverði hér innanlands. En einmitt sömu dagana, sem er verið að segja þetta hér á Alþingi, verður hæstv. ríkisstj. að beita sér sjálf fyrir því að gera samninga við bændasamtökin um að auka útflutningsuppbætur frá því, sem lög stóðu til, í sambandi við útfluttar landbúnaðarafurðir. Og þessar útflutningsuppbætur eiga að standa þvert ofan í allar yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. um, að það eigi að leggja niður allar útflutningsuppbætur.

Annað var það, að hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir í þessum efnum, að það þyrfti endilega að losa sig við slíka meinsemd eins og væri í hinu gamla kerfi, sem stafaði af misjöfnum verðbótum á smáfisk, steinbít og aðrar fisktegundir, og hingað til hefði gilt. En hvað svo? Liðinn er rúmur mánuður síðan, og þá er farið að tilkynna opinberlega, að nú standi til að borga þessar uppbætur áfram eitthvað.

En þetta eru ekki einu dæmin. Eitt af því, sem alveg sérstaklega var boðað í þessum efnahagsráðstöfunum, var, að það væri verið að koma í veg fyrir þessi miklu útlán bankanna, sem verið hefðu og valdið hefðu hér alveg óeðlilegri eftirspurn eftir gjaldeyri og gjaldeyrishalla á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd. Og um leið og þetta var sagt, var einnig bent á, að í hinu gamla kerfi hefði það jafnvel þróazt, jafnskaðlegt og það væri, að þjóðin hefði verið að taka stutt erlend vörukaupalán og ekki hirt um að borga þau á eðlilegan hátt. En hvað svo? Nú, eftir að einn mánuður er liðinn, síðan efnahagskerfið nýja var sett á fót, tilkynnir hæstv. ríkisstj. verzlunarstéttinni: Það átti að vísu að loka nokkuð fyrir það, að þið gætuð fengið aukin lán í lánastofnunum landsins, af því að við höfum ekki efni á því að flytja alveg svona mikið inn af vörum, og það á að draga úr útlánunum, það er nauðsynlegt. — En svo er verzlunarstéttinni sagt: Þið megið taka stutt vörukaupalán hver í kapp við annan, eins og þið bara bezt getíð. Þannig getíð þið komizt fram hjá háu vöxtunum innanlands, sem áttu að vera allra meina bót í sambandi við þetta efnahagskerfi. — Þannig getur kaupsýslustéttin tekið lán í bönkum eða hjá firmum í nálægum löndum á tiltölulega lágum vöxtum, flutt inn vörur með þessum lánsaðferðum og auðvitað hrúgað upp skuldum hjá þjóðinni. Hvernig getur nú staðið á því, að hæstv. ríkisstj. leyfir þetta eftir það, sem hún hafði sagt hér í sambandi við efnahagsmálaráðstafanirnar, réttum mánuði eftir að nýja kerfið tók gildi? Nú getur verzlunin fengið að taka lán, sem voru forboðin fyrir rúmum mánuði, og nú á ekki að taka það í smáum stíl, heldur má hver taka það, sem hann vill, og hver í kapp við annan. Nú er það ekki lengur orðið hættulegt. Nú eru ekki háu vextirnir allra meina bót í þessum efnum, til þess að draga úr miklum innkaupum til landsins, til þess að draga saman. Nei, nú geta menn bara farið fram hjá háu vöxtunum og komizt á lága vexti með þessari aðferð í löndunum í kringum okkur, eða a.m.k. þessir aðilar.

Hvað kemur nú til, að þetta hefur snúizt svona við á örstuttum tíma? Það er nákvæmlega það sama og gerðist með söluskattinn: rangir útreikningar, menn sáu ekkert fram í tímann, menn áttuðu sig ekki á því, hverjar mundu verða afleiðingarnar af þessari pólitík, sem átti að reyna að reka. Það kom sem sé strax í ljós, alveg eins og útreikningarnir varðandi söluskattinn voru allir rangir, og þá þurftu menn að gera sjálfa sig ómerka orða sinna eftir einn mánuð. Eins fór þetta viðvíkjandi stuttu erlendu lánunum og eins fór þetta viðvíkjandi vaxtapólitíkinni í þessum efnum. Svona hefur verið að hrynja eitt atriðið af öðru í sambandi við hið nýja efnahagskerfi ríkisstj.

En það er ekki aðeins í þessum efnum, sem hið nýja kerfi hefur verið að hrynja. Það er að hrynja í miklu fleiri tilfellum.

Eitt var það, að það átti að draga úr útlánum bankanna til framleiðsluatvinnuveganna. Það var sérstaklega tekið fram í hinum nýju efnahagsráðstöfunum, að Seðlabankinn mætti ekki auka útlán sín frá því, sem verið hafði, þrátt fyrir þá verðhækkun, sem hlaut að verða í sambandi við sjálfa framleiðsluna. Af þessum sökum átti raunverulega að lækka lánin út á hverja framleidda einingu. Það átti að gera miklu örðugra fyrir framleiðendur að framleiða sjálfa gjaldeyrisvöru þjóðarinnar, og það átti að bæta hér ofan á að stórhækka vextina, einnig af framleiðslulánum, og meira að segja voru menn svo forhertir í þessum efnum, að þeir játuðu, að við þá útreikninga, sem fram höfðu farið, hefði ekki einu sinni verið tekið tillit til þess í sambandi við aukinn rekstrarkostnað, að hækka átti vextina stórkostlega.

