11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í D-deild Alþingistíðinda. (2894)

35. mál, Siglufjarðarvegur ytri

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér um ræðir, er í rauninni samsteypa af till., sem flutt var á þskj. 55, og annarri till., sem flutt var á þskj. 208. Fyrri till., sem er frumtill. í málinu, á þskj. 55, er um að fela ríkisstj. að athuga möguleika á öflun allt að 12 millj. kr. lánsfjár til lagningar Siglufjarðarvegar ytri eða svokallaðs Strákavegar, og hin till., sem var brtt. við þá till., er um, að jafnframt verði ríkisstj. falið að athuga um möguleika á öflun lánsfjár, allt að 4 millj. kr., til þess að ljúka lagningu Múlavegar.

Fjvn. hefur athugað þessar till. allýtarlega og fengið um þær álitsgerð frá vegamálastjóra, þar sem hann ræðir mjög glöggt og skilmerkilega kjarna þessa máls, og á grundvelli þeirrar álitsgerðar hefur orðið samkomulag um það í fjvn, að leggja til, að till. verði afgr. í því formi, sem segir á þskj. 354. Sú breyting er þar á gerð, að í stað þess að fela ríkisstj. að athuga með lánsfjáröflun er ríkisstj. falið að láta gera framkvæmdaáætlun um lagningu þessara tveggja vega. Með þessu er við það átt, að gerð sé gangskör að því að gera sér grein fyrir, hvernig unnið yrði að þessum vegaframkvæmdum báðum, sem eru mjög hliðstæðar. Það er augljós nauðsyn þess, að þetta verði gert. Ekki hvað sízt á þetta við um Siglufjarðarveg, þar sem svo er ástatt, að það þarf að vinna þar vissa áfanga með samfelldu átaki, og það er af öllum ástæðum ljóst, þar sem um svo dýra vegagerð er að ræða eins og báða þessa vegi, að það er mjög mikilvægt, að nú þegar verði gerð áætlun um, hvernig megi ljúka vegunum.

Lántökuheimildir þær, sem gert var ráð fyrir í umræddum till. nægja ekki til þess að ljúka umræddum vegum. Það er gert ráð fyrir því eftir þær breytingar, sem nú hafa orðið á verðlagi, að til þess að ljúka Siglufjarðarvegi muni þurfa um 16 millj. kr. og til þess að ljúka Múlavegi muni þurfa um 7 millj. kr. Það er því af þeirri ástæðu ljóst, að till. gera ekki ráð fyrir nægilegri lánsfjáröflun til þess að ljúka vegunum.

Það kemur að sjálfsögðu mjög til álita, hvort ekki verði nauðsynlegt að taka að einhverju leyti lán til þessara vega. En það er vert að vekja athygli á því, að slík lántaka er mjög varasöm, ef hún nægir ekki til þess að ljúka verkinu, vegna þess að án efa yrði að semja um lánið á þann hátt, að fjárveitingar gengju smám saman til greiðslu á láninu, og ef ófullnægjandi lán er tekið of snemma, mundi það ekki valda öðru en því, að stöðnun yrði síðar á verkinu um nokkurra ára bil. Það þarf því nánari athugunar við og kemur að sjálfsögðu til álita í sambandi við framkvæmdaáætlun um verkið, hvað fært þykir að taka af lánum í þessu skyni og á hvaða stigi framkvæmdanna slík lán skuli vera tekin. Það hefur verið um það talað, þegar þessu máli hefur áður verið hreyft hér á Alþ., og það fram borið af viðkomandi sveitarfélögum, að þau stæðu straum af vaxtagreiðslum af slíkum lántökum. Þegar þau tilboð lágu fyrir, var það hvort tveggja, að gert var ráð fyrir miklu lægri fjárupphæðum og enn fremur að vextir hafa síðan mjög hækkað, og það er því mjög óvíst, að viðkomandi aðilar telji sér fært eða séu raunverulega færir um að standa straum af slíkum vaxtagreiðslum, sem nema mundu nú mjög háum fjárhæðum, ef ætti að taka lán til þess að ljúka þessum framkvæmdum nú. Það hefur hins vegar verið föst venja, að ríkissjóður tæki ekki á sig að greiða vexti af lánum, sem tekin eru til þess að hraða lagningu þjóðvega.

Öll þessi atriði valda því, að það er nauðsynlegt að taka þetta mál í heild til athugunar og gera sér grein fyrir, hvernig unnið verði að lokamarkinu. Það er hins vegar jafnljóst, og um það er fjvn. sammála, að það er hin mesta nauðsyn að hraða þessum vegagerðum. Þær hafa báðar mjög mikilvægt þjóðhagslegt gildi og eru sérstaklega þýðingarmiklar að sjálfsögðu fyrir þau byggðarlög, sem hér eiga hlut að máli. En hvort tveggja er, eins og ég áðan sagði, að málið liggur nú ekki þannig fyrir, að það sé hægt að gera sér heildarmynd af því án nánari athugunar, miðað við það breytta verðlag, sem nú er, og breyttar aðstæður að ýmsu leyti, og enn fremur er einnig hér um það að ræða, sem að sjálfsögðu verður að gera sér grein fyrir, hvort fært þyki almennt að fara út í lántökur til vegagerða af hálfu ríkisins. Hingað til hefur ríkið ekki tekið slík lán, heldur hafa það verið hin einstöku byggðarlög, sem um er að ræða. sem þau hafa tekið. Það liggja fyrir Alþ. nú bæði frv. um sérstakt lán til vegagerða í ákveðnum landshlutum og auk þess liggur enn fremur fyrir önnur þáltill., sem hefur ekki verið afgr. enn, um lántöku til eins tiltekins vegar. Um þetta þarf að sjálfsögðu að taka heildarákvörðun, hvort inn á slíka braut þykir fært að fara eða ekki. En það breytir ekki því, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, er þess eðlis, að því þarf sérstaklega að sinna, og það er skoðun fjvn., að með þeirri afgreiðslu, sem hún leggur til að verði á málinu, verði að því stuðlað, að heildarathugun fáist á því, hvernig hægt verður að leysa það bæði framkvæmdalega og fjárhagslega á þann veg, að þessum mikilvægu framkvæmdum geti orðið lokið sem fyrst.