19.03.1960
Neðri deild: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

88. mál, söluskattur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Áður en ég vík að því máli, sem hér er til umræðu, vil ég leyfa mér að segja fáein orð við hv. 3. varaþm. Austf. (EinS). Við 1. umr. þessa máls hafði hann flutt jómfrúræðu sína, að sjálfsögðu með miklum hávaða og skörungsskap, eins og maður þekkir ræðuhöld hans að austan. Ég var svo óheppinn að vera ekki við, þegar ræðan var flutt, en hef síðan kynnt mér að nokkru innihald hennar. Í ræðu sinni veittist hv. þm. mjög að kaupfélögunum. Sá kafli ræðunnar er gamla níðið um þau, sem íhaldið í áratugi án árangurs hefur hamrað sýknt og heilagt á, og var ekki nema eðlilegt, að hv. varaþm. vildi krydda ræðu sína með nokkrum slíkum kjarnyrðum úr gömlum Morgunblaðsdálkum. Þennan ræðustúf um einokun kaupfélaganna o.s.frv. hafði hv. varaþm. haldið á fyrsta framboðsfundi sínum s.l. haust, á Hornafirði. Að þeim fundi loknum var það haft eftir vei metnum meðframbjóðanda hans, að þessi ræða Einars Sigurðssonar væri þannig, að hann, þ.e. meðframbjóðandinn, mundi þurfa langan tíma til þess að laga það í Hornafirði, sem aflaga hefði farið við þessa ræðu. Hvað sem þessu líður, flutti hv. varaþm. ekki oftar en á Hornafirði þennan hluta framboðsræðu sinnar, og ætla ég, að sá hinn gætni og prúði meðframbjóðandi hans hafi ráðið þar nokkru um, að sá kafli var ekki oftar fluttur á yfirreið frambjóðandans um Austurland s.l. haust.

Það getur út af fyrir sig ekki talizt svo mjög óeðlilegt, að maður með innræti hv. varaþm. í garð kaupfélaganna noti nú tækifærið, þegar hann flytur sína jómfrúræðu hér á Alþingi, til þess að ætla níði um kaupfélögin allmikið rúm í ræðu sinni. Þessi maður er búinn svo mörgum frumkröftum jarðar, að hver maður, sem kynnist hónum, verður að skilja, að hann verður að fá að gjósa af og til.

Það er eins og ég sagði, það er fjarri mér að fara að elta ólar við þennan hv. varaþm. út af illmælum hans í garð kaupfélaganna. En það var visst atriði í þessari jómfrúræðu, sem var náttúrlega ekki jómfrúræða að því leyti, að hann hefur oft flutt hana, einu sinni á Hornafirði og svo á gatnamótum og úti undir bæjarvegg, þegar hann hefur haft tækifæri til að hvísla slíkum sögum að einum og einum manni. En það, sem ég ætlaði að gera aths. við í sambandi við þessa jómfrúræðu hv. varaþm., er þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Í haust,“ segir hann, „þegar stóð til að fara að ráða til sin báta, þá sagði kaupfélagsstjórinn á Hornafirði við smáatvinnurekanda þar: Heyrðu, góði minn, ég ætla ekki að kaupa af þér beinin eða lifrina í vetur. Þú getur lagt árar í bát.“

Það fer ekki á milli mála fyrir þá, sem eitthvað þekkja til á Hornafirði, um hvaða atvinnurekanda er hér að ræða, en nöfn skipta ekki máll í þessu sambandi. Þessi svokallaði atvinnurekandi hv. 3. varaþm. Austf, á einn bát, sem hann gerir út, og auk þess hefur hann af og til keypt eitthvað af fiski af öðrum bátum. Þótt hann að sjálfsögðu eigi kost á að leggja fisk sinn inn hjá hraðfrystihúsi staðarins, kýs hann heldur, sennilega til að skapa sér og sínum nokkra atvinnu, að verka fiskinn sjálfur, og skal það ólastað af mér. En bein og lifur úr þessum „atvinnurekandafiski“ hefur hann í vetur eins og ætíð endranær lagt inn hjá kaupfélaginu á Hornafirði. Ég vísa því á bug — og það með mestu fyrirlitningu — þessari rakalausu gróusögu varaþm., og ég lýsi hann ósannindamann að því, að kaupfélagið hafi nokkurn tíma meinað þessum atvinnurekanda að leggja þau fiskbein og þá lifur inn hjá sér, sem til hafa fallið á hans útvegi.