Ég og nokkrir fleiri hér bentum hæstv. ríkisstj. á, að þetta væri með öllu óframkvæmanlegt. Ef hún ætlaði að standa fast á stefnu sinni í þessum efnum, þá hlyti hún að stöðva framleiðsluna. En auðvitað væri eina ráð hennar að gefast upp. Það væri að hverfa frá þessari vitleysu, af því að þetta væri ekki framkvæmanlegt. Þó að ríkisstj. hafi nú gefizt upp í sambandi við þessa skekkju sína varðandi söluskattinn, af því að þar fer hún bara inn á þá braut að leggja nýjan skatt á þjóðina, og þó að hún hafi gefizt upp fyrir kaupmönnum og leyft þeim að taka nú stutt vörukaupalán erlendis og sleppa fram hjá háu vöxtunum, þá er hún auðvitað ekki búin að gefast upp fyrir framleiðendum enn þá. Hún er enn þar að berjast, enn ætlar hún sér að láta þá borga háu vextina án þess að reikna með þeim í útgjöldunum. Og enn ætlar hún sér þá dul, að hún geti haldið uppi fullri og eðlilegri framleiðslu með því að skera niður framleiðslulánin. (Forseti: Ég hafði hugsað mér að gera núna hlé á fundinum, ef ræðumaður ætti nokkuð verulegt eftir af sínu máli). Já, ég kýs þá það. — [Fundarhlé.)

Herra forseti. Ég hafði í fyrri hluta ræðu minnar, þegar ég gerði hlé á máli mínu, sýnt fram á það með nokkrum dæmum, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur þegar nú eftir einn mánuð orðið að yfirgefa í mjög verulegum atriðum þá stefnu í efnahagsmálum, sem hún boðaði með gengislækkunarfrv. sínu, og þá stefnu, sem hún sagðist mundu byggja sitt nýja efnahagskerfi á. Ég hafði með nokkrum orðum drepið á það, að ríkisstj. hefði nú þegar í sambandi við þennan söluskatt orðið að breyta til um frá því, sem hún hafði tilkynnt Alþingi fyrir réttum mánuði. Ég benti á það einnig, hvernig ríkisstj. hefði að verulegu leyti orðið að yfirgefa þá vaxta og lánapólitík gagnvart verzluninni í landinu, sem hún hafði þó sett sér að halda uppi, og hvernig hún hefði yfirgefið strax í upphafi það fyrirheit sitt að ætla að leggja með öllu niður allar útflutningsuppbætur, því að hún hefur orðið nú að lögleiða útflutningsuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir. Þannig hefur hæstv. ríkisstj. verið að hrekjast á þessum eina mánuði út af sinni mörkuðu stefnu á einu atriðinu á fætur öðru. En varðandi þann þáttinn, sem sérstaklega snýr að framleiðslunni í landinu, streitist hæstv. ríkisstj. enn við. Enn þá vill hún reyna að halda því fram, að útflutningsframleiðslan eigi að borga þessa gífurlega háu vexti, sem hennar efnahagsmálapólitík hefur gert ráð fyrir, og enn reynir hún að halda því fram, að útflutningsframleiðslan geti starfað með eðlilegum hætti, þó að stórkostlega sé raunverulega dregið úr lánum til framleiðslunnar.

