19.04.1960
Sameinað þing: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (2948)

92. mál, radíóstefnuviti í Hafnarfirði

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 184 hef ég leyft mér að flytja þáltill. þess efnis, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að láta hið fyrsta setja upp radíóstefnuvita í Hafnarfirði.

Um alllangt skeið hefur það háð stjórnendum skipa á leið til Hafnarfjarðar, að þeir geta ekki við innsiglinguna haft þau not af ljósvitanum í bænum sem skyldi vegna þess, að hann verður ekki greindur frá öðrum ljósum, fyrr en komið er inn fyrir þær tálmanir, sem hann á að vara við. Þegar vitinn var byggður, stóð hann hærra en aðrar byggingar í innsiglingastefnunni. Nú hefur byggingum fjölgað svo, að hann er umkringdur á alla vegu og stendur orðið í húsaþyrpingu, og er fjarlægð hans frá íbúðarhúsum ekki meiri en venjulegt er milli þeirra. Leiðir þetta til þess, svo sem ég áður sagði, að ljós hans verður ekki greint, fyrr en komið er inn fyrir siglingatálmanir, en við innsiglinguna stafar skipum hætta af Helgaskeri og Valhúsagrunni. Innsiglingin er þó bein og liggur þar á milli. Sjómenn hafa um langt skeið kvartað yfir þessu ástandi svo og slysavarnafélögin í bænum, enda er óviðunandi, að á svo fjölfarinni siglingaleið sem inn Hafnarfjörð séu ekki fullnægjandi leiðarmerki.

Svo sem öllum er kunnugt, eru skipakomur miklar til Hafnarfjarðar, og má á það minna, að árið 1958 var fiskframleiðsla í Hafnarfirði meiri en á nokkrum öðrum stað í landinu að undanskilinni Reykjavík einni. Ég hef með þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir, lagt til, að úr þessu óviðunandi ástandi í vitamálum í Hafnarfirði verði bætt á þann hátt, að settur verði þar upp radíóstefnuviti. Radíóstefnuviti mundi senda frá sér ákveðin hljóðmerki í rétta innsiglingarstefnu og önnur hljóðmerki hvort til sinnar hliðar við rétta stefnu. Þessi merki mundu heyrast í venjulegum útvarpstækjum, og gætu því skip og bátar haft af þeim full not, án þess að miðunarstöðva þyrfti við. Meðan skip er á réttri stefnu, heyrist hið rétta merki, en skiptir um hljóðmerki, ef komið væri af innsiglingarstefnunni, og er þá heyranlegt, hvorum megin við rétta stefnu skipið væri.

Radíóstefnuviti. sem staðsettur væri í Hafnarfirði, kæmi fleiri sjófarendum að gagni en þeim, sem leið eiga til Hafnarfjarðar. Svo sem ég gat um, er innsiglingarstefnan til Hafnarfjarðar bein og krókalaus, þótt hún liggi milli torfærna, og svo hagar til, að sé innsiglingarstefnan framlengd út flóann, þá nemur hún laust við Garðsskagann, einmitt á réttri siglingaleið fyrir skagann. Ég tel og hef þar fyrir mér skoðanir sjómanna, að mikils virði væri fyrir skip og báta, sem leið eiga fyrir Garðsskaga, að radíóstefnuviti væri staðsettur í Hafnarfirði, þannig að sjófarendur gætu í dimmviðri stuðzt við hljóðmerki hans og vitað örugglega, hvenær óhætt væri að beygja fyrir skagann, og til þess þyrfti ekki að nota miðunarstöðvar, enda hafa þær ekki allir bátar. Hljóðmerki vitans út Faxaflóa gæti í mörgum öðrum tilfellum auðveldað skipstjórnarmönnum að ákveða staðsetningu skipa sinna. Fyrir Garðsskaga fer ótölulegur grúi skipa ár hvert, og þar hafa orðið mörg skipsströnd og mannskaðar. Tel ég, að skylt sé að gera allt, sem unnt er, til þess að draga úr hættu á þessum slóðum, en radíóstefnuviti í Hafnarfirði mundi að sínu leyti auka öryggi á þessari fjölförnu siglingaleið.

Ég vil geta þess að lokum, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á síðasta fundi sínum einróma áskorun til Alþingis, þar sem m.a. er komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem bæjarstjórn lítur svo á, að hér sé um nauðsynlegt öryggismál sjómannastéttarinnar að ræða, væntir bæjarstjórn þess, að Alþ. samþ. þáltill. þessa. “

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að umr. verði frestað, en till. vísað til hv. fjvn. Ég vænti þess, að þegar nú dregur að lokum mjög aflasællar vertíðar, þegar sjómenn við Faxaflóa sem annars staðar hafa lagt fram óvenjumikla vinnu, til þess að þjóðin megi lifa við sem bezt lífskjör, þá láti hvorki hv. fjvn.Alþ. sjálft það henda, að þáltill. þessi, sem fjallar um öryggismál sjómanna við Faxaflóa, fái ekki greiða afgreiðslu á þessu þingi, þó að nokkuð sé nú á það liðið.