24.02.1960
Sameinað þing: 17. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (2882)

20. mál, hafnarstæði við Héraðsflóa

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Það er nú liðin heil vika, síðan þetta mál var á dagskrá, en hv. 2. þm. Austf. (HÁ) flutti þá alllanga ræðu um það, og mér virtist sem honum hefði þótt framsaga mín allófullkomin, sem ég flutti með þessari þáltill., sem hér liggur fyrir. Og að því leyti sem mér finnst, að ég megi taka þetta sem föðurlega umhyggju fyrir mér, þá er skylt að þakka slíkt.

En fyrri hluti ræðunnar var einnig eins konar sögulegt yfirlit um lendingarstaði Héraðsflóa og vöruflutninga þangað, og þær upplýsingar, sem hv. þm. kom með um þennan stað, voru náttúrlega eðlilegar og réttmætar á þessu stigi. En mér þykir þó rétt að minnast á eitt atriði í þeim, og það er viðvíkjandi þessari svonefndu Múlahöfn, sem aðeins er drepið á í grg. Þar er þess getið, að aðstaða sé að vísu mjög erfið á landi, og enginn dómur að öðru leyti lagður á möguleika um að gera þar höfn. En þær upplýsingar, sem hv. þm., Halldór Ásgrímsson, kom með, voru nú nokkuð á annan veg en t.d. upplýsingar, sem er að finna í nýútkomnu riti. Það er 50 ára minningarrit Kaupfélags Héraðsbúa, sem er ritað af Benedikt Gíslasyni frá Hofteigi, og með leyfi hæstv. forseta. ætla ég aðeins að lesa hér örfáar línur, en þar segir: „Hliðið milli varnargarðanna, þ.e. innsiglingin, sem er fyrir miðri höfninni, 200–300 faðma breitt og hreint nema tvær flúðir sín til hvorrar handar við tangasporðinn.“ Ég man nú ekki alveg, hvað hv. þm., Halldór Ásgrímsson, nefndi, að þetta væri langt, en það var a.m.k. allmiklu minna en þarna er greint frá. Á þetta vildi ég aðeins minna, án þess að ég ætli frekar að fella nokkurn dóm um það, hver niðurstaða muni verða af væntanlegri rannsókn, sem fram færi m.a. á þessum stað.

En síðari hluti ræðu hv. 2. þm. Austf. virtist mér mjög ótímabær við þessar umr., eins og t.d. bollaleggingar um vega- og brúargerðir á Fljótsdalshéraði. Ég held, að það sé mál, sem a.m.k. á þessu stigi sé ekki eðlilegt að vera að ræða hér, auk þess sem ég vænti þess, að flestum sé ljóst, að vegi og brýr verða byggðirnar að fá, hvaðan sem samgönguæðarnar kunna að liggja. Þessi kafli ræðunnar var þess vegna að mínu viti algerlega ótímabær og ekki eðlilegur, fyrr en þá að jákvæð niðurstaða lægi fyrir af þeirri rannsókn, sem hér er lagt til að gerð verði, ef þá þætti eðlilegt að taka slíka afstöðu til málsins. En ég verð nú að segja það, að það er ekki í samræmi við mínar hugmyndir um málflutning að tala á þann veg, er hv. þm. gerði, og enda svo ræðuna á því, að það sé sjálfsagt, að málið nái fram að ganga.

Ég flutti þessa þáltill. vegna þess, að ég tel nauðsyn á því, að þessi rannsókn verði gerð. Og þó að ég gerði stutta grein fyrir því í framsögu og grg. sé einnig stutt, vænti ég, að flestum hv. þm. sé ljóst, hvað hér er um að ræða. En ég flutti hana einnig fyrir ákveðin tilmæli manna af Úthéraði. Og ég ætlast til þess, og það er sjálfsagi líka eðli málsins, að þessi rannsókn verði gerð af hálfu vitamálastjórnarinnar, og það er fjarri því, að ég telji nægilegt, að fyrir liggi dómur hæstv. 2. þm. Austf. í þessu máli.

Ég ætla ekki, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, að spá neinu um það, hver niðurstaðan kunni að verða, af þessari væntanlegu rannsókn, hvort hún verði það, sem við getum kallað jákvæð eða neikvæð. En ef hún yrði jákvæð, verður áreiðanlega tækifæri fyrir hv. 2. þm. Austf. að taka upp umr. á ný og þá kannske í þeim anda, sem síðari hluti ræðu hans var hér á dögunum, ef honum þykir það þá henta.

Ég vil svo aðeins endurtaka það, að ég óska eftir því, að umr. verði frestað og till. gangi til hv. fjvn.