27.04.1960
Sameinað þing: 43. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í D-deild Alþingistíðinda. (2987)

114. mál, björgunar- og gæsluskip fyrir Breiðafjörð

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur íslenzka þjóðin eignazt nokkur björgunar- og gæzluskip, sem oft hafa verið smíðuð fyrir sameiginlegt átak ríkisins og fólks í einstökum byggðum landsins. Þessi litlu skip hafa bæði gegnt miklu hlutverki fyrir sjávarútveginn við björgun og gæzlu á fiskimiðum, en þar að auki gegnt sögulegu hlutverki fyrir þjóðina sem varðskip nú á síðustu missirum.

Eitt af þeim byggðarlögum, sem mjög hafa fundið til þess, að það vantaði slíkt björgunar- og gæzluskip, eru byggðirnar við sunnanverðan Breiðafjörð. Þarna er hver útgerðarstöðin við aðra, Hellissandur, Ólafsvík, Grundarfjörður, Stykkishólmur, og allar í meiri eða minni vexti. Í sumum þeirra eru stórframkvæmdir í undirbúningi eða nýunnar, sem munu auka útgerð þar allverulega á næstu árum.

Það þarf ekki að leita langt til þess að minna hv. alþm. á atvik, sem hafa sýnt mjög skýrt, hvílík þörf er fyrir sérstök eftirlitsskip á helztu fiskimiðum okkar. Mönnum eru í fersku minni viðburðir í utanverðri landhelginni fyrir sunnan Reykjanes nú fyrir skömmu. Það er ekki heldur langt síðan erlend togveiðiskip gerðu mikinn usla á fiskimiðum Breiðfirðinga út af Snæfellsnesi og ollu sjómönnum þar veiðarfæratjóni og stofnuðu jafnvel mannslífum í hættu. Þessi atvik sýna betur en nokkuð annað, hvílík þörf er á því, að fyrir hendi sé aðstoð frá sérstökum björgunar- og gæzluskipum, þar sem aðstæður eru þannig, að mestur fjöldi fiskiskipa er við veiðar á tiltölulega litlu svæði.

Íbúar Breiðafjarðarbyggða og Breiðfirðingar búsettir í Reykjavík hafa haft mikinn áhuga á þessu máli og hafa um langt skeið safnað fé í björgunarskútusjóð Breiðafjarðar. Samtals hafa safnazt milli 7 og 8 hundruð þús. kr. í þessu skyni, og söfnunin er enn í fullum gangi.

Till. sú, sem hér liggur fyrir, er áskorun á ríkisstj. um að láta undirbúa smíði björgunar- og gæzluskips fyrir Breiðafjörð, og standa að henni þm. Vesturlandskjördæmis.

Herra forseti. Ég vil að lokum leggja til, að umr. um mál þetta verði frestað, till. vísað til hv. fjvn.