19.03.1960
Neðri deild: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

88. mál, söluskattur

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég mun ekki fara mörgum orðum um það frv. til laga um söluskatt, sem hér liggur fyrir, við þessa umræðu. Ég átti satt að segja ekki von á því, að hún færi fram fyrr en eftir helgi.

Í þeim umræðum, sem orðið hafa um þetta frv. og önnur frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram á þessu þingi, efnahagsmálafrv., hefur borið mjög á því, að talsmenn ríkisstj. hafa beitt fyrir sig tölum, sem hafa átt að sanna, að því er mér skilst, að ráðstafanir þessar mundu ekki þýða neina kjaraskerðingu fyrir svokallaða vísitölufjölskyldu í landinu, en vísitölufjölskyldan er, eins og menn vita, hjón með 2.2 börn, ef svo mætti segja. Ég vil taka það fram, að þó að ég dragi ekki í efa, að sá tölulegi útreikningur, sem hér hefur verið nefndur af forsvarsmönnum ríkisstj., geti verið réttur og sé það sennilega, þá er ég líka alveg jafnviss um, að áhrif þeirra efnahagsaðgerða, sem nú er verið að framkvæma, koma mjög verulega einmitt við heimili eins og vísitöluheimilið, að ég tali nú ekki um þau heimili, sem t.d. hafa fleiri börn en það heimili hefur. Vísitölukerfið er nefnilega þannig uppbyggt, að í vísitölugrundvellinum er ekki fjöldi vara, sem eru óhjákvæmileg nauðsynjavara öllum heimllum, eins og árferði hefur verið hér á landi á síðustu árum, og hafa því hækkanir á þeim vörum ekki áhrif í vísitöluútreikningnum. Enn fremur er í þessum útreikningi reiknað með því, að fjölskyldufaðir á slíku heimili hafi svo og svo miklar tekjur af yfirvinnu, eða ég held ég megi segja, að reiknað sé með því, að Dagsbrúnarmaður hafi einn tíma í eftirvinnu a.m.k. En mér þykir sýnilegt, að allar efnahagsráðstafanir ríkisstj. hljóti að hafa þau áhrif í framkvæmd, að mjög þrengist nú um atvinnu hjá launafólki í landinu, og hefur það þegar af þeirri ástæðu mjög mikil áhrif til þess að skekkja það dæmi, sem vísitöluheimilisdæmið er.

Eitt atriði er enn þá, sem gerir að verkum, að allur samanburður eða öll mynd, sem við eigum að fá með því að reikna vísitöludæmið áfram, hlýtur að vera skakkur í rauninni, og það er, að nú er vísitalan greidd niður með niðurgreiðslum úr ríkissjóði, sem nema samkv. fjárlagafrv. á fjórða hundrað millj. kr. eða á milli fjórðungs og fimmtungs af heildarútgjöldum ríkissjóðs samkv. fjárlögum 1960. Það fer ekki milli mála, að slíkar niðurgreiðslur, sem beint er einmitt að þeim vörum í vísitölunni, sem vega hvað þyngst þar, hljóta að skekkja þetta dæmi stórlega, því að að sjálfsögðu eru þær 305 milljónir kr., sem nota á til að greiða niður vöruverð í landinu, fengnar með álögum á þjóðina, þannig að hér má segja, að verið sé að gefa það með annarri hendinni, sem tekið er með hinni.

Það hefur komið fram hér í umræðunum, og ég held, að talsmenn ríkisstj. hafi ekki neitað því, að þær hinar nýju álögur eða tekjufærsla á milli stétta, eins og hæstv. menntmrh. vill kalla þær, nemi um 1100 millj. kr., ef reiknuð eru með áhrif þau, sem verða af gengisbreytingunni, og svo áhrif af skattaálögunum nýju.