Morgunblaðið, sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna, þegar kaupfélögin og kaupfélagsstjórarnir eiga í hlut, klígjar við rætninni í þessum orðum og fellir þau niður ásamt fleiru, þegar það birtir jómfrúræðu hv. 3. varaþm. Austf. Og það mætti e.t.v. verða til þess, að þessi hv. varaþm. hugleiddi það, eftir því sem honum mætti teljast sjálfrátt a.m.k., að haga svo orðum sínum hér á hv. Alþingi, að þetta aðalmálgagn flokksins gæti talið sér sæma að flytja orð hans út til landsmanna.

Eins og ég gat um, hefur þessi atvinnurekandi hv. varaþm. dálitla saltfiskverkun, og til þess að svo megi verða, verður hann auðvitað að hafa salt. Fyrir nokkrum dögum kom saltskip til kaupfélagsins á Hornafirði. Hinn títtnefndi atvinnurekandi var sama sem saltlaus, og það varð niðurstaðan, að atvinnurekandinn fékk salt hjá kaupfélaginu, nægilegt salt, nákvæmlega á sama verði og kaupfélagið þurfti að greiða fyrir það. Og þetta gerist nærri því samtímis, að kaupfélagið gerir þetta og þessi hv. varaþm. flytur hér á hv. Alþingi rógsorð og rætin um kaupfélagsstjóra þessa kaupfélags. Sem betur fer, mun svona málflutningur vera sjaldgæfur, og ég ætla, að hann sé dæmalaus hér á hv. Alþingi, og ég tel þess vegna þarflaust að hafa um þetta atriði fleiri orð, en vil svo gjarnan víkja lítils háttar að málinu sjálfu, sem fyrir liggur.

Í tilefni af framsöguræðu hæstv. fjmrh., þegar þetta mál var lagt fyrir, hefur hvarflað að mér mikil furða yfir, hvað sumir menn geta gengið langt í meira en vafasömum málflutningi og það jafnvel, þótt þeir viti, að áheyrendurnir eru málum svo kunnugir, að ekki er við því að búast, að þeir verði blekktir. Það, sem hæstv. fjmrh. sagði um söluskattsmálið í framsöguræðu sinni hér í hv. d., var vafalaust ekki gert í þeirri von, að hann gæti blekkt alþm. með málflutningi sínum, heldur í þeirri von, að með því að birta þetta í málgögnum flokksins yrðu einhverjir lesendur til að trúa. Annars verð ég að segja, að það virðist vera furðulega tilgangslaust að reyna þetta, því að ekki getur liðið langur tími, þar til fólkið sjálft fær að kynnast í þungum álögum hinum ömurlegu staðreyndum t.d. söluskattsins. Hæstv. ráðh. taldi, að nýi söluskatturinn í heildsölu og smásölu mundi gefa um 280 millj. kr. á þeim rúmu níu mánuðum, sem eftir eru af þessu ári. Og um leið komst hann ekki hjá því að viðurkenna, að yfir heilt ár mundu þessir skattar nema minnst eða hreint ekki undir 370 millj. kr. En ég tel sennilegast, að þessar álögur, nýju álögur, söluskattur í heildsölu og smásölu, muni reynast miklu hærri, og m.a. vil ég leyfa mér að segja það ugglaust í sambandi við heildsöluskattinn, sökum þess að það er vitað, að hæstv. ráðh. fæst ekki til að áætla innflutning ársins líkt því svo háan sem hann hlýtur að verða.