Það var hv. 3. þm. Austf., Einar Sigurðsson, sem næst talaði hér á undan mér og ætti að þekkja nokkuð vel til framleiðslunnar. Hann vék nokkrum orðum að þessum þætti og bar sig heldur illa undan því. Honum þótti, eins og hann orðaði það, þetta lyf hæstv. ríkisstj., sem honum og öðrum framleiðendum var ætlað að taka inn, heldur bragðvont, og það skil ég mætavel. En það tel ég heldur lítið raunsæi hjá honum, ef hann heldur, að hægt sé að lækna nokkurn hlut með því að taka inn þetta lyf í sambandi við framleiðsluatvinnuvegina, jafnvel þó að hann vilji festa alla trú sina og von á það, að náttúruöflin verði okkur hliðhollari en nokkurn tíma áður, gefi okkur meiri fisk, betri veðráttu o.s.frv., eins og hann vék hér að. Auðvitað er engin leið í sambandi við aðalframleiðsluatvinnuvegi okkar að treysta á það, að til þess að vega upp á móti röngum ráðstöfunum ríkisstj. í efnahagsmálum verði bara fiskurinn að margfaldast í sjónum eða veðráttan að vera óvenjugóð. Nei, það er vitanlega ekki þannig, sem á að leysa vanda atvinnulífsins. Auðvitað er alltaf gott, að það aflist vel, og það er alltaf gott, að það viðri vel. En við verðum að reikna með því, sem er aðeins eðlilegt hlutfall í þessum efnum, og við getum ekki búizt við því, að náttúruöflin reynist okkur svo miklu hliðhollari til þess að jafna það, sem stjórnarvöld landsins gera rangt. Ég er sannfærður um það, að enginn veit það betur en hv. 3. þm. Austf., Einar Sigurðsson, að það er með öllu útilokað að ætla sér að halda uppi eðlilegri útflutningsframleiðslu á þann hátt að skera niður útlánin til framleiðslunnar frá því, sem þau hafa verið. Það er óframkvæmanlegt. Slíkt geta þeir einir áætlað, sem þekkja ekki til útflutningsframleiðslunnar, skilja ekki þarfir hennar og vilja jafnvel hætta því, að hún dragist saman, á meðan þeir eru að reyna að gera tilraunir með kenningar sínar. En í þessum efnum er það rétt, að hæstv. ríkisstj. streitist enn á þann hátt, að framleiðendur tilkynna bönkum landsins, að við sjálft liggi, að þeir verði að stöðva framleiðsluna. Það er ekkert gamanmál, sem líka er engin ástæða til þess að dylja neitt, að viðskiptabankarnir hafa orðið að tilkynna ríkisstj., að við sjálft liggi og við því megi búast hvern daginn sem er, að framleiðslan stöðvist, ef Seðlabankinn fær að halda áfram þeirri pólitík, sem ríkisstj. lýsti hér yfir í upphafi að meiningin væri að láta Seðlabankann reka í krafti hinnar nýju efnahagsmálastefnu. Það liggur við sjálft, að framleiðslan stöðvíst við þennan samdrátt á lánum. Viðskiptabankarnir hafa tilkynnt, að þeir geti ekki haldið áfram að hlaupa hér í skarðið, eins og þeir hafa þó þurft að gera þennan mánuð, sem liðinn er, og sjá vitanlega allir, að slíkt er ekki fært, þegar ofan á þetta bætist, að slík vaxtapólitík er rekin eins og nú hefur verið upp tekin, Seðlabankinn lætur viðskiptabankana, sem þurfa að sinna nauðsynjamálum framleiðslunnar, borga 16%o vexti. Slík vaxtakjör munu líklega hvergi í heiminum þekkjast, eða það væri gaman að vita, hvar það er þekkt á byggðu bóli, að menn stundi framleiðslustörf og ætli sér að keppa á erlendum mörkuðum og þurfi á beinan eða óbeinan hátt að búa við vaxtakjör önnur eins og þessi. Slíkt er vitanlega með öllu óframkvæmanlegt.

Nei, um það verður ekki villzt, að hæstv. ríkisstj. verður, ef hún ætlar ekki að stöðva núna framleiðsluna á miðri vetrarvertíðinni, einnig að gefa eftir í sambandi við þennan þátt í sínum efnahagsmálatillögum. Allt annað er óframkvæmanlegt, alveg eins og ríkisstj. varð að viðurkenna staðreyndir í þessum efnum gagnvart innflutningsverzluninni, á sama tíma og heildsalarnir sögðu við ríkisstj.: Það flytur enginn inn vörur til landsins, ef hann fær ekki aukið lánsfé með stórhækkandi verðlagi og á þann hátt, að hann þurfi ekki að borga 11–12% vexti, en megi ekki leggja þetta á vöruverðið. Það tekur enginn þátt í þessu. Það tekur þá bara algerlega fyrir það að flytja inn vörur til landsins. — Þegar verzlunarstéttin sagði ríkisstj. þetta, þá gafst ríkisstj. vitanlega upp, og þá fann hún út þessa finu leið að segja við innflytjendur: Þið skuluð bara taka stutt vörukaupalán erlendis, flytja inn vörurnar til landsins upp á krít og komast þannig fram hjá hinum óframkvæmanlegu háu vöxtum og komast þannig líka fram hjá útlánapólitík ríkisstj. hér innanlands. — En það er rétt, fiskframleiðendur eiga ekki svona auðveit með að fara þessa leið. Þeir hafa nefnilega ekki heimild til þess samkv. lögum, þeir hafa ekki frelsi til þess að fara svona létta leið. Ef þeir mættu fara til viðskiptalandanna og segja við viðskiptalöndin: Ja, viljið þið lána okkur fé með 2 eða 3% vöxtum til þess að framleiða handa ykkur fiskinn og fiskafurðirnar og leyfa okkur að flytja inn varning fyrir þessi lán, olíur, veiðarfæri og hvað annað eins og aðrir, — þá gæti vitanlega útflutningsframleiðslan gert þetta líka. Þá væri það auðvelt. En vill hæstv. ríkisstj. leyfa útflutningsframleiðslunni að gera þetta? Vill hún t.d. leyfa hv. 3. þm. Austf., sem hér var að tala á undan mér, að semja um það við Sovétríkin, — en hann selur Sovétríkjunum mikið af fiski, sem hann framleiðir, — semja um það við þau, að þau láni honum rekstrarfé á 21/2—3% vöxtum og hann geti síðan keypt olíu og annan varning fyrir lánið og selt það hér innanlands? Þannig gæti hann komizt fram hjá háu vöxtunum. Þannig gæti hann líka komizt fram hjá þeirri lánatakmörkun, sem hér á að vera í bönkum landsins. Þá stæði hann og aðrir framleiðendur svipað að vigi og heildsalarnir, sem flytja inn varning til landsins. Nei, ég býst við, að ríkisstj. hiki nokkuð við þetta. En kannske velur hún þessa leið, þegar hún gefst upp í þessu máli, sem hún verður fyrr eða síðar að gefast upp í. En því hef ég vikið að þessum þáttum, að ég vil leiða athyglina að því, að ríkisstj. er að gefast upp núna við hvern þáttinn af öðrum í sinu nýja efnahagsmálaprógrammi, hún verður að gefast þar upp, því að stefnan er röng.