Það er staðreynd, sem er rétt að allir geri sér ljósa þegar, að á þessu ári á að minnka neyzlu og fjárfestingu þjóðarinnar um á annan milljarð króna, og ég held, að ég hafi tekið rétt eftir því, að í umræðum um efnahagsmálin hafi það komið fram, að neyzluvöruinnflutningur þjóðarinnar á árinu 1960 eigi miðað við sama gengi og gilti árið 1958 — að vera um 200 millj. kr. minni en hann var árið 1958. Það er því augljóst, ef menn hafa þessa meginstaðreynd í efnahagsmálaaðgerðunum í huga, sem sagt að neyzla og fjárfesting á þessu ári á að dragast saman um 1100 millj. kr. og að neyzluvöruinnflutningurinn til landsins nemi um 200 millj. kr. minna en hann gerði 1958, þá hljóta allir að sjá, að þetta hlýtur að koma einhvers staðar við, og það er hreinn barnaskapur að ætla sæmilega greindum mönnum áð trúa því, að einar 152 millj. kr., sem á að auka fjölskyldubæturnar um á árinu og að sjálfsögðu eru teknar úr ríkissjóði og goldnar af þegnum landsins, að þær ásamt 70 millj. kr. eftirgjöf í tekjuskatti komi í reyndinni nokkuð nálægt því að halda kjörum vísitöluheimilisins í sama horfinu á árinu 1960, eftir að áhrif efnahagsaðgerðanna eru komin fram, eins og kjör þessa vísitöluheimilis voru fyrir efnahagsráðstafanirnar. Ég hygg, að talsmenn hæstv. ríkisstjórnar séu að gera sjálfum sér litinn greiða með því að setja dæmið svo blekkjandi upp fyrir almenning, því að ég er sannfærður um, að þegar vöruverðshækkanirnar fara að koma í ljós, þá verða margir, sem kannske núna eru rólegir, órólegir og þykjast hafa verið illa sviknir af sínum fyrirsvarsmönnum hér á þingi.

Í sambandi við söluskattsfrv., sem hér er til umr., vil ég taka fram, og ég sé enga ástæðu til þess að leyna því, að frá skattteknísku sjónarmiði er þar mjög margt til bóta frá því, sem áður hefur verið um söluskatt. Ég hef dálítinn kunnugleika af þessum málum, og mér hefur frá fyrstu tíð sýnzt út frá hreint skattteknísku sjónarmiði skoðað, að æskilegasta framkvæmdin og æskilegasta formið á söluskatti væri að viðhafa hið svokallaða einstigsskattkerfi, sem nú er verið að koma á, þ.e.a.s. að söluskatturinn sé ekki innheimtur nema einu sinni og aðeins á lokastiginu, og þá jafnframt að skattprósentan sé sú eina og sama yfir allt.

Þá er því ekki að leyna, að það er líka kostur frá skattteknísku sjónarmiði séð að hafa undanþágur frá söluskattsgreiðslunni sem allra fæstar. En það þarf ekki endilega að vera bezta úrræðið í hinu daglega lífi, sem er bezt, skoðað frá sjónarhóll þeirra, sem standa eiga í skattaframkvæmdinni.

Þær víðtæku undanþágur, sem hafa verið í sambandi við söluskattinn á undanförnum árum, hafa helgazt af því fyrst og fremst, að stjórnarvöldin hafa viljað hlífa almennum neyzluvörum fyrst og fremst við því að bera þennan skatt. Nú á að hverfa frá þeirri stefnu, því að nú á að fara að skattleggja kjötneyzlu og fiskneyzlu almennings í landinu, sem aldrei hefur verið lagður á söluskattur frá fyrstu tíð, eftir því sem ég bezt veit.

Svona mætti áfram telja, að vörur, sem vega þungt í heimilisútgjöldum launamanna og hefur verið hlíft til þessa við álagningu söluskatts, eru nú teknar inn í og á þær er lagður fullur skattur. Söluskatturinn kemur því óneitanlega þyngra við þessar fjölskyldur en áður var, jafnvel þótt heildarupphæð söluskattsins, sem innheimta á af almenningi yfir árið, væri sú sama og áður var.

