10.02.1960
Sameinað þing: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í D-deild Alþingistíðinda. (3112)

902. mál, skattfríðindi við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Í maímánuði s.l. var hér á Alþingi gerð nokkur breyting á gildandi skattalögum. Fór sú breyting í þá átt, að 10. gr. skattalaganna var nokkuð breytt, og í henni er ákvæði um það, hvað af tekjum megi draga frá, áður en skattur er á lagður. Með þessari lagabreytingu frá því í maí á árinu 1959 var ákveðið, að meðal þess, sem frá skatttekjum mætti draga, áður en skattur væri á lagður, skyldu vera atvinnutekjur þær, sem skattþegn hefur aflað sér í eftir-, nætur- eða helgidagavinnu við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar og ekki eru orlofsskyldar. Ákvæði laganna var líka um það, að bæði þeir, sem þessara hlunninda gætu notið, og einnig atvinnurekendur þeirra skyldu taka fram í skýrslum sínum, skattframtölum og vinnuskýrslum, hverjar tekjur gætu undir þetta fallið. Og loks var í lögunum ákveðið, að ráðh. skyldi gefa út reglugerð um framkvæmd þessa atriðis og kveða þar á um, hver störf skyldu undir þetta falla. Þá var og í þessari lagasetningu ákvæði um það, að þetta atriði ætti að koma til framkvæmda hinn 1. jan. 1960, þ.e.a.s., þetta ætti að taka til þeirra tekna, sem menn hefðu aflað sér á árinu 1959, þannig að nauðsynlegt var að hafa þetta fram tekið á skattframtölum, sem gerð eru í byrjun ársins 1960.

Nú bregður hins vegar svo við, þegar skattyfirvöld landsins auglýsa sínar árlegu áminningar til skattþegna landsins um það, hvernig beri að haga skattframtölum, að þar er ekki minnzt á það einu einasta orði, hvorki að atvinnurekendur skuli sundurliða vinnu samkvæmt þessu né heldur að hinn almenni framteljandi eigi að geta þess sérstaklega. Þess varð líka vart, að engin reglugerð kom frá ráðuneytinu um þetta atriði, og hefur hún enn til þessa ekki verið gefin út.

Engu að síður reyndust fjölmargir af þeim, sem kynnt höfðu sér skattalög, vera til þess fúsir mjög að framfylgja lögunum, og er mér t.d. kunnugt um það, að vinnslustöðvarnar í Vestmannaeyjum, sem hér áttu vissulega hlut að máli, þar sem mikil yfirvinna er unnin á þeirra vegum árlega einmitt við útflutningsframleiðsluna, höfðu — allar fjórar stóru vinnslustöðvarnar þar — sett nokkurn hluta af starfsliði sínu í það að sundurliða þetta og voru vel á veg komnar með það. En að sjálfsögðu, þegar þessir atvinnurekendur urðu þess varir, að ekki var nein áminning frá skattyfirvöldum um að skila þessari sundurliðun, þá tóku þeir að spyrjast fyrir um það hjá skattstofunni í Vestmannaeyjum, hvort þessi sundurliðun þætti ekki nauðsynleg, og fengu það svar, að skattstofunni hefðu engin fyrirmæli borizt um það og þar af leiðandi yrði ekki krafizt af þeim neinnar slíkrar sundurliðunar.

Ég sé ekki annað en að hér hafi verið með öllu vanrækt að framkvæma það, sem lög beinlínis segja, að rn., í þessu tilfelli fjmrn., eigi að framkvæma, og ég sé ekki, að það breyti heldur neinu, þó að þeir flokkar, sem standa að hæstv. ríkisstj., hafi haft uppi um það nokkrar orðræður, að þeir hefðu í hyggju, — ja, fyrst hét það að afnema tekjuskattinn, en síðar að draga úr honum á einhvern hátt. Ekkert slíkt hefur verið tekið í lög, og raunar hefur enginn pappír verið sýndur um það hér á Alþingi til þessa, að þetta sé að ske, svo að ég sé ekki annað en hér hafi hæstv. fjmrn. algerlega hlaupizt undan skyldu sinni og vanrækt að framkvæma það, sem því bar að framkvæma að lögum.

Máske eru til á þessu einhverjar þær skýringar, sem geri þetta eðlilegt, — löglegt verður það auðvitað aldrei, — og þess vegna hef ég leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 81, þar sem ég í fyrsta lagi spyr: „Hvers vegna hefur ekki verið gefin út reglugerð varðandi skattfríðindaákvæði 2. gr. l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt, er Alþingi samþ. 12. maí 1959?“ Og í öðru lagi: „Hefur fjmrn. gefið samþykki sitt til þess, að atvinnurekendur skuli undanþegnir þeirri lagaskyldu að láta skattyfirvöldum í té vinnuskýrslur, er sundurliði vinnu þannig, að séð verði, hver hluti vinnulauna falli undir nefnd lagaákvæði?“

Ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. gefi mér og þing. heimi skýringu á því, hvernig á því stendur, að fjmrn. virðist ekkert hafa gert til þess að framkvæma þessi lög.