Á nákvæmlega sama hátt er þetta og sízt betra, þegar maður tekur þann þátt þessara efnahagsmála, sem snýr að almenningi í landinu. t.d. sjómönnum og verkamönnum, svo að við tökum þá sem dæmi. Efnahagsmálastefna ríkisstj., eins og við höfum bent á frá upphafi, er á nákvæmlega sama hátt óframkvæmanleg gagnvart þeim. Það er hægt að streitast við að halda henni fram í stuttan tíma, en svo hlýtur hún að hrynja. Það er engin leið að ætla sér að skapa slík vaxtakjör og slík lánakjör eins og nú hafa verið sett upp, sem þýða það, að meðalfjölskylda, sem kemur sér upp íbúð, verður að reikna með því núna, þó að maður taki heldur af lægra taginu, ódýrari tegundina, hún verður núna að reikna með því að borga samkv. hinum nýju lánakjörum aldrei undir 40–50 þús. kr. á árí í vexti og afborganir af íbúðinni sinni, og segja á sama tíma: þessi fjölskylda verður að lifa við verkamannakaup, sem er 48–50 þús. kr. á ári. Þetta er vitanlega óframkvæmanlegt með öllu. Svona gífurlega háir vextir, svona ókjör í lánum eins og þarna eru sett upp hljóta vitanlega að hvíla með öllum sínum þunga á fjöldamörgum alþýðuheimilum í landinu, — þessi ókjör eru þess eðlis, að þau hljóta að leiða til þess, að það verður smám saman kallað á hærra kaup, verkföllin koma, kauphækkunin kemur, vegna þess að þetta fær ekki staðizt. Og það vita menn líka, að það er vitanlega engin leið að ætla sér að framkvæma jafnstórkostlega gengislækkun og nú er hér verið að framkvæma, sem þýðir mjög mikla almenna verðhækkun í landinu á öllum sviðum, en ætla sér að halda öllu kaupi óbreyttu um langan tíma eftir sem áður. Auk þess á svo ofan á þessar almennu verðhækkanir að dengja þessum háa söluskatti og öðrum sköttum, sem enn auka á dýrtíðina. Það er barnaskapur að búast við því, að kaupgjald geti haldizt lengi óbreytt undir þessum kringumstæðum. En ríkisstj. getur auðvitað streitzt á móti. Hún getur reynt þetta. Hún getur framkallað nokkur verkföll, nokkrar stöðvanir í framleiðslunni, og hún getur þannig valdið talsverðu þjóðhagslegu tjóni. En þetta hlýtur að brotna. Þetta gengur aldrei. Þetta er það, sem ég held að sé aðalatriði málsins að hæstv. ríkisstj. geri sér grein fyrir einmitt núna, þegar hún er óðum að brjóta niður sitt kerfi, þegar hún er að gefast upp á hverju atriðinu af öðru, einmitt núna, þegar hún verður að koma fram fyrir hv. Alþ. og verður að viðurkenna það eftir einn mánuð, að hún geti ekki staðið við loforð sín í sambandi við álagningu söluskatts, þau, sem hún gaf fyrir rúmum mánuði, nú verði hún að breyta þeim, þá á hún að horfast í augu við meira en þetta með söluskattinn. Hún á að horfast í augu við meira en þetta, sem hún hefur gefizt upp á gagnvart verzluninni í landinu. Hún á einnig að breyta um sína fjármálastefnu gagnvart framleiðslunni og gagnvart vinnandi fólki í landinu.