Í sambandi við söluskattinn eða frv., sem nú á að fara að lögfesta hér í þingi, sýnist mér, að aðalhættan við það sé sú, að sá söluskattur, sem innheimtur verður af almenningi í landinu gegnum þann fjölda innheimtumanna, sem nú á að gera skylt að taka söluskatt, komi ekki allur til skila í ríkissjóðinn.

Mér er kunnugt um,. að það söluskattsfrv., sem hér á að fara að lögfesta, er sniðið eftir norskum og sænskum lögum, og á framkvæmd þessarar löggjafar í Noregi er komin nokkuð löng reynsla. En það er greinilegt, að ef við ætlum að láta skatt þennan koma í ríkissjóðinn og hverfa ekki á leiðinni, frá því að neytandinn geldur hann í verzluninni og til ríkissjóðsins, þá verðum við að taka upp þó nokkuð víðtækt og sennilega þó nokkuð fjölmennt kerfi embættismanna til þess að fylgjast með skattaframkvæmdinni úti í bæ. Mér kæmi ekki á óvart, ef á að tryggja það nokkurn veginn, að söluskatturinn komi allur til skila, að það þyrfti að bæta við nokkrum tugum nýrra starfsmanna hjá ríkinu til þess að fylgjast með þessu, framkvæma birgðatalningar úti í bæ og gera þar bókhaldsrannsóknir.

Einhver kynni nú að segja, að þær breytingar á tekjuskattslöggjöfinni, sem fyrirhugaðar eru, gerðu það að verkum, að á skattstofunni losnaði um fólk, sem mætti nota í þessu skyni. En svo er nú ekki. Sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir þá tekjuskattslækkun, sem nú á að framkvæma hjá launafólki, þá verður að vinna næstum öll þau sömu störf á skattstofunni, sem unnin hafa verið til þessa. Það gerir útsvarsálagningin. Það þarf að yfirfara öll framtöl framteljenda, alveg eins nú og áður, og því er það nauðsynlegt, ef eitthvert eftirlit á að hafa með söluskattsinnheimtunni, að auka þar verulega fjölda starfsmanna til þess að tryggja það, að innheimtur söluskattur komi til skila.

Frá árinu 1956, sem var seinasta árið, sem smásöluskattur var í gildi, hef ég aflað mér upplýsinga, sem gefa það nokkuð til kynna, hversu skattur þessi getur komið misjafnt niður á rekstrarformum, t.d. í verzlun, ef eftirlit með skattskilunum er ekki stórlega aukið og betrumbætt frá því, sem nú er. Þá skeði það, að t.d. í Keflavík skilaði kaupfélagið þar á staðnum 158529 kr. í söluskatt, smásöluskatt, en allar aðrar verzlanir samtals skiluðu 211078 kr. Gjaldendur þessa smásöluskatts voru 43 og þar af 26 verzlanir. Kaupfélagið eitt greiddi nánast nærri jafnmikið og allir hinir gjaldendurnir samanlagt. Á Neskaupstað var útkoman sú, að kaupfélögin greiddu 89235 kr., á meðan kaupmannaverzlanirnar greiddu 37988 kr. Kaupfélögin eru þarna tvö að vísu. Mér er ekki kunnugt um fjölda einkaverzlana. Á Ísafirði borgaði kaupfélagið í söluskatt 186660 kr., en aðrar verzlanir guldu 461076 kr. Gjaldendur söluskatts þessa voru 50 aðilar, verzlanir og nokkur iðnfyrirtæki. Á Siglufirði borgaði kaupfélagið árið 1956 í söluskatt 75098 kr., en kaupmannaverzlanirnar á staðnum guldu 199737 kr. Tala þeirra verzlana, sem guldu þennan skatt, var 23. Á Akureyrí var útkoman sú, að kaupfélagið greiddi 875760 kr. í söluskatt, en allar aðrar verzlanir á staðnum guldu samtals 831314 kr., eða þó nokkru lægri upphæð en kaupfélagið eitt. Á Ólafsfirði var útkoman sú, að kaupfélagið borgaði þar 33528 kr., en aðrar verzlanir á staðnum guldu 37806 kr. eða nánast sömu fjárhæð og kaupfélagið eitt. Á Húsavík galt kaupfélagið í söluskatt 1956 287812 kr., en aðrar verzlanir á staðnum guldu 49708 kr.