Hæstv. ráðh. kom með tölur og útreikninga, sem áttu að sýna og sanna, að skattþegnarnir mundu græða á því að fá þennan nýja söluskatt yfir sig. Í sambandi við það hampaði hæstv. ráðh, mjög niðurfellingu tekjuskattsins á láglaunatekjur, en þó veit hann sem aðrir, að þeir, sem minnst bera úr býtum í þjóðfélaginu nú þegar, bera engan eða nær því engan tekjuskatt, og því síður ættu þeir að þurfa að kvíða tekjuskattinum, eftir að efnahagsmálalöggjöf þessarar hæstv. ríkisstj. hefur rýrt þær tekjur, sem þeir höfðu áður. Það er líka vitað, að hæstv. ríkisstj. ætlar öðrum en lægst launaða fólkinu fyrirhuguð skattfríðindi í sambandi við lækkun tekjuskatts. Munu þau fríðindi fremur falla hátekjumönnum í skaut, enda nær eðli og innræti þessarar hæstv. ríkisstjórnar að gleyma ekki slíkum mönnum. Allir útreikningar hæstv. fjmrh. um tekjuskattsfríðindi til handa láglaunamönnum með lækkun tekjuskatts móti söluskattsálaginu eru því blekking og gripnir alveg úr lausu lofti.

Menn eru líka búnir að sjá í gegnum þá bragðvísi hæstv. ríkisstj. að vera aðeins með eitt álögufrv. í einu og telja svo fram gegn því eina frv. öll þau fríðindi, sem ríkisstj. telur sig hafa á boðstólum í sambandi við allt álögubrjálæðið. Mér virðist hæstv. ríkisstj. í þessu efni farast ekki ólíkt og óreiðumanninum, sem gefur mörgum lánardrottnum sinum á sama tíma ávísun á alla bankainnstæðuna, þó að hann viti, að í hæsta lagi verður ein þeirra innleyst. Það er því laust við, að þessi vinnubrögð geti talizt heiðarleg. Þau ein geta að mínum dómi talizt heiðarleg í þessu efni, ef hæstv. ríkisstj. hefði komið fram með öll sín álögufrv. í einu lagi, jafnhliða þeim svokölluðu fríðindum, sem hún þykist ætla að veita þjóðinni, og þar með gefið mönnum tækifæri til að skoða málið í heild. En það er ekki fjarri lagi að láta sér detta í hug, að þessi blekking ríkisstj. um meðferð mála og málaflutnings bendi til þess, að hún sé að reyna að hylja sig reykskýi í þeirri von, að hún komist í skjóli þess með málefni sín til þess, sem hún kallar í örugga höfn.

Auk lækkunar tekjuskatts, sem sízt má mikils af vænta fyrir láglaunafólk, eins og ég er búinn að víkja að, hampar svo ríkisstj. mjög niðurfellingu þess söluskatts, sem nú er í gildi. Og hæstv. ráðh. dró hann rækilega og réttilega frá þeirri upphæð, sem hann ætlar og vill telja rétt að verði sú upphæð, sem fyrirhugaður söluskattur gefur. En jafnhliða ber að gæta þess, að hæstv. ráðh. áætlar fyrirhugaðan söluskatt miklu lægri en hann hlýtur að verða, og fyrst og fremst, eins og ég hef bent á, að söluskatturinn í heildsölu hlýtur að verða miklu hærri en hæstv. ráðh. vill vera láta, einfaldlega vegna þess, að hann hefur allt aðra innflutningstölu, sem hann leggur til grundvallar, heldur en þá, sem mun verða í raunveruleikanum. Og það mætti segja mér, að það kæmi síðar í ljós, að hæstv. ráðh. drægi í raun og veru tvisvar frá þá upphæð, sem nemur þeim söluskatti, sem nú á að leggja niður. Fyrst og fremst dregur hann frá töluna, sem sá söluskattur var áætlaður, og enn fremur lætur hann liggja milli þils og veggjar upphæð, sem mun nema a.m.k. mjög svipaðri upphæð í vantalinni innflutningsáætlun.