En það virðist vera svo, eins og hefur komið fram í þessum umr., að a.m.k. sumir ráðh. séu á þeirri skoðun enn þá, að það sé raunverulega hægt að standa á þessari efnahagsmálastefnu og það sé hægt að halda áfram og taka þar upp næsta þáttinn á eftir. Hæstv. fjmrh. boðaði í sinni ræðu, að ætlunin væri, að Ísland gengi inn í annað hvort af þeim tveimur fríverzlunar- eða tollabandalagssvæðum í Evrópu, sem mynduð hefðu verið. Ég vil aðeins spyrja í tilefni af þessu: Hefur þessi hæstv. ráðh. gert sér einhverja grein fyrir því, hvaða möguleikar eru á því fyrir okkur að reka okkar utanríkisviðskipti, eins og þeim er nú háttað, á þann hátt, að við göngum í þessi bandalög, annað hvort þeirra? Hefur hann séð einhverja möguleika á því, að víð gætum innan þessara svæða selt okkar aðalútflutningsvörur? Veit hann ekki, að við höfum einmitt á þessum svæðum reynt allt hvað við höfum getað á undanförnum árum til þess að selja þar okkar útflutningsvörur? Við höfum meira að segja haldið uppi ströngum hömlum í þá átt, að við höfum knúið íslenzka framleiðendur og útflytjendur til þess að selja á þessum svæðum allmikið af framleiðsluvörum sínum fyrir miklum mun lægra verð en þeir gátu fengið fyrir þær annars staðar. Eða er það kannske meining hans, að við eigum að taka þann bagga á okkur til viðbótar við annað, að við eigum t.d. að selja allan hraðfrysta fiskinn okkar, þann sem við seljum núna fyrir utan þetta svæði, — að við eigum að selja hann á svæðum þessara landa fyrir miklum mun lægra verð en við höfum hingað til talið með nokkru móti kleift? En ég vil segja það, að þessi hæstv. ráðh. er þá ekki hissa á því að glíma við vandann, ef hann ætlar sér að koma þessum málum fyrir á þennan hátt. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur gengið svo langt í þessum efnum einmitt nú síðustu mánuðina, að hún hefur verið að knýja ýmis fyrirtæki í landinu til þess að selja inn á þessi fríverzlunarsvæði afurðir sínar með slíku verði, að alveg er sýnilegt, að þau fyrirtæki, sem til þess eru knúin, fá ekki staðizt sinn rekstrarkostnað og geta ekki haldið uppi eðlilegum rekstri áfram. Mér sýnist, að þessi hæstv ráðh. hafi tiltölulega litíð áttað sig á því, hve erfitt það muni reynast fyrir hann að reyna að halda uppi þessari efnahagsmálastefnu, sem ríkisstj. var að boða og hún hefur verið að hrekjast út af nú að undanförnu og vitanlega er óframkvæmanleg, hvað þá hvernig muni ganga fyrir henni að ætla að taka á sig slíka erfiðleika eins og því mundu fylgja að ætla að tengja viðskipti Íslands öll við þessi fríverzlunarsvæði.

Þessi söluskattur, sem nú er gert ráð fyrir að leggja á og upphaflega hafði verið boðaður af hæstv. ríkisstj. í allt öðru formi en hann birtist hér nú, er hér í tvennu lagi. Annars vegar er gert ráð fyrir allháum söluskatti á innfluttum vörum, en hins vegar er um að ræða 3% skatt á mestalla innanlandsverzlun. Það er boðað í þessu frv., að þessi 3% skattur eigi að standa áfram. En orð eru látin liggja að því, að hinn hluti skattsins, þessi 8.8% á innflutningi, eigi e.t.v. aðeins að standa út þetta ár. En auðvitað trúir því enginn maður, að eins og á þessum málum er haldið, þá muni svo verða haldið á málum, að þessi 8.8% skattur verði látinn niður falla eftir þetta ár, — því trúir enginn maður. Það er ekkert, sem bendir til þess, að slíkt verði kleift fyrir ríkið, eins og á fjármálum þess er haldið, og öll slík bráðabirgðaákvæði eins og þetta, sem sett hafa verið hér í lög, hafa alltaf verið framlengd áfram, og auðvitað er það ætlunin í þessu tilfelli líka. Hið eina hugsanlega í þessu er auðvitað það, að hæstv. ríkisstj. hverfi að því að breyta þessum skatti, sem nú er lagður á innflutninginn, og taki allan söluskattinn einmitt í formi smásöluverzlunarinnar innanlands. En hitt þykir mér þó miklu líklegra, að ríkisstj. segi eins og jafnan áður hefur verið gert: Þessi skattur er þó kominn á. Það er bezt að halda honum í lengstu lög og fitja ekki upp á nýjum. En það er sérlega ósjaldgæft, eða ég hygg, að segja megi, að það hafi ekki komið fyrir, að skattur af þessu tagi væri raunverulega lagður niður.