Ég hygg, að þeir, sem hafa kunnugleika á verzlunarháttum á þeim stöðum, sem ég hef verið að nefna hér sem dæmi, hljóti að sjá, að hér er eitthvað meira en lítið bogið við þau söluskattsskil, sem þarna hafa verið framkvæmd. Ég vil því leyfa mér til þess að reyna að tryggja það, að þeim söluskatti, sem innheimtur verður samkv. því frv., sem hér er til meðferðar, verði skilað, að flytja hér brtt. við ákvæði í 26. gr. frv. Ég hef skilað þessari brtt. til hæstv. forseta og hljóðar hún svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 1. mgr. 26. gr. komi ný málsgr., svo hljóðandi:

Nú stendur sá, sem innheimt hefur söluskatt, eigi skil á honum í ríkissjóð, og varðar það þá refsingu samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga.“

Það má vera, að í því frv., sem hér er til umræðu, sé ef til vill að finna heimild til þess að beita ákvæðum hegningarlaganna í tilfelli sem þessu, en á því leikur a.m.k. mikill vafi. Ég tel því rétt, að það komi hér skýrt fram, að þeir, sem uppvísir verða að því að halda eftir og skila ekki í ríkissjóð söluskatti, sem þeir hafa innheimt af almenningi, verði látnir sæta refsingu fyrir það, eins og um fjárdrátt væri að ræða, því að hér er að sjálfsögðu ekkert annað, sem skeður, en það, að sá, sem skilar ekki söluskatti, er að draga sér fé, sem ríkissjóður á. Ég hef alla tíð haldið, að það væri óeðlilegt, að sömu viðurlög giltu um brot á hinni almennu tekjuskattslöggjöf og löggjöfinni um söluskatt, því að á þeim er mikill eðlismunur og ástæða til þess að hafa viðurlögin enn þá þyngri í söluskattslöggjöfinni en löggjöfinni um tekju- og eignarskatt.

Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir í umræðum um söluskattsfrv., við 1. umr., að það væri stefna ríkisstj. að draga úr þunga aðflutningsgjalda og beinna skatta, en auka í staðinn veltuskattana og þ. á m. söluskattinn. Hann lýsti þessu yfir sem stefnu ríkisstj., og verður maður því að ætla, að ráðherrar Alþfl. í ríkisstj. séu þessari stefnu samþykkir. Það er ekki óeðlilegt að heyra slíka yfirlýsingu frá talsmanni Sjálfstfl. Sjálfstæðismenn hafa verið og eru enn þá á móti því prinsipi í skattalöggjöf, að þeir, sem breiðu bökin hafa, beri þyngstu byrðarnar við þær álögur, sem nauðsynlegar eru bæjarfélögum og ríkissjóði til þess að standa undir sameiginlegum þörfum þjóðfélagsþegnanna. En hitt kemur mér spánskara fyrir, að Alþfl. sé nú orðinn svo gersamlega fráhverfur öllum sínum meiri háttar baráttumálum og stefnumálum frá fyrri tíð sem raun ber vitni um og þessi yfirlýsing hæstv. fjmrh. virðist gefa til kynna.

Menn vita, að tæknilegar nýjungar og breytingar eru á engu sviði jafnhraðar og örar og á hinu tæknilega sviði.