Þá reiknar hæstv. ráðherra út, hvað útsvör muni lækka vegna söluskattshluta sveitarfélaganna. En hefur hæstv. ráðh. íhugað eða reiknað það út, hvað efnahagsmálalöggjöf ríkisstj. hlýtur að auka rekstrargjöld sveitarfélaganna? Kemur þar margt til greina, svo sem gífurleg vaxtahækkun, aukin útgjöld vegna trygginga o.fl., o.fl., sem fylgir rekstri hvers sveitarfélags. Það liggur því ekki fyrir, að hlutur sveitarfélagsins af söluskatti geti gengið til þess að lækka útsvör frá því, sem þau hafa verið að undanförnu, og það er hreint ekki sennilegt, að svo verði, og allra sízt hjá þeim sveitarfélögum, sem helzt hefðu þurft einhverrar aðstoðar með vegna mikilla áhvílandi skulda. Þessi fríðindaávísun hæstv. ráðh. verður því að teljast vægast sagt mjög vafasamur pappír.

Hæstv. ríkisstj. ætti að vera farin að gera sér grein fyrir, að þessar annars landsföðurlegu prédikanir ríkisstj. um fríðindi og svo að segja fullar bætur fyrir allar álögur hennar, eru algerlega þýðingarlausar og gera hlut hennar í raun og veru verri en annars. Veit ríkisstj. virkilega ekki, að fólkið er að byrja að gera sér sjálft grein fyrir, hver er hinn bitri sannleikur varðandi álögubrjálæði hennar? Veit hún það ekki, að fólkið er farið að þreifa á staðreyndum í þessu efni, sem eru allt aðrar en þær, sem hæstv. ríkisstj. hefur viljað vera láta? Fólkið veit, að nauðsynjavörurnar ásamt öllu öðru eru að stórhækka, og þegar söluskattur hæstv. fjmrh. hefur verið lagður á, þá hafa t.d. lífsnauðsynlegar kornvörur eins og hveiti, svo að dæmi sé nefnt, hækkað um meir en 40% frá því, sem það var fyrir gengisfellinguna. Kaffi hækkar um rúmlega 58%. Ódýrustu bómullarvörur, sem venjulegt fólk notar mest til klæðnaðar, munu þá hafa hækkað um meira en 82% frá því, sem það var fyrir gengisfellinguna, og skófatnaður, ódýrasti skófatnaður, mun hafa hækkað um svipaða upphæð eða rúmlega 82%. Og svona má halda áfram að telja. Það má vel vera, að ríkisstj. reyni í einstökum tilfellum að milda eitthvað þessa óskaplegu verðhækkun og greiða eitthvað niður, en vissulega greiðir hún ekki niður með öðru fé en því, sem hún kreistir undan nöglum skattþegnanna.

Ég minntist hér á örfáar bráðnauðsynlegustu neyzluvörur. En það er sömu sögu að segja, hvar sem niður er gripið, t.d. í sambandi við rekstrarvörur atvinnuveganna. Og ekki er betri sagan í sambandi við það, ef menn vilja kaupa sér meðalstóran bát. Hann hefur hækkað um nálægt 50% eða sem skiptir milljónum króna. Sömu sögu er að segja í sambandi við öll veiðarfæri, sem slíkum bát verða nauðsynlega að fylgja. Og ekki er betri sagan af landbúnaðarvélunum, svo sem dráttarvélum ásamt tilheyrandi vinnuvélum, sem nú eru hverjum bónda lífsnauðsyn.