Annars vil ég segja það um þann hluta skattsins, þessi 3%, sem ráðgert er að leggja á veltuna innanlands, að mér lízt enn verr á þá skattlagningu en þó hina, svo ill og bölvuð sem hún er. Mér þykir alveg auðsýnt, að þessi skattlagningaraðferð, að leggja 3% á umsetningu innanlands, mundi verða mjög erfið í framkvæmd og þau undanþáguákvæði, sem gert er ráð fyrir í frv., hljóti að skapa möguleika til þess að misnota þau ákvæði alveg stórkostlega. Það er eins og hér hefur verið bent á, það er til þess ætlazt, að sumir aðilar geti fengið að kaupa tilteknar vörur innanlands án þess að borga söluskattinn af þeim. En aðrir aðilar, sem kaupa nákvæmlega sams konar vöru og í sams konar tilgangi út af fyrir sig, þeir eiga að borga söluskatt af vörunni. Dæmi um þetta var hér nefnt, að t.d. matsöluhús eða matsölustaður á raunverulega að fá kort frá fjmrh. og getur komið með þetta kort í búð og keypt þar matvörur án þess að þurfa að borga söluskatt af þessari matvöru. En húsmóðir, sem kemur til þess að kaupa nákvæmlega sams konar matvöru í búðinni, þarf hins vegar að borga þessa matvöru með söluskattinum. Svona undanþáguákvæði, eins og gert er ráð fyrir í frv., ekki aðelns í þessu tilfelli, heldur mörgum öðrum, skapa vitanlega möguleika til þess að misnota þetta á hinn herfilegasta hátt, og ég er alveg fullviss um, að miðað við þær aðstæður, sem við búum við hér, verður þessi skattstofn fljótlega illa liðinn og mun taka öllu fram til hins verra af því, sem við höfum áður þekkt varðandi söluskatt. Við vitum, að röksemdin í þessu efni er sú, að matsölustofan á að borga þennan söluskatt, þegar hún selur aftur út matinn fulltilbúinn til þeirra, sem kaupa hann, og það sé ekki ætlunin að leggja þennan skatt á vöruna oftar en einu sinni. En einmitt þessi atriði eru þess eðlis, að það verður afar erfitt að fylgja skattinum eftir, og þetta mun einnig verða til þess, að hinar fjölmörgu verzlanir eða verkstæði eða aðrir þeir, sem hafa á beinan eða óbeinan hátt með framkvæmd skattsins að gera, fá þarna kærkomið tækifæri til þess að gera upp skattinn við hið opinbera á þann hátt, sem þeim kann að þykja heppilegt fyrir sína buddu. Ég held því, að skattur, sem er byggður upp á þessum forsendum, sé verulega hæpinn og að því leyti sé skatturinn á innfluttu vöruna þó skömminni skárri, hann verði í eðli sínu réttlátari og það verði minna svindl í sambandi við alla framkvæmd þess skatts.

En það er helzt að skilja á hæstv. fjmrh., að hann sé svo hrifinn af þessari skattaaðferð, að hann hugsi sér að stórauka hana, að hann hugsi sér jafnvel að stefna að því að leggja niður tolla, að maður tali nú ekki um alla beina skatta, og auka skattlagninguna eftir þessari aðferð.

Ég held, að þetta sé mjög varhugavert og það muni sýna sig, að það fari svipað fyrir þessu og ráðagerðum ríkisstj. viðvíkjandi þessum söluskatti strax í upphafi. Hún ætlaði sér að fá eftir þessari leið 280 millj. kr. Hún gafst upp eftir einn mánuð og varð þá að undanþiggja mörg atriði og margs konar starfsemi.

Ég held líka, að það muni fara þannig, þegar ríkisstj. og hennar sérfræðingar athuga þetta betur, að þá sér hún, að þessi skattstofn er mjög óheill og verður líklega ríkinu ódrjúgur í framkvæmd, þó að hann leggist með æði miklum þunga á almenning í landinu. Mér sýnist, að þessi nýi söluskattur sé eins og aðrir þættir þessa nýja efnahagsmálakerfis, hann sé þannig, að hann raunverulega stefni að því að knýja hér á það tiltölulega fljótlega, að kerfinu sem heild verði varpað fyrir borð.

Ég vék hér áður nokkuð að þeim þætti efnahagsráðstafananna, sem snýr að útflutningsframleiðslunni og ég tel þann þáttinn, sem er þýðingarmestur og alvarlegastur, ef illa tekst til um framkvæmdina.

Þegar gengislækkunarfrv. var hér til 1. umr., minntist ég nokkuð á það, hvort nokkur trygging væri fyrir því, að t.d. bátaútvegurinn í landinu fengi það fiskverð örugglega greitt, sem hann þyrfti að fá vegna hækkaðs rekstrarkostnaðar, sem leiddi af gengislækkuninni og hinni nýju skattlagningu. Nú er liðinn rúmur mánuður, síðan gengislögin voru samþykkt, og hvernig hefur þetta nú orðið í reyndinni?

Reyndin er þannig, að bátaútvegsmenn í landinu víta ekki nokkurn skapaðan hlut um það, hvaða verð þeir eiga að fá fyrir þann fisk, sem þeir hafa veitt á þessum tíma. Þeir vita ekkert um það. Þeir vissu í byrjun vertíðar, að þeir áttu að fá kr. 1.57 fyrir hvert kg af þorski og þeir áttu að fá tilteknar uppbætur og þeir áttu að fá tiltekin vátryggingargjöld greidd fyrir sig, og það var áætlað, að heildarfiskverðið á kg, ef öll þessi fríðindi væru metin, væri raunverulega í kringum kr. 2.35 á kg. Þetta var það, sem bátaútvegsmenn vissu í upphafi vertíðar að þeir höfðu samninga upp á. En hvaða samninga hafa þeir um fiskverð, frá því að gengislögin voru samþykkt? Nú er liðinn einn mánuður eða nærri fjórði hluti vertíðarinnar með þeim hætti, að bátaútvegsmenn í landinu vita ekki neitt um það, hvað þeir eiga að fá fyrir fiskinn. Þeir stóðu auðvitað í sínum verstöðvum í róðrum og áttu ekki gott um vik, hafa selt ýmsum frystihúsum og öðrum fiskinn, — og hvað fá þeir fyrir hann? Þeir segja: Við vitum ekkert um það. Frystihúsin vilja ekkert láta uppi um það. Það eina, sem þau hafa fengizt til að segja, er, að þau geti raunverulega ekki borgað nema svona í kringum kr. 2.07 fyrir kg, eða miklu minna en bátarnir höfðu samning upp á áður.