Samband ungra jafnaðarmanna hefur verið að halda að undanförnu fræðsluviku eða fræðsluerindaflokk, og ég held ég fari rétt með það, að einn af forustumönnum Alþfl. hafði þá framsögu um málefni, sem mig minnir að auglýst væri að héti: Jafnaðarstefnan á atómöld. Með þessu virðist mér forustumenn Alþfl. vera að staðfesta og undirstrika þá ætlan Alþýðuflokksmanna, að raunverulega skuli þeir engin meginstefnumál hafa í neinu stóru máli, heldur skokka til með stefnuna frá degi til dags eftir því, hvernig vindurinn blæs í þjóðfélaginu. Að tala um einhverja sérstaka jafnaðarstefnu á atómöld hlýtur að þýða, að t.d. þegar vetnisöldin rennur upp, þá verður einhver allt önnur tegund af jafnaðarstefnu upp fundin og rekin af íslenzka Alþfl. Alþfl. hefur horfið frá því, sem var hans meginstefna fyrir nokkrum árum, að hagsmunum þjóðfélagsþegnanna væri bezt borgið með því, að hið opinbera ætti og ræki atvinnufyrirtækin í sem ríkustum mæli. Hann hefur fram til þessa verið talsmaður þeirrar stefnu í skattamálum, að eðlilegast væri, að þeir, sem breiðust bökin hefðu, greiddu mest til þjóðfélagsins. En hvoru tveggja þessara stefnumála ásamt fjölda annarra, sem þessi flokkur hefur haft í nokkur ár, á að henda fyrir róða, af því að við lifum á einhverri atómöld jafnaðarstefnunnar.

En í sambandi við þessa yfirlýsingu um að draga úr aðflutningsgjöldum og beinum sköttum hjá ríkinu, en auka í stað þess veltuskatta, vil ég aðeins segja þetta: Sérhver breyting í þessa átt, miðað við ástandið, eins og það er í dag, hlýtur að þýða, að launþegar og þeir, sem eru tekjulægri í þjóðfélaginu, hljóta í ríkara mæli en hingað til að standa undir þeim skattabyrðum, sem nauðsynlegt verður talið að innheimta til þjóðfélagsins á næstu árum. Sannleikurinn er sá, að beinu skattarnir til ríkisins hafa ekki verið stórkostlegir á almenningi nú hin síðustu árin. Ég vil aðeins nefna það, að vísitöluheimilið er talið hafa um 60900 kr. í brúttótekjur á ári. Einstaklingur, sem hefði þessar tekjur, mundi hafa goldið í tekjuskatt 3055 kr. Hjón, sem hefðu þessar tekjur, hefðu goldið í tekjuskatt 1838 kr. Hjón með einu barni, sem hefðu þessar tekjur, hefðu goldið 1445 kr. Hjón með tveim börnum, sem hefðu þessar tekjur, hefðu goldið 1111 kr. Hjón með þrjú börn hefðu goldið af þessum tekjum 411 kr., hjón með 4 börn hefðu goldið af þessum tekjum 290 kr. og hjón með 5 börn 183 kr. En hvað á að fara að gera nú? Það á að afnema þennan tekjuskatt á þessu fólki, en í staðinn á að leggja á það söluskattinn, sem verkar í þessu tilfelli algerlega þveröfugt við það, sem tekjuskatturinn gerir, af því að þeim mun fleiri börn sem hjón hafa á framfæri, þeim mun minni tekjuskatt greiða þau, en þeim mun hærri söluskatt verða þau að greiða. Það er þessi stefna í skattamálum, sem Alþfl. virðist nú hafa tekið upp á arma sína og berst fyrir af fullum krafti.

Ríkisstjórnir á Íslandi á undanförnum árum hafa í gegnum tollana náð stærstum hluta af tekjum sínum. Þær ríkisstjórnir, sem hafa sérstaklega viljað hlífa almenningi og þeim, sem lægri tekjur hafa, við sköttum, hvort sem það voru skattar á tekjur eða skattar á innfluttar vörur, þær hafa getað gert það með því að láta nauðsynjavarning vera undir lágum tollflokkum og lágum tekjuskattsstiga. Ef á að breyta um þessa stefnu, minnka verulega tekjur ríkissjóðs af tollum, en færa þær yfir í óbeina skatta eins og söluskattinn, þá þýðir það hreinlega, að launamenn og þeir, sem lægri tekjur hafa í þjóðfélaginu, axla meiri part skattaálagna ríkissjóðs með því móti heldur en áður var. .Ég held því, að sú stefna hæstv. ríkisstj. að ætla að draga úr tollum og beinum sköttum, en auka í þess stað söluskattinn, hljóti áð verða veruleg byrði á öllum launamönnum og almenningi í landinu, en geri það að verkum, að þeir, sem betur mega sin, og þeir, sem hafa tekjur af hvers kyns atvinnurekstri, sleppi enn betur en þeir hafa gert hingað til við að gjalda sinn hluta af þeim sköttum, sem nauðsynlegt er taliðað innheimta hjá þjóðinni á hverjum tíma.

