03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í D-deild Alþingistíðinda. (3091)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara hér að ræða um, hvort þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið — ekki af núverandi stjórn — í þessum efnum séu lögmætar eða ekki. En ég vil benda á, að þó að hv. fyrirspyrjandi hafi sagt, að núv. ríkisstj. hafi ekkert gert í þessum efnum og hann hafi hana ekki fyrir sökum, þá hagaði hann þó sinni síðustu ræðu svo sem það væri á ábyrgð núv. ríkisstj., hvað gert hefði verið, talaði um þessar ráðstafanir í sama vetfangi og fjölgun ráðh. og fjölgun bílstjóra, sem hann lagði að jöfnu, með réttu eða röngu, sem sýndi nokkuð, í hvaða hug þessi fsp. er flutt og af hvaða tilefni. Það er sem sagt ekki um það að villast, að þetta á að vera árás á núv. stjórn af hálfu þeirra manna, sem fyrst og fremst bera ábyrgð á þeirri skipun, sem þeir nú eru að ráðast á, og senda þennan hv. þm. fram til þess að koma hér með dylgjur og fullyrðingar, sem eru meira og minna staðlausar,

Hann talar t.d. um, að það hafi verið stofnað iðnmrn. Hafi það verið stofnað, var það að vísu stofnað af hinni sælu vinstri stjórn í góðri samvinnu við þáv. hæstv. forsrh. og undir ægishjálmi hv. þáv. fjmrh., sem fæst lætur sér óviðkomandi, eins og við vitum. En það, sem upplýst var og búið var að lesa hér upp, er, að allt, sem skeð hefur, og allt, sem hinn fyrrv. samstarfsmaður þessara manna, núverandi hæstv. mennta- og viðskmrh., gerði sig sekan um í þessu, var það, að hann kallar rn., sem áður var kallað samgmrn., í þess stað samgöngu- og iðnmrn. og hefur látið útbúa bréfhaus með því að kalla það iðnmrn. Ég veit, að hv. fyrirspyrjandi er fróður í þessum efnum. Hefur hann t.d. aldrei heyrt talað um heilbrmrn., um kirkjumrn.? Það er þó eitt og hið sama og dómsmrn., stundum kallað dóms- og kirkjumrn., stundum kallað heilbrmrn., stundum kallað dómsmrn., — sem sagt skiptist eftir þessum þremur nöfnum eftir því, hvaða málaflokk er verið að fjalla um í rn., bæði stundum í opinberum skýrslum og einkanlega af öllum almenningi. Og ef ekki væru nú meiri syndirnar, sem gerðar hefðu verið varðandi það, sem ég vil kalla upplausn stjórnarráðsins, fyrst og fremst undir forustu Framsfl., þá væru syndirnar í þessum efnum ekki miklar.

En eins og hér kom fram, byrjaði þessi skipan, sem hv. fyrirspyrjandi er nú að reyna að gera hér tortryggilega og tengja við núv. ríkisstj., aðallega með stjórnarmyndun Hermanns Jónassonar 1939 og hefur síðan verið framkvæmd af öllum flokkum, en þarna var fyrirmyndina að sækja, Vegna þessa ástands flutti ég fyrir hér um bil tveimur árum, á þinginu 1957, með leyfi hæstv. forseta, till. sem ég vildi lesa upp, till. til þál. um endurskoðun löggjafar um stjórnarráð Íslands:

„Alþingi ályktar að kjósa með hlutfallskosningu fimm menn til að endurskoða löggjöf um stjórnarráð Íslands og gera tillögur um skipun ráðuneyta og skiptingu starfa á milli þeirra.“

Grg. var slík:

„Löggjöf um stjórnarráð Íslands er mjög í molum, og hefur skipun ráðuneyta eða stjórnardeilda orðið mjög með öðrum hætti en þar er ráðgert. Ráðuneytum hefur verið fjölgað með ákvörðun einstakra ríkisstjórna eða jafnvel ráðherra, Leikur það orð á, að stundum hafi vandi við val milli tveggja manna í eitt embætti orðið til þess, að ráðuneytum væri fjölgað, svo að forstöðumennirnir yrðu tveir í stað eins áður. Í öðrum tilfellum hafa jafnvel enn veigaminni ástæður leitt til stofnunar nýs ráðuneytis.

Þvílík lausatök á hinni æðstu stjórn landsins eru óheppileg, hvernig sem á er lítið. Efnt hefur verið til aukins kostnaðar, án þess að nokkur trygging væri fyrir bættum afgreiðsluháttum. Á stundum hefur hið gagnstæða beinlínis orðið afleiðingin. Með fjölgun starfsmanna og flóknara kerfi hefur málsmeðferð orðið lakari en áður.

Af augljósri fjársóun og skriffinnsku í sjálfu stjórnarráðinu hefur leitt, að mun erfiðara hefur verið að standa á móti sams konar þróun í ríkiskerfinu að öðru leyti. Eftir höfðinu dansa limirnir. Brýn nauðsyn er því til, að nýrri skipan verði komið á starfshætti í stjórnarráði Íslands. Æskilegast er, að þær umbætur verði lögfestar með samráði og samvinnu ríkisstjórnar og stjórnarandstæðinga, svo að líkur verði fyrir meiri festu í þessum efnum en verið hefur. Þess vegna er hyggilegt, að sérstök nefnd verði kosin með þeim hætti, svo sem hér er lagt til, í því skyni að annast hina nauðsynlegu endurskoðun.“

Þetta var lagt til fyrir hér um bil tveimur árum. En undirtektir þáv. hæstv. ríkisstj. og fyrst og fremst þáv. hæstv. fjmrh. voru þær, að það mátti alls ekki hafa samráð við þáv. stjórnarandstöðu um meðferð málsins. Fyrst var reynt að koma í veg fyrir samþykkt till. Þegar ljóst var, að hún mundi þó hafa nokkurn byr í þinginu, einnig hjá ýmsum í þáv. stjórnarliði, jafnvel innan Framsfl., þá var fallizt á að samþykkja till. þannig breytta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram endurskoðun á löggjöf um stjórnarráð Íslands og leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp um þetta efni svo fljótt, sem verða má.“

Þarna var hið gamla: Eysteinn Jónsson, þáv. hæstv. fjmrh., Hermann Jónasson og aðrir höfuðforkólfar Framsfl. vildu halda því í sinni hendi, hvernig æðstu stjórn landsins og umgerð hennar væri komið fyrir, og beinlínis neituðu að eiga samstarf, sem boðið var fram af þáv. stjórnarandstöðu, um að reyna að finna á þessu skipan, sem gæti staðið til frambúðar og allir flokkar sætt sig við. Eftir að þetta hefur gerzt og þannig hefur tekizt að eyða þessu máli, því að vitanlega hefur ekkert heyrzt frá þeim mönnum, sem síðar voru skipaðir af þáv. hæstv, ríkisstj., um málið leyfir sér svo þessi framúrskarandi þm. Framsfl., sem hér talaði áðan, að vera með dylgjur í annarra garð fyrir, að þeir standi fyrir einhverri óreiðu varðandi þessi efni, — einmitt þeir menn, sem fyrst allra og ýtarlegast hafa bent á, að hér væri stefnt í óefni.