Nú er það svo, að þetta er í rauninni alveg óbærilegt ástand fyrir eigendur bátanna. Auðvitað er það svo, að sumir þeirra hafa aðstöðu til þess eða mundu a.m.k. leggja sig fram um það að skapa sér aðstöðu til þess að verka afla sinn sjálfir, salta fiskinn og reyna þannig að komast yfir hið fulla verð fyrir framleiðsluna, og það mundu þeir gera ef til vill, ef þeir vissu nákvæmlega, hvaða verð á að greiða þeim frá frystihúsunum. Það er t.d. enginn vafi á því, að ef frystihúsin ætla að standa á því að borga ekki nema kr. 2.07 fyrir kg af fiskinum, þá mundi nú enginn bátur, sem hefur aðstöðu til þess að verka afla sinn sjálfur, láta fiskinn. Þá mundu eigendur bátanna taka þennan afla og reyna að verka hann sjálfir. En hvernig er hin nýja efnahagsmálalöggjöf? Hún er svo fín, að hún segir við þessa aðila: Nú er ekki neitt fiskverð gildandi í landinu lengur. Það veit enginn, hvað út úr því á að koma. — Þannig á að reyna að halda bátunum að framleiðslustörfum út vertíðina í fullkominni óvissu, og það er skákað í því skjóli, að eigendur bátanna stöðvi ekki framleiðsluna. Það bendir allt til þess, að hér sæki í nákvæmlega sama horfið og gerði upp úr gengislækkuninni 1950.

Ég benti á það við 1. umr. gengislækkunarfrv., þegar þessi efnahagsmál voru rædd hér í heild, að það væri verulega mikil hætta á því, að svona gæti farið núna aftur. Þá var sagt, að bátaútvegsmenn ættu að fá tiltekna fiskverðshækkun og yrðu að fá hana, því að allir sáu, að þeir þurftu að fá hana. Nú hefur aftur verið látíð liggja að því með óbeinum orðum, að þeir eigi að fá fiskverðshækkun, en engin fiskverðshækkun kemur. Mér sýnist því, að það stefni til hins sama og 1950, þetta brotnar um sjálft sig, bátarnir eða umboðsmenn þeirra koma að vertíðinni lokinni og segja: Hér höfum við verið féflettir á hinn herfilegasta hátt, og það verður að bæta okkur þetta upp með einhverjum hætti. — Þetta gerðist 1950, og þá var það, sem ríkisstj. féllst á bátagjaldeyrinn, og vitanlega stefnir að því sama núna.

Er það nú svo, að ríkisstj. hugsi sér að láta þessi mál ganga á þann veg fyrir sig, að hún bíði eftir því, að bátaeigendurnir í landinu stöðvi rekstur bátanna eða þá komi í kröfugöngu og krefjist slíkra uppbóta eins og þeir gerðu 1950? Ætlar hún bara að láta skeika að sköpuðu í þessum efnum? Nei, ríkisstj. væri sæmst í þessum efnum að sjá, hvað að fer, glöggva sig á því og viðurkenna það, að kerfi hennar í þessum efnum hefur ekki reynzt framkvæmanlegt, það á að breyta því.

Þessi söluskattur, sem hér er verið að leggja á, kemur til með að verða nýr aukaskattur, líka á framleiðsluna í landinu. Hann kemur til með að hvíla með allmiklum þunga í sambandi við hinn almenna útgerðarrekstur, því að fjöldamargir hlutir, sem útgerðinni eru ómissandi, eiga að fá á sig þennan söluskatt. Og það kemur vitanlega allt ofan á þá erfiðleika, sem eru fyrir í þessum efnum. En það er eins og fyrri daginn, að það er kannske léttasta verkið fyrir ríkisstj. að samþykkja á Alþingi í krafti síns meiri hluta nýjan skatt. En nýr skattur þýðir hækkað verðlag. Framleiðslan mun koma með sinn reikning þar á móti, og nýr skattur eykur á útgjöld heimilanna, og stéttasamtökin munu koma með reikning þar á móti og segja til sín á sínum tíma. Þetta eru aðalatriði málsins. Hitt er svo vitanlega alveg tilgangslaus skollaleikur, sem hæstv. fjmrh. hefur reynt að halda hér uppi og ýmsir af talsmönnum ríkisstj., þegar þeir reikna og reikna til viðbótar við allar fyrri reikningsskekkjur sínar og ætla að reyna að sanna almenningi í landinu, að hver nýr skattur sé raunverulegur búhnykkur fyrir heimilin í landinu,

Slíkar reikningslistir breyta engu til um staðreyndir málsins, — að ætla sér þá dul að reyna að sanna hér í umræðum, að þessi nýi söluskattur upp á 280 millj, kr., sem ábyggilega verður talsvert mikið yfir 300 millj. kr., þýði raunverulega auknar tekjur hjá alþýðuheimilunum í landinu. Þeir blikna ekki og blána fyrir öllum vanda, þeir menn, sem reyna að halda slíku fram. Að vísu er það svo, að þessi sönnun á að fást á þennan sérkennilega hátt, að bent er á lækkun tekjuskatts og líka farið að reikna með lækkuðum útsvörum.