Þá finnst mér lítið samræmi í þeirri stefnuyfirlýsingu, að hvort tveggja sé hægt að gera, lækka beina skatta, eins og ríkisstj. segist ætla að gera, og að lækka tolla, því að í ræðu hæstv. fjmrh. kom það fram, að Íslendingar kepptu að því að gerast aðilar að einhverju af þeim tollabandalögum, sem nú eru að rísa upp í Vestur-Evrópu, en það þýðir, að við hljótum að lækka tolla verulega smátt og smátt gagnvart öðrum aðildarþjóðum tollabandalaganna, þannig að innan tíðar verði tollar ekki stór hluti af tekjum ríkissjóðs.

Það hefur verið deilt dálítið um það, að óeðlilegt væri að fela ráðh. jafnmikið vald til þess að ákveða ýmsa stóra þætti í sambandi við söluskattinn með reglugerð eins og gert er ráð fyrir í frv. Ég viðurkenni, að því er þetta varðar, að allar þær heimildir, sem á að veita ráðh. í frv., eru ekki nýjar. Þær hafa áður verið í lögum, og er því ekki neitt nýtt við þær. Hitt er svo annað mál, hvort það sé æskilegt, að Alþingi afsali sér í jafnríkum mælí og ætlazt er til í þessu frv. valdi, sem raunverulega heyrir undir það. Ég get þó viðurkennt, að skattamálin og ekki kannske sízt söluskatturinn eru þess eðlis, að óhjákvæmilegt er, að ráðh. hafi vissar heimildir til vissra ráðstafana í sambandi við þau. En ég hygg, að Alþingi megi mjög gæta sín á því að hafa þetta sem stefnu. Meiri hl. hv. alþm. er nú nýbúinn að afsala sér valdi til þess að ráða vöxtum hjá öllum stofnlánasjóðum í landinu og samþykkja, að ákvörðun um það skuli heyra undir ríkisstj. eina og seðlabankastjórnina. Í umræðum um þetta mál benti ég á, ásamt fleirum, að ég teldi mjög óeðlilegt, að ríkisstj. hefði þetta vald, eins og allt er í pottinn búið, og ég vil enn endurtaka það, að ég tel, að með því valdi, sem hæstv. fjmrh. er ætlað í reglugerð um söluskatt, sé Alþingi að afsala sér valdi, sem það ætti ekki að gera í jafnríkum mæli og gert er ráð fyrir í löggjöfinni.

Hv. 3. þm. Austf. (EinS) flutti sína jómfrúræðu hér um daginn og flutti hana af miklum skörungsskap, og margir hafa orðið til þess að koma inn á hana í þeim umræðum, sem hér hafa orðið á eftir. Hv. þm. kvartaði þá mjög m.a. undan því, að mjög illa hefði verið búið að einkarekstrinum í landinu á undanförnum árum, og talaði um, að framsóknarmenn og Framsfl. hefðu sérstaklega verið andvígir allri uppbyggingu og einkarekstri í landinu. Sérstaklega talaði hann um framsóknarmenn og þá Eystein Jónsson aðallega — sem einhvern sérstakan skattpíningarstjóra. Ég vil ekki láta hjá líða að ræða þetta atriði.