Dráttarvélar, sem kostuðu fyrir gengisfellingu 59192 kr., kosta nú með söluskatti hæstv. fjmrh. 97450 kr. og hafa því hækkað við gengisfellinguna og álögur hæstv. ríkisstj. um meir en 64%, og þessi verðhækkun nemur í krónutali nærri því 40 þús. kr. Ofan á bætist svo það, að fæstir bændur geta risið undir að taka lán til slíkra vélakaupa, fyrst og fremst vegna vaxtaokursins, og þótt einhverjir bændur vildu leggja út í slíkt lántökuævintýri, virðast þeir ekki eiga kost á því vegna þess, hvernig ríkisstjórnin hefur gengið frá málum útlánabankanna. Auk þessarar verðhækkunar á dráttarvélinni, sem ég nefndi, kemur svo auðvitað samsvarandi verðhækkun á þær heyvinnuvélar, sem dráttarvélinni verða að fylgja, svo að bóndanum geti orðið vélin að liði. Ef hæstv. landbrh. vildi nú hugleiða þetta mál, þá væri það æskilegt, ef til nokkurs væri til hagsmuna fyrir bændur. Ég geri ekki miklar kröfur til þessa hæstv. ráðh. frekar en annarra hæstv. ráðh. í þessari ríkisstj., en svo mikils mætti ætlast til, að þessi hæstv. ráðh. hugleiddi það tjón, sem hann hefur gert þeim bændum, sem fram að þessu hafa a.m.k. viljað trúa á hann. Í tíð vinstri stjórnarinnar hamaðist hann gegn þeirri verðhækkun, sem þá varð á landbúnaðarvélunum. Hann taldi þá, að sú hækkun, sem átti sér stað, væri það mikil, að bændur gætu ómögulega undir risið, og það væri í raun og veru ekkert vit í því fyrir þá að steypa sér út í þá fjárglæfra að fara að kaupa dráttarvélar og aðrar heyvinnuvélar á þessu brjálæðisverði vinstri stjórnarinnar. Og ég held, að hann hafi talað þannig, að það mætti a.m.k. hafa skilizt svo, að hann ráðlegði bændum að hætta við að kaupa vinnuvélar, dráttarvélar og annað slíkt í bili, í þeirri von, að hann kæmist aftur í sæti landbrh. og mundi þá ekki draga að færa þetta ranglæti vinstri stjórnarinnar í garð bænda aftur til betri vegar. Og nú er komið að því, að hans er mátturinn, en dýrðin bara sú, að hann lætur hækka dráttarvélarnar um tæpar 40 þús. kr. Þeir bændur, sem trúðu þessum núv. hæstv. landbrh. og biðu með vélakaup sín þess vegna, þekkja nú væntanlega betur, þótt það sé dýru verði keypt, hvað má treysta orðum þessa hæstv, ráðherra. A.m.k. í þessu tilfelli hafa orð hans orðið þeim bændum, sem hafa hagað sér samkv. þeim, furðu dýr.

En svo að ég snúi mér aftur að söluskattsmálinu í heild og ræðu hæstv. fjmrh., þá minnist ég þess, að hæstv. ráðh. talaði fjálglega um, hve núv. söluskattur væri meingallaður og erfiður í framkvæmd, auk þess sem hann væri mjög ranglátur. Ég er að því leyti alveg sammála hæstv. ráðh., að ég tel, að allur söluskattur, fyrst og fremst í smásölu, hafi alla þá ókosti til að bera, sem hæstv. ráðh. minntist á, og eðlilega því meiri sem með söluskattsálagi er seilzt eftir hærri fjárhæðum. Söluskattur ríkisstj. í smásölu er því að mínum dómi ranglátasta skattaformið, sem hún gat fundið upp á að beita. Og hann er einnig, eins og hæstv. ráðh. gaf líka í skyn, ógeðfelldasta skattaformið sökum þess, hve hann er erfiður í innheimtu. Ég veit, hvað hæstv. ráðh. hafði í huga, þegar hann hagaði orðum sínum svo, að skatturinn væri erfiður í innheimtu. Hann veit það eins og aðrir af fenginni reynslu, að það er einatt hætt við því, að þeir menn séu til, sem hafi tilhneigingu til að gera sér söluskatt að meiri eða minni féþúfu og freistist þar af leiðandi til að láta eitthvað af honum verða eftir í sínum kassa, í staðinn fyrir að láta hann allan renna í ríkiskassann. Þetta er mannlegur breyskleiki, sem þekkist og ég heyrði að hæstv. ráðh. gerði sér grein fyrir. Og auk þess er söluskattur í smásölu alveg sérstaklega ranglátur, þar sem hann leggst með jöfnum þunga jafnt á lífsnauðsynjar og annað, og leggst því með miklum þunga á lífsnauðsynjar fólksins, einmitt þegar sízt skyldi.