Þessi lækkun á tekjuskattinum er góðra gjalda verð. En mikið hlýtur það að vera geysihagleg geit, þessi lækkun á tekjuskattinum, því að hægt er að nota hann til alls. Fyrst er þessi geit notuð til þess að sanna mönnum, að hún sé til þess að draga stórkostlega úr erfiðleikum eða þunga gengislækkunarinnar, og svo kemur hún aftur og á að vera til þess að vega upp þennan skatt.

Nei, svona skollaleikur stoðar vitanlega ekkert, og það er líka mesti misskilningur, að nokkur maður taki það gilt, þegar hæstv. ríkisstj. er að tala um væntanlega útsvarslækkun. Hvað er að heyra? Eitthvað er nú þangað til útsvör verða tilkynnt, og ég hef ekki hitt einn einasta forstöðumann bæjarfélags, sem gerir ekki ráð fyrir því, að þær ráðstafanir, sem nú hafa verið lögleiddar í efnahagsmálum, muni beinlínis þýða stóraukin útgjöld fyrir bæjarfélögin, langt fram yfir þann litla hluta, sem bæjarfélögin eiga að fá í auknum tekjum af þessum söluskatti. Auðvitað vita allir, að hið stórhækkandi verðlag þýðir stóraukin útgjöld í rekstri skóla, í rekstri sjúkrahúsa og öllum rekstri bæjarfélaganna. Rekstrarútgjöldin munu hækka langt fram yfir það, sem tekjurnar aukast af þessum litla hluta í söluskatti. Það eru því allar líkur til þess, að útsvörin muni eins og fyrri daginn fara hækkandi, nema bæjarfélögin fari inn á þá braut að skera stórkostlega niður framkvæmdir sínar. Ég held það sé því nokkuð snemmt hjá hæstv. ríkisstj. að reikna út, hversu útsvarslækkunin muni nema miklu á meðalheimili í landinu.

Það er enginn vafi á því, að allar þessar nýju álögur munu auðvitað ýta á það, að framleiðslan í landinu geri auknar kröfur um bætur sér til handa. Og það er enginn vafi á því, að allar þessar nýju álögur ýta líka á það, að launafólk í landinu geri auknar kröfur um bætur sér til handa.

Ég held, að hæstv. ríkisstj. hafi þegar gert kórvillu í sambandi við uppsetningu á sinni stefnu í efnahagsmálunum og þó kannske villuna mesta í þeim efnum að forðast að hafa samráð við launasamtökin í landinu um það, sem gera þurfti í efnahagsmálunum. Það er vitanlega ómögulegt annað en veita því athygli, að ríkisstj. telur, að það sé rétt að hafa samband eða samráð við kaupsýslumenn í landinu og þá einkum og sérstaklega alla innflytjendur, — það boðar hún hér, að hún hafi gert, — en að hún skuli á sama tíma forðast með öllu að hafa samráð við launaþegasamtökin. Allir hljóta þó að viðurkenna, að ríkisstj. hagar málum sínum þannig, að hún ætlar einmitt launþegum í landinu að bera þyngsta baggann, eða getur það verið, að ríkisstj. beinlínis stefni á það, að hún vilji fá átök við verkalýðssamtökin í landinu? Getur það verið? Eða hvernig stendur á því, að hún hagar vinnubrögðum sínum á þann hátt, sem hún gerir, að hún hunzar þessi samtök með öllu?

Það hefur svo sem heyrzt síðustu daga, að ýmsir þeir, sem nokkrar áhyggjur hafa af flokkum sínum í ríkisstj., tala um það, hvort ekki sé hægt að finna einhver ráð til þess að láta þetta drasla í 2–3 vikur, og séu svo uppi með vonir um það, hvort þessi eða hinn hópurinn, hvort þessi eða hinn aðilinn í verkalýðssamtökunum fari nú ekki að leysa þá af hólmi með því að hrinda þessu kerfi um koll formlega.

Ég hygg, að flestir í ríkisstj. hafi þegar gert sér grein fyrir því, að þetta kerfi þeirra fær ekki staðizt, það er raunverulega ekki hægt að byggja á því. En svo rækilega hefur ríkisstjórnin verið aðvöruð í þessum efnum, að hún skal minnast þess, að þegar kemur til framleiðslustöðvunar í landinu vegna þessara aðgerða, þá er það ekki launamönnum í landinu að kenna, heldur er það ríkisstj. sjálfri að kenna, vegna þess að hún hefur beinlínis knúið á um að gera óhjákvæmilegt að létta af almenningi í landinu þeim gífurlegu álögum og þeirri alröngu stefnu, sem ríkisstjórnin hefur reynt að halda uppi eða ætlar sér að halda uppi í efnahagsmálunum.