Það hefur gegnum markvissan áróður ár eftir ár verið reynt að troða því inn í þjóðina, að Framsfl. væri einhver sérstakur flokkur beinna skatta og óhóflegrar skattaálagningar. E.t.v. eru einhverjir, sem hafa trúað þessu. Ég hélt nú satt að segja, að það þyrfti að gera annað og meira en skrifa um þetta í áróðursstíl eða hrópa það upp á mannamótum. Ég hélt, að þessi hv. þm. þekkti betur til raunveruleikans en svo, að hann tæki undir þennan ómelta áróður án þess að gagnrýna hann eitthvað dálítið með sjálfum sér og segja þá ekki alveg allt, sem hann sagði í jómfrúræðu sinni hér um daginn. Sannleikurinn er sá, að ýmsir af þeim nýju sköttum til ríkisins, sem lagðir hafa verið á, svo sem bæði tekjuskattsviðaukinn og stríðsgróðaskatturinn, eru ekki settir á af framsóknarmönnum eða þegar Eysteinn Jónsson hefur verið fjmrh. Báðir þessir skattar eru á lagðir, meðan Sjálfstfl. fór með fjármálastjórn í ríkinu, og það er fyrst eftir að Framsfl. tekur við stjórn fjármálanna, að þessir skattar eru afnumdir. Tekjuskattsviðaukinn er afnuminn á árinu 1956 og stríðsgróðaskatturinn árið 1957. Það verkar því sem hreinasta öfugmæli, þegar hv. þm. kemur hér upp og básúnast yfir því, að sá ráðh. eða sá þingflokkur, sem hefur á undanförnum árum verið að leggja niður ríkisskatta, sem hans eigin flokkur hefur verið að koma á, — að hann skuli tala um þann flokk og það meira að segja sem sérstakan skattpíningarflokk.

Þá tel ég líka, að það hljóti að vera dálítill holtónn í því, þegar hv. þm., sem ég met mikils og lít upp til fyrir dugnaðar sakir og framsýni, er að tala um, að stjórnvöldin hér á Íslandi á undanförnum árum hafi búið illa að einkarekstrinum. Ég hygg, að þetta sé eitt það stærsta öfugmæli, sem hægt sé að segja, og dæmin eru nú þau til, er sýna, að ríkisvaldið hefur ekki búið verr en það að einkarekstrinum, að elnmitt hv. þm. hefur tekizt undir því skipulagi, sem hann hefur átt við að búa, og við þær ríkisstjórnir, sem hér hafa verið á undanförnum árum, að verða ríkasti maður á landinu. Hann einn á samkvæmt þeim reglum, sem giltu um skattmat eigna í sambandi við stóreignaskattinn, eignir, sem nema að ég held á milli þriðjungs og helmings eigna Sambands íslenzkra samvinnufélaga, en í Sambandi ísl. samvinnufélaga munu vera á milli 30 og 40 þús. manna. Það er eðlilegt, að menn, sem hefur ekki verið verr búið að en þetta af hálfu ríkisvaldsins, þykist þess umkomnir að koma hér upp og tala um það í einhverjum sérstökum vandlætingartón, að ríkisvaldið hafi búið illa að einkarekstrinum í landinu og að Framsfl. hafi tekið sér sérstaklega fram um að drepa þann rekstur niður.

Ég vil benda á, að það er fyrir forgöngu ríkisvaldsins, að afurðalánin, sem mig minnir að hv. þm. segði í umræðunum að numið hefðu um 2/3 frekar en 3/4 af verðmæti þeirra afurða, sem lánað er út á, eru til komin. Ég vil benda á, að í gegnum þá ríkisábyrgðapólitík, sem í gildi er, þó að hún sé verulega gölluð að mínu áliti, hefur einkarekstrinum tekizt að byggja upp stórvirk atvinnutæki um allt land. Ég vil benda á, að ríkisvaldið hefur hvað eftir annað hlaupið undir bagga, fyrst með ábyrgðum á fiskverðinu, þegar útflutningurinn gat ekki starfað við þau skilyrði, sem heimsmarkaðsverðið skapaði honum, siðan með ýmsum ráðstöfunum í efnahagsmálum, bátagjaldeyri, gengisfellingu og þar fram eftir götunum. Það hefur ekki sízt verið að hjálpa einkarekstrinum í landinu með þessu. Einkareksturinn, eins og annar rekstur í landinu, hefur búið við veruleg skattfríðindi í sambandi við rúmar fyrningarafskriftir, sem ríkisstj. hafa beitt sér fyrir. Eigendur togara og skipa og fiskiðjuvera hafa fengið að afskrifa sín tæki um 20% á ári. Þegar svo þessi ágæti maður kemur hér og er að hamast út af því, að sérstaklega sé illa búið að einkarekstrinum í landinu, þá held ég, að hann meini það tæplega. Þetta er eins konar kosningaslagorð, sem sumir menn hafa og þykir hagkvæmt að nota á stórum kjósendafundum, en ég held, að hv. alþm. þekki of vel til þessara hluta til þess, að svona slagorð geti verkað mikið hjá þeim.