Þrátt fyrir allt þetta segir hæstv. fjmrh., að smásöluskatturinn skuli fram, enda skulu nú smáfuglarnir fyrst og fremst plokkaðir, og ég veit, að hæstv. ráðh. telur óþarfa fyrir sig að fá sér dýra vél til þeirra hluta. Og skatturinn er fyrirhugaður svo umfangsmikill, að hann á að ná yfir svo að segja alla hluti nema andrúmsloftíð, kalda vatnið og nýmjólkina. Þetta telur hæstv. ráðh. út af fyrir sig góðra gjalda vert. En þær 100 millj., sem talið er að einhvers staðar hafi týnzt eða misreiknazt, hafa e.t.v. gleymzt, þegar þeir hættu við að skattleggja framantaldar nauðsynjar. Þar í liggur e.t.v. útskýringin á hinum týndu 100 millj. En vilji einhver breyta til um svaladrykkinn og fá sér heldur mjólkursýru í staðinn fyrir vatn, þá verður hann að borga söluskatt, og þurfi einhver fjárhagsins vegna að þrengja kost sinn og sinnar fjölskyldu með því að kaupa a.m.k. að einhverju leyti undanrennu til matar í staðinn fyrir nýmjólk, þá skal hann borga söluskatt. Hér er rösklega að unnið og allt á sömu bókina lært.

Það hefur verið reiknað út, að samtals muni álögur hæstv. ríkisstj. á þjóðina, að meðtalinni gengislækkuninni, nema á annan milljarð króna árlega, og þetta á að gerast án þess, að menn fái á móti nokkuð uppborið í hækkuðum launum. Þessar álögur munu vissulega ekki vera ofreiknaðar. Það mætti heldur segja mér, að þær reyndust vanreiknaðar, þegar öll kurl verða séð og þau verða öll til grafar komin. Samt telur ríkisstj., að kjaraskerðingin verði aðeins 3%. Svo kemur hæstv. fjmrh. með sinn söluskattspinkil og vill endilega koma honum ofan á milli klyfjanna. Hann segir um leið við þjóðina: Það er óhætt að trúa mér, að þessi böggull minn inniheldur ekki kjaraskerðingu, heldur kjarabætur. — Og líklega fer svo, að hæstv. ríkisstj. fer að reyna að telja mönnum trú um, að kjarabætur söluskattsins muni fyllilega vega upp á móti þessari 3% kjaraskerðingu, sem gengislækkunin hefur verið af hæstv. ríkisstj. talin valda. Og sjá, þá er allt fullkomnað, mun þessi hæstv. prestlegi og prúði fjmrh. segja. En margir eru þeir, sem trúa ekki á kraftaverk og sízt að þau geti gerzt nú á tímum. En hvers vegna skyldu menn ekki trúa á kraftaverk, þegar t.d. Kristur sjálfur með sína 12 lærisveina gat mettað 5000 manns með nokkrum fiskum og fáeinum brauðum, — hvers vegna skyldu menn ekki trúa á kraftaverk, segi ég aftur, ef hæstv. forsrh., Ólafur Thors, með aðeins 6 lærisveinum getur haldið 170 þús. manna þjóð áfram vel mettri og í alla staði vel á sig kominni, þótt hann hnupli frá henni á annan milljarð króna árlega?

En ég er eins og Tómas, ég vil fá að þreifa á. En því miður veit ég, að sú áþreifing verður mér og öðrum til sárra vonbrigða. Þjóðin mun reyna, að hér eru ekki kraftaverkamenn á ferðinni, heldur sjónhverfingamenn, sem fyrr eða síðar hljóta að falla í gólfið, og þjóðin situr eftir með sárt ennið, fátækari, en reynslunni ríkari en áður.