Út af ummælum 3. þm. Austf, vil ég benda á, að ég hygg, að einkareksturinn í landinu hafi ekki búið við þyngri drápsklyfjar í formi skatta en svokölluð veltuútsvör eru, og ég held, að þrátt fyrir góðan vilja hjá hv. þm. til þess að kenna Framsfl. og framsóknarmönnum um alla beina skatta og jafnvel óbeina líka, þá ætla ég, að hann reyni ekki að telja, að Framsfl. eða framsóknarmenn hafi yfirleitt staðið að þeirri veltuútsvarsálagningu, sem átt hefur sér stað í hinum stærri bæjarfélögum hér á landinu og hefur satt að segja oft verið mjög mikil. Ég held, að hann geti við aðra sakazt um það en Framsfl. og framsóknarmenn.

Að síðustu vildi ég aðeins segja þetta: Það frv. til söluskattslaga, sem hér er verið að fá lögfest, er að sjálfsögðu aðeins einn liðurinn í efnahagsráðstöfunum þeim, sem nú er verið að framkvæma. Ég held, að ef af heiðarleik á að taka á þessum málum öllum, þá sé ekki neinn samanburður í þessu raunhæfur og ekki fáist nein niðurstaða úr þessu, nema öll sú löggjöf, sem búið er að setja og á eftir að setja í sambandi við efnahagsmálin, sé skoðuð sem ein heild, og þá verður það fyrir, sem ég tók fram í upphafi minnar ræðu, að neyzla og fjárfesting í landinu á á einu ári að minnka um á annan milljarð króna og neyzluvöruinnflutningur til landsins á á einu ári að lækka um 220 millj, kr., sé miðað við árið 1958 og það gengi, sem þá var. Þessum álögum, sem hljóta einhvers staðar að koma niður, eiga launamenn að mæta með óbreyttu kaupgjaldi. Aukning á fjölskyldubótum og afnám lágs tekjuskatts hjá þessu fólki getur undir engum kringumstæðum brúað það bil, sem þarna verður, og ég hygg, að ef talsmenn ríkisstj. vilja skoða þetta niður í kjölinn og skýra hreinskilnislega frá staðreyndum, þá hljóti þeir að viðurkenna, að hér er verið að leggja á þá, sem kannske minnst efnin hafa á því að standa undir slíkum álögum, stórfelldar nýjar byrðar. Og spurningin er nú bara sú, hvort hér sé ekki of langt gengið. Það er haft eftir kunnum stjórnmálamanni, Disraeli, einum mesta stjórnmálaskörungi, sem hefur verið uppi í heiminum í gegnum aldirnar, að listin í stjórnmálum væri kannske ekki sú fyrst og fremst að vita, hvað væri rétt, hún væri miklu frekar sú að vita, hvað væri framkvæmanlegt á hverjum tíma. Ég hygg, að hæstv. ríkisstj, hafi algerlega brotið þá reglu, sem þessi reyndi stjórnmálamaður gaf, í þessu tilfelli, með þeim efnahagsráðstöfunum, sem nú er verið að framkvæma og á eftir að framkvæma, því að sannarlega er boginn þar spenntur allt of hátt og áhættan, sem tekin er með þessum aðgerðum, er stærri en svo, að hún sé réttlætanleg.